fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Maóistaforinginn varð að grænum sósíalista

Ara Trausti segist loks vera orðinn nógu þroskaður til að eiga erindi inn á þing – Veikur fyrir töff áskorunum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 18. nóvember 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í umróti eftirhrunsáranna varð hér á landi mikil vakning í pólitískri þátttöku. Fjöldi fólks sem fram til þess hafði ekki látið sér til hugar koma að skipta sér af stjórnmálum reis upp frá eldhúsborðum hér og þar og ákvað að láta til sín taka. Ný stjórnmálasamtök voru stofnuð, sum hver hafa þegar lognast út af, og framboðið varð töluvert meira en eftirspurnin, ef svo má að orði komast. Í huga margra virtist það vera ákveðinn gæðastimpill að hafa aldrei komið nálægt pólitík áður, að ganga beint inn í framboð eða í flokksstarf, hvítþveginn og án allra fyrri pólitískra synda.

En ekkert af þessu á við um elsta þingmanninn sem náði kjöri á Alþingi í síðustu þingkosningum. Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður sem birst hefur landsmönnum í ótal myndum síðustu áratugi er sannarlega ekki neinn nýgræðingur í pólitík. Þeir sem yngri eru muna kannski eftir honum sem virðulegum, fyrrverandi veðurfréttamanni sem gaf kost á sér í forsetakosningunum árið 2012. Þeir sem eldri eru og hafa fylgst með pólitík hér á landi gætu hins vegar þekkt Ara Trausta sem eldheitan maóista og formann Einingarsamtaka kommúnista á áttunda áratugnum. Í dag lýsir Ari Trausti sér hins vegar sem grænum sósíalista sem ákvað að ganga til liðs við Vinstri græn og gefa kost á sér til Alþingis því honum renni blóðið til skyldunnar. Baráttan fyrir verndun umhverfisins, fyrir kjörum þeirra sem minna mega sín, fyrir réttlátri útdeilingu gæðanna, á vogarskálar þeirrar baráttu ætlar Ari Trausti nú að leggja sín lóð.

Ari Trausti er útivistarmaður og hefur stundað háfjallamennsku um árabil. Hann hefur gengið á fjölda háfjalla um heim allan en segir að hann njóti þess líka að ganga á Úlfarsfellið
Á fjöllum Ari Trausti er útivistarmaður og hefur stundað háfjallamennsku um árabil. Hann hefur gengið á fjölda háfjalla um heim allan en segir að hann njóti þess líka að ganga á Úlfarsfellið

Mynd: Hreinn Magnússon

Ari Trausti er er fæddur 3. desember 1948 og verður því 68 ára gamall á næstunni. Hann er sonur listafólksins Guðmundar frá Miðdal og Lydiu Pálsdóttur. Í samtali við blaðamann segir Ari Trausti að foreldrar hans og heimilishald fjölskyldunnar hafi mótað hann mikið. „Þetta var sennilega að mörgu leyti óvenjulegt heimili. Pabbi var myndlistarmaður, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður og mjög virkur í listinni á þessum árum. Foreldrar mínir voru mikið á ferð og flugi, jafnvel til útlanda. Heimilið var nokkuð stórt, við vorum mörg systkinin. Þau héldu í raun tvö heimili. Við Skólavörðustíginn bjuggum við í þremur húsum, íbúðarhúsinu og tveimur vinnustofum. Hitt heimilið var síðan sumarbústaður sem pabbi og mamma byggðu skammt frá Miðdal. Við fluttum úr bænum snemma sumars og bjuggum í bústaðnum allt sumarið, alveg fram að réttum. Amma var með okkur og átti mikinn þátt í uppeldinu.“

Hóf að lesa Marx og Engels

-Þú upplifðir þá það besta bæði úr borg og sveit?
„Já, og það var alveg ómetanlegt. Svo fékk ég að fara með foreldrunum í ferðalög, um landið og í fjallaferðir og í eina langa utanlandsferð, sem ekki var algengt á þessum tíma fyrir unga drengi. Foreldrar mínir þekktu gríðarlegan fjölda

„Aldrei talað um vopnaða byltingu eða valdarán.“

fólks, stóran menningarhóp hér í Reykjavík og stjórnmálamenn. Svo var líka mikill gestagangur heima af fólki að utan. Það var fólk frá ýmsum löndum, oft heilu sendinefndirnar. Pabbi var náttúrlega það þekktur, bæði sem listamaður og náttúruunnandi og fjallamaður, að mikið var sótt í hann. Pabbi dó þegar ég er 14 ára þannig að ég missti hann snemma. Við hins vegar breyttum lítið okkar háttum þar til ég fór utan til náms, þá tvítugur. Allt þetta í uppvextinum hefur að einhverju leyti gert mig að þeim manni sem ég er.“

Ari Trausti lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1968 og hélt til náms í jarðvísindum við Óslóarháskóla strax sama haust. Þar varð hann fyrir miklum áhrifum af því pólitíska andrúmslofti sem var ríkjandi á þeim tíma. „Minn útskriftarárgangur í MR var óskaplega lítið pólitískur. Það voru svo sem einhverjir málfundir þar sem menn rifust um her í landi og slíkt. Ég tók hins vegar ekki þátt í þessu, ég var frekar í menningargeiranum. Svo kom ég út. Þá varð innrásin í Tékkóslóvakíu, það var Víetnamstríð og ’68-bylgjan að verða til. Allt þetta hafði þau áhrif að róttækni mín jókst og ég fór að lesa ýmislegt, hvort það voru nú Marx og Engels eða róttækir sálfræðingar eða Herbert Marcuse og nýir heimspekingar, Sartre, existensíalisminn og hvað eina. Mínir kunningjar sem útskrifuðust úr MR, þetta hafði áhrif á þá. Mjög mikil á suma, aðrir náttúrlega breyttust ekki neitt, en ég myndi segja að meirihluti þeirra sem í það minnsta fór út í heim varð samfélagslega sinnaður.“

Kom heim síðhærður með róttækar skoðanir

Ari Trausti fór til náms í Noregi vatnsgreiddur með lakkrísbindi og ópólitískur. Heim kom hann síðhærður marxisti.
Varð róttæklingur Ari Trausti fór til náms í Noregi vatnsgreiddur með lakkrísbindi og ópólitískur. Heim kom hann síðhærður marxisti.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Maður tók afstöðu með Tékkum og Dubcek en ekki með Brezhnev og Sovétmönnum, maður tók afstöðu með Ho Chi Minh en ekki Nixon og svo framvegis. Landhelgisdeilan er líka yfirstandandi á þessum tíma og við stúdentar í Ósló vorum öflugir í stuðningi við landhelgisútfærslurnar. Þá var Evrópusambandsaðild Noregs á döfinni, við tókum þátt í og börðumst gegn aðild við fyrri aðildarkosningarnar 1972. Allt hafði þetta mikil áhrif á mig, ég ferðaðist líka talsvert því þarna var maður kominn í aðstöðu til þess og varð mjög alþjóðlega sinnaður.
Niðurstaðan varð sú að ég færðist frá því að vera ópólitískur náungi, vatnsgreiddur og með lakkrísbindi í jakkafötum, eins og sjá má á mynd af mér þegar ég var að fara út til náms, yfir í að verða síðhærður strákur með svakalega róttækar skoðanir.“

Voru að leita að hinni réttu línu

Ari Trausti kom heim til Íslands úr námi í árslok 1972. Í Noregi hafði hann kynnst Maríu Baldvinsdóttur, konu sinni, og næsta skref var stofnun fjölskyldu. Fyrsta barnið var þá á leiðinni. „Það sem tók svo við þarna var annars vegar brauðstritið, ég fór að kenna í grunnskóla á Eyrarbakka og síðar hóf ég menntaskólakennslu í Reykjavík, árið eftir. Hins vegar labbaði ég mig inn í Fylkinguna, sem þá hét, og byrjaði að starfa þar. Það gekk þó illa, okkur nokkrum þótti Fylkingin ekki vera á réttri pólitískri línu. Það varð til þess að hópur ungs fólks stofnaði það sem síðan voru stundum kölluð maóistasamtök, Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar), þekkt sem Eik (m-l). Á sama tíma voru til Kommúnistasamtökin marxistar-lenínistar, KSML, og nokkrir fleiri hópar, þó líklega ekki meira en fjögur samtök allt í allt. Þau voru dálítið að berjast innbyrðis en ekki þó alltaf, menn voru að leita að hinni réttu línu. Þetta litaði töluvert mitt líf því við vorum býsna dugleg. Þetta er það sem stundum er kallað villta vinstrið, hópar fólks sem ætluðu sér að byggja upp stjórnmálaflokk til vinstri við Alþýðubandalagið sem okkur þótti vera orðið helst til sósíaldemókratískt. Þetta tímabil stóð í um það bil tíu ár. Ég var formaður Eikarinnar og raunar einnig Kommúnistasamtakanna eftir að Eikin sameinaðist KSML en það var alveg undir lokin og hafði lítil áhrif. Þetta starf fjaraði síðan út af ýmsum ástæðum. Meðal annars var það að þessi pólitíska lína rímaði kannski ekki alltaf vel við íslenskan veruleika og svo var hitt að fólkið sem stóð í stafninum var þarna að vaxa úr grasi, stúdentarnir voru allt í einu búnir í námi, farnir að vinna, komnir með fjölskyldu og börn og eldmóðurinn var kannski ekki sá sami. En á hitt ber að líta að stefnan beið að mörgu leyti pólitískt skipbrot. Stemningin minnkaði og okkur skorti kannski framsýni til að verða að alvöru pólitísku afli. Við til dæmis buðum aldrei fram til kosninga, litum svo á að við værum lítil og alltof veik til þess.“

Ari Trausti viðurkennir að kommúnisminn sem hann aðhylltist hafi ekki hentað í íslensku samfélagi og stefnan hafi síðan í raun beðið skipbrot.
Litið til baka Ari Trausti viðurkennir að kommúnisminn sem hann aðhylltist hafi ekki hentað í íslensku samfélagi og stefnan hafi síðan í raun beðið skipbrot.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Stefndi aldrei að vopnaðri byltingu

-Trúðir þú á þessum tíma á alheimsbyltingu kommúnismans?
„Ég held ekki. Ég get bara talað fyrir mig en held að menn hafi verið töluvert raunsæir. Við litum á þetta sem áratugaverkefni sem ekki yrði framkvæmt nema með þátttöku fjöldans. Það var aldrei talað um vopnaða byltingu eða valdarán. Þetta var hugmynd um að hægt yrði að virkja stóran hluta íslenskrar alþýðu til að taka til sín völdin, hvort sem það væri í kosningum eða með einhvers konar allsherjarverkfalli. Það átti að byggja upp nýjar, lýðræðislegar valdastofnanir sem ekki lytu neinum hagsmunatengslum við auðvaldið. Sé horft á þetta með hlutlægu mati þá sést að þetta var stuttur kafli í íslenskri stjórnmálasögu sem var öðruvísi en aðrir kaflar.“

-Finnst þér þú hafa legið undir ámæli vegna þessa eða að þessi þátttaka þín hafi verið léttvæg fundin?

„Þessi öfl til vinstri, Vinstri græn, Alþýðufylkingin, Samfylkingin og jafnvel fleiri eigi að vinna miklu þéttar saman.“

„Nei, alls ekki. Ég held að mjög margir sem á annað borð þekkja þennan tíma horfi hlutlægt á þetta. Það er kannski frekar að það sé stundum gert að þessu góðlátlegt grín, að þetta hafi allt saman verið hálfgert draumórafólk sem deildi um keisarans skegg, sem vissulega gerðist líka. Í sumum tilvikum var þetta hins vegar merkileg vinna. Við til að mynda kortlögðum hagsmunatengsl stjórnmálaflokka og stórfyrirtækja í íslensku atvinnulífi, frændsemina, hver átti í hverju, Kolkrabbann svokallaða. Þetta sýndi hvernig pólitíkin og fjármálakerfið rann saman, annars vegar í kringum Sjálfstæðisflokkinn og hins vegar í kringum Framsóknarflokkinn. Helmingaskipti eða hvað við viljum kalla þetta. Þetta var unnið af fagmennsku.“

-En þessu hefur verið haldið gegn þér, allavega fyrir forsetakosningarnar 2012?
„Sko, það eru alltaf til einstaklingar sem koma með einhverjar athugasemdir og gera mig kannski ábyrgan fyrir því sem stóð í Verkalýðsblaðinu en voru samt ekki mín orð. En þessi þátttaka mín á vinstri væng stjórnmálanna, hefur aldrei komið mér illa. Hvorki í störfum né öðru.“

Varð að grænum sósíalista

Þegar fjaraði undan starfi þessara pólitísku samtaka sneri Ari Trausti sér að öðrum hugðarefnum, gerðist sjálfstætt starfandi, með mörg verkefni. Pólitíkina lagði hann ekki á hilluna þótt hann gengi ekki til liðs við flokka eða samtök. Hann hóf á níunda áratugnum að endurskoða sína pólitík, þá var í gangi ákveðið uppgjör við þessa tíma, og hann varð að endingu það sem hann vill kalla grænn sósíalisti. „Upp úr 1985 fara umhverfismálin að taka verulega í og samhengið á milli fer að verða ljóst. Allar framfarir í umhverfismálum eru pólitískar og snerta pólitísk hugmyndakerfi. Það sem við getum kallað hægrið í pólitíkinni hefur lengst af dregið lappirnar í þessum efnum en vinstrið hefur borið umhverfismál uppi.“

-Þarna ferð þú að birtast þjóðinni sem þessi jarðvísindamaður og rithöfundur sem margur kannast fyrst og fremst við?
„Já, fólk sem núna er fertugt man mig auðvitað ekki sem einhvern róttækling eða byltingarleiðtoga. Það man mig til dæmis sem veðurfréttamann á Stöð 2, eða náunga í sjónvarpi RÚV að segja frá vísindum, umhverfismálum eða fjarlægum slóðum. Ég hef sagt að það sem dreif mig áfram í pólitíkinni var einhvers konar réttlætiskennd. Manni fannst samfélagið óréttlátt, hvort sem það var gagnvart ungu fólki, verkafólki, millistéttinni eða fólki sem vildi þjóðfrelsi. Sú tilfinning hvarf ekki. En það sem við tók hjá mér var að uppfræða. Því meira sem fólk veit um umhverfi sitt, því líklegra er að það myndist þrýstingur á stjórnvöld og því líklegra er að lýðræðið virki. Gallinn við lýðræðið er að það eru margir sem taka þátt í því án þess að vita vel um hvað málin snúast. Það má ekki skamma fólk fyrir það en það er hins vegar hægt að hvetja fólk til að kynna sér málavöxtu, þannig að umræðan sé í raun og veru upplýst.“

Ari Trausti gaf kost á sér í embætti forseta árið 2012 vegna óánægju með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, sem Ari Trausti segir að hafi rekið sjálfmiðaða pólitík í embætti.
Forsetaframbjóðandinn Ari Trausti gaf kost á sér í embætti forseta árið 2012 vegna óánægju með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, sem Ari Trausti segir að hafi rekið sjálfmiðaða pólitík í embætti.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ólafur Ragnar rak sjálfmiðaða pólitík

Ari Trausti gaf kost á sér í kjöri til embættis forseta Íslands árið 2012. Hlaut hann 8,6 prósent greiddra atkvæða og varð þriðji í kjörinu. Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, sigraði með nokkrum yfirburðum. Ari Trausti segir að hans vinstri pólitík hafi ekki verið grunnur að því að hann gaf kost á sér. „Ég skil forsetaembættið algjörlega frá slíkri pólitík. Ég var óánægður með hvernig þáverandi forseti sinnti ýmsum málum, til dæmis málefnum norðurslóða. Hvernig hann kunni ekki að skilja eðlilega á milli pólitíkur og embættisins. Ég segi ekki að embættið sé ópólitískt en hann rak þar allt of sjálfmiðaða pólitík. Vegna þessa og ýmissa annarra þátta fannst mér rétt að reyna að komast í embættið í hans stað.“

-Urðu úrslitin í þeim kosningum þér vonbrigði?
„Nei, alls ekki. Ég var auðvitað ákveðinn í að sigra í þessum kosningum. En ég er líka mjög raunsær og var alveg undir það búinn að vinna ekki sigur. Sagði að ég væri tilbúinn í einhverja aðra samfélagsþjónustu að kosningum loknum. Ég lærði auðvitað heilan helling af þessu. Mér fannst þessum tíma vel varið.“

Framsóknarmenn vildu marxistann

Ari Trausti segir að honum hafi nú fundist hann vera orðinn nógu þroskaður og hafa öðlast næga þekkingu til að eiga erindi inn á þing. Stór verkefni eins og baráttan gegn fátækt, baráttan fyrir jöfnuði og jafnrétti, umhverfis- og loftslagsmálin og velferðarmál séu nú svo brýn að honum renni blóðið til skyldunnar að veita liðsinni sitt.

-Þú hafðir ekki starfað með Vinstri grænum fyrr en þú ákvaðst að gefa kost á þér fyrir kosningarnar núna. Leitaðir þú til þeirra eða þau til þín?
„Þegar ég var ungur, og ennþá merktur sem marxisti, hafði Framsóknarflokkurinn samband við mig að fyrra bragði og bauð mér þátttöku í flokknum, og frama. Sennilega eru mennirnir sem ég fundaði með á Hótel Heklu á Rauðarárstíg látnir og ég gæti vart nefnt þá alla. Þetta var hins vegar svona, en ég sagði nei.
Síðar, af því að við Vilmundur Gylfason vorum vinir, komu menn að máli við mig og þar á meðal hann. Þá voru þessi samtök sem mynduðu villta vinstrið ennþá til og hugmyndin var að búa til bandalag jafnaðarmanna, ekki hið eiginlega Bandalag jafnaðarmanna sem síðar varð til undir forystu Vilmundar heldur regnhlífarsamtök vinstrimanna á Íslandi. Mér leist mjög vel á þessa hugmynd og mitt samstarfsfólk í Eikinni var sama sinnis. Síðan gerðist hins vegar eitthvað innan Alþýðuflokksins sem varð til þess að ekki varð af þessu. Þetta var tilraun númer tvö til að koma mér inn í þingræðið.
Síðar hvöttu Vinstri græn mig tvisvar sinnum til að gefa kost á mér. Í seinna skiptið var það eftir forsetakosningarnar þar síðustu, þar sem ég hafði lýst því yfir að ég væri tilbúinn í einhverja samfélagsþjónustu. En ég ákvað að bíða þá, ég var ekki tilbúinn að ganga inn í flokkspólitík. Núna hins vegar, fyrir þessar kosningar, tók ég fyrsta skrefið. Ég hafði samband og vísaði til þessara samtala. Það vantaði mann í efsta sæti í Suðurkjördæmi og ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir töff áskorunum. Það varð úr að ég tók sætið og svo fór sem fór.“

„Það vantaði mann í efsta sæti í Suðurkjördæmi og ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir töff áskorunum. Það varð úr að ég tók sætið og svo fór sem fór.“
Kjörinn á þing „Það vantaði mann í efsta sæti í Suðurkjördæmi og ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir töff áskorunum. Það varð úr að ég tók sætið og svo fór sem fór.“

Mynd: © Ragnar Th – rth@arctic-images.com

Vinstri blokkin á að vinna saman

Ari Trausti segir að hann hafi fundið samhljóm með fólkinu innan Vinstri grænna. Það séu ákveðin grunngildi þar sem hann sé sammála. „Það þarf nýjar hugmyndir um hagvöxt og hagvaxtarsókn. Það þarf að setja fjármagninu fullt af skorðum og vinda ofan af ýmsum hlutum. Það geta vel verið þarna einhver mál sem ég er ósammála en í stóru línunum erum við sammála. Ég hefði getað valið á milli Alþýðufylkingarinnar og Vinstri grænna til að starfa með, en ég valdi Vinstri græn vegna þess að þar er nægt afl, möguleikar á að hafa áhrif og breyta. Ég lít hins vegar svo á að þessi öfl til vinstri, Vinstri græn, Alþýðufylkingin, Samfylkingin og jafnvel fleiri eigi að vinna miklu þéttar saman. Þessa samfylkingarstefnu tíðkuðum við í Eikinni í gamla daga. Mér finnst að þau sem hafi hjartað vinstra megin eigi að fara þá leið í mörgum málum. Þá værum við mikið öflugri.“

VG og Sjálfstæðisflokkur eins og svart og hvítt

„Þegar kemur að því að endurúthluta auðæfum, segjum með skattkerfinu, og dreifa gæðunum erum við eins og svart og hvítt, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur.“

-Erfiðar stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fer nú með stjórnarmyndunarumboðið. Hún hefur marglýst því yfir að hún vilji mynda fjölflokkastjórn frá miðju yfir til vinstri. Þrátt fyrir það hafa borist ítrekaðar meldingar frá Sjálfstæðisflokki um vilja til að starfa með Vinstri grænum. Myndir þú útiloka slíkt samstarf?
„Ég útiloka enga samvinnu stjórnmálaflokka fyrirfram. Ég segi þó ekki að ég myndi aldrei gera það, til dæmis ef hér væri brúnn flokkur, öfgasinnaður þjóðernisflokkur. En ekki dugar í landsmálapólitík, þegar á að mynda ríkisstjórn, að finna bara nokkur mál þar sem er snertiflötur. Þau þurfa að vera miklu fleiri og þar verða að vera grunnatriði. Það er ekki nóg að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur séu sammála í, til dæmis Evrópusambandsmálum, það er bara eitt af mörgum málum. Þegar kemur að því að endurúthluta auðæfum, segjum með skattkerfinu, og dreifa gæðunum erum við eins og svart og hvítt, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur. Það má vel vera að hægt sé að ná nothæfu samkomulagi til stjórnarmyndunar, ég veit það ekki. En að halda að þótt einhverjir snertifletir séu þarna á milli, þá dugi þeir án víðra málefnaviðræðna til að mynda ríkisstjórn – það er ekki rétt. Nú reynir fyrst á loforðið um að reyna að mynda félagshyggjustjórn. Gangi það ekki eftir segir maður bara eins og danskurinn: Den tid, den sorg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“