fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Sjálfsmynd mín á heima á Melrakkasléttu

Framboð til forseta er skemmtilegra en Andri Snær bjóst við – „Við þurfum að tengja 105 og sveitina, Breiðholt og sjóinn.“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 6. maí 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það væri áhugavert ef einhver rannsakaði hvaða leiðtoga Íslendingar erlendis myndu kjósa fyrir Íslendinga. Þeir sjá Ísland öðrum augum. Fólk losnar undan flokksálögum og byrjar að hugsa öðruvísi þegar það dvelur ytra.“

Hér um bil svona byrjar símtal Ragnheiðar Eiríksdóttur, blaðakonu DV, við Andra Snæ Magnason, rithöfund og forsetaframbjóðanda. Hann er staddur í Kaupmannahöfn og átti fund með Íslendingum á Laundromat café á miðvikudagskvöldið. Með í för eru Grímur Atlason, Elín Ey tónlistarkona og Margrét Sjöfn Torp, eiginkona frambjóðandans.

Stefnuleysi og óreiða

„Pólitíkin á mikinn þátt í landflóttanum. Margir tala um þetta hér, að á Íslandi ríki stefnuleysi og langvarandi óreiða í það minnsta frá hruni. Tjónið á mannauði Íslendinga má telja í tugum milljarða. Ég finn þetta á ferðalögum, hvort sem það er í Noregi, Sviss eða Kaupmannahöfn. Forsætisráðherra og forseti hafa laskast í alþjóðlegum fjölmiðlum, sjálfsmynd okkar er beygluð og mér þætti mjög forvitnilegt að vita hvernig atkvæði brottfluttra Íslendinga myndu falla.“

Ætlar þú að leggja áherslu á að ná til þessa fólks, Íslendinga sem eru búsettir erlendis?

„Mér finnst mikilvægt að hitta fólkið sem horfir á okkur utan frá og hugsa hvernig Ísland getur haldið í sinn mannauð og hvernig við löðum fólk aftur heim. Stór hluti hefur samt ekki kosningarétt. Þeir sem hafa dvalið lengur en 8 ár erlendis þurftu að kæra sig inn á kjörskrá fyrir 1. desember í fyrra.

Það verður fundur með Íslendingum í París á föstudag í næstu viku því ég er tilnefndur til helstu vísindaskáldsagnaverðlauna Frakklands, Grand Prix de l’Imaginarie, fyrir LoveStar. Á sunnudeginum kemur í ljós hvort ég hlýt þau verðlaun.“

Ég var með 30% fylgi samkvæmt könnun í síðustu viku og hef alltaf vitað að ég þurfi að sýna fólki hvað ég stend fyrir, og sanna að ég eigi erindi í forsetaembættið.

Sendiherrann í París var nú orðaður við forsetaframboð, en nú er hún hætt við!

„Já þá mætir hún vonandi í mitt partí,“ segir frambjóðandinn og hlær.

Í liði með Ólafi Ragnari?

Við höldum áfram að spjalla um aðra frambjóðendur. Nú er Guðni Th. búinn að tilkynna að hann bjóði sig fram. Sumir hafa viljað meina að með því sé Andri Snær orðinn helsti bandamaður Ólafs Ragnars, sitjandi forseta, þar sem Andri og Guðni eru líklegir til að sækja fylgi sitt í svipaðan hóp.

Hvernig tilfinning er það Andri, að vera kannski í liði með Ólafi Ragnari?

„Ég er nú ekki sammála þessari greiningu. Við vitum ekki einu sinni hvort Ólafur klári baráttuna. Það eru tæpir tveir mánuðir í kosningar. Síðustu vikur hafa heldur betur sýnt okkur að staðan í þjóðmálum getur snúist á hvolf í einu vetfangi. Þessari seríu er ekki lokið og ég er viss um að handritshöfundur er með eitthvað uppi í erminni. Ég var með 30% fylgi samkvæmt könnun í síðustu viku og hef alltaf vitað að ég þurfi að sýna fólki hvað ég stend fyrir, og sanna að ég eigi erindi í forsetaembættið.“

Andri og Margrét í danska vorinu.
Hjón í sól Andri og Margrét í danska vorinu.

Fólk er ekki vitlaust

Umræðan um þig og listamannalaunin í aðdraganda framboðstilkynningar þinnar var nú ekki beinlínis jákvæð í alla staði.

„Það er hárétt. Þjóðsagan í sinni verstu mynd segir að ég hafi verið á ofurlaunum í 10 ár og ekki skrifað neitt. Þar er þetta orðið eins og sagan um fæðingarvottorð Obama. Bækurnar sem ég skrifaði á þessu tímabili eru alla vega á bókasöfnum, svo tilvistin verður ekki dregin í efa. Fólk er hins vegar ekki vitlaust og trúir kannski einhverju sem það hefur lesið. Ég get til dæmis ekki nefnt alla landsliðsmenn í fótbolta núna, og sumum finnst ég kannski vitlaus fyrir vikið. En ég trúi þeim sem vita betur og segja mér hverjir eru í liðinu.

Umræðan um lífsviðurværi rithöfunda og íslenskar bókmenntir er mikilvæg því íslenskan er örtungumál. Styrkir eru forsenda þess að rithöfundar skrifi bækur á tungumálinu okkar. Á þessu 10 ára tímabili sem rætt er um skrifaði ég þrjár bækur, tvö leikrit og kvikmyndahandrit. Auk þess eru tvö önnur verkefni óbirt. Á sama tímabili talaði ég um bókmenntir, tungumálið og skapandi hugsun við 10–20 þúsund börn. Ef ég tek dæmi af árinu 2007, þáði ég listamannalaun helming ársins. Það jafngildir 100 þúsund krónum í föst mánaðarlaun. Listamannalaun eru langt undir framfærslumörkum, ólíkt því sem margir virðast halda. Sama ár tók ég að mér að vinna skólastefnu fyrir Krikaskóla í Mosfellsbæ, þannig aflaði ég tekna til viðbótar. Ég er líka nokkuð viss um að þessar 100.000 krónur séu ekki mesta tjónið á fjármálum ríkisins sem framið var 2007.

Við ættum að vera með að minnsta kosti tíu manns á fullu í að skrifa fyrir börn og þeir eiga að fá að gera það alla ævi, eins og Guðrún Helgadóttir og Ármann Kr.

Tökum annað dæmi. Ég tel að barnabækur séu hluti af innviðum íslensks samfélags, rétt eins og vegagerðin og rafmagnsveitan og heilsugæslan og lambakjötið. Til að rækta tungumálið verðum við að skrifa góðar bækur fyrir börnin. Ég spyr fólk stundum hversu margir íslenskir höfundar hafi fengið 12 mánaða styrk árið 2012 til að skrifa barnabók. Fólk heldur að 10–15 barnabókahöfundar séu á árslaunum. En það var bara einn – ég. Styrkurinn gerði mér mögulegt að skrifa Tímakistuna, sem fékk íslensku bókmenntaverðlaunin og hefur verið seld til átta landa. Með því næ ég kannski upp í þúsund krónur á tímann fyrir vinnuna sem ég lagði í að skrifa bókina.“

Lati listamaðurinn

„Svona umræða byggist á fornum hugmyndum um lata listamanninn. Hún er grimm og sérkennileg. Þetta eru fordómar sem eru þess virði að berjast gegn vegna þess að fátt er mikilvægara en að skrifa góðar bækur fyrir börn. Þegar einhver er kallaður afæta fyrir það, er þjóðin á mjög vondum stað. Við ættum að vera með að minnsta kosti tíu manns á fullu í að skrifa fyrir börn og þeir eiga að fá að gera það alla ævi, eins og Guðrún Helgadóttir og Ármann Kr. Það mun aldrei borga sig að skrifa barnabækur á Íslandi án styrkja, þess vegna eru þeir nauðsynlegir. Þeir sem eru á móti því og vilja ekki borga, geta meira að segja notið verkanna á bókasöfnum.

Við þurfum líka að átta okkur á efnahagslegu umsvifunum sem bókaútgáfa skapar. Bækur mínar seldust í 40 þúsund eintökum á Íslandi á síðustu tíu árum. Ef við gefum okkur að hvert eintak hafi kostað 4 þúsund krónur, hefur salan myndað 160 milljóna króna veltu í samfélaginu. Það má áætla að útgáfan hafi skapað um 40 störf – í prentsmiðjum, forlögum, bókasöfnum, bókaverslunum og svo framvegis. Höfundarlaunin eru hins vegar það lág að þau duga mér ekki ásamt listamannalaunum, sem ég hlaut átta sinnum á tímabilinu. Samtals slagar þetta ekki upp í kennaralaun.

Andri lærði mikið af ömmum sínum og öfum.
Ánægður með fyrirmyndirnar Andri lærði mikið af ömmum sínum og öfum.

Mynd: Grímur Atlason

Spurningin er hvort við viljum halda uppi atvinnumennsku í bókmenntum á Íslandi eða ekki. Ef við ætlum að halda uppi örtungumáli í keppni við 300 milljón enskumælandi manna í kringum okkur verðum við að leggja eitthvað til. Peningarnir sem fóru í að búa til Hollywood-myndina Dumb and dumber 2 er hærri en Launasjóður rithöfunda í 20 ár.

Bóksala skilar ríkissjóði 600 milljónum árlega í formi virðisaukaskatts, á meðan styrkir til frumsköpunar eru aðeins 200 milljónir á ári. Hér er talinn glæpur að starfa sem rithöfundur í tíu ár, en að vera forseti í 20 ár, það er önnur saga.

Kannski stríðir það gegn réttlætiskennd einhverra að íslenskan og bókmenntirnar séu ekki á frjálsum markaði. En það er ómögulegt að skrifa á íslensku án styrkja. Það er bara þannig. Landbúnaður og vegakerfið þiggja til að mynda opinbera styrki. Ef við viljum hafa innlendan landbúnað er það nauðsynlegt, og það sama gildir um bókmenntir og listir.

Að beita hagfræðirökum á bókmenntir og listir er ávísun á menningarlegan dauða. Nýjasta bókin mín fjallar til dæmis um sjálfsvíg. Ef hún selst í hundrað eintökum og hefur áhrif á fólk er ómögulegt að meta hagræn áhrif þess. Það sama gildir um listaverk sem reyna á þanþol hugans og fá okkur til að sjá heiminn í öðru samhengi. Það er ekki hægt að fjalla um þessi áhrif með efnahagslegum formerkjum.“

Stórar hugmyndir

Hvernig sérðu fyrir þér að gegna embætti forseta Íslands, verður þú meira eins og Ólafur Ragnar eða Vigdís?

„Mig langar til að hafa áhrif á langtímahugsun og stærri hugmyndir. Ég tel óæskilegt að trufla störf Alþingis, við verðum að treysta Alþingi og þar starfa þjóðkjörnir fulltrúar okkar. Ég myndi vilja leiða saman hópa og vinna að stærri myndinni, rammanum sem við störfum innan. Forseti Íslands er í raun eini þjóðkjörni einstaklingur stjórnkerfisins og getur starfað þvert á flokka og mörk – eins og kjördæmi og hreppamörk.
Til að mynda er mjög mikilvægt að líma saman sveit og borg. Ég hef komið nálægt nýsköpunarverkefnum í sveitum og þekki þar marga sem eru að gera mjög spennandi hluti.

Eitt af því sem er mér hugleikið er að Ísland er sjö sinnum stærra haf en land. Landhelgin okkar er sjö sinnum stærri en fasta landið, okkur hættir til að hugsa ekki um það, sjáum bara skvampandi öldur allt í kringum okkur. Við veiðum 1% af öllum fiski í heiminum – en langstærstur hluti íslenskra barna elst upp í Grafarvogi og Breiðholti í litlum tengslum við hafið. Grunnurinn að því að við getum unnið sem mest verðmæti úr fiskinum og staðið okkur í rannsóknum er að börn og unglingar fái áhuga fyrir hafinu og lífríki sjávarins. Þess vegna þurfum við að tengja saman menntakerfi og rótgrónar atvinnugreinar. Við þurfum að tengja 105 og sveitina, Breiðholt og sjóinn. Það myndi styrkja okkur mikið að brjóta niður þessi landamæri. Systir mín er heilaskurðlæknir og var ekkert að krukka í heilann á okkur bræðrum þegar við vorum lítil. Hún hafði enga reynslu af því að vesenast í heilum þegar hún hóf nám í greininni. Við erum oft læst í hugsun varðandi menntun og atvinnugreinar, og það er áhugavert að hræra upp í henni á jákvæðan hátt. Skilgreiningar eru of þröngar og hver stétt of gjörn á að hlaupa í vörn.“

Út fyrir 101

Nú hafa margir sagt að þitt augljósa fylgi sé í 101 Reykjavík og Vesturbænum. Hvernig hefur gengið að ná til fólks utan þess landfræðilega radíuss?

„Ég fæ góðar móttökur úti á landi. Sjálfsmynd mín á heima á Melrakkasléttu og mér er mjög annt um landið okkar. Ég gagnrýndi Alcoa á sínum tíma og sumir töldu að ég væri almennt á móti landsbyggðinni af þeim sökum. Á þeim tíu árum síðan sú umræða stóð sem hæst hefur Lagarfljót nánast dáið og Mývatn er í nauðvörn. Árið 2006 var allt hálendið undir og engum stað átti að eira. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa stigið inn á það svið. Draumurinn um hálendisþjóðgarð er nær okkur núna en fyrir áratug.

Held að það sé samt alveg rétt hjá þér að ég eigi líklegt fylgi í vestari hlutum borgarinnar. Ég á mjög sterka hópa og fólk sem ég hef unnið með og vill treysta mér. Verkefni mitt er að sýna að ég hafi eitthvað upp á að bjóða fyrir aðra, eitthvað sem snertir ekki bara þrönga hagsmuni. Verkið er að tala við sem flesta og koma mínum hugmyndum um embættið á framfæri. Ég er samt fyrst og fremst Árbæingur, fjórða kynslóð, og núna bý ég í Karfavogi og hef aldrei búið í 101. 101 er líka í vörn um þessar mundir. Ef það yrði gerð B-mynd um svæðið mundi hún heita „Puffin Zombie Apocalypse“.“ Þarna vísar forsetaframbjóðandinn Andri að sjálfsögðu til þess að með auknum ferðamannastraumi er miðbærinn að fyllast af túristabúðum, á meðan gamlar rótgrónar sérverslanir hverfa á brott.

Samt er hann mjög jákvæður í garð ferðamannastraumsins. „Í raun er kraftaverk að við séum ekki búin að missa rútu í Reynisfjöru eða horfa upp á 1.000 manna hópmatareitrun. Það er ævintýri líkast hvernig mönnum hefur tekist að flaka allan þennan afla, hversu lítið hefur farið í gúanó í þessu síldarævintýri. Við verðum að stýra straumnum og nýta hann svo þetta styrki þá innviði sem við viljum byggja upp. Fyrirhugað hús íslenskra fræða er til dæmis allt of lítið. Við eigum að hafa metnað til að búa til safn fyrir handritin. Konungsbók Eddukvæða er einn merkilegasti forngripur í Evrópu, frumheimild í norrænni goðafræði, og þennan grip eigum við. Það eru ekki bara fræðimenn sem hafa áhuga á þessu heldur einnig norskir dauðarokkarar og handritahöfundar í Hollywood. Stórvirkið Thor 2 hefði aldrei verið framleitt án Eddukvæðanna, svo ég tali nú ekki um verk Wagners og Tolkiens. Bara goðafræðin kallar á mjög stórt safn og þá erum við ekki farin að tala um konungasögur, Snorra Sturluson, Íslendingasögurnar og Riddarasögurnar. Heimar goðafræðinnar eru svo stórir og við þurfum að gefa þeim meira pláss en þá 350 fermetra sem núverandi áætlun gerir ráð fyrir.

Við þurfum að hlífa náttúrunni og beina fólki á sögustaði sem þola ágang og hreinlega bíða eftir fólki til að taka á móti. Það gæti til dæmis breytt miklu að láta millilandaflug lenda árið um kring á Egilsstöðum eða Akureyri. Landsbyggðin mundi græða helling á því að vera 2 tíma frá Evrópu í stað tveggja daga. Svona þurfum við að styrkja innviði samfélagsins.“

Mundi aldrei afneita Björk

Hvað kostar kosningabaráttan þín og hver borgar?
„Reglurnar segja að hámarksframlag frá hverjum einstökum lögaðila sé 400 þúsund krónur. Þannig er enginn sem getur keypt einstakling í framboði. Þú mátt svo eyða því sem þú vilt af þínum eigin pening. Við erum með opinn kosningasjóð og það eru að koma inn fimm þúsund og fimmtíu þúsund kallar. Það sem hefur safnast dugar okkur til að ráða tvær manneskjur í starf í tvo mánuði og keyra hringinn til að hitta fólk. Við erum að safna fjármagni og vera hugkvæm í því hvernig við notum það.“

Ertu búinn að vera að reyna að hreinsa þig af tengslum við Björk Guðmundsdóttur?

„Nei, alls ekki. Sögur gengu af því að Björk borgaði kosningabaráttuna mína. En það eru ósannindi. Þeir sem eru vinir mínir verða það áfram og þeir sem vilja vera nálægt mér eru velkomnir. Ég ætla ekki að þykjast vera annað en ég er.

Því miður virðist ákveðinn hópur ekki gera sér grein fyrir því hvað Björk hefur opnað margar dyr fyrir Ísland og gert mikið fyrir efnahag okkar. Verkefnin eru óteljandi og umsvifin mikil. Ég held að við getum talið áhrifin í tugum milljarða. Fólk gerir sér ekki grein fyrir hversu rosalegt afl Björk hefur verið. Mér mundi aldrei koma til hugar að afneita tengslum við hana. Það væri eins og að afneita mömmu eða ömmu.“

Vigdís var róttæk

Hvernig ætlar þú að koma umhverfissjónarmiðunum þínum á framfæri? Hvaða vald hefur forseti í þeim efnum?

„Umhverfismálin eru á mörgum sviðum og ég held að forseti geti haft mikil áhrif. Í fyrsta lagi getum við skoðað þau út frá hnattræna sjónarmiðinu. Þau málefni sem varða Ísland snúast til að mynda um hafið og bráðnandi jökla. Á næstu árum verður Ísland í sviðsljósinu vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa í heiminum. Ef við skoðum umhverfismál burtséð frá hálendismálum, getum við til að mynda talað um tískusóun og matarsóun. Þetta eru almenn atriði sem kalla á viðhorfsbreytingar en ekki lagabreytingar. Mikið af því snýst um gildi sem amma og afi voru með – að nýta í stað þess að henda. Það sem kallað er matarsóun núna, kallaði amma mín að klára matinn sinn.

Þegar Vigdís plantaði trjám var það róttæk aðgerð. Leiðtogar áttu að vera sterkir og harðir, og hún fór með erlenda gesti og plantaði trjám. Við sjáum það kannski ekki í dag, en þetta var gjörningur, sem Yoko Ono hefði alveg eins getað gert. Pólitískt og háróttækt.

Ég hef ekki væntingar um hraðar breytingar sem hægt væri að knýja fram í einræðisherrastíl. Alþingi er starfandi og leiðin til að hafa áhrif er í gegnum það, og auðvitað önnur stjórnstig kerfisins. Kerfin okkar í dag eru þung og með endalausum fyrirvörum. Ráðuneyti tala ekki saman og ýmislegt má bæta. Ég geri mér grein fyrir því að forseti getur haft áhrif í orði – vakið athygli á málefnum og sett þau á dagskrá. Sem þjóðkjörinn manneskja getur hann farið þvert á alls konar landamæri og mörk og fengið fólk til að tala saman. “

Trú á lýðræðinu

Áttu þér óskaríkisstjórn?

„Ég held að góð stjórn eigi að hafa breiða tilhöfðun. Það er óæskileg staða þegar ríkisstjórn hefur eindregna andstöðu við krítískan massa í þjóðfélaginu. Ég vil ekki nefna flokka sem ég helst vildi sjá í ríkisstjórn, en er spenntur fyrir því að við skoðum fleiri aðferðir til stjórnarmyndunar.

Það er svo mikill feginleiki þegar einhver í flokki talar örlítið til hliðar við stefnu flokks. Í okkar vinahópum og samfélagi erum við mjög ólík. Við verðum að hafa trú á lýðræðinu og traust verður að ríkja þvert á flokka og heiftin eða harkan má ekki verða til þess að gott fólk fæst ekki til starfa. Alþingi þarf á góðu fólki að halda og við megum ekki búa í samfélagi sem letur menn til þátttöku eða skilaboð um að pólitík sé mannskemmandi.“

Var ákvörðun þín um framboð erfið?

„Í framboði þarf maður að brjóta af sér feimni og óöryggi. Þessi hugmynd um að leggja sjálfan sig og fjölskyldu sína í dóm fólks er ógnvekjandi og stór ákvörðun. Ég finn að þetta er allt öðruvísi en að skrifa bók. Í framboði ertu beinlínis að ætlast til þess að allir hafi skoðun á þér og málefnunum sem þú stendur fyrir.“

Umræðuhefð með slæmt orð á sér

Hvernig finnst þér umræðuhefðin á Íslandi?

„Átök eru ekki endilega af hinu illa, þau eru hluti af leiknum. Það er jákvætt að takast á um hugmyndir og það að þegja yfir einhverju getur verið yfirlýsing um að samþykkja einhvers konar óréttlæti. Hér í Danmörku hristir fólk haus yfir pólitíkinni heima. Hrunið nánast nýafstaðið og núna eru leiðtogar okkar aftur á forsíðum heimspressunnar. Ég held að pólitíkin og umræðuhefðin hafi slæmt orð á sér og þúsundir Íslendinga kysu eflaust að búa heima ef hún væri jákvæðari og í betri farvegi. Hluti af pólitíkinni er leikur þar sem menn kjósa að vera ósammála. En svo koma stór mál og mikilvæg og þá þurfum við að tryggja að þjóðin geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Kosningar um Icesave sýndu okkur að fólk vildi meiri völd og aðgang að ákvarðanatöku.“

Ákallaði Guð í skíðaháska

Hvar stendur þú í trúmálum?
„Ég er skráður í Þjóðkirkjuna og er kannski dæmigerður meðlimur hennar. Ég þykist trúa á sjálfan mig en í fyrra var ég fastur í skíðabrekku fyrir ofan foss og þá fór ég beint í Guð. Ég er ekki bókstafstrúarmaður í neinum skilningi, en mikill áhugamaður um trúmál. Lokaritgerð mín í íslensku fjallaði um trú í ljóðum Ísaks Harðarsonar. Hann er róttækt og skemmtilegt skáld og mjög leitandi í trúmálum. Ritgerðin var um að tjá trúna þegar trúarleg heimsmynd er hrunin. Hvernig áttu að yrkja ljóð inn í heim sem hefur sundrað grundvelli trúarinnar? Ég hef tekið tvö viðtöl við Dalai Lama, sem hafði líka mikil áhrif á mig. Kirkjan hefur þjónað mér og mínum ágætlega. Ég hef líka verið fyrirlesari hjá Siðmennt í borgaralegri fermingu svo ég hef komið víða við.“

Stoltur af fyrirmyndunum

Hver er fyrirmyndin þín í lífinu, svona almennt séð?

„Ég er mjög heppinn með fyrirmyndir og finnst mikilvægt að hrósa þeim. Ég kynntist vel ömmum mínum og öfum og átti tvær ömmur og þrjá afa þar til ég var orðinn 33 ára gamall. Ég talaði mikið við þau og fékk innsýn í alla þeirra æsku, uppvöxt og gildi. Amma, sem var fædd í Neskaupstað, var send að heiman átta ára gömul vegna fátæktar. Hin amma mín var algjör jaxl. Hún var fyrsta kona til að fá flugpróf og fara í jöklaferðir á Íslandi. Langafi minn stofnaði Val. Ég er stoltur af þessu frumkvöðlaelementi í minni fjölskyldu.

Aðrar fyrirmyndir mínar eru til dæmis Þórður Helgason, sem opnaði fyrir mér leiðina inn í bókmenntaheiminn. Hann sýndi mér farveginn, hvernig ég gat orðið rithöfundur, annars hefði ég líklega ekki gert það. Guðmundur Páll Ólafsson var mikill vinur minn, en hann dó sjötugur fyrir um tveimur árum. Lífssýn hans og áhugi á náttúruvernd höfðu mikil áhrif á mig. Ég elst upp á Vigdísartímanum og þá komu gildi hennar sterk inn í líf mitt. Heiðarleiki, náttúruvernd, tungumál og lýðræði. Hörð gildi sem þarf að endurheimta. Eldri systur mína vil ég líka nefna sem fyrirmynd, en hún var fyrst íslenskra kvenna til að verða heilaskurðlæknir.“

Friðarsinninn Andri

Hvar stendur þú gagnvart NATO og hernaðaríhlutunum?

„Ég er friðarsinni alveg í kjarnanum og leiðist valdbeiting og hernaður almennt. Ég tel að stríð síðustu ára og áratuga hafi ekki skilað okkur neinu nema verri heimi. Sem forseti mun ég ekki hafa áhrif á hvort við séum í Nato eða ekki. Við erum sem betur fer ekki háð fjárveitingum til hernaðar og ekki vafin inn í stórfenglega hagsmuni sem fylgja hernaði. Þess vegna eigum við möguleika á að vera frjáls rödd innan Nato og á hernarðarvettvangi án þess að vera að vonast eftir fjárveitingum til að viðhalda stofnunum sem honum tengjast, eða herforingjatign. Við eigum að tala öðruvísi – tala til dæmis um mannaflann í þessum málum. Setja staðreyndir í samhengi við flóttamannavandann í heiminum. Ef þú getur flogið 200.000 manns yfir hálfan hnöttinn með innviðum og tækjabúnaði, geturðu líka gert ýmislegt fyrir fólk sem er á flótta undan hernaði.“

Hvað með samband okkar við ríki sem stunda mannréttindabrot, til að mynda Ísrael?

„Forseti þarf að fara varlega í að móta sína utanríkisstefnu. Ísland, sem lýðræðisríki, þarf að móta sína stefnu í gegnum ferla sem lýðræðisríki nýtir sér. Það ferli getur ekki verið einstaklingsbundið. Mannréttindabrot fordæmi ég hikstalaust og fullkomlega. En á sama tíma hef ég ekki sérstakan áhuga á að vera „loose cannon“ hvað varðar utanríkismál. Við eigum stofnanir og sérfræðinga sem vinna í þessum málum og virðing fyrir þeim er mikilvæg. Alþingi sér um og á að sjá um þessi mál. Flokkar og lýðræðiskerfi eiga að stýra utanríkisþjónustu. Forseti hefur hins vegar möguleika á að tengjast hópum og aðilum sem berjast fyrir réttlæti, og hafa skýra rödd þegar mannréttindi og mannréttindabrot eru annars vegar.“

Eigum að vera stórhuga og gestrisin

Hver er sýn þín á flóttamannavandann? Hefur þú hugmynd um hvernig hann verður leystur og hvert hlutverk Íslands gæti verið í þeim efnum?

„Fyrst og fremst þarf frið og jöfnuð í heiminum. Allir þurfa að lifa mannsæmandi lífi, annars verður alltaf ójafnvægi og flutningar fólks sem flýr bágar aðstæður. Hnattrænar breytingar á næstu árum munu auka þennan vanda. Dóttir mín fékk stúlku í bekkinn sem er frá Aleppo. Ég settist niður með henni og ætlaði að gúgla myndir frá Aleppo til að sýna henni heimaslóðir nýju bekkjarsysturinnar. Myndirnar voru of skelfilegar til að ég gæti sýnt þær. Mér finnst stundum eins og við séum í bíl á fullri ferð og keyrum fram á nauðstadda manneskju í vegkanti, og veltum því fyrir okkur hvernig við ætlum að hjálpa henni án þess að hægja á okkur. Við höfum hjartarými og landrými til að gera miklu betur. Það er allt í lagi að hægja á sér, og það er skylda okkar að hægja á okkur og hjálpa. Það er óraunsætt fyrir mig að leggja tölu fram en hver einstaklingur skiptir máli. Rétt eins og stúlkan í bekk dóttur minnar. Fólk er almennt gott og við eigum ekki að vera svona hrædd, heldur stórhuga og gestrisin.“

Ætlar þú á EM?
„Ég er nú ekki búinn að útvega mér miða. Ég er reyndar sjálfur að fara að keppa í Frakklandi á Grand Prix de l’Imaginery um helgina. Frakklandsfjárveitingin er eiginlega búin fyrir þetta vorið. En við verðum með beina útsendingu í kosningamiðstöðinni frá leikjum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi