„Við þurfum sterkan leiðtoga“

Bubbi og Hrafnhildur vilja Ólaf áfram

Tónelsku turtildúfurnar, Bubbi Morthens og eiginkona hans Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, hafa bæði stigið fram og lýst yfir stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson til áframhaldandi setu á forsetastóli. Hrafnhildur segir rökfestu og ræðusnilld Ólafs vera nokkra af hans góðu kostum í stuðningsgrein sem birtist í Fréttablaðinu og Vísi í dag. Í nýlegum pistli á Pressunni taldi Bubbi upp ýmsar ástæður fyrir því hversvegna hann ætlaði að kjósa Ólaf Ragnar, en þó skipti þar mestu máli að það væru óvissutímar framundan.

„Rökfesta og ræðusnilld eru nokkrir af mörgum kostum Ólafs Ragnars og hafa nýst honum vel í embætti forseta Íslands,“ segir Hrafnhildur meðal annars í grein sinni, en hún segist aldrei hafa verið stoltari af honum en í kjölfar efnahagshrunsins 2008. „Þegar þjóðin átti undir högg að sækja sótti Ólafur Ragnar fram á erlendum vettvangi og útskýrði sjónarmið Íslendinga fyrir erlendum blaðamönnum og ráðamönnum. Rökfesta hans, þekking og færni í erlendum tungumálum varð til þess að á sjónarmið Íslendinga var hlustað.“ Segir hún Ólaf vera verðmætan fulltrúa þjóðarinnar heima og erlendis, sem hafi átt drjúgan þátt í að endurheimta mannorð Íslendinga á erlendum vettvangi.

„Við þurfum sterkan leiðtoga sem kemur auga á það jákæða og hvetur til dáða. Ólafur Ragnar Grímsson er besti kosturinn sem forseti lýðveldisins Íslands,“ segir Hrafnhildur. „Við þurfum forseta með bein í nefinu. Forseta sem þorir. Forseta sem hefur sýnt það áður að hann er óhræddur að tala máli þjóðarinnar þegar ráðamenn hennar voru búnir að gefast upp,“ segir Bubbi. Það verða því að öllum líkindum samstill hjón sem ganga að kjörborðinu á laugardaginn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.