fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Lífi Indu og Baldvins var umturnað í maí 2004: „Ég gat alls ekki verið undir það búin sem blasti við mér“

Hvetja fólk til umhugsunar um afleiðingar vímuefnaaksturs – Standa þétt saman í gegnum erfiðleikana – „Það tók okkur mörg ár að komast á þennan stað“

Auður Ösp
Föstudaginn 6. maí 2016 12:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við reynum að láta reiðina ekki trufla okkur. En við erum hinsvegar mjög reið yfir dómskerfinu öllu. Það er gott að geta leyft sér að vera reiður án þess að láta það bitna á daglegu lífi. Það tók okkur mörg ár að komast á þennan stað en það tókst,“ segir Inda Björk Alexandersdóttir en lífi hennar og fjölskyldu hennar var kollvarpað í maí árið 2004 þegar ökumaður ók í veg fyrir bifhjól Baldvins Jónssonar, eiginmanns Indu. Hafði ökumaðurinn ákveðið að skipta um akgrein, án þess að gefa stefnuljós og huga að nærliggjandi umferð og voru afleiðingarnar þær að Baldvin kastaðist af hjólinu og hlaut alvarlega áverka um allan líkamann.

Við tók margra mánaða endurhæfing og lagðist áfallið þungt á fjölskylduna sem hafði þar að auki misst elsta soninn í slysi einungis tveimur árum áður. Vill Inda vekja fólk til umhugsunar um afleiðingarnar sem geta hlotist af því að sýna gáleysi í umferðinni, og þá sérstaklega þegar sest er undir stýri undir áhrifum vímuefna. Afleiðingar umferðarslysa séu ekki aðeins skelfilegar fyrir fórnarlömbin heldur einnig aðstandendur , og það veit Inda af eigin raun.

Þau Inda og Baldvin eru í dag búsett í Hafnarfirði og eiga tvo syni: Mikael Hrafn 16 ára og Óðinn Örn 12 ára. Inda á þar að auki Alexander Svan 22 ára. Sonur Baldvins, Leó var aðeins 8 ára gamall þegar hann lést, í febrúar 2002 en hann hafði að sögn Indu glímt við fjölfötlun og lést vegna veikinda sem urðu til vegna mistaka í fæðingu. „Við söknum hans sárt. Hann var yndislegur strákur. Vegna þess að það hafði svo stuttur tími liðið frá því hann dó þá hefur dauðinn komið óþægilega nálægt strákunum okkar.“

Bæði eru þau hjónin með mikla mótorhjóladellu. Harley Davidson mótorhjól eru í sérstöku uppáhaldi. „Svo kunnum við að keyra vörubíla og ekki minkar kúlið við það, sérstaklega hjá vinum örverpsins,“ segir Inda jafnframt glettilega.

Örlar enn á reiði

Þann 4.maí síðastliðinn voru 12 ár liðin frá slysinu. Ökumaðurinn sem ók í veg fyrir Baldvin umræddan dag fékk síðar 45 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur og var dæmdur til greiðslu sektar upp á 150 þúsund krónur. Þá var hann sviptur ökurétti í tvö ár. Hæstiréttur mildaði dóminn í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og sektina sömuleiðis.

Baldvin glímir enn í dag við afleiðingar slyssins og þarf að kljást við mikla líkamlega verki. Afleiðingar slyssins voru meðal annars þær að mjaðmagrindin og bakið brotnaði, auk þess sem hann ökklabrotnaði illa og spjaldhryggurinn fór í sundur. Eftir slysið tók við löng endurhæfing á Grensásdeild. Segir Inda það vera erfitt að horfa upp á maka sinn, sem hafi alltaf unnið eins og skepna, missa starfsgetu, en Baldvin var áður dælumaður hjá BM Vallá.

Hún viðurkennir að ennþá örli á reiði hjá þeim hjónum vegna atburðarins en sú reiði beinist ekki endilega að ökumanninum. Þau viti til þess að hann hafi hafi átt bágt, hann hafi verið í fíkniefnaneyslu og nær öruggt sé að hann hafi verið undir áhrifum vímuefna, eða í fráhvörfum þegar slysið átti sér stað, þó svo að engar athuganir hafi verið gerðar á því.

„Við hjónin höfum ekki alltaf verið með sama viðhorfið til lífsins eftir slysið og því hefur kannski skapast ákveðin togstreita og meðvirkni. Ég hef verið hrædd um hann og honum finnst ég stjórnsöm. En eftir að við lærðum að stilla saman strengi okkar og taka betur tillit til hvors annars hvað þetta varðar þá erum við í fullkomnum málum. Þegar fólk lendir í svona áföllum þá þarf það að læra ákveðna hluti upp á nýtt og sem betur fer þá tókst okkur það. Við erum líka mjög rík af traustum vinum sem hafa staðið á bak við okkur eins og klettar. Það skiptir rosalega miklu máli.“

Inda ritaði á dögunum áhrifaríka og sláandi frásögn á Facebook síðu sína og veitti hún blaðamanni góðfúslegt leyfi til að birta færsluna. Gefum henni orðið:

„Í dag, 4. maí eru liðin 12 ár síðan maðurinn minn Baldvin lenti í alvarlegu slysi. Síðan hann var keyrður niður á hjólinu.
Jón Árni mágur minn vakti mig og rétti mér símann og hinum megin á línunni var kona sem kynnti sig og sagðist heita Bylgja. Hún sagði að Baldvin maðurinn minn hefði lent í slysi á Miklubraut á móts við Kringluna og í raun vissi hún ekki hversu alvarlegt ástandið væri. En hún hvatti mig til að koma strax og bauðst til að vera með mig í símanum þangað til ég kæmi á slysstað. Ég fór auðvitað í panikk og henti Óðni, sem var ekki orðin þriggja mánaða, í aumingja Jón Árna sem var sjálfsagt ekki í minna panikki en ég og ók af stað með Bylgju í símanum.

Alla leiðina þá sagði hún mér nákvæmlega hvað var að gerast á slysstað. Hún sagði mér að hjartabíllinn væri mættur á staðinn ásamt öðrum sjúkrabíl og fullt af lögreglubílum. Hún sagði mér að það væri verið að huga að manninum mínum, setja á hann hálskraga og hún var mjög ötul við að lýsa hverju smáatriði sem var í gangi í umhverfinu, sem róaði mig helling. Hún sagði mér að hann væri með meðvitund en mjög ringlaður. Hann talaði eingöngu um mig, vildi að það yrði hringt í mig og ég yrði beðin um að koma sem hún hafði lofað að gera. Þegar ég sagði henni að ég væri mætt á svæðið þá kvaddi hún mig og óskaði mér og okkur góðs gengis og án þess að hugsa þá bara kvaddi ég hana án þess að þakka henni fyrir.

Ég stoppaði bílinn minn út á miðri Miklubraut og það kom lögreglumaður og spurði hvort ég væri eiginkona hins slasaða sem ég játti. Hann sagðist sjá um bílinn minn og sagði mér að drífa mig inní sjúkrabíl því það væri verið að flytja manninn minn upp í bílinn og fara með hann í hraði upp á bráðamóttöku. Ég hafði hugsað út í það á leiðinni hvað biði mín en ég gat alls ekki verið undir það búin sem blasti við mér. Hjólið í keng og meðvitund mannsins míns var ekki eins mikil og ég hafi talið en þegar hann sá mig þá sagði hann nafnið mitt og ég brast í grát.“

Dagarnir hræðilegir, langir og erfiðir

Inda lýsir því næst hvernig við tók „hræðilegur dagur og tímar.“ Hringt var í nánustu ættingja og foreldrar þeirra beggja komu á sjúkrahúsið.

„Eftir því sem tíminn leið og enginn læknir kom og talaði við mig þá fór ég í mikla afneitun á áverka Baldvins og alvarleika ástandsins. Ég hafði reyndar ætt inn á skoðunarstofuna og bannað þeim að klippa í sundur jakkann hans og beðið læknanna að gæta vel að slagæðinni sem liggur í gegnum kviðinn. Ég vildi ekki missa manninn minn á sama hátt og Villa heitinn.

Ég fór heim seinnipartinn á meðan Baldvin fór í aðgerð á ökkla og þurfti að útskýra fyrir Alla mínum og Mikka hvað hefði komið fyrir, Mikki var ekki orðin 5 ára svo hann skildi þetta ekki alveg að fullu en Alli minn var orðin rúmlega 10 ára og ég veit ekki ennþá hvort mér hafi tekist að útskýra þetta eins vel fyrir honum og unnt var. Ég veit bara að ég gerði mitt besta en veit sjálfsagt aldrei hvort það hafi verið nóg. En ég taldi honum best borgið hjá pabba sínum og Ingu fyrstu daganna á meðan ég vissi ekkert.“

Hér má sjá hjólið sem Baldvin keyrði, daginn sem slysið átti sér stað en þau hjónin gerðu það síðan upp og er það í dag í toppstandi.
Nýuppgert og fínt Hér má sjá hjólið sem Baldvin keyrði, daginn sem slysið átti sér stað en þau hjónin gerðu það síðan upp og er það í dag í toppstandi.

Inda segir næstu daga hafa verið hræðilega, langa og erfiða og einkennst af „litlum svefn, ofboðslegri hræðslu og engu upplýsingaflæði frá sjúkrahúsinu.“

„Það eina sem ég vissi var að það þurfti að kalla heim bæklunarskurðlækni heim úr fríi til að gera aðgerð á mjaðmagrind og spjaldhrygg sem hafði brotnað í sundur sitthvoru meginn við hryggjasúluna og honum var haldið sofandi á meðan.

Ég var að reyna standa mig á öllum vígstöðvum og þá sérstaklega gagnvart börnunum mínum. Minnsta krílið mitt var ekki orðið þriggja mánaða og mig langaði bara að bugast. Ég horfði á manninn minn tengdan við öndunarvél og allskonar tæki sem píptu og gáfu frá sér tölur og merki um hitt og þetta sem ég skildi illa í fyrstu og var í raun dauðhrædd við en eftir nokkra daga var ég orðin fulllæs á þessi tæki og það eina sem ég óttaðist var ef tölurnar fóru niður fyrir neðri mörk.

Þið þekkið þetta sem hafið verið aðstandandi einhvers á gjörgæslu. Svo var annað. Ég tók þá ákvörðun um að hleypa börnunum okkar ekki að pabba sínum inn á gjögærslu fyrstu vikurnar því hann leit illa út, hann var mjög bjúgaður og með alvarlegt ofnæmi undan sýklalyfjum sem hann var settur á og var í alla staði mjög ólíkur sjálfum sér og ég taldi það ekki þjóna hagsmunum barnanna að sjá föður sinn í þessu ástandi.“

Inda lýsir því jafnframt hvernig hún fór í ákveðna afneitun gagnvart ástandinu og alvarleika málsins.

„Ég fékk enga fagaðstoð. Þegar ég lít til baka og sé dagana verða að vikum, sem urðu svo að mánuðum. Ég hefði aldrei komist í gegnum þetta ef ég hefði ekki haft það stuðningsnet sem ég hafði, vinkonur mínar og fjölskyldu mína og auðvitað tengdamömmu þegar hún gat verið fyrir sunnan sem sáu um drengina mína sem gerði mér kleift að vera uppi á sjúkrahúsi hjá manninum mínum.“

Vilja ekki vorkunn

„Þeir sem þekkja okkur vita að þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt. Þetta hefur tekið sinn toll af okkur og oft á tíðum beygt okkur svo mikið að við höfum nánast brotnað. En þetta hefur líka kennt okkur ótal margt og styrkt okkur á margan hátt sem ykkur finnst kannski ótrúlegt,“ ritar Inda jafnframt.

„Í gær fór ég í fyrsta skipti að grennslast fyrir um hver þessi Bylgja væri sem hringdi í mig og leiddi í gengum þessi fyrstu skref. Þá kom í ljós að hún er starfsmaður hjá lögreglunni í Reykjavík og ég fæ þessari konu ekki fullþakkað, ekki frekar en ykkur hinum sem stóðu við bakið á okkur fjölskyldunni.“

Inda biður fólk að lokum um að deila frásögninni, ekki þó vegna þess að þau hjón vanti vorkunn, enda séu þau hörkutól og þurfi ekki á slíku að halda.

„Heldur til að vekja athygli á því að neysla á vímugjöfum fer ekki saman við akstur . Gerið það fyrir mig, ekki setjast undir stýri ölvuð eða undir áhrifum fíkniefna eða í fráhvörfum eftir áfengisneyslu, fíkniefna eða lyfjaneyslu. Slíkar gjörðir eru aldrei þess virði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar