fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Góa upplifði martröð eftir að hafa innbyrt nasistasýru: „Það versta sem ég hef upplifað“

Lýsir upplifuninni sem versta kvöldi ævi sinnar – Vill vekja upp umræður um skaðsemi ofskynjunarlyfja

Auður Ösp
Þriðjudaginn 29. nóvember 2016 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Af því að ég fann fyrir öllu líkamlega þá var ég sannfærð um að þetta væri allt saman raunverulegt. Þetta var algjör hryllingur. Þetta er það versta sem ég hef nokkurn tímann upplifað,“ segir hin 18 ára gamla Guðbjörg Elín Góa Gunnarsdóttir, sem ávallt er kölluð Góa. Þann 29. október í fyrra fór Góa í partí í Laugardalnum og innbyrti hálfa svarta töflu, með hakakrossi framan á. Umrætt efni er sýrutafla sem fengið hefur viðurnefnið nasistasýra, eða „hakakrossinn.“

Góa líkir áhrifunum af efninu við það að vera stödd í hroðalegri martröð og geta ómögulega vaknað. Höfuðið fylltist af ranghugmyndum og allt sem vekur með henni hræðslu varð að veruleika.

Í samtali við blaðamann kveðst Góa vilja koma fram með frásögn sína í þeirri von að vekja fólk, og þá sérstaklega ungmenni, til umhugsunar um skaðsemi harðra fíkniefna, og þá sérstaklega ofskynjunarlyfja.

„Ég held að það sé mikilvægt að vera meðvitaður um að taka ábyrgð á sjálfum sér og láta ekki aðra stjórna því hvað manni finnst eða hvað maður vill. Maður er miklu sterkari ef maður þorir að segja bara: „Nei, ég vil þetta ekki.“

Fólk sækir í þessi efni af því að þá finnur það hamingju og líður vel, en bara í mjög stuttan tíma. Daginn eftir líður manni hörmulega. Síðan þarf ekki nema aðeins eitt skipti þar sem allt fer illa. Mér finnst ég einfaldlega ótrúlega heppin að vera á lífi og reyni að hugsa þannig í staðinn fyrir að vera alltaf að skamma sjálfa mig endalaust.“

„Gjörsamlega út úr heiminum og stórhættulegir“

„Gjörsamlega út úr heiminum og stórhættulegir“

Í frétt DV frá 6. nóvember kom fram að ný tegund af sýrutöflum væri komin í umferð hér á landi. Svo virðist sem að taflan sé stundum markaðssett sem e-tafla með virka efninu MDMA en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er ekkert MDMA í töflunni – aðeins LSD eða sýra. Hægt er að greina þessa töflu frá öðrum töflum því búið er að stimpla mynd af hakakrossinum á hana.

Fram kom að lögreglumenn væru varaðir við að handleika töflurnar og þá kom fram að lögreglumenn í Reykjavík hefðu séð afleiðingar á neyslu töflunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Þá var greint frá því að fjölmargir hefðu verið fluttir á sjúkrahús í kjölfar neyslu á töflunni.

„Taflan veldur miklum áhrifum, komið hafa upp mörg mál hjá lögreglu þar sem einstaklingar sem hafa neytt töflunnar eru gjörsamlega út úr heiminum og stórhættulegir sjálfum sér og öðrum. Lögreglumenn sem og aðrir eru varaðir við því að koma við töfluna með berum höndum líkt og önnur fíkniefni en hættan felst í því að ef LSD er handleikið með berum höndum þá getur efnið smitast í gegnum húðina og viðkomandi getur fundið til áhrifa,“

sagði í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem benti jafnframt á að einstaklingar undir áhrifum töflunnar gætu verið mjög varasamir með brenglað sársaukaskyn.

Þá var nokkrum dögum síðar greint frá afskiptum lögreglunnar á Suðurnesjum af pilti sem veiktist illa eftir að hafa neytt hinnar svokölluðu nasistasýru en í tilkynningu kom fram að sá piltur hefði verið „gjörsamlega út úr heiminum, ofsafenginn og til alls vís.“ Hann hefði beitt annan einstakling ofbeldi og að lokum dottið í gólfið og froðufellt.

„Skömmu síðar hófst hamagangurinn aftur og var þá gripið til þess ráðs að kalla lögreglu til og biðja um að hann yrði fjarlægður. Við húsleit í herbergi hans fundust tvær töflur með hakakrossmerki og lögðu lögreglumenn hald á þær,“

sagði jafnframt í umræddri tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Var loksins ein af hópnum

Góa átti erfitt uppdráttar félagslega þegar hún var í grunnskóla. Á fyrsta árinu í Menntaskólanum í Hamrahlíð kynntist hún hins vegar hópi krakka sem leyfðu henni að hanga með þeim. Hún fékk viðurkenninguna sem hún hafði alltaf þráð. „Ég átti loksins vini, ég var loksins orðin hluti af hópi og mér fannst það æðislegt.“

Í gegnum nýju vinina kynntist Góa kannabisefnum. „Ég ætlaði mér aldrei inn í þennan fíkniefnaheim, ég var alltaf mjög dugleg í skóla og á fullu í tónlist og íþróttum. En ég vildi vera partur af hópnum og ég gat ekki hugsað mér að missa hann. Ég byrjaði að reykja eina og eina jónu í partíum en sá ekkert að því. Þetta varð eðlilegur hlutur fyrir mér.“

Góa fór síðan að neyta harðari efna á borð við spítt, kókaín og MDMA. „Áður fyrr leit ég alltaf niður á fólk sem neytti fíkniefna en ég fattaði ekki fyrr en eftir á, eftir þetta atvik, að ég var kominn á þann stað sjálf, og sá þá hvað ástandið var virkilega orðið slæmt.“

Kvöldið 29. október 2015 var örlagaríkt í lífi Góu. Hún fór ásamt þáverandi kærasta í partí heima hjá sameiginlegum vini þeirra, þar sem ætlunin var að neyta sveppa. Góa hafði aldrei prófað að taka inn ofskynjunarlyf en innbyrti töflu sem var svört með hakakrossi framan á.

„Ég hafði aldrei séð svona töflur áður en var sagt að þetta væri MDMA. Að lokum samþykkti ég að taka hálfa svona töflu.“

Sá þyrlur og leifturljós úti um allt

„Allt í einu varð ég sjúklega hrædd og ég sagði við strákana sem voru með mér inni í herberginu að veggirnir væri farnir að hreyfast. Þeir fóru að skellihlæja og sögðu mér að ég væri að trippa, þetta væri sýra sem við værum að taka. Ég sá tvær manneskjur úr partíinu koma inn í herbergið, andlit þeirra voru orðin risastór og augun pínulítil og þær litu út eins og álfar.

Vinur minn, sem sat við hliðina á mér, byrjaði að æla og ég sá snáka, lirfur og köngulær koma út úr ælunni. Ég hugsaði þá að þetta hlyti að vera raunverulegt en ekki ímyndun, því ég fann fyrir pöddunum skríðandi á mér og ég varð logandi hrædd. Ég hugsaði með mér að ég þyrfti að komast út úr úr húsinu, strax.“

„Ég sá þyrlur og leitarljós úti um allt og var sannfærð um að heimurinn væri að farast og þriðja heimsstyrjöldin byrjuð“

Það sem Góa man næst eru brot sem hún hefur sjálf sett saman, úr frásögnum annarra og eigin minni. Hún hljóp um í Laugardalnum á nærfötunum einum fata, á ísköldu nóvemberkvöldi.

„Ég sá þyrlur og leitarljós úti um allt og var sannfærð um að heimurinn væri að farast og þriðja heimsstyrjöldin byrjuð.“

Hún man einnig eftir að hafa fundið fyrir óbærilegum líkamlegum kvölum.

