Rólegheit og kaka

Beata Starczewska Davidsson verður fertug á laugardaginn

„Ég ætla að fagna með fjölskyldunni í rólegheitum enda eignaðist ég barn fyrir níu dögum. Það verða bara rólegheit og góð kaka,“ segir Beata Starczewska Davidsson í Hveragerði sem fagnar fertugsafmæli sínu á laugardaginn.

Beata kom til Íslands frá Póllandi árið 2006. Hún segir að það hafi ekki verið neitt sérstakt að eiga afmæli svona stuttu fyrir jól. „Það höfðu allir eitthvað annað að hugsa um en ég gerði samt alltaf eitthvað skemmtilegt með vinum mínum. Við fórum út á djammið,“ segir hún og bætir við að það sé lítið mál að nálgast fimmtugsaldurinn. „Ég hugsa nú ekkert um það. Fyrst ætla ég að verða fertug áður en ég fer að pæla í því. Svo var ég líka að eignast barn og það yngir mann upp.“

Beata var að eignast sitt þriðja barn en elsti sonur hennar er 21 árs og dóttir hennar 13 ára. „Það er langt á milli elsta og yngsta,“ segir hún brosandi og bætir við að sá stutti sé heilbrigður og hamingjusamur. „Ég fékk hann næstum því í afmælisgjöf. Ég ætlaði alltaf að eignast eitt barn í viðbót fyrir fertugt og það tókst.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.