fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024

Söngperlur ABBA í flutningi okkar fremstu söngdíva

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 17. júlí 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónleikasýningin ABBA í Eldborgarsal Hörpu 27. október 2018

Yfir 20 lög ABBA fá að hljóma á tónleikasýningu sem haldin verður í Eldborgarsal Hörpu í október. Sýningin sló í gegn árið 2014 og aftur núna í maí á tveimur troðfullum sýningum. Því var ákveðið að endurtaka leikinn í október.

„Hver elskar ekki ABBA,“ svaraði ungur karlkyns samstarfsmaður minn þegar ég sagði honum að ég væri að fara á sýninguna núna í maí. Og það er alveg rétt hjá honum, maður þarf að vera með eitthvað einstaklega erfitt fýlupúkagen til að „fíla“ ekki lög ABBA, alveg sama hvort maður ólst upp við lög þeirra eða er að kynnast þeim fyrst í dag.

Ég var að verða þriggja ára þegar ABBA vann Eurovision og ég er gallhörð á að ég muni eftir að hafa setið í náttkjól á stofugólfinu heima á Nönnugötu og horft á þau litrík og skemmtileg í sjónvarpinu. Það má vel vera að það sé misminni, en ég man hins vegar vel þegar bróðir mömmu kom frá útlöndum og færði mér bláu plötuna þeirra (Arrival), þá var ég fimm ára og ég á plötuna ennþá í frábæru standi. Ég hef hlustað á ABBA allar götur síðan, þó mis mikið, en þó þau hljómi ekki daglega hjá mér, þá er það að minnsta kosti vikulega. Og já, ég elska ABBA.

Leið ABBA að heimsfrægð var ekki auðsótt

Allir sem komnir eru á besta aldur, eða jafnvel bara aldur þekkja sögu ABBA, en til að hlaupa hratt yfir hana fyrir þá sem þekkja ekkert til, þá kemur hljómsveitin frá nágrannalandi okkar Svíþjóð, stofnuð af Björn Ulvaeus og Benny Andersson, sem hafa starfað saman allt frá fyrsta degi til dagsins í dag. Allir meðlimir ABBA hófu sinn feril í tónlistinni ung að árum hvert fyrir sig: söngkonurnar, Agnetha Faltskog og Anni-Frid Lyngstad, við söng, bæði sóló og í hljómsveitum og Björn og Benny við hljóðfæraleik og lagasmíðar í sitt hvorri hljómsveitinni. Leiðir þeirra lágu oft saman á tónleikaferðum og „giggum“ og hófu þau að syngja bakraddir hjá hvert öðru og annað samstarf í minna mæli, þar til Björn og Benny fóru að semja saman. Ástin knúði einnig dyra og giftu Björn og Agnetha sig árið 1971 og Benny og Anni-Frid voru orðin par, þó þau hafi ekki gift sig fyrr en árið 1978.

Það er líklega fyrst og fremst Stig Andersen, eiganda Polar Music og umboðsmanni ABBA, að þakka að þau urðu að ABBA og þeirri goðsögn sem þau eru í lifanda lífi. Hann var sannfærður um að tónlist Björn og Benny ætti erindi við heiminn og á einum tímapunkti sagði hann „þið eigið eftir að semja lag sem verður smellur um allan heim.“ Líklega átti hann ekki von á því þá að lögin yrðu mun fleiri en eitt. Stig hvatti þá félaga til að taka þátt í Melodifestivalen, söngvakeppninni sem velur framlag Svíþjóðar í Eurovision. Framlögum þeirra var hafnað árið 1971, en lag þeirra árið 1972 með annarri söngkonu lenti í þriðja sæti og varð vinsælt í Svíþjóð. Anderson gafst ekki upp og árið 1973 tóku fjórmenningarnir þátt saman undir nafninu Björn & Benny, Agnetha & Anni-Frid með laginu Ring Ring, lenti það í þriðja sæti og varð vinsælt víðs vegar um Evrópu og í Suður-Afríku.

Andersen, líklega á þrjóskunni einni saman, hóf strax undirbúning að því að fjórmenningarnir tækju þátt árið eftir og byrjaði jafnframt að kalla þau ABBA, sem er samansett úr upphafsstöfum þeirra. Hann ásamt Björn og Benny var sannfærður um að sigur í Eurovision yrði stökkpallur til frægðar fyrir hljómsveitina sjálfa sem og Björn og Benny sem laga- og textahöfunda. ABBA mættu til leiks í sænsku keppnina í þriðja sinn, reynslunni ríkari og betur undirbúin og uppskáru sigur með laginu Waterloo, þann 6. apríl 1974 unnu þau síðan Eurovision og restin er skrifuð í sögubækurnar eins og sagt er.

Sigurinn í keppninni gaf ABBA tækifæri til að ferðast um alla Evrópu, koma fram í sjónvarpsþáttum og flytja sigurlag sitt, sem fór í toppsæti á listum fjölmargra landa. Lagið komst einnig í sjötta sæti bandaríska Billboard listans og opnaði því möguleika fyrir ABBA vestanhafs. Sigurinn í Eurovision einn og sér færði þeim þó ekki heimsfrægðina á silfurfati og áttu þau vinsældum að fagna, en eigi síður brokkóttu gengi, næstu 2-3 ár þar til heimsfrægð var náð.

Fyrir yngri lesendur er rétt að vekja athygli á að allt átti þetta sér stað fyrir tíma snjallsíma, samfélagsmiðla og slíks, og því var tónlist ekki frekar en annað komið um alla heimsbyggðina stuttu eftir að því var póstað á netið.

Árið 1982 tilkynnti ABBA að þau hygðust taka sér pásu, allir meðlimir voru farnir að vinna að sólóverkefnum, pörin bæði skilin og er líklegt að samstarf fjórmenninga hafi ekki verið eins auðvelt og áður, þrátt fyrir að Benny og Björn hafi ætíð haldið sínu samstarfi áfram.

Það er líka pínu kaldhæðnislegt að mörg af bestu og vinsælustu ástarlögum ABBA eru samin í kringum skilnaði þeirra, þegar allar tilfinningar eru í sárum, eins og til dæmis The Winner Takes It All, One of Us og When All is Said and Done. Þrátt fyrir að fjórmenningarnir hafi harðneitað að lögin sem samin voru á sama tíma og skilnaðir þeirra urðu árin 1979 og 1981, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en þeir hafi haft áhrif á texta- og lagasmíðarnar og samstarfið sem sett var á pásu þar til á þessu ári.

44 árum eftir sigurinn í Eurovision, átta stúdíóplötum síðar, söngleiknum Mamma Mia sem gengið hefur fyrir fullu húsi í London síðan árið 1999 (og í fleiri löndum í kjölfarið), samnefndrar kvikmyndar og framhaldsmyndar sem sýnd verður í júlí næstkomandi tilkynnti ABBA nýlega að þau ætli að hljóðrita ný lög. Eitt þeirra, I Still Have Faith In You, verður frumflutt í desember í sérstakri útsendingu á BBC og NBC. Það verður flutt í sýndarveruleika, það er fjórmenningarnir verða tölvugerðir eftir ljósmyndum og öðrum gögnum þannig að þau munu birtast okkur eins og þau litu út árið 1979. Eins og ABBA hefur fulla trú á mér, þá hef ég líka fulla trú á að ný lög þeirra verði jafn frábær og eldri lög þeirra og muni lifa með núverandi og komandi kynslóðum um ókomna tíð.

Fjórar söngdívur flytja tónlistarperlur ABBA

Það er einvala lið sem stendur að baki tónleikasýningunni í Hörpu og í fótspor söngkvennanna tveggja stíga fjórar söngkonur, sem allar hafa reynslu af Eurovision líkt og þær sænsku. Selma Björnsdóttir tók þátt árin 1999 og 2005 og landaði 2. sæti í fyrra skiptið og Jóhanna Guðrún hreppti einnig annað sætið árið 2009. Hansa var Donna í Mamma Mia sýningu Borgarleikhússins. Í sýningunni í október tekur Stefanía Svavarsdóttir við af Hönsu, en hún hefur einnig tekið þátt í undankeppni Eurovision hér heima.

Þær stöllur standa þó ekki einar á sviðinu því hinn einni sanni Helgi Björns kom og tók þrjú lög: Does Your Mother Know, Knowing Me, Knowing You með Hönsu og SOS. Helgi mætir aftur á svið í október, en hann er einnig vel kunnur lögum ABBA því hann lék Sam í Mamma Mia á móti Hönsu. Þar voru lögin sungin á íslensku og nefndi Helgi að hann myndi kannski lenda í vandræðum með að syngja þau á ensku, en sá fyrirvari hans reyndist alveg óþarfur.

Jón Ólafsson stýrir hljómsveitinni auk þess að spila á hljómborð og syngja bakraddir, en hljómsveitina skipa: Haraldur Sveinbjörnsson, hljómborð, Ólafur Hólm, trommur/slagverk, Stefán Magnússon, gítar,Villi Guðjóns, gítar/saxófónn og Friðrik Sturluson, bassi. Um sviðsetningu sýningarinnar sér Selma Björnsdóttir.

Gestir tónleikasýningarinnar í maí fengu óvæntan leynigest á svið, en í laginu Gimme! Gimme! Gimme! (A Man After Midnight) var dansarinn Maxim Petrov kynntur á svið og steig hann dans með Jóhönnu Guðrúnu við dynjandi fagnaðarlæti gesta. Kvöldið eftir unnu þau síðan í Allir geta dansað á Stöð 2.

Öll helstu og þekktustu lög ABBA fá að hljóma og það er af nægu að taka: Waterloo, The Name of the Game, Super Trooper,Lay All Your Love on Me, Chiquita, Slipping Through My Fingers, When I Kissed the Teacher, One Man One Woman, Gimme! Gimme! Gimme! (A Man After Midnight), The Winner Takes it All, Mamma Mia, Does Your Mother Know, Knowing Me, KnowingYou, Fernando, Thank You For The Music, Voulez Vouz, Dancing Queen, Honey , Honey og eru þá ekki öll upptalin. Og það besta er, allir ABBA aðdáendur kunna þessi lög.

Söngkonurnar deila sviðsljósinu nokkuð jafnt á milli sín og syngja ýmist ein, tvær eða allar fjórar saman, fyrir utan lög Helga eins og áður sagði. Í nokkrum atriðum eru áhorfendur hvattir til að syngja og taka þátt, eins og í Thank You For The Music þar sem þeir eru beðnir að taka upp símana og kveikja á ljósinu. Það myndast alltaf skemmtileg stemning þegar allir taka niður feimnina og fást til að vera með.

Sviðsmyndin er einföld að því leyti að hún er eins alla sýninguna, en eigi að síður stílhrein og vel útfærð með efri pall og bogadregnum tröppum niður á sviðið, þannig að söngkonurnar eiga nokkra inn- og útganga á tveimur sviðum. LED skjáir eru einnig í notkun á sviðinu. Búningarnir fyrir hlé eru ekta ABBA búningar, með glitri og glans, en ekki í anda ABBA eftir hlé, þegar þær mættu í einlitum kjólum á svið. Ég vona að því verði breytt á október sýningunni og það væri tryllt að sjá kattarbúningana frægu.

Sýningin er einfaldlega skylduferð fyrir nýja og eldri aðdáendur ABBA og ég hef í raun bara út á tvennt að setja: að sýningin sé ekki lengri og að áhorfendur standi ekki fyrr (meira) upp og dansi og syngi með.

Takk fyrir tónlistina ABBA!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Sjáðu markið: Hólmar kom Val yfir eftir frábæra hornspyrnu Gylfa

Sjáðu markið: Hólmar kom Val yfir eftir frábæra hornspyrnu Gylfa
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Nóg að gera í Hafnarfirði – Skiptast á leikmönnum við Val fyrir stórleikinn og selja Harald aftur til Fram

Nóg að gera í Hafnarfirði – Skiptast á leikmönnum við Val fyrir stórleikinn og selja Harald aftur til Fram
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Leggur til að United ráði Roy Keane til starfa í sumar

Leggur til að United ráði Roy Keane til starfa í sumar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Breytingar á leikstöðum í Bestu deildinni – FH spilar heimaleik á Ásvöllum

Breytingar á leikstöðum í Bestu deildinni – FH spilar heimaleik á Ásvöllum
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

KFA staðfestir komur Þórðar Ingasonar

KFA staðfestir komur Þórðar Ingasonar
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Beitir Ólafsson úr KR í HK

Beitir Ólafsson úr KR í HK