fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Taílenska undrið á Völlunum

Gómsætir réttirnir laða að matgæðinga úr öllum áttum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 21. júní 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ætla rétt að skreppa út á Velli í Hafnarfirði að sækja mat,“ sagði vinur minn þar sem ég sat hjá honum í heimsókn síðdegis á föstudegi nýverið. Ég hváði vitaskuld, enda ekki beinlínis skemmtilegt að keyra þá leið á alversta umferðartímanum í vikulokin. „Ég mundi keyra frá Akureyri til þeirra að sækja mér mat,“ sagði vinurinn áður en hann var rokinn.

Skömmu síðar var ég gestkomandi í Grafarvogi, og varð þá vitni að svipaðri senu. Manneskja með fullu viti ákvað að „skreppa“ á Vellina til að draga björg í bú. Ljóst var að þetta þyrfti að kanna nánar.

Andrúmsloftið er glaðlegt og notalegt.
Velkomin! Andrúmsloftið er glaðlegt og notalegt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Staðurinn sem var vinum mínum svona hugleikinn reyndist vera taílenski veitingastaðurinn Ban Kúnn, sem staðsettur er í sama húsi og Bónus á Völlunum í Hafnarfirði. Það eru hjónin Natthawat Voramool og Svavar G. Jónsson sem reka staðinn saman, og hafa gert á þriðja ár.

Svavar og Natthawat hafa rekið Ban Kúnn saman í tvö og hálft ár.
Hjónin Svavar og Natthawat hafa rekið Ban Kúnn saman í tvö og hálft ár.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég var nú spurður hvort það væri ekki í lagi með mig þegar við vorum að undirbúa opnunina,“ segir Svavar, „fólk kallaði okkur klikkaða og vildi vita hvort við ættum virkilega þessa peninga til að tapa. Flestir bjuggust við að hér mundum við sitja í hálft ár, án þess að einn einasti gestur kæmi, og hunskast svo burtu með skottið milli lappanna.“ Annað kom þó á daginn, því allt frá opnun staðarins í janúar 2014 hefur verið nóg að gera á degi hverjum, og fljótt varð ljóst að fólki líkaði það sem boðið var upp á. „Kúnnarnir biðu hér í röðum nánast frá fyrsta degi, svo þetta hefur verið ævintýri líkast.“

Natthawat hafði lengi gengið um með þann draum að stofna eigið fyrirtæki, en hann er menntaður viðskiptafræðingur og kennari, auk þess sem hann lærði taílenska matargerð í heimalandinu. Hann kom til Íslands árið 2004 og kynntist Svavari ári síðar, fyrir helbera tilviljun niðri í miðbæ. Þeir urðu strax kærustupar og gengu síðar í hjónaband. Svavar hafði unnið við ýmislegt, meðal annars verið lögregluþjónn og öryggisvörður, en var atvinnulaus og alveg að detta af bótum þegar þeir slógu til. „Okkur langaði að opna staðinn í miðbæ Hafnarfjarðar, en fundum ekkert hentugt húsnæði. Lendingin var því hérna á Völlunum og við sjáum ekki eftir því.“

Natthawat töfrar fram rétti eftir eldgömlum fjölskylduuppskriftum.
Í eldhúsinu Natthawat töfrar fram rétti eftir eldgömlum fjölskylduuppskriftum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ban kúnn þýðir heima hjá þér á taílensku, og það hafa Svavar og Natthawat að leiðarljósi. „Fólki á að líða vel hjá okkur. Við viljum að andrúmsloftið sé afslappað og heimilislegt. Fólki finnst maturinn góður, og við heyrum að það kunni vel að meta hversu hreint og snyrtilegt umhverfið er. Við erum með marga fastakúnna, og sumir koma reglulega langt að til að borða hjá okkur. Það er til dæmis fjölskylda á Selfossi sem kemur mjög reglulega til okkar. Síðast héldu þau upp á afmæli eins fjölskyldumeðlims hér hjá okkur.“

Vinsælasti rétturinn á matseðlinum.
Pad-thai Vinsælasti rétturinn á matseðlinum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Blaðakona og ljósmyndari sem heimsóttu Svavar og Natthawat voru svo ljónheppin að fá að smakka tvo rétti hjá þeim. Annars vegar hinn klassíska og sívinsæla Pad-thai og hins vegar Nam-tok, sem reyndar er ekki á matseðlinum. Báðir smökkuðust guðdómlega. „Það gera sér kannski ekki allir grein fyrir því að við getum eldað allt sem við erum beðnir um. Fólk kemur stundum hingað og lýsir rétti sem það smakkaði í Taílandi og langar að smakka aftur. Við getum yfirleitt orðið við þessum óskum og hjálpað fólki að endurupplifa Taíland í gegnum matinn. Sumir vilja líka láta koma sér á óvart og fá þá eitthvað spennandi úr eldhúsinu.“
Pad-thai sósan hans Natthawat er eldgömul fjölskylduuppskrift frá langömmu hans, en fleiri í fjölskyldu hans hafa starfað við matargerð og veitingarekstur.

Heiti réttarins þýðir *foss* og er dregið af því að vökva sem kjötið gefur frá sér við steikingu er jafnóðum hellt af.
Nam-tok Heiti réttarins þýðir *foss* og er dregið af því að vökva sem kjötið gefur frá sér við steikingu er jafnóðum hellt af.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Strákarnir hafa ekki mikinn tíma fyrir tómstundir, enda mikið að gera í rekstrinum. Natthawat ætlar þó að nýta frítímann í sumar til þess að veiða murtu. „Svo fletjum við hana út og djúpsteikjum, það er taílenskur réttur sem við höfum mikið dálæti á.“ Natthawat er líka söngvari og dansari í taílenskum stíl, og kemur fram við ýmis tækifæri. Meðal annars tók hann þátt í Ísland got talent síðastliðinn vetur og naut þar stuðnings Svavars.

Hjónin eru bjartsýn á framtíðina á Völlunum, og hlakkar til að halda áfram að galdra fram gómsæta rétti fyrir viðskiptavinina um ókomna tíð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Í gær

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 5 dögum

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar