fbpx
Fimmtudagur 13.desember 2018
Fókus

Fulla ferð áfram með frasana að vopni

Bíódómur: Fullir vasar

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 5. mars 2018 16:00

Kvikmyndin Fullir vasar, sem Anton Sigurðsson leikstýrir og skrifar handritið að, er nýjasta íslenska myndin sem bíógestum stendur til boða. Það er gott ráð að halla sér vel aftur með poppið og spenna sætisólarnar, því strax er sett í fimmta gír í frösum og fjöri og ekki slegið af fyrr en kreditlistinn rúllar.

Myndin fjallar um Arnar Thor, sem komið hefur sér í klandur enn eina ferðina og skuldar nú hættulegasta manni Íslands, sjálfum Gulla bílasala, tugmilljónir. Þrír vinir hans ákveða að hjálpa honum úr klípunni með því að ræna banka. Hvað gæti farið úrskeiðis? Jú mögulega allt bara.

Í helstu hlutverkum eru Hjálmar Örn Jóhannsson, Aron Már Ólafssn, Hilmir Snær Guðnason, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Jörundur Ragnarsson, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Júlíana Sara Gunnarsdóttir, Nökkvi Fjalar Orrason, Egill Ploder, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Helga Braga Jónsdóttir.

Þegar kreditlistinn og plakatið er skoðað og horft á myndina sést strax að þetta er dæmigerð gauramynd, það eru karlmenn í öllum stærri hlutverkum og konurnar eru í aukahlutverkum, þó þau séu álíka mörg og karlahlutverkin eru. Í ljósi #metoo og #timesup tíma þá má gagnrýna þetta fyrirkomulag, en þrátt fyrir að útlit og vilji sé fyrir bjartari og betri tíma hvað varðar kynjahlutföll fyrir framan og aftan myndavélarnar í kvikmyndum, þá mun sú breyting ekki gerast á einni nóttu. Konur hafa verið fyrirferðarmeiri í fyrri myndum leikstjórans, en eru þó einnig á bak við tjöldin hér, sem dæmi sér Stefanía Thors um klippingu og Birgitta Líf Björnsdóttir er framkvæmdastjóri.

Hér eru það hins vegar ungir karlmenn, sem getið hafa sér nafn, athygli og frægð sem Snapchat stjörnur og meðlimir Áttunnar sem eru í aðalhlutverkum og leikarar af eldri kynslóðinni eru þeim til fulltingis. Ólafía Hrönn og Helga Braga eru ávallt „solid“ í öllu sem þær taka sér fyrir hendur, gaman er að sjá Ladda sem maður hefur alist upp með frá barnæsku í hlutverki vonda gaursins, þar hefði jafnvel mátt ýkja hann aðeins meira og gera hann verri.

Í minni hlutverkum eru einstaklingar eins og Karl Bjarni Guðmundsson og Einar Ágúst Víðisson, sem fyrir löngu hafa getið sér bæði gott orð fyrir söng (og umtal fyrir önnur „afrek“), gaman að sjá þá í hlutverkum sínum og pínu gera grín að sjálfum sér um leið.

Strákarnir sem eru í aðalhlutverkum þurfa kannski ekki að hafa mikið fyrir leiknum, enda er ekki kafað djúpt í persónur neinna þeirra. Eini sem ég sakna að hefði mátt vinna meira úr persóna Arons Mola, þar sem gefið er í skyn að hann sé nú ekki eins eitilharður og hann lítur út fyrir. Það hefði þá bara mátt klára það „hint,“ eða sleppa því alveg.

Ótvíræð stjarna myndarinnar er Hjálmar Örn Jóhannsson, sem leikur aðalhlutverkið Arnar Thor. Maður sem er eftir því sem ég best veit ekkert menntaður í leik og varð fyrst frægur á Snapchat. Hann er gjörsamlega óborganlegur sem hinn glataði gaur, sem vill „meika“ það og eignast allt, en flækir sig sífellt fastar í „þetta reddast allt“ lygavef. Hvernig svona sauðvitlaus hrakfallabálkur nær hins vegar að fá fólk til að treysta sér og steypa sér í tugmilljónaskuldir er hins vegar ákveðið rannsóknarefni, sem verður samt ekki leyst hér, en Arnar Thor skortir alveg tannkremsbrosið og jakkafötin sem útrásarvíkingarnir klæddust.

Anton, leikstjóri og handritshöfundur á að baki myndirnar Grimmd og Grafir og bein, myndir sem til lengri tíma litið munu örugglega standa ofar á kreditlista hans en Fullir vasar. Plús það að hann á örugglega eftir að gera mun fleiri myndir í framtíðinni. Myndir sem þykja munu betur skrifaðar, leiknar og með átakanlegri og mikilvægari boðskap. En hvar er sú regla að grínmyndir megi ekki bara vera akkúrat það, grín sem skemmtir manni eina kvöldstund eða fleiri ef maður „fílar“ myndina og horfir á hana oftar. Stundum þarf mynd ekki að flytja meiri boðskap en góða kvöldstund í góðra vina hópi.

Niðurstaða: Fullir vasar er skemmtileg rússíbanareið með nokkrum af vinsælustu Snapchatstjörnum samtímans í aðalhlutverkum, full af frösum og fjöri, sem skila hlátri, en engum verðlaunum. Mynd sem er alls ekki fullkomin og þarf heldur ekki að vera það.

Kvikmyndin Fullir vasar er komin í sýningar í Smárabíó, Háskólabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó Akureyri.

Ragna Gestsdóttir
Ragna Gestsdóttir er umsjónarmaður Fókus á DV. Hún hefur starfað hjá DV síðan 2014 og vann einnig á Séð og Heyrt 2016.
Ragna skrifar almennar fréttir, viðtöl, greinar um menningu, viðburði, fólk og fleira.
Hún er forvitin um menn, málefni og menningu og með minni á við bestu leitarvél.
Netfang: ragna@dv.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Storytel kynnir til sögunnar fjölskylduáskrift

Storytel kynnir til sögunnar fjölskylduáskrift
Fókus
Í gær

Vertu með í jóladagatali HIITFIT – Brjóttu upp kyrrsetuna

Vertu með í jóladagatali HIITFIT – Brjóttu upp kyrrsetuna
Fókus
Í gær

Þórdís Karlsdóttir er Jólastjarnan 2018 – Gefur út Crazy

Þórdís Karlsdóttir er Jólastjarnan 2018 – Gefur út Crazy
Fókus
Í gær

Þórdís Elva flytur magnaðan óð til stúlkna – „Þið eruð framtíðin. Megi eldgosið byrja“

Þórdís Elva flytur magnaðan óð til stúlkna – „Þið eruð framtíðin. Megi eldgosið byrja“