„Stofnum útrýmingarbúðir fyrir feitt fólk og sjónvörpum aftökunum á Skjá einum“

Dóri DNA gagnrýnir Biggest loser og „skemmtilega úrkynjað samfélag“ á Íslandi

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

„Það er komið nóg í stríðinu gegn skynseminni. Umræðan um fíkniefni verður að hætta að snúast um með eða á móti. Hún snýst um orsök og afleiðingu. Sá sem vill lögleiða kannabisefni er ekki hasshaus, heldur mannvinur,“ segir Halldór Halldórsson, einnig þekktur sem Dóri DNA, í nýjum pistli í Kjarnanum þar sem hann gagnrýnir lýðheilsuhugsun landsmanna.

Hann segir í pistlinum að forvarnir gegn fíkniefnaneyslu snúist um lítið annað en hræðslu. „Við þurfum ábyrgari fræðslu um öll þessi efni. Handónýtt að segja að hass sé aulagas, að skakkur strákur hafi einu sinni grillað köttinn sinn og allt þetta jafningafræðslu (jafningjaHRÆÐSLU)-kjaftæði, svo þegar fólk kemst loks í þetta þá bara flissar maður og hefur gaman af.“

„Skemmtilega úrkynjað samfélag“

Víkur hann orðum sínum að reykingarfólki og þeim sem eru offeitir: „Við erum alveg búin að pakka reykingafólki saman. Og nú er kominn tími á að hreinsa upp eitthvað annað sem er óhollt og ógeðslegt – offitu,“

„Það er allt of stutt síðan The Biggest Loser var bara eitthvað sem jafn sturlað þjóðfélag og Ameríka gat tekið upp á.“

„Borðum eins og hellisbúar, hlaupum eins og steinaldarmenn, öskrum eins og risaeðlur. Engin kolvetni, ekki ef þú ert feitur að minnsta kosti. Sleppum því að borða tvo daga vikunnar. Meistaramánuður – vertu besta útgáfan af sjálfum þér. Crossfit, bootcamp, víkingaþrek – allt gott og blessað. Þangað til við förum að tala um feitt fólk eins og það eigi bágt. Tölum við það eins og það sé sjúklingar. Göngum svo skrefið til fulls og stofnum útrýmingarbúðir fyrir feitt fólk og sjónvörpum aftökunum á Skjá einum á fimmtudagskvöldum,“ skrifar Dóri.

„Það er allt of stutt síðan sjónvarpsþáttur eins og The Biggest Loser var bara eitthvað sem jafn sturlað þjóðfélag og Ameríka gat tekið upp á. Skemmtilega úrkynjað samfélag þetta nýja Ísland.“ Hann segir að fasismi lykti eins og „búningsklefi í World Class“: „Ég er feitur, en ég er fallegur og umfram allt er ég kynþokkafullur, “ skrifar Dóri enn fremur en pistilinn má nálgast í heild sinni á vef Kjarnans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.