Ólafur Ragnar: „Þurfum nýja umræðu, nýtt samtal og annars konar samstöðu“

„Það er óneitanlega umhugsunarefni hvers vegna hugarástand hjá þjóðinni sé með þeim hætti að það sé ekki yfirgnæfandi skoðun þorra þjóðarinnar, ef ekki allrar, að það sé í fínu lagi að ég hætti“

„Í þessu tilviki taldi ég nauðsynlegt að deila með þjóðinni hugsunum mínum, áhyggjum og greiningu.“
„Í þessu tilviki taldi ég nauðsynlegt að deila með þjóðinni hugsunum mínum, áhyggjum og greiningu.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í kjölfar hryðjuverkaárásar í París tjáði forseti Íslands sig um hina skelfilegu atburði í fjölmiðlum og hvernig ætti að bregðast við þeim. Viðtölin vöktu mikla athygli en forsetinn sagði meðal annars að Íslendingar þyrftu að vakna til vitundar um vandann sem fylgir öfgafullri íslamstrú og sá vandi yrði ekki leystur með barnalegri einfeldni og aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna þessi og önnur orð forsetans í viðtölunum. Meðal annars hefur málflutningur hans verið sagður óhugnanlegur og hann sakaður um að ala á tortryggni. Í viðtali ræðir forsetinn meðal annars um þessa gagnrýni og hætturnar sem hann telur stafa af hinu öfgakennda íslam. Hann ræðir einnig um loftslagsráðstefnuna í París og framtíð Íslands. Í lokin svarar hann spurningunni um það hvort hann sé búinn að tala ákvörðun um framtíð sína á forsetastóli.

„Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ég gæti ekki elt ólar við allar fullyrðingar eða sleggjudóma varðandi mín ummæli,“ segir Ólafur Ragnar spurður um þessa gagnrýni. „Nokkrum sinnum á forsetatíð minni hef ég verið knúinn til að taka erfiðar ákvarðanir og ganga fram á völlinn og það hefur leitt til viðbragða sem stundum hafa verið ofsafengin og menn notað sterk orð. Ýmis ummæli sem þá féllu eru sérkennileg þegar þau eru rifjuð upp í ljósi sögunnar. Besta dæmið er kannski Icesave og hvað sagt var um ákvarðanir mínar af ýmsum góðum mönnum sem nú ganga aftur fram á völlinn og hafa stór orð um forsetann.

Í þessu tilviki nú gerði ég mér skýra grein fyrir því að ég væri að fara inn á eldfimt, viðkvæmt og tilfinningaþrungið svæði. Auðvitað hefði verið þægilegast fyrir mig að fara með kurteisleg orð um hörmungarnar í París og nauðsyn samstöðu og láta þar við sitja. En ég tel að forseti eigi að gera þjóðinni grein fyrir alvöru máls ef hann er sjálfur sannfærður um að viðburðirnir og afleiðingarnar, sem þeir fela í sér, skipti þjóðina miklu. Um leið er nauðsynlegt að þjóðin vakni til vitundar um vandann og ræði hann á rólegan og yfirvegaðan hátt.“

Óþægileg svör

Einhverjum finnst að þú hafir með ummælum þínum ekki talað eins og sameiningartákn þjóðarinnar. Hvað segirðu um það?

„Hlutverk forseta Íslands er margslungið. Oft er sagt að hann eigi að vera sameiningartákn en hlutverk forsetans er fjölþættara eins og dæmin sanna. Hann er stundum knúinn til að taka ákvarðanir sem lítt eru til vinsælda fallnar. Fyrirrennari minn gerði það þegar hún hafnaði því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um EES sem varð til þess, eins og hún sagði, að margir gamlir vinir hennar hættu að heilsa henni. Allir þekkja átök og ummæli um ýmislegt sem ég hef gert.

Í þessu tilviki taldi ég nauðsynlegt að deila með þjóðinni hugsunum mínum, áhyggjum og greiningu. Þessi atburðarás hefur verið svo yfirþyrmandi og felur í sér slík þáttaskil að mér finnst nauðsynlegt að Íslendingar átti sig á því að þótt við búum hér í Norður-Atlantshafi og séum fámenn þjóð snerta þessir atburðir okkur á einn eða annan hátt og því er nauðsynlegt að umræða fari fram. Um leið og við varðveitum hið frjálslynda, umburðarlynda og lýðræðislega samfélag þá megum við ekki loka augum fyrir því að til er ungt fólk, aðallega karlmenn, sem telur að réttlætanlegt sé að drepa venjulega borgara í nafni trúar.

„Mér finnst skrýtið að margir þeirra, sem gagnrýna mig fyrir að hvetja ekki einvörðungu til umburðarlyndis og skilnings, beita í þeirri umræðu orðfæri og fella dóma sem síst eru til þess fallin að hvetja fólk til að fara fram á völlinn á jákvæðan hátt.“

Nokkrum dögum eftir að ég lét ummæli mín falla í útvarpsviðtali sagði forsætisráðherra Svíþjóðar, foringi sænska jafnaðarmannaflokksins, eiginlega nákvæmlega það sama. Ég hef ekki orðið var við að hann sé úthrópaður hér á Íslandi fyrir þau ummæli. Eru þó sumir, sem gagnrýnt hafa ummæli mín, skráðir samflokksmenn hans hér á landi. Hann benti Svíum á að nauðsynlegt væri að segja skilið við þá einföldu trúgirni að sænskir ríkisborgarar gætu ekki verið í fylkingu þessara vígamanna.

Mér finnst skýrasta sönnun þess að nauðsynlegt var að hefja þessa umræðu og að rétt væri að forsetinn færi fram á völlinn með þessum hætti vera sú staðreynd að rúmri viku eftir atburðina í París var höfuðborg Evrópuhugsjónarinnar lokað. Mér vitandi eru engin stjórnmálaöfl í Belgíu sem gagnrýna þá ákvörðun stjórnvalda. Sá verknaður ætti kannski að verða ýmsum þeim, sem hafa ekki viljað horfast í augu við rót vandans, tilefni til að átta sig á því að hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hafa með þessum atburðum orðið þau þáttaskil að evrópsk ríki þurfa með nýjum hætti að glíma við þennan vanda. Ummæli forsætisráðherra Svíþjóðar eru líka sönnun þess. En það er einnig merkilegt að allir flokkar í Noregi, þar með talinn norski Verkamannaflokkurinn, hafa á síðustu dögum sameinast um að herða reglur um innflytjendur á þann hátt sem ég held að margir hér á Íslandi hefðu talið óhugsandi og hefðu kannski fordæmt ef haft hefði verið orð á því hér á landi.

Það er tilefni til þess að menn velti því fyrir sér af hreinskilni og heiðarleika af hverju allir stjórnmálaflokkar í Noregi telja nauðsynlegt að sameinast um þessar breytingar. Af hverju talar jafnaðarmannaforinginn í Svíþjóð með þessum hætti? Hvers vegna sameinast öll stjórnmálaöfl í Belgíu um að loka höfuðborg Evrópuhugsjónarinnar? Svörin við þessum spurningum geta verið óþægileg. En það er nauðsynlegt að við spyrjum okkur þessara spurninga.“

Þurfum nýja umræðu

Hvernig eigum við Íslendingar að bregðast við?

„Fyrstu viðbrögðin, eins og ég reyndi að árétta með ummælum mínum, er að ræða þessa hluti með opnum og heiðarlegum hætti án þess að fara strax að ásaka hvert annað um annarleg sjónarmið eða stimpla viðhorfin. Vandinn er svo hrikalegur, margbrotinn og snúinn að það þarf að veita sérhverjum rétt til að taka þátt í umræðunni án þess að hann sé fordæmdur af öðrum. Mér finnst skrýtið að margir þeirra, sem gagnrýna mig fyrir að hvetja ekki einvörðungu til umburðarlyndis og skilnings, beita í þeirri umræðu orðfæri og fella dóma sem síst eru til þess fallin að hvetja fólk til að fara fram á völlinn á jákvæðan hátt. Fyrsta skrefið er að átta sig á því að við þurfum nýja umræðu, nýtt samtal og annars konar samstöðu. Samstöðu sem er hafin yfir flokkadrætti og fyrri viðhorf í þessum efnum.“

„Íslam er mjög öflugt. Þessi trúarbrögð eiga sér merka sögu og eru í eðli sínu friðsöm en hafa líka fóstrað öfgahópa eins og kristnin gerði fyrr á öldum.“

Finnst þér skipta einhverju máli í umræðunni að Vesturlönd hafa víða um heim, ekki síst í Miðausturlöndum, sýnt yfirgang sem elur á andúð á þeim?

„Það eru framin hryðjuverk í Miðausturlöndum nánast á hverjum degi og víðar í heiminum, til dæmis í Afríku. Orsökin er að einhverju leyti vanhugsaðar aðgerðir sumra vestrænna ríkja í Miðausturlöndum á fyrri tíð. Ferill Vesturlanda í þessum heimshluta á síðustu hundrað árum er markaður hrikalegum mistökum, ógnarverkum og aðgerðum sem hafa haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og eru sumar undirrót þess vanda sem við erum að glíma við í dag. En við verðum engu að síður að horfast í augu við það að í samfélögum, sem eru okkur náin, eru einstaklingar sem eiga sér hugmyndalegar, trúarlegar og persónulegar rætur í þessum heimshluta og eru nú í heilögu stríði við evrópskt samfélag, samfélag lýðræðis, mannréttinda, umburðarlyndis og frelsis sem er merkilegasta framlag Evrópu til heimsbyggðarinnar. Í því stríði misbeita þessir einstaklingar íslamstrú og þeim kjarna hennar sem hálfur annar milljarður jarðarbúa aðhyllist.

Íslam er mjög öflugt. Þessi trúarbrögð eiga sér merka sögu og eru í eðli sínu friðsöm en hafa líka fóstrað öfgahópa eins og kristnin gerði fyrr á öldum. Þessir hópar fara nú um heiminn og gera tilkall til þess að þeirra útgáfa af íslam sé viðurkennd sem hin eina rétta. Þeir telja réttlætanlegt að drepa fólk ef það vill ekki lúta trúarlegum aga öfgakenndrar útgáfu af íslam, útgáfu sem langflestir þeirra sem trúna aðhyllast fordæma. Þetta er útgáfa sem leyfir ekki mannréttindi, leyfir ekki frjálsa umræðu, vill ekki trúfrelsi og hafnar öllum þeim ávinningi í réttindum kvenna sem náðst hefur á Vesturlöndum, hafnar nánast öllu því sem við höfum talið kjarnann í siðmenningu okkar, lýðræði og réttarfari.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Eðli hins öfgakennda íslams er að viðurkenna ekki réttarríki jafnréttisins sem er okkar aðalsmerki. Þetta er vandi sem þjóðþing í ýmsum Evrópulöndum hafa staðið frammi fyrir, sömuleiðis yfirvöld í skólum. Við gætum þurft að standa frammi fyrir því sama ef hér festa rætur söfnuðir sem aðhyllast þá útgáfu af íslam sem boðar að konan sé óæðri karlmanninum. Eigum við að samþykkja það að trúarhópar sem viðurkenna ekki jafnrétti kvenna fái að starfa á þeim grundvelli í okkar norrænu samfélögum? Á það að vera réttur feðranna og bræðranna að ákveða þeirra framtíð og fara gegn lögum landsins og almennum mannréttindum? Þessum spurningum verðum við að svara.

Ég tel líka ástæðu til að árétta að þau öfl sem hafa fóstrað og fjármagnað öfgakennda útgáfu af íslam, stutt staði og skóla þar sem ungt fólk, einkum karlmenn, eru aldir upp í öfgakenningum, hafa greinilega ákveðið að Ísland eigi að vera hluti af þeirra athafnasvæði.

Eins og ég hef greint frá átti ég fund með sendiherra Sádi-Arabíu og í lok hans sagði hann frá því að Sádi-Arabía ætlaði að setja rúmar 100 milljónir í byggingu mosku á Íslandi og sagðist hafa skoðað lóðina. Honum fannst þetta fullkomlega eðlilegt. Um leið og við varðveitum trúfrelsi í okkar landi finnst mér óeðlilegt að erlent ríki blandi sér með þessum hætti í störf safnaða á Íslandi og skipti sér þannig af því hvernig búið er að þeim.“

Eiga Íslendingar að segja sig frá Schengen?

„Ég hef ekki svar við þeirri spurningu. Ég tel hins vegar að það sé nauðsynlegt að við ræðum Schengen-samstarfið án þess að vera með fyrirframgefna niðurstöðu. Schengen-samstarfið hefur að ýmsu leyti haft kosti í för með sér fyrir okkur og aðra í Evrópu, kosti sem felast meðal annars í greiðri för innan Schengen-svæðisins og greiðum aðgangi að upplýsingakerfum um brotamenn. En því hafa líka fylgt vandamál. Við sjáum til dæmis að hluti af eiturlyfjavandamálinu á Íslandi hefur magnast vegna þess að fólk hefur getað komið inn í landið í krafti Schengen-samkomulagsins með öðrum hætti en áður var.

Með auknum fjölda fólks, sem fer um Keflavíkurflugvöll á hverju ári, er ljóst að það verður æ flóknara fyrir okkur að standa þessa vakt. Þess vegna eiga menn ekki að fara á límingunum þó að hvatt sé til þess að fram fari eðlilegt og opið mat á því hvort það þjóni hagsmunum okkar að vera aðilar að Schengen-samkomulaginu áfram. Ég hef ekki myndað mér afstöðu í þeim efnum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir kostunum.

Þeir sem starfa hér við landamæragæslu eru á vaktinni. Það væri fróðlegt fyrir okkur að hlusta á þeirra ábendingar, fræðast um reynslu þeirra og tillögur. Við eigum að vera tilbúin að hlusta á lögregluna og þá sem sinna löggæslu.“

Framlag Íslands getur skipt sköpum

Snúum okkur að loftslagsráðstefnunni í París sem hefst á næstu dögum. Þú ert mikill áhugamaður um áhrif loftslagsbreytinga. Ertu bjartsýnn á árangur á þeirri ráðstefnu?

„Ég hef lengi verið þátttakandi í umræðunni um loftslagsbreytingarnar. Það eru um 30 ár síðan við Al Gore ræddum þessi mál fyrst. Mín viðhorf til ráðstefnunnar í París mótast nokkuð af þessari löngu þátttöku. Ég er bjartsýnni á árangur í París en saga glímunnar við loftslagsbreytingar á síðustu 20–30 árum kann að gefa tilefni til. Um leið er mikilvægt að allir átti sig á því að framhaldið skiptir ekki síður máli.

Í aðdraganda Parísarfundarins hafa orðið mikilvæg þáttaskil, bæði hvað snertir viðurkenningu á vísindalegum niðurstöðum og vilja ríkja til þess að takast á við þennan vanda. Ég vona að Parísarráðstefnan skili þeim árangri að víðtækt samkomulag náist en það mun hins vegar ekki nægja. Við þurfum á næstu áratugum að ná enn meiri árangri ef við ætlum að koma í veg fyrir verulega hækkun sjávarborðs og aðrar óafturkræfar afleiðingar loftslagsbreytinga.“

Hvað geta Íslendingar lagt að mörkum í þessari baráttu?

„Mér hefur fundist merkilegt og ánægjulegt að finna hvernig framlag Íslands getur skipt sköpum. Það er á þremur sviðum sem umheimurinn horfir í vaxandi mæli til þess sem við höfum fram að færa í þessari baráttu.
Í fyrsta lagi erum við eitt besta dæmið um það hvernig land getur horfið frá því að nota nánast eingöngu olíu og kol sem orkugjafa, eins og gert var þegar ég var ungur, yfir í að ná því á æviskeiði einnar kynslóðar að öll framleiðsla á rafmagni og hitun húsa sé byggð á endurnýjanlegri orku. Þegar menn kynna sér hve fátækt og vanþróað Ísland var um miðbik síðustu aldar þá er þessi vegferð enn merkilegri. Það sést einnig í efnahagslífi landsins hvernig þessi breyting í átt að hreinni orku hefur skapað okkur fjölþætt atvinnutækifæri. Þau birtast sem nýsköpun á mörgum sviðum, í hátækni, í ferðaþjónustu og á fleiri sviðum. Það hefur reynst efnahagslega skynsamlegt að hverfa frá olíu og kolum yfir í hreina orku. Þetta er meginframlag Íslands til þessarar umræðu.

Margir hafa verið þeirrar skoðunar vítt og breitt um veröldina að nýting hreinnar orku sé hugsjón en ekki byggð á viðskiptasjónarmiðum. En saga Íslands er skýrt dæmi um að það er efnahagslega skynsamlegt að hverfa frá olíu og kolum yfir í nýtingu hreinnar orku. Í París verður, í tengslum við loftslagsráðstefnuna, stofnað heimssamstarf ríkja um nýtingu jarðhita þar sem fordæmi Íslands gegnir ríku hlutverki.

Í öðru lagi er framlag vísindasamfélagsins á Íslandi afar mikilvægt, og þá einkum á tveimur sviðum. Annars vegar eru það merkilegar jöklarannsóknir og rannsóknir á ís sem eru brýnt framlag til alþjóðlegs eftirlits með jöklum og ísi þöktum svæðum. Hins vegar eru hafrannsóknirnar sem við höfum stundað lengi og varpa skýru ljósi á það hvernig breytingar á hitastigi, lífríki hafsins og fiskistofnar eru hluti af þeim áhrifum sem loftslagsbreytingarnar hafa í för með sér.

Framlag íslenska vísindasamfélagsins í hinn alþjóðlega þekkingarbanka á þessu sviði er miklu meira en menn gera sér almennt grein fyrir hér heima. Því til viðbótar skiptir tæknikunnátta og verkfræðireynsla í nýtingu á hreinni orku miklu máli og gerir að verkum að nú eru íslenskar verkfræðistofur og orkufyrirtæki í verkefnum vítt og breitt um veröldina.
Þriðji þátturinn snýst um það hvernig okkur hefur tekist á allra síðustu árum að gera Ísland að árlegum umræðuvettvangi um Norðurslóðir. Þjóðir heims senda öflugar sveitir til Reykjavíkur og Ísland hefur orðið áfangastaður þar sem tengslin milli Norðurslóða og loftslagsbreytinganna eru í brennidepli á hverju ári.
Þessir þrír þættir gera að verkum að framlag Íslands til umræðu um og lausnar á þessu stóra alþjóðlega vandamáli er meira og víðtækara en fámenni okkar gefur til kynna.“

Sýn bjartsýni og dirfsku

Hvernig sérð þú framtíð Íslands fyrir þér?

„Vandinn við umræðuna er að það má helst ekki tala jákvætt um árangur Íslendinga án þess að vera umsvifalaust sakaður um gamaldags þjóðrembu. En ef við horfum annars vegar á upphaf lýðveldisins og hvernig Ísland var um miðja síðustu öld og svo hins vegar hvernig staða þorra ríkja í veröldinni er á þessari öld þá er eiginlega ekki annað hægt en að komast að þeirri niðurstöðu að árangur Íslendinga fram að þessu sé ótrúlegur. Auk þess búum við að tækifærum á þessari nýju öld sem eru í augum margra annarra þjóða eins og gósenland.

Þegar lýðveldið var stofnað vorum við sannarlega eitt fátækasta land í Evrópu. Við þurftum gjaldeyri til nánast allrar uppbyggingar í landinu. Það var á engan hátt sjálfgefið að lýðveldið myndi efnahagslega lifa þetta af. Landhelgin var þrjár sjómílur, við höfðum ekkert forræði yfir fiskimiðunum og útflutningur okkar var mjög einhæfur.
Þrátt fyrir erfiðleika síðustu ára og fjármálakreppuna sýna allir alþjóðlegir mælikvarðar að Ísland er nú meðal fremstu ríkja hvað snertir almenna velferð, jafnrétti, stöðu kvenna og aðgang að menntun. Atvinnulífið er fjölbreytt og nýjar atvinnugreinar hasla sér völl. Ef þessum árangri væri lýst fyrir þeim, sem voru í forystu lýðveldisins á fyrstu tuttugu til þrjátíu árunum, þá held ég að þeir hefðu talið ævintýri líkast að við skyldum ná þessum árangri.

Þegar maður nýtur þeirra forréttinda sem fulltrúi Íslands að fara vítt og breitt um veröldina og taka síðan á Bessastöðum á móti fjölda erlendra fulltrúa þá kynnist maður líka sýn gestanna á það hve þessi árangur er merkilegur og einstakur.

Árangurinn á að vera forsenda þess að við höldum til móts við framtíðina í krafti þess að við getum ýmislegt. Við skulum ekki gleyma árangri Íslands á sviði menningar og lista. Mín kynslóð ólst upp við það að við ættum einn og einn listamann, sem gæti hlotið frægð í öðrum löndum, einn og einn íþróttamann sem gæti unnið sigur á erlendum mótum. Nú vaxa upp í landinu kynslóðir sem finnst sjálfsagt að margir íslenskir rithöfundar séu lesnir vítt og breitt í heiminum. Við eigum tónlistarfólk sem heldur hundruð tónleika um veröld víða á hverju ári. Ný kynslóð kvikmyndagerðarfólks markar íslenskri kvikmyndagerð viðurkenndan sess á heimsvísu. Á sviði málaralistar og nútímalistar á öðrum sviðum eigum við líka frábæra einstaklinga. Vísindasamfélagið hefur tekið stakkaskiptum hvað varðar fjölbreytni og árangur. Nú elst ungt fólk upp við það að hægt er að hafa Ísland sem bækistöð og ná víðtækum árangri á heimsvísu.

Þetta gerir að verkum að sýn okkar á framtíðina á að vera byggð á bjartsýni og dirfsku til að gera nýja hluti. Árangur er ekki undantekning eins og var þegar ég var að alast upp heldur meginregla. Til viðbótar við þessa eiginleika á sviði menntunar, menningar, viðskipta og annarra athafna í okkar samfélagi þá hafa náttúran, umhverfið, hafið og landið skilað okkur gríðarlegum auðlindum sem við erum í vaxandi mæli að læra hvernig á að nota á sjálfbæran og öruggan hátt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þáttaskilin í heimsmyndinni hafa síðan gert að verkum að Ísland býr nú að legu sem gerir það að ákjósanlegum áfangastað og samræðustað fyrir flestar forystuþjóðir veraldar um framtíð þess stóra hluta jarðar sem við köllum Norðurslóðir.

Þegar ég ólst upp vorum við nánast á jaðri hins byggilega heims. Nú erum við á miðju umræðutorginu. Ég get borið vitni um það sem forseti að við getum sagt með sanni að við njótum núna trausts samstarfs við nágranna okkar í vestri, hvort sem það eru Bandaríkin eða Kanada. Við njótum náins samstarfs við öll helstu forysturíki Evrópu. Og við njótum góðra tengsla í vaxandi mæli við forysturíki í Asíu.

Við eigum marga kosti í okkar alþjóðlegu samskiptum. Þegar þeir bætast við auðlegð landsins og hæfileika fólksins sjálfs og tækifærin til að nýta þá hæfileika þá væri það meiri háttar klaufaskapur ef okkur tækist ekki sem þjóð á næstu áratugum að byggja á þessum trausta grunni.

Mér finnst miður að þeir sem vilja halda til haga árangri Íslendinga séu sakaðir um þjóðrembu. Um leið og þeir halda fram kostum Íslands og árangri Íslendinga eru þeir sagðir fara með ýkjusögur. Það er eins og ætlast sé til að þeir haldi bara á lofti brotalömum eða öðru sem dregur kjarkinn úr ungu fólki.

Eitt af því sem er nauðsynlegt til að ná árangri er að hafa kjark til að gera nýja hluti. Ungt fólk þarf að fá skilaboð um að það er hægt að ná miklum árangri með því að byggja áfram á Íslandi sem heimavelli um leið og tekist er á við erfiðleika og vandamál á raunsæjan hátt og sameinast um umbætur. Það er hins vegar svartur blettur á samfélagi okkar að of margir búa við sára fátækt og erfiðleika. Mér er það enn ráðgáta af hverju ekki tekst í þessu litla landi að ná samstöðu ríkis, sveitarfélaga og annarra um að tryggja að enginn þurfi að glíma við daglegan skort eða fátækt í okkar landi.“

Sérstakur bókasiður

Nú líður að jólum. Skipta jólin þig máli?

„Já, þau hafa að sjálfsögðu alltaf gert það, kannski er það arfleifð frá uppeldi mínu vestur á fjörðum. Jólin voru stórviðburður í vestfirsku sjávarplássi og eini tíminn á árinu sem epli bárust í þorpið. Mikil helgi fylgdi síðan jólaguðþjónustunni í þorpskirkjunni. Þessi andi hefur alltaf fylgt mér og gert að verkum að jólin eru fyrir mér eins og mörgum öðrum ekki bara trúarhátíð heldur líka hátíð fjölskyldu og samfélags.

Við í fjölskyldunni höfum alltaf lagt mikið upp úr jólunum, bæði meðan Búbba var á lífi og síðan eftir að Dorrit varð hluti af fjölskyldunni þótt hún sé annarrar trúar. Við Dorrit höfum verið heima hjá Döllu og Tinnu til skiptis á aðfangadagskvöld og um jólin reynum við öll að koma saman á Bessastöðum ásamt stjúpdætrum mínum, Þóru og Erlu. Það er sérstakur blær yfir Bessastöðum jóladagana. Messan á aðfangadag í Bessastaðakirkju hefur alltaf sinn sess og ýmsir hafa fyrir sið að koma í þá messu þótt þeir búi ekki á Álftanesi.

Þetta er líka mjög skemmtilegur tími þegar kemur að bókum. Ég hef lengi horft á jólin og vikurnar í desember sem tímann þegar maður kaupir nýjar bækur og les þær og fylgist með þeirri ótrúlegu nýsköpun sem er í íslenskum bókmenntum.

Fyrir nokkrum árum bjó ég til sérstakan sið varðandi afmælisdaga barnabarnanna sem sum eiga afmæli í mánuðunum nærri jólum. Ég fer með þau, hvert fyrir sig, í smá leiðangur þar sem þau geta valið sér afmælisgjafir en það er alltaf skilyrði að líka verði farið í bókabúð þar sem þau fá að velja sér bækur. Það er gaman að fá að skoða bækurnar, sem hafa komið út, með augum barnanna. Ég upplifi tvöfalda ánægju varðandi bókaútgáfuna um jólin vegna þess sem ég vel handa sjálfum mér og svo vegna þessara leiðangra sem ég fer í með barnabörnin. Mér sýnist reyndar vera óvenju margar forvitnilegar bækur á markaði um þessi jól.

En jólin eru líka vinnutími hjá mér. Nýársávarpið hvílir í huga manns sem verkefni þessa daga og samningu þess er ekki lokið fyrr en dagana milli jóla og nýárs.“

Augu greinandans

Talandi um nýársávarpið. Ertu búinn að taka ákvörðun hvort þú hættir sem forseti eða heldur áfram?

„Niðurstaða af þessu tagi fæst ekki á einhverri einni stundu. Eitt af því sem skapar mér vanda í þessum efnum er að ég er sífellt að hitta fólk sem hvetur mig til að halda áfram. Það er óneitanlega umhugsunarefni hvers vegna hugarástand hjá þjóðinni sé með þeim hætti að það sé ekki yfirgnæfandi skoðun þorra þjóðarinnar, ef ekki allrar, að það sé í fínu lagi að ég hætti.

Ég horfi á samfélagið og forsetaembættið að nokkru leyti með augum greinandans og reyni að taka sjálfan mig út úr myndinni. Þá er það visst áhyggjuefni að það skuli enn vera svo ríkt í hugum manna að það þurfi að vera á Bessastöðum einstaklingur sem ekki haggast í róti umræðunnar, bloggsins og hitans sem fylgir átökum dagsins. Þar með er ég ekki að segja að ég sé eini maðurinn sem geti gegnt því hlutverki.

Ég hef sagt við marga að ekki sé hægt að gera þá kröfu á mig að ég sé alltaf þessi kjölfesta. Ég er búinn að vera lengi í þessu embætti og það felur í sér margvíslegar takmarkanir á einkalífi, sem ég ætla ekkert að tíunda, en eru hluti af þeirri upplifun og skyldum sem felast í embættinu.

Eins og ég fjallaði um í síðasta áramótaávarpi, þá taldi ég rétt að láta af embættinu fyrir fjórum árum; það var einlæg skoðun og niðurstaða okkar Dorritar. Síðan hófst atburðarás sem allir þekkja. Sumir hafa túlkað það þannig að þarna hafi verið á ferð klækjastjórnmál af minni hálfu en það er algjör misskilningur.

Í þessu embætti læra menn að bera virðingu fyrir embættinu og að bera virðingu fyrir þjóðinni. Menn átta sig fljótlega á því þegar þeir eru kosnir til þessa trúnaðar að það er vilji þjóðarinnar sem ræður. Það er sú skylda sem sérhver, sem gegnir þessu embætti, verður að meta mest. Lærdómurinn er sá að þjóðin ræður.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.