fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Biskupinn sparkaði þeim út: Ófrísk á götunni með tvö börn – „Hann er eins og slanga“ segir biskupinn

“ Fjögurra manna fjölskyldu sparkað út úr húsnæði kaþólsku kirkjunnar með tveggja daga fyrirvara – Með tvö börn og það þriðja undir belti“

Kristín Clausen
Föstudaginn 14. október 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hann er eins og slanga sem stingur þig,“ segir Davíð Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, um föður tveggja barna sem hann hefur ákveðið að sparka út úr húsi í eigu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Maðurinn heitir Carlos Mondragon Galera og er nú heimilislaus ásamt Argeri, eiginkonu sinni, sem á von á barni. Þá eiga þau saman 7 og 9 ára gamla drengi.

„Ég er ekki að leita að samúð, þetta er bara svo óréttlátt,“ segir Carlos sem fékk tveggja daga fyrirvara til að finna nýtt húsnæði fyrir sig og fjölskylduna. Biskupinn segir Davíð óheiðarlegan og kveðst engan áhuga hafa á að hjálpa fjölskyldunni. Carlos upplifði sig niðurlægðan af kirkjunni, brotnaði saman og grét við eldhúsborðið þegar hann tilkynnti nunnunum að biskupinn hefði ákveðið að kasta honum út.

Hent á götuna með tveggja daga fyrirvara

Carlos gagnrýnir Davíð harðlega fyrir að henda barnshafandi konu og börnum á götuna og telur að ákvörðunin hafi verið geðþóttaákvörðun biskupsins. Carlos kveðst þó þakklátur fyrir þann stutta tíma sem þau fengu að dvelja í húsinu en að sama skapi hafi framkoma biskupsins orðið til þess að hann setur spurningarmerki við starf kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Davíð biskup segir í samtali við DV að Carlos sé óheiðarlegur. Þá segir biskupinn að fjölskyldunni hafi verið gert að yfirgefa húsið í gær, fimmtudag, þar sem önnur fjölskylda flytur inn í það í dag, föstudag. Í húsinu eru átta svefnherbergi og þrjú baðherbergi.

Að sögn Carlos virðist enginn innan kaþólsku kirkjunnar, sem hann hefur rætt við, vita nákvæmlega af hverju þeim var gert að yfirgefa húsið í svo miklum flýti. Þá segir Carlos að biskupinn hafi ekki gefið sér aðra útskýringu en að svona væri þetta bara.

Leigumarkaðurinn eins og dýragarður

Fjölskyldan, sem er nú á vergangi, fékk líkt og áður segir tvo sólarhringa til að koma sér út úr húsinu. Þau fengu upphaflega inni hjá kirkjunni fyrir tæpum þremur vikum þar sem erfiðlega gengur að finna leiguíbúð þrátt fyrir að Carlos sé í fastri vinnu og með greiðslugetu upp á 160 til 170 þúsund á mánuði.

Carlos hafði áður leitað á náðir Rauða krossins og til félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, án árangurs. Engin úrræði virðast vera til fyrir einstaklinga og fjölskyldur í þeirra stöðu.

„Leigumarkaðurinn er eins og dýragarður. Sama hvernig íbúðir við skoðum og bjóðum í þá erum við aldrei valin.“

Carlos, sem er frá Kostaríku, á jafnframt 18 ára tvíbura með fyrrverandi sambýliskonu sinni sem er íslensk. Carlos bjó alfarið á Íslandi á árunum 1994 til 2005. Síðan þá hefur hann verið með annan fótinn hér á landi.

Carlos, sem talar frábæra íslensku, tók skyndiákvörðun í samráði við eiginkonu sína um að flytja alfarið aftur til Íslands í vor til að styðja við bakið á tvíburunum en annar þeirra glímir við alvarleg geðræn vandamál.

„Sonur minn er búinn að vera mjög veikur. Og eins og allir foreldrar myndu gera fyrir börnin sín þá flutti ég með fjölskylduna til Íslands til að vera nær honum og systur hans.“

Fjölskylda á hrakhólum

Carlos sem þekkir Ísland vel var búinn undir að það gæti tekið tíma að koma sér fyrir. Hann óraði þó ekki fyrir því hversu erfitt það yrði að koma traustu þaki yfir fjölskylduna.

Frá því að fjölskyldan kom til Íslands í maí eru hún búin að flytja samtals sex sinnum. Það eina sem þeim hefur boðist hingað til eru íbúðir í skammtímaleigu á uppsprengdu verði.

„Við erum mjög náin. Ég og konan mín gerum allt saman og börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Eftir tæpa sex mánuði stækkar fjölskyldan, sem er mikil blessun en á sama tíma var þungunin alls ekki skipulögð. Það hefur hjálpað okkur mikið hvað við getum treyst hvort á annað.“

Í örvæntingu sinni, þegar þau misstu síðustu íbúð og voru við það að lenda á götunni með börnin, leitaði Carlos til kaþólsku kirkjunnar. Hann fékk ábendingu frá kunningja sínum um að kaþólska kirkjan ætti stórt hús við Öldugötu í Reykjavík og þar gætu þau mögulega fengið inni tímabundið.

Carlos setti sig í samband við séra Patrick Breen sem, í samráði við nunnurnar sem búa í húsinu, útvegaði fjölskyldunni tvö stór herbergi í kjallaranum.

Á efri hæðum hússins, þar sem eru sex svefnherbergi, þrjú baðherbergi, eldhús og tvær stofur, búa alla jafna nunnur sem koma tímabundið til Íslands sem og annað starfsfólk kirkjunnar sem hefur ekki fasta búsetu á Íslandi.

Nunnurnar sem höfðu dvalið í húsinu fóru allar úr landi í gær og í gær var von á einstaklingi sem mun dvelja í húsinu. Þær upplýsingar stangast þó á við frásögn biskupsins sem segir að von sé á fjölskyldu í húsið.

Erfið staða

Carlos segir að séra Patrick hafi ítrekað sagt að kirkjan hefði fullan skilning á erfiðri stöðu fjölskyldunnar og að þau gætu verið róleg þar til þau væru komin með íbúð.

Að sögn Carlos sagði Patrick þetta síðast við þau síðastliðinn laugardag en Carlos hefur verið í reglulegu sambandi við séra Patrick frá því að fjölskyldan flutti inn fyrir þremur vikum.

„Við vorum himinlifandi þegar séra Patrick sagði að við mættum flytja í húsið. Við bjuggumst alls ekki við því að húsið væri svona stórt en við fengum tvö stór herbergi í kjallaranum. Eitt fyrir börnin og annað fyrir okkur.“

Carlos segir að þau hafi haft hægt um sig og fylgt öllum húsreglum. Þeim kom vel saman við nunnurnar en héldu sig þó að mestu í kjallaranum.

„Ég er búinn að vera á fullu að leita að íbúð þar sem það er engin óskastaða fyrir fjölskylduföður að bjóða eiginkonunni og börnunum okkar upp á að búa í tveimur svefnherbergjum og að læðast um gólf af virðingu við systurnar á efri hæðinni.“

Svo virðist sem séra Patrick hafi ekki gert biskupinum almennilega grein fyrir því hversu lengi fjölskyldan þyrfti að dvelja í húsinu en líkt og áður segir hafði Davíð biskup samband við Carlos á þriðjudaginn og sagði honum að fjölskyldan þyrfti að vera komin út í síðasta lagi á fimmtudag.

Líkt og gefur að skilja varð Carlos mjög brugðið og reyndi hann ítrekað að hafa samband aftur við biskupinn til að útskýra betur stöðuna sem hann og fjölskylda hans eru í.

„Ég hélt að hann hefði misskilið af hverju við værum í húsinu og hélt að hann myndi sýna okkur miskunn en svo var ekki.“

Segir biskupinn ekki starfi sínu vaxinn

Carlos fékk loksins fund með biskupinum að morgni miðvikudags og segir að Davíð hafi á hrokafullan hátt gert grín að því að fjölskyldan myndi enda á götunni. Þá segir Carlos að biskupinn hefði hótað því að sparka þeim út sjálfur ef þau yrðu ekki farin fyrir föstudag.

„Þegar ég gekk inn á skrifstofu biskupsins tók ég í höndina á honum og settist niður. Biskupinn sagðist hafa lesið skilaboðin frá mér en að þau kæmu miskunn ekkert við. Við þyrftum einfaldlega að yfirgefa húsið. Hann leyfði mér ekki að útskýra málið neitt frekar og þegar ég spurði hann hvort hann væri til í að endurskoða ákvörðunina sagði hann einfaldlega nei, stóð upp og sagði að ef við yrðum ekki farin fyrir föstudag myndi hann sjálfur koma og henda okkur út.“

Carlos segist hafa orðið mjög undrandi yfir framgöngu biskupsins. „Hann er auðvitað bara manneskja en ekki guðleg vera. Allt sem ég trúði á og virðing mín fyrir kaþólsku kirkjunni hvarf þarna eins og dögg fyrir sólu. Ég var svo niðurlægður. Þegar ég kom aftur á Öldugötuna eftir fundinn settist ég niður með nunnunum til að segja þeim frá fundinum. Þær skilja heldur ekkert af hverju við þurfum að fara úr húsinu svo snögglega þar sem sambúðin gekk mjög vel. Þetta var svo yfirþyrmandi að ég fór að hágráta við eldhúsborðið.“

Carlos segir að maður sem ber svo litla virðingu fyrir fólki eigi alls ekki að vera svo hátt settur innan kirkjunnar. „Ef maður getur ekki farið eftir því sem maður predikar þá er maður ekki starfi sínu vaxinn,“ segir hann og bætir við:

„Ég get ekki stjórnað því hvernig annað fólk kemur fram við mig. Einungis því hvernig ég kem fram við annað fólk.“

„Eins og slanga sem stingur þig“

Davíð Tencer segir í samtali við DV að Carlos hafi misnotað góðvild hans og kaþólsku kirkjunnar.

„Hann kom til okkar og bað um hjálp í nokkra daga. Við vildum aðstoða svo við gáfum þeim leyfi til að vera hjá systrunum. Þremur vikum síðar voru þau ekki enn búin að finna neinn samastað.“

Davíð telur að hremmingar fjölskyldunnar sé henni sjálfri að kenna og spyr hvernig staðan væri ef allir sem eru húsnæðislausir leituðu til kaþólsku kirkjunnar.

Þá sér Davíð ekkert athugavert við að þau hafi fengið tvo daga til að yfirgefa húsið þar sem þau hefðu þá þegar dvalið í húsinu of lengi.

„Ef ég væri hann þá hefði ég byrjað að leita mér að íbúð þremur vikum fyrr.“

Þá bendir Davíð ítrekað á að Reykjavíkurborg og Rauði krossinn eigi að aðstoða fjölskyldur á hrakhólum en ekki kaþólska kirkjan. Í góðmennsku sinni hafi hún þó gert undantekningu.

„Við leyfðum honum að vera í nokkra daga, en ekki í nokkrar vikur, mánuði eða ár.“

Davíð segir jafnframt að það hafi verið löngu ákveðið að fjölskylda sem kemur til landsins á föstudag, á vegum kirkjunnar, fengi húsið að láni og systurnar sem hafa dvalið þar upp á síðkastið væru farnar úr landi.

„Ég get ekki leigt hús sem önnur fjölskylda býr í,“ segir Davíð.

Þá segir Davíð Carlos vera óheiðarlegan mann og hann hafi engan áhuga á að hjálpa honum frekar. „Það er erfitt fyrir mig að óska honum góðs,“ segir hann og bætir við: „Carlos er eins og slanga sem stingur þig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki