fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Skorað á Ágústu 13 ára að drepa sig: Tjáir sig um hræðilegar árásir- „Ef þú værir dauð væri heimurinn betri“

Gróft neteinelti á vefsvæðinu ask.fm

Auður Ösp
Mánudaginn 30. maí 2016 18:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það var ofboðslega erfitt að sjá þetta. Mér brá alveg svakalega, þetta var svo ljótt. Ég hef áður fengið skilaboð en ekki nærri því eins slæmt,“ segir hin 13 ára gamla Ágústa Ósk um skelfilegar hótanir og skilaboð sem henni bárust síðasta laugardag inni á vefsvæðinu ask.fm en þar er hún meðal annars kölluð andstyggilegum nöfnum og hvött til þess að taka eigið líf.

„Þetta er náttúrulega bara ógeðsleg síða. Ég skil ekki af hverju það er ekki búið að banna hana. Það þarf hreinlega að loka henni,“ segir Matthilda María Eyvindsdóttir, móðir hinnar Ágústu Óskar. Síðastliðinn laugardag fékk Ágústa send ógeðfelld nafnlaus skilaboð á heimasíðunni ask.fm,þar sem hún var meðal annars kölluð andstyggilegum nöfnum og hvött til þess að taka eigið líf. Segir Matthilda að Ágústa hafi glímt við mikla félagslega erfiðleika alla sína skólagöngu en um hríð hafi litið út fyrir að ástandið myndi batna. Skilaboðin á laugardag hafi þó ekki gefið ástæðu til bjartsýni.

Ágústa á þrjú eldri systkini og er í áttunda bekk í grunnskólanum í Vestmannaeyjum. Að sögn Matthildu hefur dóttir hennar orðið fyrir einelti frá því hún var í leikskóla og lýsir það sér helst í félagslegri útskúfun. Það hafi átt sér stað að mestu leyti utan skólatíma.

Hún segir systkini Ágústu, eldri bróðir og systur einnig hafa orðið fyrir einelti af hálfu skólafélaga í þessum sama skóla. „Eldri dóttir mín varð einnig fyrir því að fá send skilaboð af þessu tagi en þá vissum við hver gerandinn var. Það var fyrir þremur árum,“ segir hún og tekur fram að í kjölfarið hafi verið leitað til lögreglu með það í huga að kæra viðkomandi einstakling. Þau hafi þá fengið þau svör að ekkert væri hægt að gera.

Enginn vildi leika

Matthilda opnaði sig fyrst um vanda dóttur sinnar í pistli á bloggsíðu sinni árið 2012. Þar lýsti hún félagslegri einangrun Ágústu:

„Hún á enga vinkonu í bekknum sínum. Þessi eina sem hún átti í bekknum var flutt í annan bekk. Það eru reyndar tveir strákar í bekknum sem hún telur til vini sína, en vandamálið er ekki bekkurinn, heldur það sem gerist eftir skólann. Hún hringir og ég skutla henni að spyrja eftir „vinkonum“ sínum, en þær koma alltaf með einhverjar lélegar afsakanir.

Nú er svo komið að ég er búin að banna henni að hringja í sumar þeirra, einfaldlega vegna þess að ég þoli ekki svipinn á henni lengur þegar henni er hafnað hvað eftir annað. Hún átti góða vinkonu í næsta húsi, en allt í einu vildi hún ekki leika lengur, eitt skiptið sem hún fór að spyrja eftir henni sagði litli bróðir hennar við hana: „Hún vill ekki leika við þig, henni finnst þú leiðinleg.“ Hvernig á 9 ára barn að geta unnið úr svona?

Í umræddri færslu sagði Matthilda einnig að hún hefði sjálf orðið fyrir einelti sem barn og væri að endurupplifa það á ný í gegnum einelti dóttur sinnar. Sjálf þurfti hún að yfirgefa heimabyggð sína þegar hún var í 10.bekk sökum eineltisins sem hún varð fyrir og í bloggfærslunni sagðist hún óttast að eins myndi fara fyrir dóttur sinni.

