Dorrit: „Íslendingar kunna ekki að knúsa“

Mætti í matargjöf hjá Fjölskylduhjálp Íslands

Dorrit Moussaieff mætti óvænt í matargjöf í vikunni. Dorrit ræddi við viðstadda, faðmaði þá að sér og talaði við þá af alúð. Íslendingar kunna ekki að knúsa,“ segir Dorrit. „Þaðan sem ég kem er hversdagslegt að sýna væntumþykju sína eða virðingu með snertingu. En Íslendingar eru að læra þetta smátt og smátt.“

Ég er komin til að heilsa upp á fólkið og hjálpa til,“ segir Dorrit með bros á vör þegar hún kemur á vettvang akandi í svartri jeppabifreið og með í för eru bílstjóri og starfsmaður á skrifstofu forseta. Aftur í bílnum er hundur forsetahjónanna, Sámur.

„Komdu líka og heilsaðu, Sámur,“ segir Dorrit og hleypir hundinum út. Hann er einstaklega vinalegur hundur, rólegur og hlýðinn og greinilega afar hændur að forsetafrúnni sem kjassar hann.

Nokkrir koma aðvífandi úr biðröðinni sem hefur myndast við húsnæði Fjölskylduhjálparinnar og vilja heilsa upp á Dorrit. Aðrir koma nær og standa hjá og fylgjast með. „Ég trúi ekki eigin augum,“ segir einn þeirra sem fylgist með. Dorrit tekur fólkinu vel og heilsar öllum með virktum.

„Ertu hættur að drekka? spyr Dorrit og faðmar að sér einn viðstaddra. Hann hefur hún hitt áður við annað tilefni og virðist sjá að hann lítur vel út. „Ég er að reyna að standa mig vel,“ svarar hann.

Ítarlega umfjöllun um heimsókn Dorritar Moussaieff er að finna í helgarblaði DV

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.