fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Reistur í skjóli myrkurs – Rifinn niður í kastljósi heimspressunnar

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 11. ágúst 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í skjóli myrkurs var Berlínarmúrinn, Berliner Mauer á þýsku, reistur aðfaranótt 13. ágúst 1961. Hann skipti Berlín í tvennt og þar með Þýskalandi í tvennt, Austur- og Vestur-Þýskaland. Markmiðið með byggingu múrsins var að koma í veg fyrir að óánægðir íbúar Austur-Þýskalands gætu flúið til vesturs. Þegar hann féll þann 9. nóvember 1989 gerðist það nær jafn skyndilega og þegar hann reis. Í 28 ár hafði múrinn verið eitt helsta tákn kalda stríðsins og járntjaldsins sem skildi að hina sovésku Austur-Evrópu og lýðræðisríkin í vestri.

Að síðari heimsstyrjöldinni lokinni skiptu sigurvegarar stríðsins, Bandamenn, hinu sigraða Þýskalandi í fjögur svæði. Á Potsdam-ráðstefnunni var samþykkt að Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Sovétríkin fengju eitt svæði hvert í sinn hlut. Sömu aðferð var beitt við höfuðborg Þýskalands, Berlín.

En samband Sovétríkjanna annars vegar og hinn þriggja ríkjanna hins vegar versnaði hratt og í stað samvinnu um hið hersetna Þýskaland tók við keppni og deilur. Eitt þekktasta dæmið er herkvíin sem Sovétríkin settu á Vestur-Berlín í júní 1948 en þá var lokað fyrir alla birgðaflutninga til og frá borginni. Þetta leystu Bandamenn með loftbrú og herkvíin féll um sjálfa sig.

Í upphafi var rætt um að sameina Þýskaland en í kjölfar versnandi samskipta Sovétríkjanna og hinna þriggja ríkjanna snerist þetta fljótlega upp í Vestur-Þýskaland gegn Austur-Þýskalandi og lýðræði gegn kommúnisma. Þetta varð opinbert 1949 þegar svæðin sem Bandaríkin, Bretland og Frakkland réðu yfir urðu að Vestur-Þýskalandi og svæði Sovétmanna að Austur-Þýskalandi. Sama átti við í Berlín en borgin var algjörlega á yfirráðasvæði Sovétmanna svo Vestur-Berlín varð að einhvers konar eyju í Austur-Þýskalandi kommúnista.

Mikill efnahagslegur munur

Á skömmum tíma varð mikill munur á lífskjörum í austur- og vesturhlutanum. Í Vestur-Þýskalandi var tekið upp kapítalískt hagkerfi og hagvöxtur varð mikill. Ef fólk var tilbúið til að vinna gat það lifað góðu lífi, keypt sér ýmislegt sem hugurinn girntist og ferðast. Í austurhlutanum var staðan allt önnur. Sovétmenn höfðu litið á hann sem herfang og höfðu flutt vélar og tæki og önnur verðmæti heim til Sovétríkjanna. Þegar Austur-Þýskaland varð ríki 1949 var það nánast undir beinni stjórn Sovétmanna og kommúnísku stjórnarfyrirkomulagi var komið á. Efnahagurinn náði sér ekki á strik og frelsi fólks var mjög takmarkað.

Þegar kom fram á 1952 var Austur-Þýskaland eiginlega orðið að virki, ekki til að halda óvinum úti heldur til að halda íbúunum inni. Fólk flúði í stríðum straumum yfir til vesturs. En í Vestur-Berlín var enn opið á milli austur- og vesturhlutans. Fólk streymdi því þangað og yfir landamærin til vesturhlutans. Sumir voru stoppaðir en mörg hundruð þúsund manns tókst að komast til vesturs. Flogið var með fólkið til Vestur-Þýskalands. Margir flóttamannanna voru ungt fólk með góða menntun og í upphafi sjöunda áratugarins var austurhlutinn að missa vinnuafl og íbúa á miklum hraða. Talið er að frá 1949 til 1961 hafi 2,7 milljónir flúið austurhlutann til vesturs.

Til að stöðva þennan flótta var gripið til þess ráðs að loka fyrir auðvelt aðgengi fólks að vesturhluta Berlínar.

Í kjölfar frægra orða Walters Ulbricht, formanns ríkisráðs Austur-Þýskalands, 1961, „Niemand hat die Absicht, eine Mauer zu errichten.“ (Enginn ætlaði að reisa múr), jókst straumurinn til vesturs og næstu tvo mánuði fóru um 20.000 manns yfir til vesturhlutans. Orðrómur var uppi um að eitthvað ætti að gerast á mörkum Austur- og Vestur-Berlínar en enginn reiknaði með hversu hratt það myndi gerast.

Nóttin örlagaríka

Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt 13. ágúst 1961 var flutningabílum með hermönnum og byggingaverkamönnum ekið í gegnum Austur-Berlín. Flestir íbúanna voru í fastasvefni og á meðan þeir sváfu vært var byrjað að rífa upp götur sem lágu yfir í vesturhlutann. Holur voru grafnar og steinsteyptir stólpar settir upp og gaddavír strengdur á milli þeirra. Þetta var gert meðfram endilöngum mörkum Austur- og Vestur-Berlínar. Símalínur á milli borgarhlutanna voru rofnar og lestarteinum var lokað.

Berlínarbúum brá að vonum þegar þeir vöknuðu næsta morgun. Búið var að loka fyrir allan samgang á milli borgarhlutanna og þeir 60.000 íbúar Austur-Berlínar, sem voru með vel launuð störf í vesturhlutanum, gátu ekki lengur sótt þau. Fjölskyldur, vinir og félagar gátu ekki lengur hist.

Á þeim 28 árum sem þessi 155 kílómetra langi múr stóð voru fjórar stórar breytingar gerðar á honum. Í upphafi var hann aðeins gaddavírsgirðing. Nokkrum dögum síðar var steinsteyptum blokkum komið fyrir í staðinn og gaddavír settur ofan á þær. Árið 1965 var steyptur veggur settur upp og hann studdur með stálbitum. Á árunum 1975 til 1980 var fjórða útgáfan gerð en þá var veggurinn hækkaður í 3,6 metra og gerður 1,2 metrar á breidd.

Fall múrsins

Fall múrsins var næstum jafn skyndilegt og bygging hans. Blikur höfðu verið á lofti um að kommúnisminn væri að veikjast en leiðtogar Austur-Þýskalands staðhæfðu að þar væri aðeins þörf á minniháttar breytingum á stjórnkerfinu en ekki neinum meiriháttar breytingum. Samlandar þeirra voru ekki sammála.

Þegar hrikta fór í stoðum kommúnismans í Póllandi, Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu árið 1988 og 1989 opnuðust nýjar leiðir fyrir Austur-Þjóðverja sem vildu flýja land. Erich Honecker, leiðtogi landsins, hótaði að mæta mótmælum almennings af hörku og valdbeitingu. Hann neyddist til að segja af sér eftir að Mikael Gorbachev, leiðtogi Sovétríkjanna, hætti að styðja hann. Egon Krenz tók þá við leiðtogaembættinu og ákvað að ofbeldi myndi ekki leysa vanda landsins. Hann slakaði einnig á kröfum varðandi ferðalög út fyrir landsteinana.

Að kvöldi 9. nóvember 1989 kom óvænt yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að fólki væri heimilt að ferðast yfir öll hlið á landamærum Austur- og Vestur-Þýskalands og Vestur-Berlínar. Fólk trúði þessu varla í fyrstu. Gat verið að landamærin væru opin?

Fólk nálgaðist landamærin varlega og komst að því að þetta var rétt, landamæraverðir hleyptu fólki óáreittu yfir. Ekki leið á löngu þar til fjöldi fólks stóð beggja vegna múrsins. Sumir byrjuðu að lemja í hann með meitlum og hömrum. Mikill fögnuður braust út og fólk féllst í faðma, kysstist,  grét, dansaði og söng af gleði. Berlínarmúrinn var fallinn.

Í kjölfar falls múrsins sameinuðust Austur- og Vestur-Þýskalands í eitt ríki þann 3. október 1990.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki