Skemmtilegir samkvæmisleikir

Nú styttist í áramótin og sennilega fjölmargir að skipuleggja veisluhöld. Gaman er að brjóta ísinn og krydda gleðina með samkvæmisleikjum og hér koma nokkrar góðar hugmyndir að slíkum leikjum.

Hvaða mánuður var það?

Það sem þarf: Gömul blöð og tímarit

Farðu í gegnum blöð og tímarit frá árinu sem er að líða og skráðu niður atburði. Fáðu svo gestina til að svara því í hvaða mánuði viðkomandi atburður átti sér stað. Dæmi: „Hvenær sprakk borgarstjórnin eða hvenær var kvikmyndin Veðramót frumsýnd?

Sá sem svarar flestum spurningum rétt fær svo verðlaun.

Fortíðarlátbragðsleikur

Það sem þarf: Gömul dagblöð

Klipptu út fréttir úr dagblöðum frá árinu (ef þau eru öll komin í Sorpu má prenta út af vefnum). Skiptu gestunum í lið og láttu þá draga frétt til skiptis og leika hana fyrir liðið sitt sem reynir að giska á um hvaða atburð ræðir.

Gettu hver á áramótaheitið

Það sem þarf: Blöð, skæri og hatt

Klipptu blöðin niður og láttu hvern gest hafa fimm miða. Biddu alla að skrifa niður fimm áramótaheit og skrifa hvert þeirra á sérmiða. Svo skaltu setja alla miðana í hattinn og rugla þeim saman. Því næst skaltu lesa upp það sem stendur á hverjum miða fyrir hópinn. Á meðan skrifa gestirnir niður hver þeir haldi að eigi hvert heit. Sá sem giskar oftast á réttan eiganda vinnur. Ekki gleyma að lesa upp eitthvað af röngu ágiskununum til gamans í lokin.

Botnaðu þetta!

Það sem þarf: Blöð og penna og smá skáldagáfu

Semdu fyrriparta og settu einn undir hvern disk við matarborðið. Hafðu penna við hvern disk og biddu matargesti að botna kveðskapinn og hafa svo upplestur þegar líða tekur á kvöldið. Þú getur látið hvern gest lesa sitt ljóð en það getur líka verið gaman að láta gestina skiptast á vísum og lesa upp hver fyrir annan.

Hlutverkaleikurinn

Það sem þarf: Blöð og penna

Vertu búin/n að ákveða hlutverk fyrir veislugesti og afhentu þeim þau á blaði við komuna eða settu undir matardiskana ef um sitjandi borðhald er að ræða. Hlutverkin skulu vera einföld en algjört trúnaðarmál svo það ber að ítreka það við þátttakendur að þeir segi engum frá hlutverki sínu – til þess er leikurinn gerður. Einn getur t.d. átt að skála reglulega fyrir einhverju/m, einn gæti fengið það hlutverk að skenkja reglulega í glös á meðan annar tjáir sig títt um það hversu ánægður hann/hún er með að vera í þessum góðra vina hópi; gaman væri líka að láta einn raula reglulega: „Nú árið er runnið í aldanna skaut ...“ Gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn og finnið eitthvað sem gæti hentað ykkar gestum!

Lýstu mér!

Það sem þarf: Spjöld, límband og skriffæri

Þessi er góður þegar gestir þekkjast lítið. Límdu spjald aftan á hvern gest og láttu alla hafa blýant. Gefðu gestunum svo þau fyrirmæli að þeir eigi að blanda geði og spjalla. Þegar fólk hefur aðeins náð að kynnast skal það skrifa eitt, tvö orð um hvern aðila á spjaldið á bakinu, einhver orð um það hvernig aðilinn kemur því fyrir sjónir. Segðu gestum að halda þessu á léttu nótunum og skrifa eitthvað fyndið frekar en eitthvað neikvætt eða niðrandi. Eitthvað eins og „daðrari“, „orðheppin/n“ eða „húmoristi“ eru dæmi um það sem mætti skrifa. Eftir um 10 til 15 mínútur skal hver gestur svo lesa af bakinu á þeim sem stendur við hliðina á honum/henni öllum til skemmtunar.

Satt eða logið?

Það sem þarf: Blöð og skriffæri

Þessi leikur er góð leið til að komast að því hversu vel þú þekkir gesti þína. Láttu alla sitja í hring og skrifa á blað tvær staðreyndir um sig sjálfa/n og eina lygi. Best er ef allir reyna að hafa staðreyndirnar eitthvað sem er ekki algjörlega augljóst og lygina ekki mjög ótrúlega. Svo skal hver og einn lesa þessar þrjár „staðreyndir“ upp. Hópurinn ræðir svo staðhæfingarnar sín á milli og skal komast að niðurstöðu um það hver lygin er. Sá sem er hann segir svo hver lygin er og næsti maður tekur við.

Hver er ég?

Það sem þarf: „post it“- miða eða -blöð, skriffæri og límband

Láttu alla gestina safnast í hring og límdu nafn á einhverjum frægum einstaklingi á ennið á hverjum og einum. Það mega allir sjá hvað stendur á miðanum hjá hinum en ekki sínum eigin. Því skaltu gæta þess vandlega að gestir sjái ekki hvað stendur á miðanum þegar hann er límdur á enni þeirra. Þátttakendur skulu svo reyna að komast að því hvaða frægi einstaklingur þeir eiga að vera. Spyrja má hina já- eða nei-spurninga og skulu þeir svara þér þar til þú færð nei-svar, þá fær næsti aðila að reyna sig. Sá sem fattar fyrst hver hann/hún er, vinnur.

Góða skemmtun!

Fyrst birt í tímaritinu Vikunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.