fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Orðrómur í Víetnam ógnar nashyrningum: „Oft lifandi þegar hornið er hoggið af“

Dýraverndunarþriller – 20 þúsund dýr eftir – Skilur stöðu veiðiþjófa

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 9. mars 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sænski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Markus Lutteman hefur skrifað bæði ævisögur og glæpaskáldsögur til þessa. Árið 2016 kom út skáldsagan Blóðmáni sem hefur nú verið þýdd á íslensku. Hún fjallar um dráp á nashyrningum og talar vel til nútímans því að síðustu tíu árin hefur veiðiþjófnaður ógnað tilvist tegundarinnar. Markus ræddi við DV um hvers vegna nashyrningar eru í sérstakri hættu nú.

Dráp raungerðist

„Bókin hefst með því að nashyrningur er drepinn í dýragarði í Stokkhólmi. Fimm mánuðum eftir að bókin kom út gerðist það í alvörunni í París. Ég vona að sá sem var þar að verki hafi ekki fengið hugmyndina frá minni bók” segir Markus sem hefur alla tíð haft mikinn áhuga á umhverfismálum og dýraverndunarmálum sérstaklega í seinni tíð.

Markus er einna þekktastur fyrir samstarf sitt við Mons Kallentoft og saman skrifuðu þeir glæpasagnaseríu kennda við Herkúles. Hann segir að Blóðmáni hafi fengið mikla fjölmiðlaathygli vegna þess hversu óhefðbundið viðfangsefnið er. Umhverfismál komi sjaldan fyrir í krimmum.

„Þessi bók hefði aldrei getað verið skrifuð fyrir tíu árum síðan því þá var þetta vandamál ekki til staðar. Fram að árinu 2008 voru um það bil tíu nashyrningar veiddir á hverju ári. En eitthvað gerðist það ár því að þá voru 100 nashyrningar veiddir og svo 200 ári seinna, svo 300 og svo framvegis. Síðustu fjögur árin hafa meira en 1000 nashyrningar verið veiddir árlega.“

Hver er ástæðan fyrir þessari aukningu?

„Fyrst og fremst er það orðrómur sem gengur milli manna í Víetnam um að nashyrningshorn geti læknað krabbamein. Það er vitaskuld rakið bull því að í nashyrningshornum er einungis keratín, líkt og í fingurnöglum. Einnig hafa hornin verið seld til Kína þar sem þau eru notuð í listaverk.“

„Þetta snýst allt um peninga og ef hótanir um pólitískar eða efnahagslegar þvinganir vofa yfir myndi þetta breytast“
Markus „Þetta snýst allt um peninga og ef hótanir um pólitískar eða efnahagslegar þvinganir vofa yfir myndi þetta breytast“

Kílóið á 10 milljónir

Nashyrningshorn eru ekki ódýr á svarta markaðinum því kílóið kostar um tíu milljónir króna. Víetnam er vissulega enn þriðja heims ríki en mikill hagvöxtur hefur verið þar undanfarin ár og íbúarnir eru nærri 95 milljónir. Auðvelt er að sjá að viðkvæmum stofnum nashyrninga standi því nokkur ógn af þessum orðrómi.

Hvaðan kemur þessi orðrómur?

„Margir blaðamenn hafa reynt að komast að því og samkvæmt víetnömskum læknum á hann rætur að rekja til efri laga samfélagsins, embættismanna og herforingja. Aðrir segja að glæpasamtök hafi komið honum af stað til þess að geta selt hornin dýrum dómum. En ekki hefur verið hægt að rekja þetta nákvæmlega.“

Markus segist skilja að fólk falli fyrir þessu. Víetnamar, líkt og aðrir Austur-Asíubúar, hafa notað dýr í læknisfræðilegum tilgangi í árþúsundir. Má til dæmis nefna hákarlauggasúpu sem er vinsæl í Kína og er sögð geta læknað krabbamein þrátt fyrir engar læknisfræðilegar forsendur.

Gefin út á alþjóðadegi nashyrningsins
Blóðmáni Gefin út á alþjóðadegi nashyrningsins

Hefur samúð með veiðiþjófum

Flestir nashyrningar lifa á gresjum Afríku og þar kynntist Markus þessum mikilfenglegu skepnum þegar hann stundaði rannsóknir fyrir bókina. Einnig búa tegundir nashyrninga í Indlandi og Suð-Austur Asíu. Í Afríku lifa þeir á stórum verndarsvæðum með of lítilli gæslu. Eitt það stærsta er við landamæri hins fátæka Mósambík þaðan sem veiðiþjófar koma. Dýrin eru skotin, hornin hoggin af með sveðju og hræið skilið eftir.