„Verður þetta líka svona hjá henni? Flytur hún af eyjunni 16 ára til þess aldrei að flytja hingað aftur? Verður þetta minningin sem mun fylgja henni út lífið, krakkar sem eyðilögðu fyrir henni barnæskuna?“

Á öðrum stað skrifaði hún:

„Síðustu helgi var hún ein heima hjá mér alla helgina. Þetta er venjuleg helgi hjá henni, ein heima með mömmu. Engin til að leika við nema mamma og kötturinn. Hún er hætt að reyna að hringja í stelpurnar um helgar, meira að segja frænkur sínar, það er alltaf sama svarið. Þegar við erum búin að fá höfnun nógu oft hættum við að reyna, það er bara eðli mannsins.“

Alltaf ein

Í samtali við blaðamann DV segir Matthilda að eftir að hún birti frásögnina á bloggsíðu sinni árið 2012 hafi um hríð litið út fyrir að hlutirnir myndu batna hjá Ágústu. Viðbrögðin hafi verið mikil og sterk.

„Þá var tekið á þessu. Foreldrar úr bekknum höfðu margir hverjir samband við mig og buðu sína hjálp. Krakkarnir fóru að vera meira með henni og buðust til dæmis til að labba meira með henni heim úr sundi og leikfimi. Síðan fór þetta allt í sama farið. Aftur var hún ein og enginn vildi vera með henni,“ segir hún og bætir við að dóttir hennar hafi þá enn á ný fengið að heyra setningar á borð við: „Mamma segir að ég megi ekki leika“ og „Ég er að leika við aðra stelpu.“ Fljótlega hafi hún gefist upp á að spyrja eftir öðrum krökkum og frekar leikið sér ein. Núna hefur hún ekki viljað fara í skólasund í tvö ár, og hefur fengið sérstakt leyfi frá skólanum.

Matthilda tekur skýrt fram að skólayfirvöld hafi reynst þeim vel. Hin félagslega útskúfun eigi, sem fyrr segir, sér fyrst og fremst stað utan skólatíma en þegar eitthvað hafi komið upp á í skólanum hafi ávallt verið tekið á því um leið. „Hingað til hefur ástandið verið þokkalegt og ekkert alvarlegt skeð, en eftir að hún fékk þessi skilaboð þá hefur allt farið á hvolf.“

Kölluð mella og hóra

Matthilda segist hafa vitað til þess að Ágústa hafi verið með skráðan aðgang inn á heimasíðuna Ask.fm, þar sem hægt er að senda einstaklingum nafnlaus skilaboð.

„Hún fór síðast inn á síðuna á laugardaginn, þá í fyrsta skipti í nokkrar vikur. Hún ætlaði þá að tala við vinkonur sínar sem eru ekki á Facebook,“ segir hún og bætir við að þá hafi skilaboðin umræddu blasið við dóttur hennar en hér fyrir neðan má finna skjáskot af nokkrum þeirra. Líkt og sjá má eru þau einkar viðurstyggileg, og beinast sum þeirra einnig að eldri bróður Ágústu.

Ekki er hægt að sjá hver, eða hverjir senda skilaboðin. „Hún hefur áður fengið ógeðsleg sms skilaboð en þetta er klárlega það allra grófasta og ógeðslegasta. Við gerum ráð fyrir að þetta sé einhver af þessum sem sendir er manneskja sem þekki hana, þar sem að þarna eru nefnd atriði sem hún hefur ekki sagt mörgum frá,“ segir Matthilda og bætir við að hún fái ómögulega skilið hvers vegna þessi samfélagsmiðill fái að vera til, enda grasseri þar einelti.

Hún deildi skjáskotunum af skilaboðunum á Facebook síðu sinni á laugardag en yfir 400 manns hafa deilt færslunni er þetta ritað. Fjölmargir hafa hvatt til þess að skilaboðin verði afhent lögreglu og barnaverndaryfirvöldum, enda innihalda sum þeirra grófar hótanir. Möguleiki er á að rekja skilaboðin, en til þess þarf dómsúrskurð. Matthilda segir að þau séu enn að hugsa sig um og séu ekki búin að taka ákvörðun um hvort þau ætli lengra með málið. Hennar fyrstu viðbrögð hafi verið þau að hafa samband við lögreglu en svo hafi hún tvístigið.

„Seinast þegar við reyndum að kæra ofbeldi af þessu tagi þá var okkur sagt að það væri ekki hægt að gera neitt. Þannig að við erum ekki viss um hvort að það muni hafa eitthvað upp á sig núna,“ segir hún en hún segir Ágústu ekki hafa farið í skólann í dag.

Ánægð með viðbrögðin

Hún segir viðbrögðin við Facebook færslunni vissulega hafa verið svolítið yfirdrifin, enda hafi hún aldrei búist við að þau færu svo víða. Þær mæðgur séu þó þakklátar fyrir stuðninginn. „Það auðvitað gengur ekki að segja ekki neitt. Ég hreinlega varð að vekja athygli á þessu einhvern veginn. Ég vona að þetta vekji bæði fullorðna og börn til umhugsunar.“

Hún kveðst hafa sent umsjónarkennara Ágústu skilaboðin í fyrradag sem hafi þá hafa samband við stjórn skólans. Hún er afar ánægð með viðbrögð skólayfirvalda sem hafi brugðist við af fagmennsku. „Mér skilst að það sé núna búið að fara í alla áttunda bekkina og tala við krakkanna um þetta, og þá eigi einnig að senda tölvupóst á alla foreldra til að láta þá vita og til að hvetja þá til þess fylgjast með því sem börnin þeirra eru að gera. Vonandi mun Ágústa geta farið í skólann á morgun.“

Hún segir Ágústu heppna að því leyti að í skólanum sé lítill stúlknahópur sem standi við bakið á henni. Þær eru vinkonur hennar. „Hennar lausn hefur verið að leita í fimleika og tónlist og í hundana, sem hún elskar,“ segir hún og bætir við að það sé ómögulegt að skilja hvað það sé í fari dóttur hennar sem geri það að verkum að hún er ekki tekinn inn í hópinn.

„Stundum er nóg að einhver einn segi eitthvað slæmt um einhvern og þá fær viðkomandi á sig stimpil. En dóttir mín er ekkert öðruvísi en aðrir krakkar. Hún er yndisleg stelpa, hjartahlý og góð og má ekkert aumt sjá. Ef einhver á bágt þá er hún fyrsta manneksjan til að rétta fram hjálparhönd.“

Mikilvægt að segja frá

Í samtali við blaðamann segir Ágústa að sér líði bærilega í dag en hún treysti sér ekki í skólann. Hún ætlar að sjá til hvort hún fari á morgun. Hún kveðst vera í raun orðin vön því að aðrir krakkar útiloki hana úr hópnum: það hafi átt sér stað svo lengi sem hún man eftir sér.

Hún kveðst hafa verið meðlimur á ask.fm á síðunni í tvö ár, og notað síðuna til að spjalla við vinkonu sína, sem er of ung til að vera á Facebook. Á þeim tíma hafi hún vissulega fengið send þó nokkur fengið andstyggileg skilaboð, og viti einnig um fleiri sem hafi lent í því, þar á meðal vinkona hennar. Þau skilaboð séu þó ekkert í líkingu við þau sem henni barst á laugardaginn. Hún gerir ekki ráð fyrir að nota síðuna meir. „Það var ofboðslega erfitt að sjá þetta. Mér brá alveg svakalega, þetta var svo ljótt. Ég hef áður fengið skilaboð en ekki nærri því eins slæmt.“

Hún hvetur þá sem lenda í neteinelti til þess að segja hiklaust frá, í stað þess að byrgja hlutina inni. Það leiði sjaldnast gott af sér. „Ég er fegin að ég sagði loksins frá enda var ég ekki búin að segja frá því í tvö ár að ég væri að fá svona skilaboð.“

Hún er þakklát fyrir vinkonur sínar sem styðja við bakið á henni, og þá hafa einnig fjölmargir aðilar, fjölskyldumeðlimir og vinir fjölskyldunnar haft samband seinustu daga.Hún gerir sér grein fyrir að enginn sendir skilaboð af þessu tagi nema eiga virkilega bágt. „Það hjálpar þér ekkert að líða betur með því að senda svona. Sá sem sendir svona skilaboð hlýtur bara að líða virkilega illa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Í gær

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla