Vigdís gagnrýnir „öfgafemínisma“

Femínistinn María Lilja segir undarlegt að „photoshoppa“ forsetann fyrrverandi

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það sem mér fannst bagalegast var að blaðamaður skyldi ekki skilgreina hvað hann ætti við með þessari öfgaspurningu,“ segir femínistinn og pistlahöfundurinn María Lilja Þrastardóttir um viðtal Monitor við frú Vigdísi Finnbogadóttur sem er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði tímaritsins en blaðið er borið út með Morgunblaðinu og dreift frítt í skóla um allt land.

Í viðtalinu er Vigdís meðal annars spurð út í stöðu mála í kvenréttindabaráttunni og hvort hún fylgist með umræðunni um „öfgafemínisma“. Svar Vigdísar er á þá leið að ótrúlega mikið hafi áunnist en að algjört jafnrétti hafi ekki náðst.

„Við vitum öll að á meðan launajafnrétti er ekki náð þá er ekkert jafnrétti. Það verður að meta störf kvenna til jafns við störf karla. Hin gullni meðalvegur er þó alltaf sterkastur. Allar öfgar fara öfugt inn í hugsunargang samfélagsins, barátta sem er mjög öfgafull snýst upp í andhverfu sína. Auðvitað fylgist ég með allri umræðu um slíkt og segi; gætum varhug við því, öfgarnar geta eyðilagt góðan málstað,“ segir Vigdís.

Í viðtalinu kemur einnig fram að Vigdís sé mikil kvenréttindakona en að hún sé einnig að verða meiri og meiri karlréttindakona. „Ég vil ekki að karlar þurfi að upplifa það í dag sem konur þurftu að upplifa áður, að konur séu orðnar svo sterkar að karlar þurfi að hafa sig alla við til að viðhalda jafnrétti,“ segir hún máli sínu til skýringar.

María Lilja segist gjarnan vilja fá að vita hverjar öfgarnar séu sem blaðamaður Monitor eigi við. „Eru það myndaalbúmin hennar Hildar Lilliendahl eða pistlarnir mínir og Önnu Bentínu? Ég skil ekki þetta hugtak; öfgafemínisti. Hvernig er hægt að aðhyllast öfgajafnrétti? Það er ekki til,“ segir María Lilja og bætir við að sér hefði fundið sniðugra að spyrja Vigdísi út í öfgakarlrembur. „Það eru hættulegar öfgar og það er til nóg af slíku á Íslandi. Að mínu mati eru pistlaskrif og myndaalbúmið hennar Hildar ekki öfgar. Ummæli karlanna í albúminu eru miklu frekar öfgafull heldur en það að safna þeim saman og opinbera.“

DV leitaði einnig eftir viðbrögðum hjá Hildi Lilliendahl sem sagði umrædda grein bera vott um slappa blaðamennsku. „Hvers vegna var hún ekki spurð hvað hún ætti við? Það er alltaf verið að tala um öfgar í málflutningi og aðferðum femínista en svo lendir fólk í vandræðum með að benda á þessar öfgar. Vigdís kallar sjálfa sig karlréttindakonu. Gott og vel. En hvað á hún við? Hvaða áhyggjur hefur hún af réttindum karla? Hvar finnst henni halla á, hvað heldur hún að verði tekið frá þeim annað en forréttindi?“

Hildur segir að það geti verið hættulegt að hleypa svona umræðu gagnrýnilaust í loftið. „Ég hitti menntaskólanema í morgun sem standa í þeirri meiningu að til sé einhver öfgaarmur femínistahreyfingarinnar sem vilji banna bæði auglýsingar og kynhárarakstur með einhvers konar lagasetningu. Ég er alltaf að tala við fólk sem heldur að femínistar vilji snúa við sönnunarbyrði í nauðgunarmálum. Enginn af þeim femínistum sem ég hef hitt, þekki eða umgengst hefur nokkurn áhuga á slíku. Það að gagnrýna eitthvað er ekki það sama og að vilja banna það.

Ég held að málflutningur á borð við þennan hjá Vigdísi, sem er ekki gagnrýndur af blaðamanni eða hún látin svara fyrir hann að nokkru leyti, síist inn í huga krakka á mótunarskeiði og þau fyllist ranghugmyndum um baráttu femínista. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að það er alveg ofboðslega mikilvægt að koma kynjafræðunum inn í kennaranám og í menntun grunnskólabarna.“

Augljóslega hefur mikið verið unnið við myndir af Vigdísi í blaðinu en hvorki Hildur né María Lilja hafa skoðun á myndvinnslunni. „Enda skiptir minnstu máli hvernig konur líta út í fjölmiðlum. Ég er meira að rýna í innihaldið. En auðvitað er það undarlegt ef starfsfólki Monitor finnst Vigdís Finnbogadóttir ekki nógu flott á forsíðuna nema vel „photoshoppuð“,“ segir María Lilja.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.