fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

„Ég er á fimmtugsaldri og svo miklu meira en bara barnatímaskvísa“

Ásta Hrafnhildur tekin við Séð og heyrt

Ritstjórn DV
Föstudaginn 27. maí 2016 13:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir er tekin við ritstjórn tímaritsins Séð og heyrt. „Já, ég er alveg til í viðtal,“ sagði hún þegar Ragnheiður Eiríksdóttir hafði samband við kollegann og fyrrverandi skólasystur sína úr Menntaskólanum í Hamrahlíð. Þær hittust á kaffihúsi í miðbænum, umkringdar ferðamönnum, og spjölluðu um köttinn Kela, líf húsmæðra í Garðabænum, ástina á dansi og dásamlega hversdagsleikann.

Ásta er alveg eins og þegar ég hitti hana fyrst á Matgarði í MH. Við vorum samferða gegnum menntaskólann og höfum verið góðar kunningjakonur síðan. Hún er kennari og verkefnastjóri að mennt, en fjölmiðlar hafa líka leikið stórt hlutverk á starfsferlinum. Við byrjum spjallið þó á persónulegum nótum, enda er Ásta nýlega skilin. Ég spyr hana hvernig nýja lífið gangi.

Nýskilin eftir 15 ára hjónaband.

Sátt eftir skilnaðinn Nýskilin eftir 15 ára hjónaband.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævi minni. Hvorugt okkar gerði hinu gott. Við vorum á tímamótum þgar við hittumst. Hann kominn heim úr námi erlendis og ég á síðasta árinu í Stundinni okkar. Við könnuðumst hvort við annað úr Garðabænum og höfðum sömu sýn og gildi, vildum stofna fjölskyldu. Við eignuðumst tvo stráka, en ég átti einn strák fyrir, og ég tók húsmóðurhlutverkið mjög alvarlega. Ég er frægur moppari og er mjög náin vörulínu Ajax, ásamt því að vera verulega liðtæk í eldhúsinu. Við fórum kannski aðeins of hratt, en hvenær gerir fólk þetta svo sem rétt? Bæði áttum við stórar fjölskyldur í Garðabæ svo grunnurinn var góður og öruggur. En vinnan eyðileggur líf fólks. Ég var í hálfu starfi sem kennari og heimavinnandi á móti. Svo var ég íþróttafulltrúi í fimm ár. Hann var í bankageiranum, vann brjálæðislega mikið og var mikið í burtu. Ég ætlaði samt að láta þetta ganga og tók það á þrjóskunni. Þetta var á þeim tíma sem flugeldurinn tók á loft í peningageiranum og margar fjölskyldur fundu fyrir auknu álagi á þessum tíma. Við vorum bara ein hjón af mörgum. Margir skildu, lentu í vanda og hrunið hafði auðvitað margvíslegar afleiðingar. Þegar heil þjóð dettur í það verða timburmennirnir miklir.“

Pínulítið raðhús og gömul gleraugu

Voruð þið með tvo Range Rovera og alltaf að skipta um eldhúsinnréttingu? Ásta hlær. „Nei, aldeilis ekki. Ég var meira og minna heima, átti hræðilega ljótan og gamlan stubbastrætó og bjó í pínulitlu raðhúsi, með gömul gleraugu og fór sjaldan í hárlitun. Vinnugallinn minn var strigaskór, gallabuxur og flíspeysa, á meðan konurnar í kring voru á hælum og í Karen Millen-drögtum.“

Vinnugallinn minn var strigaskór, gallabuxur og flíspeysa, á meðan konurnar í kring voru á hælum og í Karen Millen-drögtum.

Hún er sátt við skilnaðinn og sannfærð um að ákvörðunin hafi verið þeim báðum til góðs. „Auðvitað er skilnaður stór ákvörðun og hún var alls ekki tekin í skyndi. Ég gat bara ekki séð að við mundum verða besta útgáfan af sjálfum okkur með því að halda áfram að vera saman. Svo við lokuðum fyrirtækinu og stofnuðum í staðinn tvö dótturfyrirtæki – tvær nýjar fjölskyldur sem börnin okkar tilheyra. Ég man eftir skilnuðum þegar ég var á unglingsaldri. Þeir skóku Garðabæinn og það var mikið slúðrað. Það er alls ekki langt síðan þetta þótti stórmál. Um daginn tók ég viðtal við ágætan mann sem sagði að það væri ekkert vit í manni fyrr en eftir fertugt – ég er bara dálítið sammála honum. Við byrjuðum saman þrítug og 15 árum síðar var þessu nánast sjálfhætt.“

7 mínútur á Tinder

Ekki segist Ásta vera að leita að kærasta, en hún hefur þó ekki þörf fyrir að taka sér langan tíma í einveru. „Ég held að það sé ekki hægt að leita. Annaðhvort eignast maður kærasta eða ekki. Stundum fer lífið í áttir sem maður átti síst von á. En ég held að það sé ekki hollt að vera lengi ein á besta aldri.“

Mig vantar eiginlega leiðbeiningabók fyrir konur sem hafa verið heimavinnandi í Garðabæ og vilja ná sér í kærasta.

Hún er sem sagt ekki farin að deita að ráði eftir skilnaðinn og segist hafa tollað í heilar sjö mínútur á stefnumótaforritinu Tinder. „Ég fann ekki fyrir þessari stórkostlegu breytingu sem sumir tala um. Að skyndilega sé reynt og daðrað gegndarlaust við nýlega einhleypa. Tinder fannst mér mjög undarlegt fyrirbæri, ég sá frændur mína þar og var alltaf að ýta óvart á einhverja takka. Ég get ekki verslað föt frá Kína á netinu, og ekki heldur valið mér karlmenn til að kynnast. Mig vantar eiginlega leiðbeiningabók fyrir konur sem hafa verið heimavinnandi í Garðabæ og vilja ná sér í kærasta.“

Ásta er reglulegur gestur í Brennslunni á FM og segir þáttastjórnendur reglulega reyna að fá upp úr henni upplýsingar um ástarmálin. „Ég vitna nú bara í Supremes, „you can’t hurry love“!“ En hvernig mann skyldi ritstjórinn Ásta vilja finna sér? Ég spyr hana hvaða þrjú atriði séu mikilvægust í fari hans. „Ég fell fyrir karakterum, og það getur verið ofsalega mismunandi hvað það er sem heillar. Hann verður í fyrsta lagi að vera brjálæðislega skemmtilegur, sko að mínu mati. Hann verður að kunna vel við ketti. Það er ekki umsemjanlegt. Sé hann með ofnæmi er það hans vandamál. Það væri líka mjög gott að hann nyti þess að dansa. Reyndar þarf hann ekki að kunna mikið, en hann verður að þola að ég sé sídansandi. Svo mundi alls ekki spilla fyrir að hann væri smá nörd.“

Bókasafnsnörd

Mannkynssagan, ævisögur og alls konar fróðleikur hafa alltaf heillað Ástu. „Ég er sögufíkill og forvitin um fólk. Ég hef ekkert gaman af því að sitja á bar í París bara til að drekka. Ég vil vita allt um þjóninn Pierre, hvaðan hann er og hvernig hann lenti í þessu starfi. Þetta hefur verið ríkt í mér alla tíð. Ég hékk stöðugt á bókasafninu í Garðabæ sem krakki og las allt sem þar var að finna. Meira að segja læknatalið, þegar ég var búin með allt annað. Ég hef alltaf verið glögg á ættfræði og hverjir eiga börn með hverjum og hverjir ekki. Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða Astrid Lindgren, hún var hetjan mín. Líka Mozart og Pavarotti. Ég var langmest skotin í Pavarotti. Þegar ég var 8 eða 9 ára kom hann til Íslands að halda tónleika, en ég var pínd í frí til Spánar í staðinn. Ég man eftir að hafa tekið frekjukast í forstofunni þegar við vorum á leiðinni á flugvöllinn. Þetta sat alltaf í foreldrum mínum því þau fóru á tónleika í Lúxemborg með honum þegar ég var þrítug og ætluðu varla að þora að segja mér frá því.“

Móðurmissir og meðvirkni

Móðir Ástu, Sölvína Konráðs, lést á aðfangadag í fyrra eftir langa baráttu við krabbamein. „Mamma hafði oft lent á sjúkrahúsi og risið aftur upp, verið hörð af sér, en í desember var nokkuð dregið af henni. Hún var ansi sérstök eins og nafnið hennar var, sterkur og erfiður persónuleiki, en ég á henni mikið að þakka. Hún hefði orðið 67 ára gömul á jóladag, en við segjum að hún hafi ekki viljað verða löggilt gamalmenni. Hún var alltaf mamma rokk, og það hefði verið í hennar anda.“

Ég tel mig græða á meðvirkninni. Í staðinn fyrir að dvelja við vandræði, þarf að nýta þau til góðs

Ásta segist vera meðvirk, eins og margir aðrir Íslendingar, en hún tekur annan pól í hæðina en margir gera. „Ég tel mig græða á meðvirkninni. Í staðinn fyrir að dvelja við vandræði, þarf að nýta þau til góðs. Það að hafa verið meðvirkt barn og ungmenni hefur gert mig lausnamiðaðri og gefið mér hæfni til að bregðast við erfiðum aðstæðum á yfirvegaðan hátt. Á heimilinu var oft ekki allt með felldu, en á maður að sitja og grenja í 40 ár eða gera eitthvað af viti? Ég tók ábyrgð mjög snemma og stundum vissi ég ekki hvor okkar væri móðirin og hvor dóttirin.“ Síðustu árin bjó Sölvína í Garðabæ og var mjög náin Ástu og fjölskyldu hennar. „Mamma og pabbi hafa alltaf búið í Garðabæ og dagskráin mín gekk mikið út á samvistir við mömmu. Við töluðumst við 4–5 sinnum á dag, svo ýmislegt breyttist við hennar fráfall. Ég sakna hennar á hverjum degi, en það eru aðallega hversdagslegu hlutirnir sem kveikja söknuðinn. Steiktur fiskur og sumargjafir úr Fjarðarkaupum. Það síðasta sem strákarnir mínir gerðu með ömmu sinni var að skreyta jólatréð. Hún var ofstækisfullur jólaskrautssafnari. Ég er þakklát fyrir að þetta sé síðasta minning þeirra með henni.“

Ímynd barnaþáttastjórnandans er lífseig.

Vill láta taka sig alvarlega Ímynd barnaþáttastjórnandans er lífseig.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Séð og heyrt

Rétt fyrir fund okkar Ástu hafði hún skilað af sér fyrsta tölublaðinu af Séð og heyrt sem hún stjórnar. Hún tók við keflinu af Eiríki Jónssyni eftir að hafa unnið með honum í eitt og hálft ár. „Ég er varla lent en tilfinningin er frábær. Ég er með meistaragráðu í verkefnastjórnun og gat farið yfir tékklistana mína í vikunni. Ég vissi hvað

Það á að vera gaman að birtast í Séð og heyrt.

mundi ganga vel og hvað mundi klikka, svo ekkert kom beint á óvart. Pressan í starfinu er að koma með eitthvað geðveikislega æsandi á hverja forsíðu, en stundum er bara ekkert í gangi. Þegar ég var yngri var mér oft legið á hálsi fyrir að vera hugmyndarík og uppátækjasöm, en það er kostur í dag. Við Eiríkur áttum gott skap saman og unnum vel saman. Ég lærði heilmikið af honum, þessum ref í bransanum sem á mörg líf eins og kettirnir. Núna er ég að safna mínu liði, því Séð og heyrt er liðsheildarverkefni og langt frá því að vera einnar konu starf. Það gildir um alla fjölmiðla.“

Nýji ritstjórinn segir að það eigi að vera skemmtilegt að vera í Séð og heyrt!

Jákvæðnin í fyrirrúmi Nýji ritstjórinn segir að það eigi að vera skemmtilegt að vera í Séð og heyrt!

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar Eiríkur settist í ritstjórastólinn á sínum tíma tóku lesendur eftir talsverðum breytingum á blaðinu. Í það minnsta á fólkinu sem fjallað var um. „Eiríkur áttaði sig á að eldra fólk er líklegra til að kaupa blað. Samkeppnin við netið er hörð, en hann tók réttan pól í hæðina. Við verðum samt að þjóna mörgum aldurshópum, og eldra fólkið á börn og barnabörn og vill lesa um sigra þeirra. Ég mun ekki leggja áherslu á að yngja blaðið upp, þó að ég sé yngri en Eiríkur. Meginmarkmið okkar er að gera lífið skemmtilegra. Við erum óheppin að vera ekki með kóngafólk á Íslandi, en við viljum lesa um fína og fræga fólkið. Fá sögur af Íslendingum sem gengur vel í útlöndum, sjá hvernig fólk býr, hverjir eru saman og hverjir eignast börn. Svoleiðis mál eru okkar meginlína.“

Ástu finnst mikilvægt að fólk sé óhrætt við blaðið. „Það á að vera gaman að birtast í Séð og heyrt. Fólk á að vilja vera gæinn sem einhver er að lesa um uppi í sumarbústað eftir fimm ár.“

Ásta og Keli

Ásta sá um Stundina okkar í 5 ár, 1997–2002. Hún og Kötturinn Keli stálu hjörtum barna á öllum aldri og margir verða dreymnir og nostalgískir á svip þegar minnst er á þau. Ég er forvitin um það hvernig samstarfið kom til og hvaðan hugmyndin um hreinskilna loðboltann Kela kom. „Hugmyndin var eldgömul og kviknaði þegar ég var að ljúka grunnskóla og sá þátt í hollenska MTV, þar sem stelpa og köttur voru þáttastjórnendur. Við Steinn Ármann vorum búin að þekkjast í fjölmörg ár áður en ég fékk hann til að leika köttinn Kela. Við kynntumst þannig að hann gekk upp að mér á Hressó og sagði „veistu hver ég er?“ ég neitaði, „ég er Flóridana-gæinn,“ ertu hvað? sagði ég, “Flóridana-gæinn“ endurtók hann og varð pínu brjálaður yfir því að ég skyldi ekki vera búin að sjá Floridana-auglýsinguna sem hann lék í. Svo sagði hann að ég væri miklu sætari með gleraugu og við höfum verið vinir síðan. Þegar kom að Kela voru fáir aðrir sem komu til greina. Hann hélt reyndar að hann ætti að vera köttur í fullri stærð, en hans örlög urðu að liggja á hnjánum við hlið mér í þessi fimm ár.“

Það er greinilegt að Ástu þykir vænt um árin í sjónvarpinu, Kela og Stein Ármann. „Hann kenndi mér mikilvæga lexíu, enda reyndur í leikmyndadeild sjónvarpsins. Hann útskýrði fyrir mér að sjónvarpsfólk kæmi og færi stöðugt, en fólkið í stoðdeildunum væri aðalmálið. Stjörnuljósin brenna hratt upp, en sminkan og leikmyndafólkið eru alltaf á sínum stað.“

Fjölbreytnin réð ríkjum á þáttum Ástu og Kela. „Kannski var þetta dálítið meira í stíl við Séð og heyrt en núna. Ég fylgdist vel með öllu sem var að gerast og við tókum upp vikulega. Með því móti fær maður allt annan brag en þegar meira er tekið upp fyrirfram. Sem barn var ég sólgin í þætti Davids Attenborough og Carls Sagan, og lærði svo ótrúlega mikið af þeim. Sjónvarpið er sterkur fræðslumiðill. Þetta snýst ekki um fíflaskap, eða að tala niður til barna, heldur að kenna þeim á skemmtilegan hátt. Það er ákveðin kúnst að gera fræðslu skemmtilega.“

Vitjunartíminn

Síðustu mánuðina í sjónvarpinu var Ásta kasólétt, hún eignaðist son skömmu eftir lokaþáttinn. „Ég verð svo sjúklega ólétt, alveg allan hringinn. Þetta var góður tími til að hætta. Ég var búin að vinna með þremur framleiðslustjórum, búin að fara hring um landið og vera mjög virk í að fylgjast með barnamenningu þessi fimm ár. Hætta ber leik þá hæst stendur, og það er mikilvægt að þekkja sinn vitjunartíma og ég var reiðubúin að einbeita mér að öðru. Ég er mjög stolt af öllu efninu sem liggur eftir okkur. Fullt af krökkum kom í stúdíóið hjá okkur, og margir þeirra eru framarlega í tónlist, leiklist og menningu í dag.“ Ég spyr Ástu hvort hún gæti hugsað sér að snúa aftur í sjónvarp. „Já, ég væri alveg til í það, ef eitthvað skemmtilegt byðist. Ég veit samt ekki hvort maður festist á filmu eftir fertugt. Ef það er til hrukkufilter slæ ég kannski til.“

Dans og hlaup að næturlagi

Ásta er á fullu í dansi. Hún elskar að dansa og er meira að segja hluti sýningarhóps. „Dans er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég var alltaf svo léleg í íþróttum í skóla, skrópaði, reif kjaft og skildi ekki boltaleiki. Ég kynntist djassballett sem unglingur í Bandaríkjunum og áttaði mig á að þetta væri gaman. Ég hafði samt ekki trú á mér sem dansara og eyddi miklu meiri tíma á bókasöfnum. Í Garðabænum byrjaði ég í dansi hjá Dísu, sem núna rekur World Class, og í menntó fór ég í samkvæmisdansa. Mig vantaði dansherra og gabbaði pabba minn með. Um fertugt uppgötvaði ég svo Zumba hjá Tönju Dimitrovu, og þá var ég bara komin heim. Tanja er ótrúleg, svo litrík og alltaf vel skreytt og með hárkollur eða eitthvað. Í Zumba eru grunnspor úr djassballett og samkvæmisdansi, og þú þarft ekki mótaðila. Ég er núna meðlimur í Dansdívuhópnum og við skemmtum við ýmis tækifæri. Brussur á ýmsum aldri sem breytumst í dívur og erum ósigrandi frábærar. Dans er besta geðlyf í heimi og ég dansa heima hjá mér daglega.“

Ásta er líka hlaupari og hleypur meira að segja að næturlagi. „Í nótt gat ég ekki sofnað, enda skil á fyrsta blaðinu mínu yfirvofandi. Ég var komin í ótrúlega flottan bleikan silkináttkjól, reif mig úr honum og fór í hlaupagallann. Svo setti ég Rammstein í eyrun og hljóp 6 kílómetra við „Du hast“. Ég er samt ekki töff hlaupari, meira í ætt við Phoebe í Friends.“

Embættið

Það liggur beint við að spyrja Ástu hvernig henni hugnist baráttan um forsetastólinn, nú þegar líður að kosningum. „Ég hef alltaf litið svo á að embætti forseta eigi að vera óháð og sjálfstætt, og ég tel að við þurfum að dansa í takt við þarfir nútímans. Öllum er hollt að þekkja sinn vitjunartíma, hvort sem er í pólitík eða öðru landslagi. Það er ákaflega brýnt fyrir þjóðina að nýta Bessastaði ekki sem endurvinnslustöð fyrir gamla stjórnmálamenn. Við eigum að fá þangað hlutlausan aðila sem hefur ferska sýn og er óumdeildur.“

Ásta hleypur að næturlagi í Garðabænum.

Dansandi hlaupari Ásta hleypur að næturlagi í Garðabænum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það hlýtur að vera gósentíð framundan hjá Ástu og félögum á Séð og heyrt vegna forsetakosninganna. „Við fylgjumst með öllu og viljum endilega að fólk sendi okkur ábendingar, um frambjóðendur og aðra. Við höfum reynt að gera öllum frambjóðendum jafnhátt undir höfði og hlökkum til að fylgjast með þeim sem taka við búi á Bessastöðum. Ólafur Ragnar prýðir forsíðu blaðsins núna. Blaðið og Ólafur hafa haldist í hendur í 20 ár og það er gaman að hafa þá sögu.“

Meira en stelpa með kött

Ég hef oft heyrt fólk tala um Ástu sem stelpuna sem var með Stundina okkar. Ennþá í dag, tuttugu árum seinna. Ímyndin er lífseig. „Margir halda að ég sé skotta með krullur og gleraugu og það sé ekki mark á mér takandi. Sem er drepfyndið því ég varð gráhærð 18 ára. Auðvitað vil ég að fólk taki mig alvarlega, ég er á fimmtugsaldri og svo miklu meira en bara barnatímaskvísa, þó að fólk muni mjög vel eftir mér og Kela. Ég held áfram í lífinu eins og allir aðrir.“

„Kannski hljómar það klisjukennt, en samt ekki,“ segir Ásta Hrafnhildur og hugsar sig um. „Ég kann í grunninn mjög vel að meta einfaldleika lífsins. Hann er svo dýrmætur. Ég þarf ekki meira en lóuna og að hafragrauturinn hafi heppnast til að verða hamingjusöm í dagsins önn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna
Fókus
Fyrir 5 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu