fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Hrafnaklukkur – ljóð um mennskuna, andann og sjálfið

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. júlí 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristian Guttesen er íslenskum bókmenntaunnendum að góðu kunnur, kennari, heimspekingur og ljóðskáld. Fyrsta bók hans, Afturgöngur, kom út árið 1995, en alls hefur hann gefið út tíu frumortar ljóðabækur. Jafnframt hefur hann gefið út ljóðaúrval og skáldsöguþýðingu, en fyrir hana var hann tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2007.

Þrátt fyrir umtalsverð afköst kallar skáldagyðjan eftir nýrri afurð og hefur Kristian nú hrundið af stað hópfjármögnun á Karolina Fund fyrir útgáfu nýrrar bók. Ellefta frumorta bókin hans nefnist Hrafnaklukkur og gefur í henni að líta ljóð um mennskuna, andann og sjálfið.

Um er að ræða forsölu bókarinnar sem gefin verður út í takmörkuðu upplagi. Kristian segir:

„Margt ber á góma í bókinni, en þar má meðal annars lesa um geðveikasta mann Íslands, um atvikið þegar skáldið SP fann trefil sem blés honum andagift í brjóst og um fáheyrt atvik þegar ljóðmælandinn ferðaðist með tímavél og fór á fund Þórbergs Þórðarsonar að Hringbraut 45 á seinni hluta sjötta áratugar síðustu aldar. Frést hefur af hinu síðastnefnda atviki á miðilsfundum endrum og eins, en nú fæst það loksins staðfest.“

Tímavélin

tileinkað Kristínu og Gústa

Ég fann tímavél. Ég fann hana ekki upp heldur fann ég hana fyrir tilviljun. (Sá sem hafði fundið hana upp var hvergi nærri). Ég var staddur á Hressingarskálanum og hafði mælt mér mót við Ísak Harðarson en skáldið var hvergi sjáanlegt. Ég sat og drakk svart kaffi og velti fyrir mér hvort annar okkar hefði mætt of seint eða of snemma. Mér var mál að pissa svo ég brá mér á klósettið. Ég varð hissa þegar ég kom að litla skotinu þar sem fremri klósett staðarins eru og mér mættu þrennar dyr en ekki tvennar eins ég hafði alltaf vanist. Ég ákvað að reyna þriðju dyrnar og kanna nýja klósettið en þetta reyndist vera dimm geymsla eða ræstiskápur. Ég hraðaði mér fram á ganginn en sá þá mér til mikillar furðu að allt var öðruvísi umhorfs á Hressingarskálanum, hann hafði yfir sér blæ sviðs í leikhúsi. Loftið var reykmettað.

Uppstrílaður þjónn ávarpaði mig á hátíðlegu máli. Mér var ekki ljóst hvað hann vildi en hann benti á fötin mín. Ég vissi ekki gjörla hvernig ég ætti að bregðast við. En skyndilega mildaðist þjónninn og þagði. Svipur hans sagði mér annað en orðin sem áður höfðu hrunið af vörum hans. Svipurinn sagði mér einfaldlega: Þér hafið ferðast aftur í tímann.

Eins og í ankannalegum draumi þar sem skrýtnir hlutir virðast venjulegir og hversdagslegir hlutir verða með öllu ógerlegir, varð mér af innsæi mínu strax ljóst að ég væri staddur í Reykjavík á seinni hluta sjötta áratugar síðustu aldar. Ég sá að staðan var flókin og að ég þyrfti á aðstoð að halda. Mér datt aðeins ein manneskja í hug á þessum stað og tíma sem gæti hjálpað mér, það var Þórbergur Þórðarson. Ég vissi af sögum Þórbergs að hann væri einn af fáum mönnum í Reykjavík þess tíma sem væri opinn fyrir ferðalöngum úr annarri vídd. Ég flýtti mér því að heimili þeirra Margrétar Jónsdóttur á Hringbraut 45, þar sem ég vissi að þau hjónin hefðu átt heima. Útidyrnar niðri stóðu opnar svo ég hljóp upp og knúði dyra að íbúðinni á fjórðu hæð til hægri. Þær opnuðust en ekki fyrir tilstilli mannlegs afls. Ég sá engan fyrir innan. En nú er rétt að ég lýsi íbúðinni: Strax á hægri hönd var salernið, langt og mjótt með hringlaga glugga við endann, því næst eldhúsið með grábláum dúk á gólfinu og lágri eldhúsinnréttingu – búrskápur innst til vinstri, vaskur á hægri hönd – innst á ganginum, beint af augum, var hjónaherbergið. Á vinstri hönd voru tvær rúmgóðar stofur. Betri stofan var innst til vinstri hvar stórir gluggar vísuðu í suður, þangað fór ég.

Inn af henni til vinstri (nær dyrunum fram á stigagang) var unnskiptingastofan. Vinstra megin við opið (sem var með vængjahurðum með fallegum gluggum á) að henni var há innbyggð bókahilla. Fyrir innan, líkt og í rökkvaðri hvelfingu, stóð meistarinn. Honum fannst ekkert athugavert við veru mína á heimili hans, né heldur við það hvaðan ég var kominn. – Allt hefur sinn gang, sagði hann. Ég útskýrði fyrir honum að vísast þyrfti ég að komast aftur heim. Samt langaði mig innilega til að spjalla við hann um eitt og annað. Til dæmis vildi ég svo gjarnan vita hvert nafn litlu manneskjunnar væri í Sálminum um blómið sem enginn mátti vita. Ég segi það enn ekki gestum, svaraði Þórbergur og brosti. Þá skýrði ég honum frá draumi sem mig hafði eitt sinn dreymt, þar sem við tveir höfðum rætt sama efni norður á Akureyri fyrir framan Davíðshús.

Í draumnum hafði hann teymt hryssu og sem við stóðum þarna á hlaðinu fyrir framan hús skáldsins kom svarið fyrirvaralaust til mín: Að litla manneskjan hefði stundum verið kölluð sama nafni og hryssa Þórbergs sem nú fylgdi honum en hún hét Skjóna. Þetta kom allt heim og saman. Lilla Hegga hafði heitið Helga Jóna, því væri þetta líklegt gælunafn en kannski ekki svo heppilegt til að hafa eftir í skáldsögu um lítið englabarn. Ég spurði Þórberg hvort ég hefði á réttu að standa. Hann hló og svaraði: Þetta er góð tilgáta. Þetta er þín tilgáta en hún er samt góð. Meira sagði hann ekki um málið. Að lokum spurði ég hann hvort leiðin heim til Reykjavíkur 21. aldar væri sú sama og ég hafði farið þegar ég kom. – Nei, væni minn, þú kemst ekki til baka í gegnum ræstiskápinn á kaffihúsinu. Auðvitað ferð þú út í vitann í Gróttu.


Áætlað er að Hrafnaklukkur komi út í ágúst, en eins og áður segir stendur nú yfir hópfjármögnun á Karolina Fund til að standa straum af útgáfunni. Forsala/Söfnunarsíða bókarinnar má finna með því að smella hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu
Eyjan
Fyrir 15 klukkutímum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann