fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Þjóðin fylgdist agndofa með líkfundarmálinu

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 28. september 2018 20:00

DV 23. febrúar 2004. Leikendur í líkfundarmálinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 11. febrúar árið 2004 var Þorgeir Jónsson, vélvirki á Neskaupstað, að kafa í höfninni vegna skemmda. Skömmu eftir að hann fór ofan í fann hann lík af ókunnum manni. Öll þjóðin fylgdist grannt með hvernig málið vatt upp á sig og beindist kastljósið að þremur mönnum, tveimur frá Íslandi og einum Litháa. Voru þeir að lokum allir dæmdir fyrir aðild sína að hinu víðfræga líkfundarmáli sem bráðlega mun birtast landsmönnum á hvíta tjaldinu í kvikmyndinni Undir halastjörnu.

DV 14. febrúar 2004.
Teikning af líkinu í höfninni.

Lík í höfninni

Þorgeir Jónsson, 32 ára vélvirki og kafari, mætti til vinnu miðvikudaginn 11. febrúar árið 2004 til að kanna skemmdir á höfninni í Neskaupstað. Vonskuveður hafði verið dagana á undan og skip rekist á bryggjuna. Þorgeir skellti sér í sjóinn og kafaði niður á botninn á um sex metra dýpi. Þá blasti við honum martraðarsjón, lík pakkað inn í plast með keðjur vafðar um fæturna.

Þorgeir varð stirðnaði upp. Í samtali við DV degi síðar sagði hann:

„Ég hef áður kafað eftir líkum, síðast fyrir 10 árum í Seyðisfirði, en aldrei lent í neinu í líkingu við þetta. Það var margt sem fór í gegnum hugann á meðan ég var þarna niðri og ég treysti mér ekki til að rifja það allt upp. Þetta situr óneitanlega í manni.“

Hann kom upp á yfirborðið og gat ekki kafað meir. Aðrir þurftu að sækja líkið á botninn og litu jafnvel hörðustu naglar undan, sjónin var svo ægileg. Lögreglu var gert viðvart og rannsókn hafin.

Líkið var af karlmanni, ósköp venjulegum í útliti. Hann var rúmlega 180 sentimetrar á hæð, sterklega byggður og með skolleitt hár og yfirvaraskegg. Engin áberandi lýti eða sérkenni. Talið var að um útlending væri að ræða, sennilega Evrópumann en hugsanlega Íslending. Möguleikinn á að þetta væri heimamaður var fljótlega sleginn út af borðinu en bærinn var engu að síður í uppnámi vegna málsins.

Á líkinu fundust fimm stungusár og eitthvað sem líktist skotsári á hálsi. Út frá áverkunum var  talið að um morð væri að ræða.

Farið var að spyrjast fyrir í bænum og stigu þá fram tveir starfsmenn á veitingastaðnum Egilsbúð. Þeir töldu að maðurinn hefði verið erlendur skipverji sem hefði setið með tveimur félögum sínum að sumbli á laugardagskvöldinu. Í kjölfarið beindist rannsókn lögreglu að norska nótaskipinu Senior sem hafði legið í höfn um helgina en hafði siglt til síns heima þegar líkið fannst. Sú ábending reyndist ekki á rökum reist.

„Við vorum níu þegar við komum til Neskaupstaðar og níu þegar við fórum þannig að hér vantar engan um borð,“ sagði Jarle Hansen skipstjóri. „Ég fór í Egilsbúð ásamt Halvar Tomasen háseta og Björn Egil Mikkelborg vélstjóra. Við snerum allir aftur til skips og erum enn um borð, allir við góða heilsu.“

Lögregla athugaði einnig hvort maðurinn gæti hafa verið starfsmaður ítalska verktakans Impreglio sem hafði starfsemi við Kárahnjúka á þessum tíma. Engan vantaði þó þar heldur. Næstu daga, á meðan beðið var eftir krufningu, beið öll þjóðin með öndina í hálsinum.

DV 13. febrúar 2004.
Vaidas færður á líkhúsið við Barónsstíg.

61 pakkning af amfetamíni í iðrum

Lögregla veitti ekki miklar upplýsingar um málið næstu daga og samsæriskenningarnar flugu í fjölmiðlum. Töldu sumir að áverkarnir bentu til þess að um aftöku hefði verið að ræða, í austurevrópskum stíl. Fljótlega kom hins vegar í ljós að áverkinn á hálsinum var ekki eftir byssu.

Var nú farið að geta sér til um að „morðið“ hefði ekki verið framið á staðnum heldur hefði höfnin í Neskaupstað verið tilvalinn staður til að losa sig við lík. Engar myndavélar beindust að þeim stað bryggjunnar þar sem líkið fannst. Þann 13. febrúar var það gefið út að gerendurnir hlytu að hafa verið tveir að verki. Degi síðar var birt teiknuð mynd af líkinu og fólk beðið að láta lögreglu vita ef það kannast við svipinn.

Þegar krufning lá fyrir kom í ljós að viðkomandi var erlendur maður og iður hans innihéldu 61 pakkningu af amfetamíni, 21 pakkning fannst í maganum og 40 í mjógirni. Mikill vökvi var í kviðarholinu og grunur á að ein pakkningin hefði lekið efnum út í líkamann. Mjógirnisstífla orsakaði dauðsfallið en ekki stungusárin.

Lögregla var þá komin með nöfn í sigtið og lýsti eftir þeim án þess að nafngreina þá. Um var að ræða tvo unga íslenska menn og einn frá Litháen. Mánudagsmorguninn 16. febrúar gáfu þrír menn sig fram við lögregluna í Reykjavík en neituðu aðild að málinu.

Grétar játaði

Mennirnir þrír voru vinirnir Grétar Sigurðarson og Jónas Ingi Ragnarsson og einnig Lithái að nafni Tomas Malakauskas, allir á þrítugsaldri. Eftir yfirheyrslur var þeim sleppt og skömmu síðar var nafn mannsins sem lést opinberað. Vaidas Jucevicius, 27 ára gamall frá Litháen. Þeir höfðu sést á ferðalagi á leigðum Pajero-jeppa en sögðust aðeins hafa verið í heimsókn, enda Grétar frá Neskaupstað.

Eftir frekari yfirheyrslur og rannsókn voru þremenningarnir handteknir föstudaginn 20. febrúar og leitað á heimilum þeirra á höfuðborgarsvæðinu og í bifreiðum. Í einni bifreiðinni fannst blóð úr Vaidasi og voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Þremenningarnir voru yfirheyrðir næstu daga og ekki leið á löngu þar til Grétar játaði aðild sína að málinu. Þeir voru þó alls ekki sammála um málavöxtu og almenningur fékk lítið að vita um framvindu málsins. Hjá lögreglu voru málin þó tekin að skýrast og miðvikudaginn 24. febrúar var þeim sleppt úr varðhaldi en biðu ákæru.

Dauðastríðið í Kópavogi

Tomas hafði verið búsettur á Íslandi í tæplega þrjú ár og hann var sá sem fékk Vaidas til að flytja tæplega 225 grömm af amfetamíni til Íslands. Efnunum var smyglað frá Litháen til Kaupmannahafnar og Vaidas flaug síðan með þau innvortis til Keflavíkur. Íslendingarnir ætluðu að hagnast sem milligöngumenn og sjá um dreifingu hér á landi. Yfirskin þessarar starfsemi var félag að nafni MMRO, réttindasamtök sjávarspendýra, en engin góðgerðarstarfsemi var nokkurn tímann unnin í því félagi.

Mánudagskvöldið 2. febrúar lenti vélin í Keflavík og þremenningarnir keyrðu á völlinn til að sækja Vaidas. Grétar ók bílnum og Jónas fór inn með spjald með nafni Vaidasar. Hann fann hann hins vegar ekki og óku þeir aftur til Reykjavíkur en höfðu þá samband við Vaidas sem hitti þá við Hótel Loftleiðir.

Þaðan lá leiðin að heimili Tomasar við Furugrund í Kópavogi og biðu þeir eftir því að náttúran skilaði efnunum úr Vaidasi. Ekkert kom niður úr Vaidasi og á þriðjudeginum fór að hann að veikjast. Hann fékk sára verki í magann, kviðurinn þandist út og hann kastaði upp. Félagarnir gripu til þess ráðs að gefa honum hægðalosandi lyf en ekkert hreyfðist. Þess í stað veiktist Vaidas meira og meira.

Ástandið í Furugrundinni var nú orðið alvarlegt. Alla vikuna vöktu þeir yfir honum, gáfu honum Contalgin til að lina kvalirnar og Grétar lagðist á bæn með honum. Aldrei fóru þeir með hann til læknis heldur ákváðu þeir að koma honum úr landi.

Föstudagsmorguninn 6. febrúar óku þremenningarnir með hann í átt að Keflavíkurflugvelli en Grétar yfirgaf bifreiðina við Dalveg í Kópavogi. Vaidas hins vegar orðinn svo veikur að hann treysti sér ekki til þess að fara í flugið. Á þessum tímapunkti var hann farinn að æla blóði.

Við Grindavíkurafleggjarann sneru þeir bílnum við, sóttu Grétar á heimili hans og héldu aftur í Furugrundina. Skömmu eftir komuna þangað lést Vaidas.

DV 14. febrúar 2004.
Teikningar af atburðarásinni.

Illviðri á Austurlandi

Félagarnir þrír stóðu nú uppi með lík sem þeir þurftu að losa sig við. Skömmu síðar settu þeir lík Vaidasar í plastpoka og vöfðu filtteppi utan um það, bundu bönd utan um og límdu. Tomas vildi grafa líkið í útjaðri Reykjavíkur en ákveðið var að keyra með líkið austur. Settu þeir líkið í skottið á Pajero-jeppa sem þeir höfðu leigt.

Grétar flaug samdægurs til Neskaupstaðar þar sem móðir hans bjó en Jónas og Tomas keyrðu af stað austur. Þessa helgi var blindbylur á Austurlandi og ákváðu þeir að bíða hann af sér á Djúpavogi. Þar gistu þeir á Hótel Framtíð í tvær nætur en héldu sig að mestu leyti inni á herbergi og létu færa sér vistir þangað.

Á sunnudeginum keyrðu þeir áleiðis til Neskaupstaðar og hittu Grétar þar síðdegis. Þeir óku um bæinn í leit að góðum stað til að losa sig við líkið og ákváðu loks að setja líkið í höfnina. Um miðnætti óku þeir að netagerðarbryggjunni og tóku líkið úr skottinu. Þeir fjarlægðu teppið og bundu kaðal um háls, búk og fætur. Því næst festu þeir keðju utan um háls og þungan gúmmíbobbing við fætur.

Það var á þessum tíma að Grétar dró upp hnífinn og stakk líkið fimm sinnum. Vangaveltur höfðu risið um hvort stungurnar hefðu verið örvæntingarfull tilraun til að ná efnunum út úr líkinu en í rauninni var þetta gert til að líkið þembdist ekki út og flyti. Eftir þetta sökktu þeir líkinu í sjóinn og óku aftur til Reykjavíkur.

Hótanir frá Litháen

Eins og áður sagði játaði Grétar þátt sinn í málinu og skömmu síðar játaði Tomas en sögum þeirra bar þó ekki saman. Til dæmis sagði Grétar að hann hefði ekki vitað að líkið yrði flutt austur, hann hefði flogið þangað til að komast úr aðstæðunum. Tomas fullyrti hins vegar að Grétar hefði skipulagt flutninginn og flogið austur til að undirbúa komu þeirra. Jónas neitaði aðild og þvertók fyrir að hafa vitað að líkið væri meðferðis í Pajero-jeppanum.

Krufning benti til þess að vel hefði verið hægt að bjarga Vaidasi hefðu þeir gripið fyrr inn í og komið honum undir læknishendur. Mjógirnisveggurinn var ekki brostinn og engin drep í líffærum.

Grétar sagðist hafa viljað fara með Vaidas á spítala en hótanir að utan hefðu stöðvað hann. Tomas hefði verið í stöðugu símasambandi við samverkamenn sína í Litháen, mafíuna, sem hefðu bannað þeim að ljóstra upp um innflutninginn. Þessar hótanir hafi ekki einungis beinst gegn þeim sjálfum heldur ástvinum. Grétar setti þá kröfu að lögreglan tryggði öryggi unnustu hans áður en hann játaði. Sjálfur hafði hann verið í Litháen og séð hvernig glæpaklíkur þar í landi höguðu sér.

„Ég braut af mér og það er eitthvað sem verð að lifa með,“ sagði hann í opinskáu viðtali við Fréttablaðið 27. mars. „Ég var búinn að ljúga og koma óheiðarlega fram við mitt fólk. Ég var fastur í stórum lygavef og það var mikill léttir að játa glæpinn fyrir lögreglunni.“

Hann sagði að tíminn þar til líkið fannst hafi verið honum erfiður og hann hefði verið manna fegnastur þegar upp komst hver maðurinn var. „Ég hugsaði stöðugt til fjölskyldu Vaidasar. Mér fannst það hræðileg tilhugsun að ef til vill kæmist fólkið hans aldrei að því hvað orðið hefði um hann.“

Jafn sekir

Grétar, Jónas og Tomas voru allir ákærðir fyrir fíkniefnainnflutning, brot gegn lífi og líkama Vaidasar og fyrir ósæmilega meðferð á líki hans. Auk þess var Grétar ákærður fyrir brot á vopnalögum því við húsleit hjá honum fundust ólöglegur riffill, lásbogi, kylfa og fjölmargir fjaður- og kasthnífar.

Mánudaginn 18. október hófst aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Jónas neitaði enn sök og sagðist hafa ætlað að hitta Vaidas til að eiga við hann sumarbústaðaviðskipti. Hann hafi fyrst séð hann morguninn sem hann dó.

Tomas neitaði fyrir dómi að vera tengdur litháískri glæpaklíku. „Mafía er bara til í bíómyndum,“ sagði hann. Tveir frændur Grétars, sem hittu Jónas og Tomas á leiðinni austur, sögðu „ógeðslega vonda lykt“ hafa verið í Pajero-jeppanum.

Dómur var uppkveðinn í málinu þann 9. nóvember og var Grétar einn viðstaddur uppkvaðninguna. Töldu dómarar að þremenningarnir hefðu gerst sekir um fíkniefnainnflutning og bæru ábyrgð í dauða Vaidasar. Þeir hefðu átt að grípa inn í og koma honum undir læknis hendur.

Allir fengu þeir jafn langa dóma, tveggja og hálfs árs fangelsisvist. Töldu þeir sannað að Jónas hefði átt aðild að málinu þrátt fyrir neitun hans. Einnig að Grétar hefði lagt á ráðin um að flytja líkið austur. Dómararnir neituðu hins vegar ekki fyrir að ógn frá mafíunni hefði verið til staðar.

Hæstiréttur Íslands staðfesti dóminn þann 28. apríl árið 2005.

Ólíkar áttir

Tomasi var veitt reynslulausn í september árið 2006 en var honum þá jafnframt vísað úr landi af Útlendingastofnun. Rúmlega ári eftir að hann fór úr landi var hann handtekinn á Íslandi fyrir að brjóta endurkomubannið en þá gekk hann undir nafninu Tomas Arlauskas. Við handtökuna fundust 25 grömm af amfetamíni á honum.

Jónas Ingi kom aftur við sögu í stóru sakamáli árið 2009. Þá voru hann og Tindur Jónsson sakfelldir fyrir að standa að framleiðslu amfetamínefna í stórum stíl í Hafnarfirði. Lagt var hald á nægt efni til að framleiða rúm 14 kílógrömm af hreinu amfetamíni og með því að drýgja það hefði verið hægt að framleiða 353 kíló. Jónas játaði aðild og hlaut tíu ára dóm en Tindur átta ár.

Grétar lauk afplánun á Vernd í febrúar árið 2007 og sneri sér að aflraunum. Hann hefur meðal annars tekið þátt í keppninni Sterkasti maður Íslands í nokkur skipti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Í gær

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“