fbpx
Miðvikudagur 19.desember 2018
Fókus

Solo og sæll: 10 trylltar staðreyndir um Hans Óla

Tómas Valgeirsson
Þriðjudaginn 22. maí 2018 12:30

Sjálfstæð kvikmynd um yngri ár hetjunnar Han Solo lendir í kvikmyndahúsum 23. maí og geta því aðdáendur í sameiningu sett sig í stellingar. Myndin hefur sópað til sín ágætis dómum gagnrýnenda og verður forvitnilegt fyrir unnendur Star Wars-seríunnar að sjá hvernig tekst til að víkka út myndabálkinn og tilheyrandi kvikmyndaheim.

Stórleikarinn Harrison Ford hefur kvatt rulluna fyrir fullt og allt og er undir nýstirninu Alden Ehrenreich komið að taka við keflinu.
Í gamla daga voru íslenskar þýðingar örlítið villtari heldur en má finna í dag, en þegar fyrsta Stjörnustríðsmyndin kom út hét persónan einfaldlega „Hans Óli“. Trausti samstarfsmaður hans Chewbacca hefur lengi verið kallaður Loðinn (eða „Tóbakstugga“, eins og brá fyrir í þýðingum fyrir endurbættu útgáfurnar árið 1997) og má geta þess að í upphafi var pláneta Loga Geimgengils ekki kölluð Tatooine heldur „Urður“.

Skoðum fleiri kostulegar staðreyndir um hetjuna, Stjörnustríðsheiminn og nýju kvikmynd kappans.

 

1. Offramboð arftaka

Þegar Disney tilkynnti framleiðslu kvikmyndarinnar um ungan Solo voru ófáir ungir leikarar sem slógust um að hreppa burðarhlutverkið. Á meðal þeirra leikara sem komu til greina voru Dave Franco (The Disaster Artist), Miles Teller (Whiplash), Ansel Elgort (Baby Driver), Taron Egerton (Kingsman) og Logan Lerman (Percy Jackson).

 

2. Þrír leikstjórar unnu að myndinni

Þegar Solo fór fyrst í vinnslu sátu leikstjórarnir Phil Lord og Christopher Miller við stjórnvölinn. Tökur fóru hins vegar ekki vel af stað og herma sögur eftir því að leikstjóratvíeykið hafi margoft stangast á við framleiðendur myndarinnar. Þegar aðeins nokkrar vikur voru eftir af tökum var þeim sagt upp störfum, sökum „listræns ágreinings.“ Þá var Óskarsverðlaunahafinn Ron Howard fenginn inn til þess að klára myndina, þó hann hafi á endanum gert miklu meira en það (sjá nr. 3).

 

3. Næstum allt unnið frá grunni

Þeir Lord og Miller vildu gera Star Wars mynd sem væri nær því að vera í sambærilegum stíl og Guardians of the Galaxy myndirnar. Framleiðendur voru ósáttir með þennan tón og vildu hafa taktinn nær eldri myndum Stjörnustríðsseríunnar. Howard tók gríðarstóran hluta upp á nýtt og hefur verið gefið upp að 80% af upprunalegri mynd sé endurunnin. Má þess vegna segja að sé næstum því heil kvikmynd „týnd“ á klippigólfinu og þykir ólíklegt að upprunaleg útgáfa sögunnar líti nokkurn tímann dagsins ljós.

 

4. Leikfangaóður

Alden Ehrenreich er fæddur 1989 og hefur verið með ólæknandi Star Wars-dellu síðan í æsku. Til að mynda átti hann fullt af leikföngum af sömu fígúrunni, sem var einmitt Han Solo. En ekki hvað?

 

5. Frægur leikstjóri veitti innblástur

Kvikmyndagerðarmaðurinn George Lucas hefur viðurkennt að taktar persónunnar Han Solo hafi upphaflega verið byggðir á leikstjóranum Francis Ford Coppola, sem þekktastur er fyrir Godfather-þríleikinn og stríðsdramað Apocalypse Now. Skemmst er að segja frá því að Coppola var gjarnan þekktur fyrir að vera bráðlátur í skapi á yngri árum.

 

6. Samtölin klén

Harrison Ford hefur oft viðurkennt að samtölin í handritinu að fyrstu Star Wars myndinni hafi verið honum ofviða. „Þú getur skrifað svona lagað en ekki sagt þetta með trúverðugum hætti“, hefur hann viðurkennt. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að hann ákvað að notast við fræga frasann „I know“ þegar Lilja prinsessa sagðist elska hann. Upphaflega átti hann að svara henni með sama hætti en þótti leikaranum það of klént.

 

7. Krafðist þess að vera drepinn af böngsum

Þegar framleiðsla hófst á Return of the Jedi (þriðju mynd seríunnar, sjötta kaflanum í heildarsögunni) vildi Ford að persóna hans myndi deyja. Hann stakk upp á því við George Lucas að best væri ef „bangsarnir“ (orðið sem hann notaði fyrir svonefnda Ewoks) dræpu hann. Lucas var alls ekki sammála og hélt persónunni á lífi.

 

8. Kurt eða Stallone?

Á sínum tíma kom Kurt Russell sterklega til greina fyrir hlutverk Solo áður en Harrison Ford var ráðinn og fór hann meira að segja í áheyrnarprufu (sjá mynd að ofan). Al Pacino og Sylvester Stallone komu einnig til tals hjá framleiðendum áður en Ford hreppti hlutverkið.

 

9. Hollráð frá meistaranum

Harrison Ford mætti á tökustað nokkrum sinnum til þess að gefa Alden Ehrenreich ýmis ráð varðandi nálgun á titilpersónunni. Ungi leikarinn stóðst auðvitað ekki mátið að þiggja nokkur slík frá hetjunni sinni.

 

10. Aldur Loðins afhjúpaður

Í kvikmyndinni Solo kemur loksins fram hvað Chewbacca er gamall. Þetta kemur jafnvel fram í nýrri stiklu.

Sjá má þetta sýnishorn úr Solo: A Star Wars Story hér að neðan.

 

Tómas Valgeirsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 19 klukkutímum

Raggi á trúnó: „Helle er náttúrulega stóra ástin í lífi mínu“

Raggi á trúnó: „Helle er náttúrulega stóra ástin í lífi mínu“
Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Fíasól gefst aldrei upp – Hlustaðu á kafla úr bókinni

Fíasól gefst aldrei upp – Hlustaðu á kafla úr bókinni