fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Joaquin Phoenix er magnaður í You Were Never Really Here: Grípandi geðshræring með meiru

Tómas Valgeirsson
Föstudaginn 11. maí 2018 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

NÝTT Í BÍÓ

Leikstjóri: Lynne Ramsay
Framleiðendur: Rosa Attab, Pascal Caucheteux, Lynne Ramsay
Handrit: Lynne Ramsay
Aðalhlutverk: Joaquin Phoenix, Alessandro Nivola, Ekaterina Samsonov

Í stuttu máli: Athyglisverð, faglega gerð og á margan hátt umræðuverð saga um tilvistarkreppu uppgjafarhermanns.

You Were Never Here tekur öðruvísi vinkil á tvo kunnuglega geira, fyrst og fremst hefndartryllinn og harðsoðnu rökkurmyndina („film noir“). Í slíkum myndum er yfirleitt hart ofbeldi fléttað við eins konar spæjarasögu, nema hér er komin mynd sem nálgast hið hrottalega með bítandi og óvenjulegum hætti – og að sama skapi skiptir söguþráðurinn óskaplega litlu máli.

Myndin snýst um andrúmsloft, geðshræringu og ekki síst andlegt ástand burðarpersónunnar sem túlkuð er með eldfimum hætti af Joaquin Phoenix. Mætti jafnvel segja að hann hafi sjaldan eignað sér eina kvikmynd svona áreynslulaust og án aðstoðar. Sagan hvílir öll á herðum hans.

Best skal lýsa You Were Never Really Here sem sturlaðri karakterstúdíu, sem skoðar sektarkennd, einangrun og innlausn í sögusviði sem hentar klassískum reifara en snýr væntingum á hvolf. Myndin er lauslega byggð á samnefndri bók eftir Jonathan Armes og fjallar um uppgjafarhermanninn og leigumorðingjann Joe (Phoenix) sem fær það verkefni að elta uppi unga þrettán ára stúlku og bjarga henni frá kynlífsþrælkun, sama hvaða brögðum þarf að beita.

Allt við uppsetningu myndarinnar gefur upp kunnuglegan keim, en leikstýran Lynne Ramsay nýtir hvert tækifæri til þess að flytja söguna í aðrar áttir en uppskriftin kallar eftir – bæði djarfar og á tíðum meinfyndnar. Þegar við kynnumst Joe er áfallastreituröskun hans komin á fullt vald. Hann situr með plastpoka yfir hausnum og er haldinn sjálfsmorðshugleiðingum, en fljótlega komumst við að því hversu stór hluti það er af daglegu ferli mannsins sem á ýmislegt óuppgert við fortíð sína og núverandi atvinnu.

Með prófíl aðalpersónunnar sækir Ramsay í takta sem á tíðum minna á nýstárlegri útgáfu af Taxi Driver en eyðir engu púðri í eftirhermur frekar en óþarfar eyðufyllingar. Hún beitir myndmáli frásagnarinnar eins og fagmaður og útbýr hálfdraumkennda en óhuggulega stemningu, en þar er úthugsuð kvikmyndataka frá Tom Townend og þrælgóð tónlist Jonny Greenwood mikilvægt hráefni samanlagt.

Verður að segjast að Ramsay hefur sterka, flotta rödd sem gerir hana að einni þeirra athyglisverðustu í faginu í dag, með aðeins fjórar kvikmyndir að baki en allar vandaðar (þá sérstaklega Ratcatcher og We Need to Talk About Kevin) og hver á sinn hátt bitastæð. Samvinna Ramsay með leikurum sínum ber merki um óheflað traust og berskjaldaða einlægni, sem skín einmitt frá fámálum en öflugum leik Phoenix. Óróleiki hans smitast yfir á áhorfandann.

Óróleiki þessi er ef til vill betur sniðinn fyrir áhorfendur sem horfa ekki bara á kvikmyndir sér til afþreyingar en ringulreið aðalmannsins flýgur í hverri senu, dáleiðir og grípur ef viðkomandi er klár í svona abstrakt ferðalag. Það er vel þess virði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Í gær

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“