Hirðljósmyndari undirheimanna

Heimildaljósmyndarinn Þórsteinn Sigurðsson skrásetur lífið í myrkari hornum Reykjavíkur – Glæpamenn, graffitígengi og heimilislausir eru meðal viðfangsefna

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 7. janúar 2018 12:00

Þórsteinn Sigurðsson hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir ljósmyndar sínar af skuggahliðum Reykjavíkur. Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Allt sem þú sérð í myndunum er á einhvern hátt hluti af mínu lífi – þetta er minn kúltúr. Ég hef aðeins öðruvísi aðgengi inn í þennan heim en flestir aðrir, og þar af leiðandi finnst mér það vera mín ábyrgð sem ljósmyndari að skrásetja þessa hluti,“ segir ljósmyndarinn Þórsteinn Sigurðsson, sem einnig kallar sig Xdeathrow.

Í heimildaljósmyndum hans fáum við ómetanlega innsýn í ýmsa falda afkima íslensks samfélags sem annars rata sjaldan í sviðsljósið. Í myndunum fangar Þórsteinn frelsið og kraftinn, stjórnleysið og fegurðina utan alfaraleiðar, hvort sem það er hjá hangsandi, tískumeðvituðum unglingahópum, vegglistamönnum sem skreyta borgina í skjóli nætur, heimilislausum óreglumönnum, djömmurum og dópistum á ósamþykktum tattústofum, í földum og ólöglegum vopnabúrum, eða líkhúsum.

Þórsteinn er einn allra efnilegasti og sérstakasti ljósmyndari landsins um þessar mundir. Eftir að hafa vakið athygli fyrir undirheimamyndir sínar á Instagram hefur hann smám saman verið að færa út kvíarnar, haldið vel sótta einkasýningu, stýrt tónlistarmyndandi auk þess sem viðfangsefnin verða stöðugt fjölbreyttari.

Við höfum mælt okkur mót í húsnæði Ljósmyndaskóla Reykjavíkur þar sem hann stundar nám. Hann hellir upp á kaffi og raðar fjölbreyttum ljósmyndum frá undanförnum árum á langborðið í kaffistofunni. Hann er með góðleg augu og vinalegt fas í nokkurri andstöðu við útlitið, krúnurakaður með húðflúr sem læðast niður fyrir ermarnar og upp um hálsmálið: górilluhaus tattúveraur á hálsinn og á fingrunum er mottó ritað í bleki til daglegrar upprifjunar, einn stafur á hverjum fingri: HARD WORK.

Við erfiða reynslu opnast nýjar dyr

Þórsteinn er fæddur árið 1988, alinn upp í Grafarvogi og síðar Hlíðunum. Hann var félagslyndur og ör, ef ekki ofvirkur, að eigin sögn, fann sig ekki í skólakerfinu og fékk mesta útrás fyrir viðbótarorkuna í fótbolta frekar en listum – þótt hann hafi haft mikinn áhuga á tónlist og setið löngum stundum og horft á tónleikaupptökur á VHS-spólum.

Ljósmyndaáhuginn kviknaði ekki fyrr en hann flosnaði upp úr námi í menntaskóla. „Á þeim tíma fannst mér þetta vera það hræðilegasta sem gat hafa komið fyrir mig, en það hefur alltaf verið þannig í mínu lífi að þegar ég geng í gegnum erfiða reynslu þá opnast nýjar dyr – og það var það sem gerðist. Þegar eitthvað slæmt kemur fyrir vex yfirleitt eitthvað fallegt upp úr því.“

… um filmuljósmyndun

„Mér finnst skemmtilegra að mynda á filmu, að þurfa að bíða eftir myndunum og sjá þær seinna. Það er eitthvað við þetta augnablik þegar þú veist ekki alveg hvort þú hafir náð myndinni, svo færð þú hana í hendurnar og skannar inn og þá kemur víman – annaðhvort „þetta er beautiful“ eða í hina áttina „þetta er ekki nógu gott.“ Þá þarf maður að fara aftur og gera betur. Ég held að það sé mjög hollt fyrir ungan ljósmyndara að nota filmuna.“

Eftir að hafa sagt skilið við skólakerfið fékk hann vinnu í ljósmyndavöruverslun Hans Pedersen og þá fór áhuginn á ljósmyndun að kvikna fyrir alvöru. Hann byrjaði að mynda nærumhverfi sitt, en í kringum hann var hópur skapandi einstaklinga sem sameinuðust í þeim lífsstíl og listformi sem tengist veggjalist, graffitígengið CMF.

„Ég var alls ekki nógu sleipur með pennann eða spreybrúsann – var lélegastur í crewinu að graffaog dauðskammaðist mín. Það var hins vegar enginn með myndavél eða að taka því eitthvað alvarlega, svo ég fann mig á bak við myndavélina. Ég náði ekki bara að dokúmenteraverkin heldur líka kúltúrinn í þessum hóp og allt sem var að gerast bak við tjöldin – lífsstílinn hjá íslenskum unglingum sem stunda það að mála á veggi. Þetta er mjög dularfullur lífsstíll og kúl. Þegar ég byrjaði að mynda fannst mér ég loksins vera orðinn hluti af þessu og það fylgdi því mikill kraftur fyrir mig,“ segir Þórsteinn.

„Í fyrsta skipti fannst mér ég hafa raunverulegan tilgang. Ég gaf algjöran skít í þessa hefðbundnu stefnu – læra í nokkur ár, taka stúdentspróf og fara beint í háskóla – og gaf skít í það að vinna hefðbundna vinnu. Ég vildi vera algjörlega frjáls frá þessu mainstream lífi. Auðvitað var það að mörgu leyti óskynsamlegt, en þetta var eitthvað gut-feeling. Ég fann á mér að ég gæti tekið þetta lengra – þetta væri ekki bara ég að vera unglingur, þetta hefði einhverja þýðingu, bæði fyrir mig og jafnvel aðra.“

Við rennum yfir nokkrar svarthvítar myndir teknar af gröffurum og graffitíverkum. Við sjáum aftan á svartklæddan ungling tagga á vegg, hvítur vöruflutningabíll er útspreyjaður: „Ég er með svolítið „fetish“ fyrir því að mynda svona eyðileggingu.“

Þegar eitthvað slæmt kemur fyrir vex yfirleitt eitthvað fallegt upp úr því
Þórsteinn hóf ljósmyndaferil sinn þegar hann skrásetti list og lífsstíl vina sinna sem voru virkir í að skreyta veggi Reykjavíkur í óþökk góðborgaranna.
Bakgrunnur í veggjalist Þórsteinn hóf ljósmyndaferil sinn þegar hann skrásetti list og lífsstíl vina sinna sem voru virkir í að skreyta veggi Reykjavíkur í óþökk góðborgaranna.

Mynd: Þórsteinn Sigurðsson / Xdeathrow

Alltaf með myndavélina á sér

Tæplega tvítugur var Þórsteinn beðinn um að halda sína fyrstu einkasýningu í myndlistargalleríi í bænum. Hann segir að það hafi verið staðfesting á því að það sem hann væri að gera hefði eitthvert gildi og hann sá að myndirnar gætu átt erindi í sýningarrýmum og á vettvangi myndlistar. Brautin lá þó ekki bein áfram. Sköpunarþörfin minnkaði svo hann hætti raunar algjörlega að taka myndir um nokkurra ára skeið.

… um Instagram

„Instagram er frábær miðill til að koma sér á framfæri en að einhverju leyti fer hann líka að stjórna myndunum sem þú setur inn, af því að hann snýst svo mikið um að fá „like“, fá hjörtun góðu. Ég ætla bara að vera nógu mikill maður til að viðurkenna að þessi hjörtu fara alveg rangt í mig. Mér finnst þetta vera óholl skilaboð fyrir mig sem listamann. Ég gæti hafa lagt mikla vinnu í eina mynd og fæ lítil viðbrögð en svo mynda ég einhvern rappara sem er svolítið frægur þá fær sú mynd hundruð hjartna. Smám saman gæti ég þess vegna farið að birta fleiri og fleiri myndir af þekktum andlitum. Ég vil alls ekki fara að láta stjórnast af því hvað öðrum finnst, en maður gerir það samt óvart.“

„Það kom langt tímabil þar sem ég var ekki að gera neitt. Þrátt fyrir að ég væri ekki að taka myndir fylgdist ég með og hafði miklar skoðanir á samtímaljósmyndun, graffheiminum og öllu þessu, var mjög gagnrýninn. Ég var algjör áhorfandi en var samt ekkert bitur út í sjálfan mig, ég vissi að þetta myndi koma aftur til mín. Ég var bara í lægð og leyfði mér að vera það,“ segir hann og rifjar upp augnablikið sem ljósmyndaástríðan spratt óvænt upp aftur.

„Það var fyrir svona tveimur og hálfu ári þegar ég var að ganga í gegnum garðinn hjá Landakotskirkju. Ég hitti gamlan félaga, aðeins yngri en ég, sem ég hafði verið að mynda frá því að hann var svona 12 eða 13 ára. Hann hafði verið í mikilli óreglu og sat þarna með vini sínum þar sem þeir voru að reykja einhvern vindling, einhverja jónu. Hann kallaði á mig, sagðist hafa verið útskrifaður af spítala sama dag, lyfti upp peysunni og sýndi mér stungusár. Hann spurði hvort ég vildi ekki taka mynd af honum. Ég hafði ekki verið að taka myndir í svolítinn tíma svo ég gat bara tekið mynd á símann minn. Þegar ég gekk heim hugsaði ég að héðan í frá skyldi ég alltaf vera með myndavél á mér. Núna skyldi þetta byrja upp á nýtt. Ég fann einhvern rosalegan kraft og hef ekki stoppað síðan.“

Upp frá þessu hefur Þórsteinn alltaf verið með 35 millimetra „point-and-shoot“ filmuvél með sér og segir að í dag fái hann nánast martraðir um að vera ekki með myndavél til að mynda það sem drífur á daga hans – ekki fyrir aðra heldur einfaldlega sem eins konar skrásetningartæki.

Dulúð, hætta og fegurð

Augnablikin sem hann fangaði úr umhverfi sínu og deildi á samfélagsmiðlinum Instagram fóru smám saman að vekja athygli og umtal. Eins og áðurnefnd mynd sem tekin var í garði Landakotskirkju voru þær harðar og hráslagalegar, þær birtu veruleika sem er yfirleitt falinn undir yfirborðinu, djamm og dóp, jaðarhópa og glæpamenn. Þórsteinn rifjar til að mynda upp ljósmyndaröð þar sem hann hafði leitað uppi ólögleg skotvopn í undirheimum borgarinnar.

… um ógnvænlegar aðstæður

„Ef ég er aðstæðum sem ég er pínulítið hræddur í, þá fer mér að líða þægilega vegna þess að þetta á að vera erfitt – „no pain, no gain“ er sagt í ræktinni. Um leið og þetta er farið að ganga rosalega smurt fyrir sig og allt mjög þægilegt, allar myndirnar mjög flottar, þá er ég að gera eitthvað vitlaust. Ætli ég hafi ekki bara verið hræddastur þegar ég var að taka myndir af unglingunum – saklausasta fólki sem ég hef myndað. Ég var hræddastur um að þau myndu dæma mig og finnast ég vera skrýtinn.“.

„Þetta var á þeim tíma þegar það var mikið verið að tala um hvað það væri mikilvægt að lögreglan þyrfti að vopnast. Mig langaði að athuga af hverju lögreglan væri að hugsa svona, hvort það væri eitthvað til í þessu. Ég fór með félaga mínum í að kanna þetta, og við fundum alls konar stöff sem ég fékk að taka myndir af. Í eitt skipti var ég pikkaður upp um miðja nótt, keyrður út á land, þar sem ég fékk að kíkja inn í vopnabúr. Þarna voru árásarrifflar, handsprengjur og alls konar dót sem ég hafði aldrei séð áður nema í bíómyndum. Ég prófaði árásarriffilinn sjálfur, þetta var alvöru dót, ekki eitthvað blöff. Þetta var allt virkt. Þetta voru hins vegar ekki vopn sem voru notuð í neinu glæpatengdu dæmi, ekki ætlað til að meiða eða drepa, heldur voru þau keypt sem safnarahlutir – eins fáránlega og það hljómar kannski.“

En þó að harka og jafnvel ljótleiki hafi stundum einkennt myndirnar leggur Þórsteinn áherslu á fegurðina sem er oftar en ekki til staðar: „Ég sæki ósjálfrátt í aðstæður þar sem er einhver dulúð, einhver hætta, spenna og jafnvel ljótleiki, en um leið og maður finnur hið mannlega í þessum aðstæðum verður það sem rómantískt og fallegt. Oft eru þetta aðstæður sem hinn venjulegi maður vill aldrei lenda í, en það er manneskja þarna og það er fallegt.“

Þarna voru árásarrifflar, handsprengjur og alls konar dót sem ég hafði aldrei séð áður nema í bíómyndum.

[[9401AFA92C]]

Mynd: Þórsteinn Sigurðsson / Xdeathrow

Alsæla ungdómsins

„Með árunum er ég samt að fjarlægjast þessa glæpaljósmyndun og er smám saman farinn að einbeita mér að öðru,“ segir Þórsteinn. En þessi breyting sést meðal annars á borgarlandslagsmyndum sem hann hefur verið að vinna að undanförnu, sem og einkasýningu hans sem haldin var síðasta sumar – þeirri fyrstu í áratug.

… um líf ljósmyndarans

„Það er erfitt að vera ungur samtímaljósmyndari á Íslandi. Það finnst mörgum það sem maður gerir vera flott og „læka“ á Instagram, en það eru fáir sem kaupa myndir. Ég verð alltaf að sinna öðrum verkefnum til hliðar til að fjármagna verkefnin mín. Íslendingar hafa ekki jafn mikinn áhuga á samtímaljósmyndum og þeir hafa á myndlist. Við snobbum svolítið fyrir þessu, ef þú ert myndlistarmaður með kameru ert þú velkominn inn á söfn eða gallerí með myndirnar þínar en ef þú ert ljósmyndari er ekki pláss fyrir þig. Ég hef heyrt fólk tala um að þetta sé að breytast, ég persónulega finn ekki fyrir því, en ég vona að það sé rétt því það er mikið af frábærum ungum ljósmyndurum sem eiga skilið að fá tækifæri.“

Í verkefninu sem hann kallar „Juvenile Bliss“, og mætti kannski íslenska sem Alsæla unglingsáranna, blandaði hann saman myndum sem hann hafði tekið af sér og vinum sínum á unglingsaldri og svo myndum af unglingahóp í dag sem hann fékk að fylgja eftir og ljósmynda í sínu hversdagslega lífi. Sem hluta af seríunni tók hann einnig portrettmyndir af einstaklingum í hópnum á „large-format“ filmu, en það gerir honum kleift að framkalla myndirnar mjög stórar og nákvæmar.

„Við könnumst öll við það að vera á þessum aldri, áður en ábyrgðin, áhyggjurnar, stressið og óöryggi varðandi framtíðina kemur. Þú ert frjáls undan þessu og laus við það. Þér er í raun alveg sama hvað þú gerir því þér finnst ekki vera neinar afleiðingar. Þetta endurspeglast í því hvernig þú talar, hvernig þú hagar þér og hvaða skoðanir þú hefur. Og mér finnst það endurspeglast í myndunum. Mér finnst þetta vera svo dýrmætt tímabil í lífi hverrar manneskju. Þess vegna lagði ég svona mikla vinnu í að mynda þessa krakka, það er einhver neisti sem að maður sér. Á meðan ég var að gera þetta fékk ég að vera partur af þessu, fékk þessa vímu aftur, og ætli maður hafi ekki verið að sækjast eftir því að einhverju leyti líka.“

Fannst þér mikið hafa breyst á þessum áratug, eru þessir krakkar öðruvísi en þinn vinahópur þegar þú varst unglingur?

„Minn hópur var talsvert agressífari, meira glæpagen í okkur. Það var miklu meira verið að dæma. Kannski eru einhverjir svoleiðis vitleysingar ennþá þarna úti, en þessir krakkar eru miklu hreinni, óhræddari við að klæða sig eins og þeir vilja án þess að vera dæmdir fyrir það. Ég held að samfélagið sé að batna mikið hvað þetta varðar – það er allt í lagi að vera samkynhneigður, vera skringilega klæddur, eða vera nörd. Það er bara kúl að vera þú sjálfur.“

Ég held að samfélagið sé að batna mikið hvað þetta varðar – það er allt í lagi að vera samkynhneigður, vera skringilega klæddur, eða vera nörd. Það er bara kúl að vera þú sjálfur.
Í ljósmyndaseríunni Juvenile Bliss hefur Þórsteinn ljósmyndað hóp unglinga til að fanga þann neista sem fylgir frelsi og ábyrgðarleysi unglingsáranna.
Alsæla ungdómsins Í ljósmyndaseríunni Juvenile Bliss hefur Þórsteinn ljósmyndað hóp unglinga til að fanga þann neista sem fylgir frelsi og ábyrgðarleysi unglingsáranna.

Mynd: Þórsteinn Sigurðsson / Xdeathrow
Mynd: Þórsteinn Sigurðsson / Xdeathrow

Heimili í gámum

Eitt ef þeim verkefnum sem Þórsteinn einbeitir sér að um þessar mundir er ljósmyndaserían Container Society, í henni fylgir hann eftir tveimur mönnum sem hafast við í gámabyggð fyrir heimilislausa á Grandanum.

„Ég hef svolítið verið að taka svona deadpan borgarlandslagsmyndir að undanförnu. Sem hluta af því átti ég leið framhjá þessum skúrum úti á Granda, ég hafði vitað af þeim í mörg ár og hafði eiginlega verið smá hræddur við þá – vissi að þar byggju einhverjir ógæfumenn. Einn daginn manaði ég mig svo upp í að banka upp á, kynna mig og athuga hvert það leiddi mig. Á móti mér tók mjög indæll maður sem var með gest hjá sér þann daginn. Ég spurði hvort ég mætti taka portrettmyndir, þeir tóku vel í það og daginn eftir kom ég til að mynda,“ segir Þórsteinn.

… um hinn fulkomna ramma

„Eftir að ég byrjaði að vinna í seríum frekar en einstökum myndum, þá fór ég að hugsa allt öðruvísi um ljósmyndun. Þetta snýst ekki bara um einn frábæran ramma, heldur um að margar ljósmyndir vinni vel saman og skapi einhvern söguþráð. Maður þarf að hugsa hvernig maður raðar þeim saman, hvenær maður kynnir einhverja persónu til sögunnar og svo framvegis. Ljósmyndun snýst ekki bara um að taka flotta mynd. Það geta allir gert það, en það krefst mikillar vinnu og þjálfunar að geta sett upp myndefni í bók eða á sýningu.“

„Ég hef verið í miklu sambandi við þessa menn í nokkra mánuði. Þetta eru bara skemmtilegir gaurar og við erum orðnir góðir vinir. Ég hjálpa þeim þegar ég get og svo mynda ég þá reglulega í hversdagsleikanum, bæði heima hjá þeim og í ýmsum verkefnum um bæ og borg, hvort sem það er að kaupa í matinn, heimsækja vin eða redda einhverjum efnum. Sumir sem hafa séð myndirnar hafa talað um hvað það sé hræðilegt hvernig þeir búa og lifa – en það er ekki endilega markmiðið hjá mér. Þótt þetta sé að mörgu leyti ömurleg tilvera er ég ekkert að taka myndir svo fólk geti vorkennt þeim. Þetta eru fullorðnir menn sem að taka ábyrgð á sínu lífi. Ég er ekki að reyna að búa til einhverja dramatíska sögu sem endar ógeðslega illa.

En við þurfum að sjá inn í þennan veruleika eins og hvern annan. Það eru svo margir sem eru að gera tískumyndir eða taka sætar myndir af vinum sínum en ég hef ekki áhuga á því. Ég hef gaman af því að vinna með eithvað sem er undir niðri og setja það á sama stall, á sama vettvang og í sömu gæði og hitt.“

En er ekkert erfitt að fá fólk til að hleypa þér svona nálægt sér til að skrásetja lífsstíl eða tilveru sem er litin hornauga af stærstum hluta samfélagsins?

„Kannski er þetta einhver hæfileiki sem maður þjálfast í eða er fæddur með en ég á mjög auðvelt með að fá fólk til að treysta mér. En ég passa mig líka á að fara aldrei yfir línuna. Ég leyfi fólki að njóta ákveðinnar friðhelgi. Ég held að þessir menn hafi bara skynjað að mér væri alvara, hafi fundið að mér var annt um þeirra réttindi og væri ekki að fara að eyðileggja eitthvað fyrir þeim. Þeir hleyptu mér alveg að sér strax, ég á mjög nánar og persónulegar myndir af þeim, en þeir voru alveg opnir fyrir því. Ef þú er heiðarlegur þarna úti þá treystir fólk þér.“

Við þurfum að sjá inn í þennan veruleika eins og hvern annan. Það eru svo margir sem eru að gera tískumyndir eða taka sætar myndir af vinum sínum en ég hef ekki áhuga á því.
Að undanförnu hefur Þórsteinn fylgt eftir tveimur mönnum sem hafast við í gámabyggð fyrir heimilislausa úti á Granda.
Lífið í gámum Að undanförnu hefur Þórsteinn fylgt eftir tveimur mönnum sem hafast við í gámabyggð fyrir heimilislausa úti á Granda.

Mynd: Þórsteinn Sigurðsson / Xdeathrow
Að undanförnu hefur Þórsteinn fylgt eftir tveimur mönnum sem hafast við í gámabyggð fyrir heimilislausa úti á Granda.
Lífið í gámum Að undanförnu hefur Þórsteinn fylgt eftir tveimur mönnum sem hafast við í gámabyggð fyrir heimilislausa úti á Granda.

Mynd: Þórsteinn Sigurðsson / Xdeathrow
Kristján Guðjónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 11 klukkutímum

Missti sig eftir frábært sigurmark Salah – ,,Yes you can, Salah, superman“

Missti sig eftir frábært sigurmark Salah – ,,Yes you can, Salah, superman“
433
Fyrir 11 klukkutímum

Holland vann sannfærandi sigur á Heimsmeisturunum

Holland vann sannfærandi sigur á Heimsmeisturunum
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Andri Snær vill að erlent afgreiðslufólk tali íslensku – Þór segir að íslenskunni sé sýnd vanvirðing

Andri Snær vill að erlent afgreiðslufólk tali íslensku – Þór segir að íslenskunni sé sýnd vanvirðing
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Björt á von á fjórða barninu

Björt á von á fjórða barninu
433
Fyrir 12 klukkutímum
Atli Arnarson í HK
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Gylfi tók athyglisvert skref aðeins 20 ára gamall – ,,Allt lokað á sunnudögum í litlum bæ út í sveit“

Gylfi tók athyglisvert skref aðeins 20 ára gamall – ,,Allt lokað á sunnudögum í litlum bæ út í sveit“
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Hjákonan rífur þögnina: „Hann laug um allt“ – Fékk hrollvekjandi skilaboð eftir morðin

Hjákonan rífur þögnina: „Hann laug um allt“ – Fékk hrollvekjandi skilaboð eftir morðin
Matur
Fyrir 14 klukkutímum

Skiptar skoðanir um nýtt morgunkorn: „Guð er dauður og við drápum hann“

Skiptar skoðanir um nýtt morgunkorn: „Guð er dauður og við drápum hann“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins spyr: Er bein tenging á milli þess að elska fótbolta og hata konur?

Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins spyr: Er bein tenging á milli þess að elska fótbolta og hata konur?