„Oft eru dýrin enn þá lifandi þegar hornið er hoggið af. Hver kúla sem sem veiðiþjófur skýtur er hættuleg því að hávaðinn gæti komið landvörðum á sporið. Þeir verða að flýta sér að þessu.“

Markus hefur vissa samúð með stöðu veiðiþjófanna sjálfra. Þeir eru hinir allra lægstu í keðju þessarar ólöglegu starfsemi. Gera þeir þetta oft af illri nauðsyn, til þess að fæða og klæða fjölskyldur sínar. Einnig þurfa þeir oft að dvelja lengi í þjóðgörðunum sjálfum þar sem þeir eru í stórhættu á að verða fyrir árás ljóna eða hýena. Þeir sjá einnig mjög lítinn hluta af söluhagnaði hornanna.

Hvað verður um veiðiþjófa ef þeir nást?

„Í Suður Afríku fá þeir mjög þunga dóma, margra ára fangelsi. Í Botswana er landvörðum skipað að skjóta þá á færi. Þetta er mjög hættulegt líf.“

Ein tegundin lifandi dauð

Í dag eru um 20 þúsund nashyrningar eftir í heiminum sem skiptast niður í fimm megintegundir. Stofnarnir eru í misgóðu ástandi, til dæmis hefur sá indverski náð sér á strik eftir ofveiði á meðan sá súmatrski telur aðeins 40 dýr. Af undirtegund af hvítum nashyrningi, sem býr í norðurhluta Suður Afríku, eru einungis þrjú dýr eftir. Sú tegund er í raun útdauð því að dýrin eru orðin of gömul til að eignast afkvæmi.

Hvernig myndi útrýming nashyrninga há mannkyni?

„Ég vil ekki þurfa að segja barnabörnum mínum það í framtíðinni að við höfum leyft þeim að deyja út“

„Vandamálið er það að við vitum ekkert hvaða áhrif það hefur á lífríkið ef ein tegund hverfur skyndilega. Við tökum mikla áhættu ef við pössum ekki upp á þessi dýr. Það sem skiptir mig máli er að þessi dýr eru næst stærstu landspendýrin í heiminum. Ég vil ekki þurfa að segja barnabörnum mínum það í framtíðinni að við höfum leyft þeim að deyja út.“

Hvað er hægt að gera til að stöðva þetta?

„Ástandið er að batna í Kína og þar í landi hefur sala á fílabeini til dæmis verið bönnuð. Ég tel að besta leiðin sé að Bandaríkin og Evrópusambandið vakni til vitundar um þetta og setji þrýsting á Víetnam. Það er vitað að víetnamskir embættismenn taka þátt í smygli á nashyrningshornum, til dæmis sendiherrar í afrískum löndum. Þetta snýst allt um peninga og ef hótanir um pólitískar eða efnahagslegar þvinganir vofa yfir myndi þetta breytast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Tímamót á Reykjanesskaga: Næst lengsta gosið frá 2021 – Óvissa um framhaldið

Tímamót á Reykjanesskaga: Næst lengsta gosið frá 2021 – Óvissa um framhaldið
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Segja að Valur verði að vera með plan B klárt – „Af hverju taka Tryggvi og Jónatan ekki hlaup inn fyrir?“

Segja að Valur verði að vera með plan B klárt – „Af hverju taka Tryggvi og Jónatan ekki hlaup inn fyrir?“
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Sjáðu ótrúlega hegðun leikmanna Chelsea í gær – Pochettino hótar að reka þá ef þetta gerist aftur

Sjáðu ótrúlega hegðun leikmanna Chelsea í gær – Pochettino hótar að reka þá ef þetta gerist aftur
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sjáðu hræðilegan dóm Jóhanns Inga í gær – „Allt í lagi að gera mistök en þú átt ekki að sjá ofsjónir.“

Sjáðu hræðilegan dóm Jóhanns Inga í gær – „Allt í lagi að gera mistök en þú átt ekki að sjá ofsjónir.“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband