fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Á vígvelli hljóðanna

Skoski raftónlistarmaðurinn Kode9 ræðir um djúpbassa, dubstep, hljóðrænan hernað og tölvuleikjatónlistina sem hann ætlar að spila á Sónar Reykjavík um helgina

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 14. mars 2018 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mmhhhmm mmhhhmm mmhhhmm. Djúúúúpur bassi. Svo djúpur að þú heyrir hann varla með eyrunum heldur finnst þér eins og þú titrir innan með þér, lengst ofan í maga. Kannski finnur þú til ótta eða ónotatilfinningar vegna þessa undirliggjandi þunga, en kannski skapar þessi lágtíðniseyðingur algjörlega ný tengsl við tónlistina. Mmhhhmm mmhhhmm.

Kode9

Nafn: Steve Goodman

Aldur: 45

Starfstitill: Tónlistarmaður, plötusnúður, hljóðheimspekingur og eigandi útgáfufyrirtækisins Hyperdub.

Breiðskífur: Memories of the Future (2006), Black Sun (2011), Nothing (2015.

Útgefnar bækur: Sonic Warfare (2009).

Kemur fram: á Sónar Reykjavík í Hörpu klukkan 00.30 aðfaranótt laugardags.

Þess konar djúpbassi hefur verið eitt helsta einkennismerki og áhugamál skoska raftónlistarmannsins Kode9 allt frá því hann tók þátt í skapa hljóm tónlistarstefnunnar sem átti eftir að vera nefnd „dubstep“ í kringum aldamót. Tónlistin var innblásin af hægri bassadrifinni dub-tónlist frá afró-eyjaskeggjum Karabíska hafsins og harðri danstónlist frá skítugum götum Lundúna: Jungle, UK Garage og 2-step-tónlist.

Kode9, sem heitir í raun og veru Steve Goodman, er eftirsóttur plötusnúður, hefur sent frá sér þrjár frábærar breiðskífur með tilraunakenndri raftónlist en hefur ekki síður haft áhrif á tónlistarlífið með rekstri hinnar framsæknu og hugmyndaríku plötuútgáfu Hyperdub, sem gefur út listamenn á borð við Burial, DJ Rashad, Hype Williams og Jessy Lanza. Goodman skapar hins vegar ekki bara og gefur út tónlist því hann er enn fremur þekktur fyrir heimspekileg skrif sín um tónlist og (ó)hljóða(ó)menningu.

Um helgina kemur Kode9 fram á tónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík í Hörpu, en þar mun hann leika eigin bassadrifnu endurhljóðblandanir af japanskri tölvuleikjatónlist frá níunda áratugnum. Blaðamaður DV hitti Steve Goodman á internetinu og spjallaði við hann um líkamleg áhrif tónlistar, harmrænar vinsældir dubstep-tónlistarinnar og óvænta snilldina í tölvuleikjatónlist.

Hljóðin hafa áhrif á heilastarfsemina

„Ég hef verið að DJ-a frá 1991…“ svarar Steve þegar hann er spurður um hvaðan augljós ástríða hans, ekki bara fyrir tónlist heldur fyrir hljóðum almennt, spretti.

En svo þagnar hann og hugsar sig um svolitla stund.

„Viltu hreinskilnislega svarið eða það svar sem líklega færi best ofan í íslenskan almenning?“ spyr hann – og augljóslega vill blaðamaður hreinskilnina.

„Jæja. Eins og hjá svo mörgum í upphafi tíunda áratugarins þá byrjaði þetta með nokkrum ólíkum upplifunum á vímuefnum,“ segir Steve. „Eins og margir sem fóru á „reif“ á þessum árum fannst mér ég vera að upplifa tónlistina og hljóðin á mun djúpstæðari hátt en ég hafði gert áður í hversdagslífi mínu.

Þótt ég hafi ekki lært á hljóðfæri eða neitt svoleiðis hafði ég verið mjög áhugasamur um tónlist á unglingsárunum og kannski má segja að tónlistin hafi undirbúið mig fyrir upplifunina á vímuefnum. Tónlistin getur nefnilega líka gefið manni þessa undarlega annarlegu tilfinningu. Fólk talar oft um vímuefni sem hugvíkkandi, en mér finnst tónlistin líka geta haft þannig áhrif.

En þetta gerði það allavega að verkum að ég fór að velta því meira fyrir mér hvað var á bak við tónlistina sem ég fílaði, hvort sem það var sýrurokk frá áttunda áratugnum, djasstónlist eða bara hver sú tónlist sem hafði einhvers konar hugvíkkandi áhrif.“

Þetta skýrir þá kannski líka þennan fræðilega áhuga þinn á hljóðum sem efnislegu fyrirbæri, þrýstingsbylgjum sem geta haft bein áhrif á líkamann – það er tilfinning sem margir virðast upplifa á vímuefnum á dansgólfinu?

„Já, í þessu ástandi hættir tónlistin að vera eitthvað sem maður hlustar bara á og manni finnst hún einfaldlega hafa áhrif á heilastarfsemina eða hafa bókstafleg áhrif á líkamann. Hún er ekki eitthvað sem maður hlustar á passíft heldur finnst manni hún fara inn í mann og breyta því hvernig maður sér heiminn.“

Jungle-tónlistin breytti öllu

Í kjölfar þessarar upplifunar af krafti tónlistar fór Steve að þeyta skífum í Edinborg þar sem hann stundaði háskólanám. Í upphafi var það sixtís og seventís fönk, rokk og sálartónlist, en fljótt fór hann að prófa sig áfram með house, hip-hop og hardcore – hljóðmynd hinnar nýju reif-senu.

„Í kringum 1993 heyrði ég svo jungle-tónlist í fyrsta skipti og þá fyrst fór ég að taka þetta alvarlega. Mér fannst eins og öll tónlistin sem ég hafði fílað áður kæmi saman í jungle og næstu fimm árin hlustaði ég ekki á neitt annað. Jungle breytti alveg nálgun minni á tónlist, þetta var ekki bara mjög kraftmikil tónlist heldur var hún í anda annarra ótónlistartengdra hluta sem ég hafði áhuga á. Þar var til dæmis mikið verið að „sampla“ brot úr vísindaskáldskap og þarna var áhugaverð nálgun á tæknina sem rímaði við það sem var að gerast í heiminum á þessum tíma. Þetta var á þeim tíma sem fyrsta bylgjan af spenningi vegna internetsins stóð yfir, það var algjör bylting að eiga sér stað í tölvutækni og mjög útbreidd tilfinning fyrir því að eitthvað mjög djúpstætt væri að breytast í heiminum vegna tækninnar.“

Tæknin var ekki bara að breyta tónlistinni heldur voru heimspekingar og fræðimenn að leita að nýrri nálgun til að skilja þennan sítengdari og tæknivædda heim. Goodman var í hringiðu þessara tilrauna í kringum aldamótin þar sem hann stundaði doktorsnám í heimspeki við háskólann í Warwick og var þar meðlimur í gagnmerkum hópi sem kallaðist Cybernetics Culture Research Unit, CCRU. Hópurinn tókst á við umbreytingar samtímans og nýstárleg poppmenningarfyrirbæri á fræðilegan hátt en var á sama tíma undir miklum áhrifum frá óvenjulegum jaðarfræðum á borð við vísindaskáldskap, dulhyggju, veirufræðum og stýrifræðum. Meðlimir hópsins, á borð við Sadie Plant, Nick Land, Mark Fisher og Kodwo Eshun, áttu eftir að hafa gríðarlega mikil áhrif á næstu áratugum, í myndlist, tónlist og fræðasamfélaginu.

Helsta viðfangsefni Goodmans var alltaf hljóð og tónlist. Hann segir þó að þetta hafi ekki aðeins verið viðfangsefni fræðilegrar hugsunar sinnar heldur hafi tónlistin haft bein áhrif á heimspekina.

„Tónlistin hafði mikil áhrif á hugsunina, ekki síst á mjög bókstaflegan hátt. Á meðan ég var að læra og skrifa var ég alltaf að hlusta á jungle-tónlist. Fingurnir á lyklaborðinu slógu á stafina í takt við tónlistina, þannig að tónlistin mótaði takt skrifanna og hafði þannig áhrif á hugsunina,“ segir hann. „En svo var það líka hitt, að á tíunda áratugnum upplifði ég í fyrsta skipti virkilega góð stór hljóðkerfi og sá hvaða áhrif hljóð úr slíkum kerfum gefur haft á hópa fólks.

Það er til dæmis sérstaklega eftirminnilegt þegar ég fór á götukarnivalið í Notting Hill í fyrsta skipti um miðjan tíunda áratuginn, ég stóð á svölunum í íbúð vinar míns og horfði niður á troðfulla götu af fólki dansa við jungle-tónlist. Þegar plötusnúðurinn lét „droppið“ falla í ákveðnu lagi varð hálfgerð sprenging í hópnum. Það sem hafði litið út eins og tiltölulega rólegur mannfjöldi sprakk út og hreyfing múgsins fór að minna á óeirðir eða einhverja hringiðu – og það voru hljóðin sem höfðu þessi áhrif.“

Hljóðrænn stríðsrekstur

Goodman segir að þessi mynd af því hvernig hljóðin stýrðu mannfjöldanum hafi setið í honum og kannski verið einn helsti innblásturinn að bók sem hann skrifaði síðar, Sonic Warfare, og kom út hjá MIT Press árið 2009. Þar fjallar hann um það hvernig tónlist og hljóð hafa verið notuð í gegnum aldirnar með það fyrir augunum að stýra mannfjölda og líkömum.

„Yfirleitt hugsum við um hljóð og tónlist sem eitthvað sem við hlustum á til að njóta, fyrir ánægju og vellíðan, fyrirbæri sem skapa uppbyggilega og jákvæða félagslega reynslu sem við upplifum í sameiningu. En sannleikurinn er sá að við upplifum hljóð og tónlist oft, þvert á móti, á mjög neikvæðan hátt. Þau skapa pirring og óþægindi. Ég bý til dæmis við aðalgötu nálægt spítala í London og það eru alltaf bílar að bruna framhjá með sírenurnar í gangi. Þetta getur orðið mjög átakanlegt hljóð og maður finnur nánast fyrir líkamlegum sársauka. En þetta snýst ekki bara um hávaða heldur bregst fólk mjög neikvætt og harkalega við tónlist sem það fílar ekki – maður tekur mjög mikið eftir þessu þegar maður er plötusnúður. Út frá slíkum athugunum fór ég að rannsaka þessar dökku hliðar hljóðmenningar þar sem hópar eða einstaklingar hafa á meðvitaðan hátt notað þessu neikvæðu krafta í hljóðum og tónlist, til dæmis sem vopn og til að losna við tiltekið fólk úr rými.

Þegar ég fór að rannsaka þetta fann ég svo mörg áhugaverð dæmi um notkun tónlistar til stýringar. Maður sér hvernig lögregla og herir hafa notað hljóð til að beita valdi, og hvernig það hafa verið þróuð tæki til að fæla burt krakka úr verslunarmiðstöðvum með hátíðnihljóðum. Annars konar dæmi er Muzak-samsteypan sem framleiddi tónlist til að spila í verksmiðjum til að auka framleiðni verkafólksins – þar var verið stýra hreyfingum fólks með tónlistinni. Enn annað dæmi eru svo tónlistarframleiðslufyrirtæki sem hanna smitandi popptónlist. Tónlistin er smíðuð meðvitað til að vera grípandi og smitandi á tiltekinn hátt, þannig að þú byrjar að syngja lagið jafnvel þótt þú hatir það – bráðsmitandi laglína sem ræðst á heilann þinn. Með öðrum orðum, það er engin sía í eyrunum þínum, tónlistin fer beint inn og allt í einu ertu farinn að syngja með. Sem sagt, þegar við notumst við þennan hljóðræna vinkil birtist okkur heill alheimur hljóðræns hernaðar.“

Að þínu mati getur tónlist þá ekki bara verið pólitísk þegar textarnir setja fram tiltekinn boðskap eða álíka, heldur getur henni verið beitt á pólitískan hátt óháð innihaldinu, og hljóðið sjálft eða takturinn getur jafnvel verið pólitískur?

„Já, auðvitað getur pólitík verið í textunum en ég hef meiri áhuga á því sem mér fannst vera örlítið dýpri vídd – þar sem hlustun og skilningur á textum er óþarfur. Þetta er pólitík þess sem hefur bein áhrif á heilann þinn eða líkama og breytir því hvernig þú hugsar, breytir tilfinningum þínum, hegðun og fær þig til að hreyfa þig inn eða úr rými án þess að þú gerir þér grein fyrir því.

Eitt skýrasta dæmið er líklega tæki sem heitir „long range acoustic device“ sem bandaríski herinn og lögregludeildir ýmissa landa hafa notað. Það er notað til að tala við einstaklinga eða hópa, eins og gjallarhorn, en svo er þrýst á takka og út kemur mjög hávært og sársaukafullt hátíðnisuð. Þegar þetta gerist neyðist þú til að halda fyrir eyrun og þá getur þú skyndilega ekki notað hendurnar í neitt annað.“

Tónlist sem ísjaki

Ef við snúum okkur aftur að þinni eigin tónlist. Alveg frá því að þú byrjaðir að gera tónlist undir nafninu Kode9 hefur djúpur lágtíðnibassi alltaf verið stór hluti af henni. Hvað er það við djúpbassann sem hefur þetta aðdráttarafl fyrir þig.

„Ætli það sé ekki bara það að finna fyrir tónlistinni líkamlega frekar en að hún sé bara eitthvað sem þú hlustar á – að finna að hún sé ekki bara eitthvað sem fer inn um eyrun heldur hefur áhrif á líkamann. Ég veit að mörgum finnst þetta frekar kúgandi og óþægileg upplifun, en það að maður finni titringinn í brjóstkassanum og maganum finnst mér svo sterk upplifun.

Líklega hef ég líka bara verið frekar ofdekraður þegar kemur að hljóðkerfum. Til dæmis voru ein fyrstu dubstep-klúbbakvöldin, sem hétu FWD>>, haldin á stað í London sem hét Plastic People, pinkulitlum stað með frábært hljóðkerfi. Það voru nánast bara plötusnúðar og tónsmiðir sem mættu þarna í byrjun og þar fengu þeir að upplifa tónlistina sína á algjörlega nýjan hátt. Maður fattaði að það gildir það sama um tónlistina og ísjaka, í flestum hljóðkerfum heyrum við bara efsta yfirborðið, sjáum bara þann hluta ísjakans sem er fyrir ofan vatnsborðið. En með hljóðkerfinu þarna fór maður að finna fyrir stærðinni sem var þarna fyrir neðan vatnsborðið – og sá hluti af tónlistinni sem var undir vatninu var risastór miðað við þann örlitla hluta sem var fyrir ofan. Mörg okkar sem stunduðum þetta kvöld vorum mjög innblásin af þessu og fórum að gera tónlist sem var beinlínis ætlað að spilast í slíkum græjum. Þetta var eiginlega algjör grundvallarupplifun sem leiddi til fæðingar og vaxtar dubstep-tónlistarinnar.

Það var svo frekar sársaukafullt að byrja að ferðast um heiminn og ætla að spila þessa tónlist en fatta að hljóðkerfin voru oftar en ekki hræðileg og gátu ekki endurskapað þessa upplifun. Ég er viss um að þetta hafi haft áhrif á tónlistarsköpunina – hljóðkerfin móta það hvernig tónlist fólk skapar. Það er örugglega hægt að skoða þróun, og kannski hnignun dubstep-tónlistarinnar í þessu ljósi – áhrifin sem það hafði að þurfa að spila tónlistina í stöðugt verri hljóðkerfum.“

Ris og hnignun dubstep

Hvernig var það fyrir þig, sem hafðir verið þarna frá fæðingu þessarar tónlistarstefnu, dubstep, að fylgjast með henni verða æ vinsælli, seitla inn í meginstrauminn og smám saman umbreytast í mjög poppaða og pungalega tónlist? Tók það á?

„Jú, það var frekar sorglegt að fylgjast með þróun dubstep-tónlistarinnar. En að vissu leyti hafði ég séð þetta gerast áður með jungle-tónlistina. Tímaskalinn var aðeins annar en þróunin nánast sú sama. Á fyrri hluta lífhrings stefnunnar fór hún frá því að vera örlítil sena yfir í það að dreifast víða – en samt þannig að hún hélt í það sem gerði tónlistina spennandi. Svo kemur ákveðinn vendipunktur og tónlistin verður söluvænleg og þá brotnar hún upp í að minnsta kosti tvo hluta og báðir eru vandkvæðum bundnir. Annar hlutinn verður mjög poppaður og hallærislegur, en hinn verður stöðugt agressífari. Þetta var þróunin bæði með jungle og dubstep. Í báðum tilvikum má líka segja að poppaða tónlistin sem þróaðist úr þessum stefnum hafi í raun verið ágengari en sú tónlist sem var upphafspunkturinn – hún verður háværari og pungalegri (e. macho). Dubstep sprakk út í Bandaríkjunum og varð mjög hávær, full af hljóðum á miðtíðnisviðinu frekar en að byggja á djúpum bassa. Þetta gerðist meðal annars vegna þess að tónlistin var spiluð meira í útvarpinu þar sem eru engar stórar bassakeilur. Tónlistin þurfti að geta farið í gegnum litla fartölvuhátalara, sjónvörp og svoleiðis. Það þurfti stöðugt að troða hljóðunum í gegnum æ smærra nálarauga.

Þó að ég hafi upplifað þessi vonbrigði áður með jungle-tónlistina – sem hafði eiginlega verið ást lífs míns – þá hafði ég aldrei beint verið hluti af þeirri senu, bara aðdáandi og plötusnúður lengst úti á jaðrinum. Ég var mun nánari dubstep-tónlistinni, hafði verið að skrifa um hana, gera slíka tónlist og spila hana sem plötusnúður. Það gerði þetta kannski örlítið átakanlegra fyrir mig. En þegar dubstep fór að slá í gegn var ég samt strax orðinn fráhverfur senunni og tónlistinni. Þó að ég hafi verið ánægður fyrir hönd fólksins sem hafði verið þarna frá byrjun fannst mér tónlistin vera orðin eitthvað annað en ég hafði upphaflega fallið fyrir.“

Laglínur og litir tölvuleikjatónlistarinnar

Nýjasta verkefni Kode9 er safnplata með 34 lögum úr gömlum japönskum tölvuleikjum frá níunda áratugnum, en á Sónar Reykjavík mun hann einmitt spila heilt DJ-sett með völdum slögurum af þessari plötu sem hann hefur endurhljóðblandað með töktum og bassalínum frá footwork-tónlist frá Chicago og breskri grime-tónlist. Það er svo hinn virti japanski anime-teiknari Koji Morimoto sem hefur skapað sjónrænan myndheim sem verður varpað upp á bak við plötusnúðinn á meðan settinu stendur.

Steve segir það ekki þurfa að koma þeim sem hafa fylgst með ferli hans mikið á óvart að hann sé farinn að snúa sér í þessa átt – þó að framan af hafi hann frekar verið þekktur fyrir löturhæga dub-takta og djúpa bassa frekar en hraðar og líflegar laglínur á borð við þær sem heyrðust í tölvuleikjum níunda áratugarins.

„Kannski var ókosturinn við að heyra tónlistina í svona stórum hljóðkerfum með þennan mikla djúpa bassa að hún gat farið að hljóma svolítið eintóna og einhæf – þetta er svo svakalegur titringur að litirnir í tónlistinni geta glatast. Strax í kringum 2005 eða 2006 var ég því farinn að hugsa að kannski væri þetta aðeins of naumhyggjulegt og tónlistin þyrfti að fá smá laglínur og liti aftur. Ég byrjaði sjálfur að nota brot úr tölvuleikjatónlist og hjá Hyperdub fór ég líka að gefa út tónlist eftir nokkra tónlistarmenn sem gerðu bassadrifna tónlist en voru á sama tíma að vinna með áhugaverða hljóðgervla sem hljómuðu á vissan hátt eins og úr tölvuleikjum, voru mjög melódískir og litríkir. Þetta voru til dæmis japanski listamaðurinn Quarts 330, og svo Ikonika, Darkstar, Joker, Zomby sem allir voru undir áhrifum, beint eða óbeint, frá tölvuleikjatónlist. En svo var það einhverjum áratug seinna sem vinur minn, Nick Dwyer, sá um útvarpsþætti um sögu tölvuleikjatónlistar og spurði hvort ég vildi taka þátt í að vera listrænn stjórnandi á safnplötu með gamalli tölvuleikjatónlist. Ég sló til og yfir nokkurra ára tímabil fórum við í gegnum gríðarlegt magn tónlistar sem við fundum og minnkuðum smám saman úr mörg þúsundum í þessi 34 lög.

Það sem var áhugavert við tölvuleikjatónlistina frá þessum tíma er að vegna tæknilegrar takmarkana búnaðarins sem verið var að nota, þessara mjög frumstæðu örflagna, fékk tónlistin sinn sérstaka hljóm, þennan stökka 8- eða 16-bita hljóðgervlahljóm. Þessar takmarkanir sköpuðu í raun ákveðna tónlistarstefnu sem við getum kallað frum-tölvuleikjatónlist. Annað sem okkur fannst magnað var að þessir tónsmiðir fengu aldrei neina sértaka viðurkenningu fyrir þessi verk sín, heldur voru bara hefðbundnir launamenn á skrifstofum í stórfyrirtækjum. Þetta fannst okkur mjög merkilegt.“

Fyrir mann sem skrifar um hvernig hljóð eru notuð til að stýra fólk í ákveðna átt hlýtur að vera áhugavert að velta fyrir sér hvernig tónlistin er notuð til að drífa spilarann áfram í leiknum, er það ekki?

„Jú, það er hálfgerð ögun sem felst í tónlistinni, hún verður hraðari eftir því sem þú kemst lengra í leiknum og einhvers staðar í undirmeðvitundinni hefur hún áhrif á þig. Leikurinn fer hraðar, tónlistin fer hraðar, hjartslátturinn verður hraðari, og þú ert kominn í eins konar endurómslykkju – tölvan, líkaminn, hljóðin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið