fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Hannibal rænt í Bolungarvík

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 7. október 2018 22:20

Bátsmenn Handteknir á Ísafirði eftir mannránið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vestfirðir voru sá staður þar sem kreppan beit hvað sárast og því brýnt að samstaða verkafólks væri traust. Á Bolungarvík gekk hins vegar illa að koma saman verkalýðsfélagi og var Hannibal Valdimarsson loks fenginn til þess árið 1931. Það gekk hins vegar ekki betur en svo að Hannibal var tekinn höndum og fluttur nauðugur úr bænum.

Hannibal, síðar þingmaður og ráðherra, var verkalýðsforingi á Ísafirði í þá daga. Vorið 1931 varð hann við beiðni Verkalýðssambands Vestfjarða um að stofna félag á Bolungarvík og bjó hann hjá Guðrúnu systur sinni á meðan.

Hann tók sinn tíma, ræddi við fólk og sá að mikil örbirgð var á staðnum en heimamenn voru þó tvístígandi við að stofna félag. Fólki var hreinlega hótað uppsögnum ef það byndist slíkum samtökum.

Loks voru fundir haldnir í maí með liðsinni Sveins Halldórssonar skólastjóra og séra Páls Sigurðssonar. En andstæðingar mættu á fundinn og var mönnum nokkuð heitt í hamsi. Síðar í mánuðinum var félagið hins vegar stofnað þó að stofnfélagarnir væru ekki margir.

Ekki var fallist á launakröfur félagsmanna um haustið og taxtinn langt frá því að tryggja fólki lífsviðurværi. Boðað var því til verkfalls um vorið. Eftir nokkurra daga verkfall gáfust atvinnurekendur upp og sömdu við hið nýstofnaða félag og fékk það þar með lögmæti. En illindunum linnti hins vegar ekki og var til dæmis safnað undirskriftum til að reyna að fá séra Pál til að segja af sér. Tveir ungir atvinnurekendur, Bjarni Fannberg og Högni Gunnarsson, höfðu neitað að undirrita samningana og um vorið mögnuðust illdeilurnar í bænum.

 

Hannibal Valdimarsson
Þingmaður og ráðherra.

Spyrnti við fótum alla leiðina

Hannibal, sem hafði farið aftur heim, kom til Bolungarvíkur þann 26. júní árið 1932 til að fylgjast með framgangi mála og aðstoða ef hann gæti. Hannibal kom að landi ásamt Karlakór Ísafjarðar, sem ætlaði að syngja þar í bænum um daginn, og hann fór rakleiðis heim til félaga síns að þiggja kaffi. Þegar kaffið var komið á borðið kom stór hópur manna og barði að dyrum. Fyrir hópnum fór Högni Gunnarsson og spurði um Hannibal.

Þegar Hannibal gekk að dyrum sagði Högni honum að það biði hans bátur við öldubrjótinn. Búið væri að ákveða að senda hann aftur til Ísafjarðar. Hannibal sagðist ætla að hlýða á kórinn og yrði því ekki haggað. Þegar hann ætlaði aftur inn til að ljúka við kaffið sagði Högni: „Bjartur, hrintu honum út!“ Var þá maður hinum megin við hann sem hrinti honum út úr húsinu. Urðu þá nokkrar ryskingar en Hannibal var loks nauðugur fluttur burt. Í kæru til lögreglu sagði Hannibal:

„Spyrnti ég við fótum alla leið út götuna og er á brjótinn kom, var mér hótað því, að mér yrði kastað í sjóinn, ef ég sýndi mótþróa. Var mér síðan hrint niður í bátinn og var það nokkuð fall. Var síðan haldið af stað og mér haldið, meðan farið var frá brjótnum.“

Þegar í Ísafjarðarhöfn var komið snerist taflið þó við og voru bátsmennirnir handteknir á staðnum. Héldu síðan 40 Ísfirðingar með Hannibal í broddi fylkingar yfir til Bolungarvíkur og bjuggust jafnvel við ryskingum við heimamenn. Varð þó ekki af þeim heldur var öflugur fundur haldinn í bænum um kvöldið og nokkru síðar gengu bæði Högni og Bjarni að samningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla