fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

„Ég sá hana og varð skotinn“

Myndlistamaðurinn Jón Óskar segir kosti og galla við sambúð tveggja listamanna

Indíana Ása Hreinsdóttir
Laugardaginn 30. janúar 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndlistamaðurinn Jón Óskar hefur lifað og hrærst í listinni frá unga aldri. Indíana Ása Hreinsdóttir spjallaði við Jón Óskar um áhrif móður hans, sambandið við Huldu Hákon, átrúnaðargoðið David Bowie, fjölskylduna og listina sem hann skilgreinir sem káf á vegg.

„Ég man þegar ég var krakki, að fylgjast með myndlistamönnum sem voru í kringum foreldra mína, hvað maður skynjaði sterkt hvað þetta var erfitt líf. Þetta getur verið töff og vonbrigðin svo mikil – ekki bara peningalega heldur andlega. Ég held að allt listafólk taki yfirhöfuð vinnu sína mun nær sér en fólk í öðrum störfum. Listin verður einhvern veginn endurspeglun af manni sjálfum og höfnunin verður því svo mikil,“ segir einn af afkastamestu myndlistamönnum íslensks samtíma, Jón Óskar.

Sonur Ragnheiðar Jónsdóttur

Jón Óskar hefur lifað og hrærst í listum frá unga aldri en móðir hans er myndlistakonan þekkta Ragnheiður Jónsdóttir og sambýliskona hans til síðustu 40 ára listakonan Hulda Hákon. „Við Hulda höfum verið óskaplega lánsöm . Okkur hefur vegnað vel en um leið og við útskrifuðumst vorum við tekin upp af galleríistum á Norðurlöndunum sem tóku okkur upp á sína arma og sýndu okkur um allt. Þetta hefur gengið vel. Fyrstu árin var salan ekki mikil en eftir því sem maður vinnur lengur verður þetta auðveldara.“

Gott að vera ósammála

Hann segir kosti og galla við að vera í sambúð með öðrum listamanni. „Það væri algjör draumastaða fyrir myndlistamann að eiga maka sem er fyrirvinna og gæti „koverað“ erfiðu tímana en styrkurinn felst í samræðunum. Þegar maður býr með kollega sínum verða allar okkar samræður á öðrum grundvelli. Við Hulda tölum gríðarlega mikið um myndlist – okkar myndlist og myndlist kollega okkar, hver sé að gera hvað og hvers vegna – sem ég er ekki viss um að maður myndi gera með maka sem væri í öðru starfi. Við erum hvort annars gagnrýnendur og leitum eftir gagnrýni hvort annars. Það gerist bæði sjálfkrafa og þegar ég að velta einhverju fyrir mér ber ég það undir hana og öfugt og það er mjög fínt. Yfirleitt erum við ósammála sem er enn betra því þá þarf að ræða, rökstyðja og svo framvegis.

Ég held að það sé öllum listamönnum hollt að hafa einhvern sem horfir yfir öxlina á þeim. Það hefur aldrei reynst okkur erfitt að vera í sama bransa. Sumir listamenn fást við miklar tilfinningar í verkum sínum og ég gæti vel trúað að sambúð slíkra listamanna væri erfið. Við erum ekki það sjálfhverf. Það er ekki mikil angist í okkar vinnu.“

Myndlistafólkið var einu sinni trúlofað en eftir að Hulda sturtaði niður trúlofunarhringnum hefur sú umræða legið í dvala.
Saman í rúm 40 ár Myndlistafólkið var einu sinni trúlofað en eftir að Hulda sturtaði niður trúlofunarhringnum hefur sú umræða legið í dvala.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ólíkar nálganir

Jón Óskar játar því að hugmynd að verkum kvikni oft í samræðum þeirra. „Það er þónokkuð algengt að eftir á sjáum við að við höfum verið að fást við sömu hluti. Útfærslur okkar og nálganir eru hins vegar ólíkar sem er líka gott því ef við værum líkari gæti það valdið árekstrum. Maður þarf að leggja sig fram til að skilja að verkin kviknuðu út frá sömu hugmynd því útkoman er svo gjörólík.

Myndlistin mín tekur áhrif af öllu sem ég geri. Það sem ég velti fyrir mér brýst inn í myndirnar og hverfur stundum úr þeim aftur. Í byrjun gerði ég meira myndir sem áttu að vera þetta og hitt en í dag er þetta frekar eins og staðfesting á athöfn. Ég segi ekki sögur heldur snýst þetta frekar um viðveru einstaklings við flöt eða hlut. Einhvern tímann var ég að ganga upp stiga í gömlu húsi í Helsinki og tók eftir háglansandi rönd meðfram handriðinu – far eftir fólk sem hefur strokið fingrinum eftir veggnum þegar það gekk upp og niður stigann. Mér fannst þetta svo flott ummerki, hvernig fólk skilur eftir sig slóð. Ég hef tilhneigingu til að horfa á myndirnar mínar út frá þessu ummerki, káfi á vegg, einhverju sem ég hef verið að sýsla við í einhvern tímann.“

Ábyrgðarfullt elsta barn

Jón Óskar var alinn upp í Reykjavík, elsta barn í hópi fimm bræðra. „Pabbi var tannlæknir, sem kom sér vel, og mamma sá um heimilið auk þess sem hún hefur alltaf verið starfandi myndlistakona. Ég var einkabarn fyrstu sex árin en svo komu bræðurnir í kippu. Það voru mikil viðbrigði en skemmtileg. Mig langaði alltaf í systkini,“ segir hann og bætir við að oft hafi verið mikið fjör á heimilinu. „Þetta gat verið ansi róstusamt, læti og slagsmál en ég stóð þó aðeins utan við þar sem ég var eldri.

Ég hugsa að móðir mín myndi segja að ég hafi verið þægilegt barn. Það voru engir stórir skandalar. Ætli ég hafi ekki verið ábyrgðarfullt elsta systkini. Ég var á námskeiðum og gerði það sem börn voru látin gera og hlýddi en fór mínar eigin leiðir þegar þess þurfti.“

Listin tók yfir

Hann segir móður sína eflaust hafa haft áhrif á að hann hneigðist til lista. „Ég var alinn upp á þannig heimili. Kunningjahópur foreldra minna var myndlistafólk svo ég kynntist þeim hópi sem krakki strax. Ég var alltaf að skoða myndirnar hennar mömmu og hún að spyrja mig hvað mér fyndist um þetta og hitt. Maður var því vanur umræðunni, sem er nauðsynlegt. Það er ekki nóg að setjast bara niður og mála mynd. Ég ætlaði ekki að verða myndlistamaður þótt ég væri alltaf að teikna og eitthvað í þeim dúr, en þegar ég fór að skoða það sem var í boði í háskólanum fann ég að þar var ekkert sem ég gæti ímyndað mér að vinna við nema þetta. Listin tók yfir.“

Skildu í eitt ár

Þau Hulda kynntust í Menntaskólanum við Tjörnina árið 1972. „Við vorum kornung þegar ég sá hana og varð skotinn. Svo þegar ég frétti að hún ætlaði að taka þátt í einhverju dansatriði á árshátíð skólans plantaði ég mér í þann hóp þótt ég væri ekki mikill dansari. Ég lét mig hafa það til að kynnast henni og það dugði. Hulda hafði líka verið á námskeiðum í Myndlistaskólanum í Reykjavík en ætlaði, líkt og ég, ekkert endilega að verða myndlistakona. Það var ekki fyrr en hún áttaði sig á því að hún gæti farið í myndlistaháskóla að hún fór að velta því fyrir sér.“

Hann segir að þau Hulda séu samstíga þótt vissulega hafi skipst á skin og skúrir, eins og gengur og gerist, á þessum rúmu 40 árum. „Kannski höfum við bara verið heppin en auðvitað erum við langt frá því að vera fullkomin. Til að svona gangi verður fólk að eiga skap saman, geta verið ósammála, rifist og umborið aðrar skoðanir en sínar eigin. Við höfum alltaf verið góðir félagar og á heildina litið verið góðir vinir en líka átt í árekstrum, og við skildum til að mynda í eitt ár. Við vorum ung og höfðum bara gott af því. Það var eitthvað sem varð að gerast.“

Þrátt fyrir langt samband hafa þau aldrei látið pússa sig saman. „Ég held að við séum ekkert að fara gifta okkur. Ekki nema það sé eitthvað praktískara upp á erfðamál. Einhvern tímann vorum við trúlofuð en eftir að Hulda sturtaði niður trúlofunarhringnum höfum við ekkert rætt það aftur.“

Fimm ár í New York

Eftir þrjú ár í Myndlista- og handíðaskóla Íslands fékk Jón Óskar nóg og fór að leita sér að skóla erlendis. „Ég hugsaði helst um Berlín, London, New York eða Pólland. Í Póllandi var mikil hefð í plakatgerð sem var eitthvað sem ég hafði áhuga á að nýta í myndlist og fór því í pólska sendiráðið þar sem mér var sagt að það væri galin hugmynd svo ég hætti við það. Mér fannst Berlín líka spennandi en London ekki eins, og þar sem ég hafði lært frönsku en ekki þýsku í menntaskóla var þægilegra að fara til enskumælandi borgar. Það var því lógískt að velja New York,“ segir hann en þau Hulda skráðu sig í nám í School of Visual Arts í New York og dvöldu í borginni í fimm ár.

„Þetta voru miklir umbrotatímar í borginni; þegar nýja málverkið var að koma fram. Svo náðum við í rassinn á því sem á undan hafði verið. New York er svo furðulegur suðupottur. Einhvern veginn eru allir útlendingar. Þessi borg er ekkert lík Ameríku. Maður tekur eftir því þegar maður kemur þarna aftur að allt það fólk sem maður þekkt er farið. Þetta er svæði ungs fólk. Í New York hefurðu aðgang að öllu því sem er mest spennandi. Ef það er ekki komið kemur það fljótlega.“

Bowie stærstur

Tónlist hefur alltaf skipað stóran sess í lífi Jóns Óskars. „Ég hef alltaf öfundað tónlistarmenn en held að ég sé ekki með þetta eyra sem þarf. Ég var í barnamúsíkskóla og vildi alltaf verða eins og John Lennon en fann fljótt að tónlist var ekki mitt „game“. Ég hlusta gríðarlega mikið en vinnan hjá mér er þannig að ég er aldrei stöðugt á vinnustofunni heldur vinn ég í skorpum. Undanfarnar tvær vikur hef ég hlustað á plötur frá morgni til kvölds og punktað niður. Svo kemur að því að ég tek vinnutörn. Ég hef aldrei verið góður í níu til fimm ritma.“

Einn af þeim tónlistarmönnum sem hefur haft hvað mest áhrif á Jón Óskar er David Bowie. „Ég hef verið mikill aðdáandi alveg frá því hann kom fyrst fram. Ég man hvað ég var hissa þegar ég heyrði fyrst í honum. Hann bjó til nýjan heim. Þessi dauðdagi er líka alveg ótrúlegur – hvernig hann kemur með lokaplötu þar sem hann slúttar öllu, eins og þessu hafi verið leikstýrt,“ segir Jón Óskar og viðurkennir að hann syrgi stjörnuna. „Algjörlega og ég hef verið mjög hissa hvað margir virðast hafa verið Bowie-aðdáendur. Hér áður fyrr fannst mér ég eini maðurinn sem hafði áhuga á þessu. Það virðast allir hafa verið „private“ í þessum áhuga á honum,“ segir hann. Jón Óskar sá goðið flytja tónlist sína. „Ég var meira að segja í áhorfendahópi með honum að horfa á Iggy Pop. Þá hnippti félagi minn í mig og sagði mér að kíkja aftur fyrir mig. Þar var hann. Að hlusta á vin sinn. Svo sá ég hann náttúrlega í Laugardalshöll. Þetta hefur verið mikið „obsession“. Hann er allra stærstur í mínu lífi, hann og Bítlarnir. Bowie og Ringo Starr og Kinks – ég er mikill aðdáandi Ray Davies.“

Búa á vinnustofunni

Jón Óskar og Hulda hafa alla tíð deilt verkstæði en tóku skrefið lengra fyrir stuttu og búa nú á vinnustofunni. „Við eigum íbúð á Hverfisgötu en leigjum hana út. Þetta gekk ekki lengur. Við vorum alltaf að draga heim með okkur alls kyns dót. Íbúðin leit út eins og vinnustofa. Þess vegna ákváðum við að fá okkur vinnustofu á Granda og flytja þar inn. Í einu horninu er sófasett og í öðru eldhús en að öðru leyti er þetta vinnustofa. Þetta hefur gefist mjög vel og maður þarf ekkert að afsaka þótt það sé drasl því þetta er bara vinnustofa. Plássið niðri er fyrir grófa vinnu og sóðaskap en efri hæðin fyrir fíngerðari vinnu.

Við vinnum þó aldrei á sama tíma. Það hentar okkur ekki því þá erum við fyrir hvort öðru. Hulda vinnur mikið í gips og það er mikið ryk sem fylgir því. Ég er með olíu og terpentínu. Það verður allt undirlagt hjá okkur. Þetta er spurning um „físík“. Við eigum líka vinnustofu í Vestmannaeyjum sem er mun stærri og þar getum við unnið bæði í einu.“

„Ég er sífellt að reyna að átta mig á því hvernig maður á að vera sem afi.“

Lítil fjölskylda hentaði

Burkni, einkasonur Jóns Óskars og Huldu, hefur ekki fetað í fótspor foreldra sinna og lagt listina fyrir sig. „Ég hef tekið eftir því með börn kollega minna að þau hafa tilhneigingu að fara í öruggara starfsumhverfi. Burkni er forritari og með eigið fyrirtæki og var með mér í Gagarín á sínum tíma. Í dag býr hann til leiki sem reyndar er áhættusamur bransi. Kannski hefur hann aðeins smitast af okkur. Hann gæti alveg fengið sér vinnu enda þörf á tölvufólki, en hann hefur frekar kosið að vinna sjálfstætt.“

Burkni á þrjá syni og Jón Óskar er því kominn í afahlutverkið sem hann segir leggjast vel í sig. „Ég er sífellt að reyna að átta mig á því hvernig maður á að vera sem afi. Þetta eru flottir strákar. Við eignuðumst bara einn son og einhvern tímann sá ég fyrir mér að maður gæti bara dáið út. Ég varð því kátur þegar ég áttaði mig á því að Burkni og hans kona vildu eignast stóra fjölskyldu. Enda er eilífðin fólgin í því að halda áfram í öðru fólki. Smæð okkar fjölskyldu stafar örugglega af vinnunni. Ég veit ekki hversu vel það hefði hentað okkur að eiga mörg börn, verandi bæði myndlistarfólk. Við settumst þó aldrei niður og ræddum það. Ætli þetta hafði ekki verið ómeðvituð ákvörðun.“

„Andri Snær, og hópurinn í kringum hann, er of viðkvæmur fyrir þessu.“

Listamannalaun nauðsynleg

Listamannalaun hafa verið ofarlega á baugi í samfélaginu upp á síðkastið – rökdeilur sem koma Jóni Óskari ekki á óvart. „Þessi umræða kemur upp á hverju ári og hefur gert síðustu 20 árin. Ég er fylgjandi listamannalaunum og tel að þau séu nauðsynleg en fólk getur auðvitað endalaust deilt um af hverju þessi og ekki hinn fær þau. Þetta helst ekkert endilega í hendur við árangur. Sum árin fær maður ekki en fær svo seinna þótt verkefnaskráin sé ekkert stærri. Þetta virðist fara eftir því hverjir eru í nefndinni í það og það skipti. Ég held samt að það séu allir að vinna þetta eftir bestu samvisku en það er ekki hlaupið að því að velja úr öllum umsóknum. Auðvitað er það þannig, meðvitað eða ómeðvitað, að maður veit meira um þá sem maður þekkir. Maður er ekkert endilega að fara hampa þeim en maður þekkir betur til þeirra en yfirsést kannski eitthvað annað af því að maður þekkir það ekki nógu vel.“

Hann neitar því að orðræðan sé grimmari núna en oft áður. „Það er hasar út af Andra Snæ. Menn virðast telja að það sé verið að taka á honum vegna væntanlegs forsetaframboðs. Ég held að það sé ekki þannig. Andri Snær, og hópurinn í kringum hann, er of viðkvæmur fyrir þessu. Í umfjöllun um árangurstengd laun er aðeins verið að tíunda statík. Ég held að því sé ekkert beint gegn Andra. Þetta eru bara tölur á blaði. Sjálfur vil ég Andra Snæ sem forseta. Ég held að hann væri alveg frábær.“

Stofnaði Gráa köttinn

Þótt myndlistin hafi verið ævistarf hans hefur Jón Óskar verið mikið viðloðandi útgáfu dagblaða og tímarita. „Ég hef þörf fyrir að vera innan um annað fólk, því eins fínt og það er að vera á vinnustofu er það frekar einmanalegt. Það er gefandi að vinna á fjölmiðli og skynja þannig það sem er í gangi í samfélaginu. Sú vinna hefur aflað mér tekna af og til auk þess sem við Hulda stofnuðum Gráa köttinn, auk annarra fyrirtækja, til að hafa eitthvert bakland. Þótt það gangi vel í listinni eitt árið getur næsta verið alveg dautt og þá þarf maður að hafa einhverja baktryggingu. Við eigum kaffihúsið ennþá en erum með fólk sem sér um það fyrir okkur en dettum þar inn ef það eru veikindi. Þá stekkur maður til og fer á pönnuna.“

Jón Óskar og Hulda Hákon fluttu nýlega inn á vinnustofu sína.
Búa á vinnustofunni Jón Óskar og Hulda Hákon fluttu nýlega inn á vinnustofu sína.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Smitast af ungu fólki

Inntur eftir því hvernig það er að vera kominn yfir sextugt segir hann það líkt því að vera á sjötugsaldri. „Þetta er sérstakt. Maður er hissa. Ég man í gagnfræðaskóla þegar kennari talaði um aldamótin 2000 og að þá yrðum við 46 ára. Mér fannst það hrikalegt og gat ekki séð mig í þeirri stöðu en svo kemur þetta. Þegar hetjur manns fara að falla frá, eins og Bowie og Lennon, og með þeim þau viðmið sem maður hafði, finnur maður að það saxast á. Ég hef verið heppinn og unnið með ungu fólki í gegnum tíðina, sérstaklega á fjölmiðlunum. Svo hef ég farið á „reunion“ og hitt gömlu skólafélagana og fengið allt aðra mynd af mér. Það er svo gott að vinna með ungu fólki og smitast af því.“

Það eina sem heillar

Hann viðurkennir að hafa oft velt því fyrir sér hvort það væri sniðugra að starfa við eitthvað annað en listina. „En þetta er það eina sem ég hef áhuga á. Þessi vinna getur verið erfið því hún yfirgefur þig aldrei. Ég öfunda stundum fólk sem sinnir sinni vinnu og fer svo heim og geymir vinnuna á meðan. Ég er alltaf með vinnuna með mér. Ekki endilega „físískt“ séð heldur er ég alltaf að velta henni fyrir mér. Stundum hef ég hugsað hvort það væri ekki þægilegt að geta farið í golf eða sund eins og annað fólk og gleymt bröltinu. En svo hverfur sú hugsun fljótt aftur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana
Fókus
Fyrir 5 dögum

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám
Fókus
Fyrir 5 dögum

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“