fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

„Ég var skelfingu lostin og hrædd við það sem beið okkar“

Dóttir Silju Rutar fæddist andvana þann 5. mars síðastliðinn

Kristín Clausen
Föstudaginn 14. október 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Áður en hún fæddist skyldi ég ekkert af hverju konur væru látnar fæða andvana börn, en ég skil það núna.“ Þetta segir Silja Rut Thorlacius sem lenti í þeirri skelfilegu lífsreynslu að dóttir hennar fæddist andvana þann 5 mars síðastliðinn. Stúlkan sem fékk nafnið Frigg kom í heiminn á settum degi en tveimur dögum áður hætti Silja að finna hreyfingar. Fyrir eiga Silja og eiginmaður hennar, Hrafn Einarsson, fjögurra ára dóttur sem heitir Kolka.

Silja tók ákvörðun um að segja sögu sína í tengslum við minningarstundir á vegum samtakanna Gleym mér ei sem verða í Lindakirkju í Kópavogi, Akureyrarkirkju og Akraneskirkju á morgun klukkan 11. Dagurinn, 15. október, er alþjóðlegur dagur um missi á meðgöngu og barnsmissi.

Hætti að finna hreyfingar

„Á fimmtudegi, tveimur dögum fyrir settan dag, fæ ég einhvern óhug og líður hálf undarlega. Ég hugsa hvort ég hafi fundið lítið af hreyfingum en ýtti í bumbuna og taldi mig finna hreyfingu,“ segir Silja en ákvað að bíða róleg, þar sem hún átti tíma hjá ljósmóður næsta morgun.

„Hreyfingarnar minnka oft á síðustu dögum meðgöngunnar þegar barnið hefur skorðað sig svo ég taldi að hún væri bara að búa sig undir komandi átök.“

Í skoðun hjá ljósmóðurinni fannst hinsvegar enginn hjartsláttur svo þau voru send beint á kvennadeild Landspítalans.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ljósmóðirin vildi ekki segja okkur að það væri enginn hjartsláttur. En við áttuðum okkur á að það væri eitthvað mikið að fyrst hún sendi okkur upp á sjúkrahús.“

Þegar á kvennadeildina var komið fengu þau að vita að stúlkan væri látin. „Þetta var gríðarlegt áfall. Mjög óraunverulegt og enn hálfpartinn í móðu.“

Í framhaldinu fengu þau að ráða hvort fæðingin yrði sett af stað um kvöldið eða næsta morgun.

„Fyrstu viðbrögðin mín voru að hugsa hvað ég gerði rangt? Og það fyrsta sem ég sagði við manninn minn í sónarnum var „fyrirgefðu.“ Hann horfði bara á mig stórum augum, tók utan um mig, og sagði fyrirgefðu fyrir hvað.“

Silja segir að þessar tilfinningar séu algengar fyrst um sinn en á þessum tímapunkti vildi hún sömuleiðis bara drífa sig í keisara og láta fjarlægja barnið.

„Ég vissi ekki hvernig ég ætti að komast í gegnum að fæða dóttur okkar andvana.“

Í samráði við starfsfólk spítalans á föstudeginum tóku þau að lokum ákvörðun um að Silja myndi fæða stúlkuna sjálf daginn eftir.

Fengu algjört næði

„Við ákváðum að fara heim, melta þetta aðeins og sjáum alls ekki eftir því. Það var svo gott að komast aftur í sitt umhverfi eftir erfiðan dag á spítalanum. Ég var svo skelfingu lostin og hrædd við það sem beið okkar. Heima gátum við náð áttum, rætt stöðuna í friði og ró og undirbúið okkur andlega fyrir þetta stóra verkefni sem beið okkar næsta dag.“

Mynd: Mynd úr safni

Silja segir að þrátt fyrir allt hafi þau mætt ágætlega stemmd á fæðingardeildina. Hjónin fengu herbergi sem er nokkuð afsíðis frá öðrum fæðingarstofum.

„Við heyrðum aldrei í öðru fólki og það var alveg passað upp á að við værum út af fyrir okkur.“ Segir Silja sem vill koma því sérstaklega á framfæri hversu vel starfsfólk spítalans hélt utan um þau.

„Þegar við fórum heim eftir að öllu var lokið mættum við pari á heimleið með litla barnið sitt. En þannig er það bara.“

Um klukkan 22 laugardagskvöldið 5. mars, kom Frigg í heiminn. „Við komumst í gegnum daginn vegna þess að okkur hlakkaði svo til að sjá hana og hitta.“

Stolt og gleði í bland við yfirþyrmandi sorg

Silja fékk stúlkuna beint í fangið og kveðst hafa verið gríðarlega hamingjusöm og stolt af þessari litlu dásemd sem var svo fullkomin, bústin og lík stóru systur sinni. Á sama tíma fann hún fyrir yfirþyrmandi sorg.

„Áður en Frigg fæddist skyldi ég ekkert af hverju konur væru látnar fæða andvana börn. En ég skil það núna. Ég tengdist henni strax eins og þegar eldri stelpan kom í heiminn. Þetta var algjört tilfinningaflóð en ég er virkilega þakklát fyrir upplifunina sem fylgdi því að hafa fætt hana sjálf.“

Kælivaggan gaf dýrmætan tíma

Silja og Hrafn eru sömuleiðis þakklát fyrir kælivöggurnar sem eru til á spítalanum og eru notaðar þegar börn fæðast andvana. Í stað þess að fá aðeins örfáar klukkustundir með dóttur sinni fengu þau að hafa hana hjá sér yfir nótt og fram á sunnudagskvöld.

„Kælivöggurnar gefa manni svo dýrmætan tíma með barninu til að skapa minningar. Við fengum tíma til að kynnast henni, kyssa, halda utan um hana og taka myndir sem eru það dýrmætasta sem við eigum.“

Nánustu aðstandendur Silju Rutar og Hrafns komu á spítalann á sunnudeginum og fengu að sjá og halda á Frigg.

Silja Rut greinir frá því að foreldrar Hrafns hafi komið beint til þeirra frá því að hitta barnabarn sitt í fyrsta skiptið sem kom í heiminn tveimur dögum áður en Frigg fæddist andvana. „Þetta var mjög tilfinningaþrungið enda hafði engin í fjölskyldunni gert ráð fyrir öðru en að þessi börn myndu alast upp saman.“

Eftir að Silja og Hrafn komu aftur heim beið fjögurra ára dóttir þeirra eftir þeim. Kolka tók andlát litlu systur sinni mjög inn á sig þar sem hún var orðin spennt að eignast lítið systkini.

„Hún er svo klár. Við létum hana fá mynd af litlu systur og hún hélt mikið upp á hana. Kolka segir líka að hún sé stóra systir en litla systir sé bara ekki hjá okkur,“ segir Silja og bætir við að Kolka hafi hjálpað þeim mikið þegar kom að því að takast á við lífið og tilveruna á nýjan leik eftir jarðaförina.

Eru ekki reið

Mikil andleg vinna beið fjölskyldunnar en með dyggri aðstoð þeirra nánustu hefur þeim tekist að takast á við sorgina.

„Fjölskyldan okkar hefur verið ómetanleg í þessu sorgarferli og er enn.” Silja segir að þau hafi upplifað mikla samkennd sem sé mikilvægt á stundum sem þessum í lífinu, það gefi mikinn styrk. Samtökin Gleym mér ey hafa sömuleiðis hjálpað þeim mikið.

Dánarorsök Friggjar var í fyrstu talin vera sú að þegar hún fæddist var naflastrengurinn mjög langur. Hann var vafinn um háls stúlkunnar, löppina en að auki var hnútur á honum. Eftir að fylgjan var rannsökuð kom í ljós að bólgur höfðu myndast í fylgjunni sem var 40 prósent ónýt.

„Þetta var eiginlega áfall númer tvö hjá okkur. Það er ólíklegt að þetta gerist aftur en ekki útilokað. Því verður mjög vel fylgst með ef við ákveðum að eignast fleiri börn.“

Silja segir að það hafi sömuleiðis hjálpað í sorgarferlinu að þau eru ekki reið.

„Þetta er þvílíkt högg. Tíminn stöðvast og ekkert skiptir lengur máli. Maður sekkur á botninn andlega en í okkar tilfelli stöldruðum við ekki lengi við í sjálfsvorkunn. Það er svo mikilvægt.“

Silja bendir á að reiði og sjálfsvorkunn séu vondar tilfinningar sem eru engum til framdráttar.

„Við erum heppin að hafa ekki ánetjast eða fóðrað slíkar tilfinningar hafi örlað á þeim hjá okkur. Við ákáðum mjög snemma í ferlinu að taka þessa erfiðu reynslu og nýta hana á jákvæðan hátt, vera hamingjusöm, glöð og þakklát fyrir allt það góða sem við höfum. Á sama tíma mun Frigg alltaf vera með okkur og hluti af fjölskyldunni, hún verður alltaf litla ljósið okkar. ”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva Ruza fer í skóför Felix

Eva Ruza fer í skóför Felix
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“