Fókus

Lét grafa fótlegg sinn að hermannasið

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 2. september 2018 20:00

Antonio Lopez de Santa Anna var einn áhrifamesti stjórnmálamaður Mexíkó á mótunarárum landsins. Hann var einnig þekktur sem herforinginn sem sigraði Davy Crockett og félaga í orrustunni um Alamo árið 1836 en var handsamaður og tapaði Texas til Bandaríkjanna nokkru seinna. Santa Anna leit stórt á sig, svo stórt að þegar hann missti fót sinn lét hann grafa hann að hermannasið.

 

Missti fót í bakkelsisstríði

Tveimur árum eftir orrustuna um Alamo hófst stríð milli Mexíkó og Frakklands sem fékk hið óvenjulega nafn bakkelsisstríðið. Á upphafsárum sjálfstæðis Mexíkó var mikil ringulreið í landinu, skærur, rán og gripdeildir milli ýmissa hópa, þar á meðal innflytjenda frá Evrópu. Frakkar kröfðust þess að mexíkóska ríkið greiddi Frökkum í landinu skaðabætur fyrir það tjón sem þeir máttu þola en ríkisstjórn Mexíkó hafnaði því.

Franskur bakari, herra Remontel, búsettur í Tacubaya í Mexíkó, sendi árið 1832 kvörtun til Loðvíks Filippusar konungs þess efnis að mexíkóskir hermenn hefðu rænt bakaríið hans og heimtaði bætur. Fleiri kvartanir fylgdu í kjölfarið og árið 1838 var franski sjóherinn mættur á svæðið til að halda höfnum í sjókví og mexíkóski flotinn kom til varnar.

Santa Anna var sestur í helgan stein þegar stríðið braust út og var á sveitabýli sínu í Xalpa þegar hann var kallaður til að verjast Frökkum við borgina Veracruz. Fékk hann þau skilaboð frá forseta landsins að gefa ekkert eftir í orrustunni og hann stóð við það.

Santa Anna barðist með mönnum sínum en lítil fallbyssukúla hæfði hann í annan fótlegginn. Hann var færður undir læknishendur en sárið var svo alvarlegt að þeir þurftu að fjarlægja fótinn. Í kjölfarið gáfust Mexíkóar upp og samþykktu að greiða Frökkum bætur.

Gervifótur Santa Anna til sýnis

Gervifótur notaður sem hafnaboltakylfa

Fótleggurinn var grafinn og smíðaður var gervifótur úr korki fyrir Santa Anna. En herforingjanum var annt um fótinn og fannst honum ekki hafa verið sýnd nægileg virðing. Fjórum árum eftir orrustuna um Veracruz lét Santa Anna grafa fótinn upp og grafa hann á ný að hermannasið. Skotið var úr fallbyssum, bænir sagðar og langar ræður haldnar yfir rotnandi útlimnum sem geymdur var í kristalsvasa. Stórt og dýrt minnismerki var reist yfir fótinn í kirkjugarðinum í Santa Paula í Kaliforníu.

Santa Anna nýtti sér fótarmissinn og Mexíkóar dáðust að fórnfýsi hans. Um tíma var hann forseti landsins. Þegar hann kom fram opinberlega tók hann af sér gervifótinn og veifaði honum fyrir mannfjöldann.

Santa Anna lét fótarmissinn ekki stöðva sig á vígvellinum og stýrði herjum í stríðinu við Bandaríkjamenn árið 1846. Í einni orrustunni náðu bandarískir dátar að stela fætinum og fluttu hann sigri hrósandi til Bandaríkjanna en hann er nú geymdur á safni í Springfield-borg í Bandaríkjunum. Sjálfur slapp Santa Anna naumlega, komst á hest og reið út í sólsetrið.

Smíðaður var annar fótleggur og aftur náðu dátarnir honum, meira að segja úr sömu herdeild. Þeim fæti var ekki sýnd meiri virðing en svo að hann var notaður sem hafnaboltakylfa í herdeildinni. Þriðja fætinum náði Santa Anna að forða frá dátunum og er sá fótur til sýnis í þjóðminjasafni Mexíkó. Herforinginn „margfætti“ lést árið 1876.

 

Kristinn H. Guðnason
Kristinn Haukur Guðnason er blaðamaður og sagnfræðingur sem starfað hefur hjá DV síðan 2017 en áður skrifaði hann fyrir Kjarnann.
Kristinn skrifar almennar fréttir, mannlífsviðtöl, um söguleg málefni og menningu.
Hann er ólæknanlegur nörd sem eyðir laugardagskvöldum í að spila við sjálfan sig og leggja höfuðborgir heimsins á minnið.

netfang: kristinn@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Stjörnumerkin og fatastíll: Rísandi Steingeit – Vekur athygli án þess að reyna það!

Stjörnumerkin og fatastíll: Rísandi Steingeit – Vekur athygli án þess að reyna það!
Fókus
Í gær

Hvernig er best fyrir kennara að spilla nemendum sínum?

Hvernig er best fyrir kennara að spilla nemendum sínum?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður skrifar um framúrskarandi krakka í neyslu – „Erfiðara að koma af fullkomnu heimili eða vera fullkominn því fallið er hærra“

Auður skrifar um framúrskarandi krakka í neyslu – „Erfiðara að koma af fullkomnu heimili eða vera fullkominn því fallið er hærra“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Valgarður fékk skelfilegt hugboð – „Eins og eitthvað flygi í gegnum hausinn á mér, eitthvað kalt. Það fyrsta sem ég hugsaði var – „Mamma!“

Valgarður fékk skelfilegt hugboð – „Eins og eitthvað flygi í gegnum hausinn á mér, eitthvað kalt. Það fyrsta sem ég hugsaði var – „Mamma!“
Fókus
Fyrir 2 dögum

BLE-Rödd unga fólksins hlaut 19.2% atkvæða

BLE-Rödd unga fólksins hlaut 19.2% atkvæða
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérkennilegur minjagripur – Yfir 60 ára gamall strætómiði

Sérkennilegur minjagripur – Yfir 60 ára gamall strætómiði