fbpx

Ritdómur um „Hinir smánuðu og svívirtu“: Sálkönnuðurinn Dostojevskí

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 12. ágúst 2018 12:00

Fjodor Dostojevski: Hinir smánuðu og svívirtu

Þýðendur: Gunnar Þorri Pétursson og Ingibjörg Haraldsdóttir

Útgefandi: Forlagið

555 bls. með eftirmála og orðskýringum

 

Nítjánda öldin var blómatími í rússneskum bókmenntum. Kúgun og óréttlæti vegna stjórnarhátta keisaranna voru frjór jarðvegur fyrir söguefni og þó að höfundar á borð við Dostojevski lentu í fangelsi fyrir skrif sín voru keisararnir misjafnir og sumum fylgdu frjálsræðisstraumar. Með bolsévismanum á 20. öld varð kúgunin hins vegar allsráðandi og ritskoðunin hertari.

Rússnesku meistaraverkin frá gullöldinni eru um margt nútímaleg eða tímalaus. Það stafar ekki síst af sálrænu innsæi höfundanna. Það vantar bara tölvur og bíla í stað hestvagna og fjaðurpenna í margar smásögur Chekhovs, sem að öðru leyti gætu hafa gerst í dag. Það er líka margt nútímalegt eða tímalaust í sögum Dostojevskis, siðfræðileg álitamál og breyskleiki mannskepnunnar í hinum ýmsu myndum.

Hinir smánuðu og svívirtu er líklega ekki á meðal þekktustu verka Dostojevskis í seinni tíð, sögur á borð við Fávitann og Glæpur og refsing hringja eflaust háværari bjöllum í hugum flestra. Sagan naut hins vegar mikilla vinsælda á meðal almennings á sínum tíma og birtist fyrst sem framhaldssaga í dagblaði.

Hinir smánuðu og svívirtu skoðar eðli ástarinnar á margslunginn hátt, stillir upp hreinni góðmennsku andspænis samviskulausri tækifærismennsku og dregur upp lifandi persónur sem ólga af trylltum ástríðum, en sagan er gífurlega tilfinningaþrungin.

Sögumaður er rithöfundurinn Vanja, en Dostojevski sjálfur er talinn vera fyrirmynd hans. Vanja berst í bökkum og lifir af því að skrifa fyrir blöð og tímarit. Hann dregst mjög inn í málefni samferðafólks síns og gerist milligöngumaður og sáttasemjari í erfiðum ástarþríhyrningi. Á sama tíma tekur hann að sér munaðarlaust og hrakið stúlkubarn, en Vanja er upphaflega sjálfur munaðarlaus. Uppeldissystir hans, Natasha, á í sambandi við Aloshja, ístöðulausan og saklausan son hins samviskulausa fursta, Valkovskis. Fursti þessi er verst innrætta og jafnframt skemmtilegasta persóna bókarinnar. Illmenni þetta hefur þann kost að vera afskaplega hreinskilið og siðferðisleg afstaða þess er óþægilega lík því sem siðferði margra nútímamanna er í raun og birtist í breytni þeirra þó að þeir tali á annan hátt. Furstinn vill að sonur sinn kvænist annarri konu en Natöshu, því hann vill komast í tæri við auðæfi þeirrar fjölskyldu. Til að fá þessum vilja sínum framgengt beitir hann ýmsum óþverrameðölum. Það eykur á dramatíkina að faðir Natöshu, og jafnframt fósturfaðir Vanja, er óvinur furstans sem hefur kúgað hann og smánað, og faðirinn vill hvorki heyra dóttur sína né sjá eftir að hún stofnaði til sambands við son óvinar hans.

Sögur Dostojevskis eru einatt afar dramatískar og stundum reyfarakenndar. Hann hirti meira um að gera sögur sínar spennandi og átakasamar en fullkomlega trúverðugar. Þetta gerir verk hans að mjög skemmtilegri lesningu. En þó að Hinir smánuðu og svívirtu sé bæði skemmtileg og gefandi lesning þá er hún framan af erfið aflestrar. Fram yfir miðja bók er hún ógnarlangdregin því þó að sagan sé sviptingasöm og viðburðarík er atburðarásin um tíma afar hæg. Sífelldar heimsóknir Vanja til elskenda og deilenda með síendurteknum umræðuefnum reyna nokkuð á þolrifin. Maður veltir því fyrir sér hvort hæg atburðarásin stafi af þeirri staðreynd að sagan birtist upphaflega sem framhaldssaga í blaði, hvort hún sé barn síns tíma hvað þetta varðar eða hvort það sé bara hugur þessa lesanda, skemmdur af samfélagsmiðlaáreiti, sem veldur þessari upplifun.

Útgáfa þessi er Forlaginu til mikils sóma. Góðskáldið og stórþýðandinn Ingibjörg Haraldsdóttir hóf þýðingu verksins en henni entist ekki aldur til að ljúka því. Ingibjörg hefur áður fært okkur mörg verk Dostojevskis í íslenskum búningi.

Gunnar Þorri Pétursson tók við verkinu og lauk við þýðinguna. Hann skrifar auk þess orðskýringar og stórfróðlegan eftirmála um verkið sem eykur enn á lestraránægjuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Sigursteinn um níðingana: „Ég taldi og tel hins vegar rétt og skylt að greina frá þessari vitneskju“

Sigursteinn um níðingana: „Ég taldi og tel hins vegar rétt og skylt að greina frá þessari vitneskju“
433
Fyrir 5 klukkutímum

Turan fékk hæstu sekt í sögu Tyrklands

Turan fékk hæstu sekt í sögu Tyrklands
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Þessi bar í bragganum kostaði tvær og hálfa milljón – Sjáðu alla reikningana og myndirnar

Þessi bar í bragganum kostaði tvær og hálfa milljón – Sjáðu alla reikningana og myndirnar
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Norðmenn og Þjóðverjar standa frammi fyrir alvarlegum lýðheilsuvanda meðal barna – Sérfræðingar eru ráðþrota

Norðmenn og Þjóðverjar standa frammi fyrir alvarlegum lýðheilsuvanda meðal barna – Sérfræðingar eru ráðþrota
433
Fyrir 6 klukkutímum

Sky: Tottenham á eftir leikmanni Bournemouth

Sky: Tottenham á eftir leikmanni Bournemouth
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Fær 230 þúsund krónur útborgað en borgar 240 þúsund í húsaleigu – „Ég vona bara að leigan hækki ekki“

Fær 230 þúsund krónur útborgað en borgar 240 þúsund í húsaleigu – „Ég vona bara að leigan hækki ekki“
Matur
Fyrir 6 klukkutímum

21 eldhúsráð sem þú átt alls ekki að taka mark á

21 eldhúsráð sem þú átt alls ekki að taka mark á