„Ég var allt í einu orðin viss um að ég væri ólétt. Mér var sjúklega illt, með sáran sting. Ég horfði niður eftir líkama mínum og sá að ég var heilmikinn skurð á maganum. Ég prófaði að setja höndina inn í skurðinn og náði að draga líffæri úr mér. Ég var öskrandi og grátandi úr hræðslu og sársauka.“

Góa ákvað því næst að hún yrði að deyja, og binda endi á sársaukann. „Ég ætlaði að enda þessa martröð af því að hún var veruleiki fyrir mér. Ég sá bíl nálgast á götunni og ákvað að hlaupa fyrir hann því ég ætlaði að láta hann keyra fyrir mig. Sem betur fer var lítill hraði á bílnum og því lenti hann ekki á mér.“

Fyrir ótrúlega tilviljun var umræddur bíll lögreglubíll og undir stýri sat lögreglumaðurinn Guðmundur, „Gummi lögga“ sem undanfarin ár hefur sérhæft sig í að leita að hinum svokölluðu týndu börnum. Einhver hafði þá heyrt skaðræðisvein Góu og haft samband við lögreglu. Góa var í kjölfarið flutt á sjúkrahús, en erfitt reyndist fyrir sjúkraflutningamenn og lögreglu að ná sambandi við hana. Hún gat því ekki sagt þeim deili á sér, enda vissi hún ekki hvað hún heitir eða hver hún var.

„Ég var öskrandi og grátandi úr hræðslu og sársauka.“
Fann fyrir óbærilegum líkamlegum kvölum „Ég var öskrandi og grátandi úr hræðslu og sársauka.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég vakna því næst upp á spítalanum og sé fjölda manns standandi yfir mér. Einn læknirinn er með andlitið af afa mínum og segir að þetta sé allt saman bara djók og það sé verið að gera sjónvarpsþátt um mig. Ég er sífellt að detta út og vakna aftur.“

Flakkaði úr einum veruleika í annan

Foreldrar Góu fengu símtal þar sem þau voru stödd í afmæli afa hennar og voru upplýstir um ástand dóttur sinnar. Dæla þurfti eitrinu upp úr Góu, sem fékk síðar að vita að hún hefði innbyrt rúmlega fjórfaldan skammt af sýru, ásamt blöndu af spítti og rottueitri. Hún dvaldi næturlangt á sjúkrahúsinu og man því næst eftir sér í rúminu heima, ennþá að ráfa á milli svefns og vöku og hafði enga hugmynd um hvað væri raunveruleikinn og hvað ekki.

„Á einum tímapunkti hélt ég að ég væri dáin. Ég flakkaði á milli veruleika. Einn veruleikinn var sá að ég var búin að eiga barnið mitt. Annar veruleiki var sá að ég var heima að kúra með kærastanum mínum og ekkert hafði gerst. Á öðrum tímapunkti horfði ég á pabba minn standa við rúmið mitt, sá húðina á honum bráðna og hann verða að beinagrind. Ég vissi ekkert hvað var raunverulegt og hvað ekki.“

Góa lýsir því að loks hafi raunveruleikinn farið að síast inn. „Ég vakna og sé mömmu koma inn í herbergið mitt, ég hágræt og spyr: „Er þetta þú, mamma?“ Hún svarar játandi. Það fer að renna upp fyrir mér að ég er heima, hjá mömmu og pabba og eitthvað virkilega slæmt hefur gerst. Það tók mömmu samt marga klukkutíma að sannfæra mig um að ég væri lifandi. Ég var ennþá að sjá þyrlur úti um allt og sárið á maganum.“

Góa var hársbreidd frá dauðanum umrædda nótt. Hún þakkar fyrir að hafa innbyrt hálfa töflu en ekki heila. Annars er óvíst að hún væri á lífi. „Ég hefði svo auðveldlega getað misst meðvitund og aldrei vaknað aftur, segir hún og vísar til tveggja íslenskra stúlkna sem dóu af völdum fíkniefna. Önnur þeirra lést árið 2013 eftir of stóran skammt af MDMA og hin lést eftir að hafa innbyrt e-töflu í júní 2015.

„Ég gat ekki hætt að gráta, var titrandi og fékk sífellt kvíðaköst“

Erfið eftirköst

Næstu vikur og mánuðir reyndust Góu gríðarlega erfiðir, andlega og líkamlega. Það tók rúmlega sex vikur fyrir efnið að skolast út úr líkamanum. Vanlíðanin var að sögn Góu svo mikil að fyrst um sinn að hana langaði mest til að deyja.

„Líkaminn var bara í rusli. Ég gat ekki hætt að gráta, var titrandi og fékk sífellt kvíðaköst. Ég var ennþá að finna fyrir þessari yfirþyrmandi hræðslu, þessari svakalegu ofsahræðslu. Ég gat ekki borðað og ég gat ekki heldur sofið vegna þess að þegar ég sofnaði sá ég lögguljós úti um allt og vaknaði hágrátandi og öskrandi. Mamma og pabbi þurftu hreinlega skiptast á að sofa hjá mér af því að ég gat ekki sofið ein,“ segir Góa sem þurfti að lokum á svefnlyfjum að halda til að geta sofið, og tekur þau enn. „Mig dreymir samt ennþá drauma sem mér finnst vera raunverulegir og það er mjög óhugnanlegt. Það er eins og öll skynjunin hafi breyst.“

Sneri við blaðinu

Góa hætti í kjölfar atviksins að umgangast vinahópinn, sem hefur haldið dóplíferninu áfram. Hún gerði tilraun til þess að halda áfram í námi en það reyndist henni erfitt.

„Mér fannst eins og allir væru að horfa á mig og dæma mig í skólanum. Það spilaði líka inn í að um leið og ég hætti neyslunni þá hætti að vera auðvelt að tala við fólk. Allir vinirnir hurfu og ég þurfti að byrja upp á nýtt með allt. Ég sá líka eftir þetta að þetta voru aldrei alvöru vinir.“

Góa hefur ekki snert fíkniefni eftir þetta örlagaríka kvöld. Hún gekkst ekki undir fíkniefnameðferð í kjölfar atviksins en segir það sem gerðist hafa kippt henni rækilega niður á jörðina. Í raun hafi það dugað til þess að hún endurskoðaði líf sitt.

„Núna þegar ég lít til baka þá kemur mér á óvart hvað það er í raun mikið um dópneyslu hjá ungu fólki“

„Ég vil aldrei lenda í þessu framar og það hefur verið nóg til þess að ég hef ekki snert á neinu eftir þetta. Ég er með mynd af Gumma löggu í skissubókinni minni og geymi hana til að minna mig á þetta.

Núna þegar ég lít til baka þá kemur mér á óvart hvað það er í raun mikið um dópneyslu hjá ungu fólki. Mér finnst þetta vera allt í kringum mig. Ég hef verið á ganginum í MH og heyrt út undan mér: „Hei, ég var að fá mér jónu í gær“. Það er eins og fólki finnist þetta miklu minna mál en áður, og það er ekkert mál að verða sér úti um þetta í dag,“ segir hún. „Krakkar fá forvarnarfræðslu í grunnskóla en þú hugsar alltaf að þetta muni aldrei koma fyrir þig.“

Afleiðingarnar af neyslu efnisins reyndust Góu erfiðar: „Ég gat ekki hætt að gráta, var titrandi og fékk sífellt kvíðaköst.“
Erfið eftirköst Afleiðingarnar af neyslu efnisins reyndust Góu erfiðar: „Ég gat ekki hætt að gráta, var titrandi og fékk sífellt kvíðaköst.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Góa hefur gengist undir hugræna atferlismeðferð hjá sálfræðingi og tekur eitt skref í einu. Hún einbeitir sér nú að því að byggja sig upp. Hún stundar nám á sjónlistabraut í Myndlistaskólanum í Reykjavík og lítur björtum augum á framtíðina.

„Ég byrjaði í raun ekki að jafna mig almennilega fyrr en síðasta sumar. Mér líður miklu betur í dag en fyrir hálfu ári.“

Góa kveðst sömuleiðis þakklát foreldrum sínum fyrir að hafa verið til staðar fyrir hana í gegnum þessar þrekraunir. „Ég get ekki ímyndað mér hversu hræðilegt það er fyrir foreldra mína að fá símtal um að dóttir þeirra væri upp á spítala í þessu hræðilega ástandi, ekki vitandi hvort ég myndi lifa þetta af. Ég var svo hrædd um að þau væru reið og vonsvikin út í mig fyrir að vera í svona rugli en þau sýndu ekkert nema ást og umhyggju gagnvart mér og voru 120 prósent til staðar fyrir mig allan tímann. Mér finnst ég vera heppnust í heimi að eiga þau að. Meðan á þessu öllu stóð, tók mamma sér til dæmis frí úr vinnunni til þess að vera hjá mér og hugga mig. Við urðum nánari í kjölfarið og þetta þjappaði okkur saman.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Í gær

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“