fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Passamyndir Einars Más og sumardvöl nafna í Færeyjum

Einar Kárason – Þér að segja

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 1. janúar 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í skemmtilegri nýrri skáldsögu, Passamyndir, eftir æskuvin minn, kollega og nafna, Einar Má Guðmundsson, heitir aðalpersónan Haraldur Markús Ólafsson. Hann er bróðir Páls Ólafssonar sem segir frá í Englum alheimsins, en eins og flestir vita er sú persóna byggð á Pálma heitnum, bróður Einars, svo að auðvelt er að geta sér þess til að persónan í nýju bókinni sé eitthvað skyld Einari sjálfum, enda hefur hann gengist við því í viðtölum. Bókin gerist að miklu leyti í Noregi, og ég þykist vita að það byggi að nokkru á sumardvöl nafna í því landi árið 1978, en þangað fór hann í slagtogi við annan vin okkar sem oftast er kallaður Önni. Fram kemur að Haraldur í Passamyndum hafi sumarið á undan dvalið í Færeyjum, ásamt nafna sínum, Haraldi Kristjáni Einarssyni, eða Haraldi Kr. og svo er bætt við þessari stuttu setningu „okkur er oft ruglað saman“. En það væri líka mjög sannleikanum samkvæmt um okkur Einarana tvo, eins og til dæmis dætur mínar og börn Einars Más geta vitnað um; dætur mínar hafa til dæmis oft hitt fólk sem hefur rekist á pabba þeirra í Sundlaug Grafarvogs, en er þó ekki kunnugt um að ég hafi nokkurntíma lagt leið mína á þann stað.

Í Passamyndum Einars Más kemur líka fram að hinn Haraldurinn hafi sagt frá Færeyjadvöl þeirra nafna í bók sem hann hafi kallað Ferðakorn, og af því tilefni dró ég úr hillu bók eftir sjálfan mig sem heitir „Hvar frómur flækist“ en í henni eru nokkrar ferðasögur; ein segir frá óralangri ökuferð um allt Suðurland sem við fórum ég og faðir minn heitinn á bensinum hans til að reyna að komast yfir reyktóbak, en á því varð mikill skortur í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984; önnur frásögn er um ferðalag til Jemen og ein segir frá leiðangri til Auschwitz, eða Oswiecim eins og það heitir á máli heimamanna í Póllandi, en fyrsta ferðasaga bókarinnar er hinsvegar einmitt um sumarvinnu okkar nafnanna og verðandi skáldanna til Færeyja sumarið ´77; þar þræluðum við í fiski í um það bil þrjá mánuði, söfnuðum digrum ferðasjóði í Klakksvík, en einn af kostunum við að vinna þar var að maður fékk borgað kaupið í „gjaldeyri“ eða dönskum krónum sem voru gjaldgengar víðast um heim, en á þeim árum voru gjaldeyrishöft á Íslandi og þannig peningar naumt og nískulega skammtaðir til ferðalanga gegn framvísun flugmiða; fyrir færeyska sjóðinn gátum við nafnar hinsvegar þvælst í tvo eða þrjá mánuði um Bretlandseyjar og Frakkland, og þóttumst allmiklir heimsborgarar á meðan.

Klakksvík

Ferðasagan í bókinni minni „Hvar frómur flækist“ (MM 2004) um þvæling okkar nafnanna heitir „Á vegum úti“ með augljósri skírskotun til bókarinnar „On the road“ eftir Jack Kerouac, en þennan titil ber hún í frábærri íslenskri þýðingu Ólafs Gunnarssonar; hún segir líka frá verðandi skáldum í leit að ævintýrum. Ég segi þar frá því að þegar um sumarið 1976 hafi ég unnið í Klakksvík, meðal annars sem háseti á línubát, og gumað mjög af kostunum við það þegar ég sat með vinum mínum og skólabræðrum í bókmenntanámi í HÍ veturinn eftir; ég hafi sagt í kaffitímum að þetta væri eina vitið, rífa upp gjaldeyri í Færeyjum og skella sér þaðan í ferðalag um Evrópu á meðan sjóðurinn entist, og að sá áróður hafi orðið Einari Má nógu hugstæður til að stinga upp á að þetta myndum við gera strax eftir próflok á vori komanda.

Þessi bær, Klakksvík, sem er nærstfjölmennasta byggðarlag Færeyja, hefur aldrei haft orð á sér fyrir að vera sérstakur kúltúrstaður; þvert á móti má segja, þetta var verstöð, þaðan komu duglegir sjósóknarar, frægustu aflafleytur Færeyja voru frá Klakksvík og þar voru þrjú eða fjögur fiskvinnslufyrirtæki, eða flakavirki eins og það heitir á máli heimamanna. Í Þórshöfn, menningamiðstöð eyjanna, heyrði ég brandarann: „Vissirðu að það var brotist inn í bókasafnið í Klakksvík og báðum eintökunum stolið?“ Þetta er reyndar flökkusaga þótt ég heyrði hana þarna í fyrsta sinn; ber vitni alþjóðlegum stórborgarhroka. Sem er auðvitað samur við sig í Tórshavn og Tókíó. Trúarbrögð gegna miklu hlutverki í Klakksvík, miklu meira en við eigum að venjast hér á landi; þetta minnir öllu heldur á vesturströnd Noregs í þeim efnum. Í Klakksvík var auðvitað lútersk þjóðkirkja og hana stunduðu hinir minna trúræknu rétt eins og heima, þeir sem nota kirkjur til nauðsynlegra athafna eins og til að skíra, ferma og jarða sína nánustu, nema það var bara einhver minnihluti; miklu öflugri voru sértrúarsöfnuðir eins og Hjálpræðisherinn og ekki síst Babtistakirkjan. Hún var merkileg samfélagsstofnun hjá þessum frændum okkar og nágrönnum. Babtistahreyfingin var meiður af þeim kristindómi sem mikla áherslu leggur á borgaralegar dyggðir hérna megin grafar; dyggðir á borð við hófsemd, vinnusemi og reglusemi – ástundun þesskonar lífs er talin eiga ekki lítinn þátt í þjóðfélagsbreytingum Vesturlanda á öldunum eftir siðaskipti. Eftir að babtistakirkja barst til Færeyja, trúlega nálægt aldamótunum 1900, urðu fylgismenn hennar brátt fyrirferðarmiklir í samfélaginu, ekki síst vegna þess hvað þeir héldu nefndum dyggðum í heiðri.

Alþýðumenn úr trúflokknum fóru auðvitað í erfiðisvinnu, sjómennsku og skútuhark eins og aðrir af þeirra standi, en á meðan skipsfélagar þeirra eyddu hýrunni þegar þeir komu í land í kvennafar og svall lögðu ungir babtistar sitt inn á sparisjóðsbók, og með því að þeir voru iðnari og kappsamari en algengt var og eyddu engu og stunduðu jafnframt nám eins og í stýrimannaskólum á meðan aðrir sváfu úr sér timburmenn komust babtistastrákar brátt til metorða og urðu skipstjórar og útvegsmenn og eftir fáeina áratugi áttu þeir meira og minna allt athafnalíf; skipin og fiskiðjurnar og líka Sjómannaheimilið þar sem við nafnarnir og fleiri Íslendingar bjuggum við gott atlæti þarna um sumarið. Og einhvernveginn fannst manni eins og Klakksvíkingar þættust hafa lítið að sækja til höfuðstaðarins, Þórshafnar; ekki hitti maður til dæmis neinn þar í bænum sem fór á hina frægu hátíð Ólafsvökuna sem haldin er á miðju sumri hvert ár í Þórshöfn, og reyndar tóku margir Klakksvíkingar sér ekki einu sinni í munn nafn höfuðstaðarins, sögðu bara „Havnin“ en slepptu forskeytinu; voru margir svo fullir guðsótta að þau vildu ekki nefna nafn þrumuguðsins úr ásatrúnni, sem auðvitað er heiðinn vættur.

Roykstovan og Alderboran

Ég kom fyrir rúmum mánuði til Klakksvíkur eftir að hafa ekki komið þangað í áratugi, og fylltist gleði yfir endurfundunum við þennan vingjarnlega bæ. Þarna var Sjómannaheimilið ennþá og rekið í óbreyttri mynd, og þar var líka við aðalgötu litli veitingastaðurinn Roykstovan, sem nú reyndist vera rekinn af Íslendingi sem býr þarna í bænum og mun hafa gert frá því skömmu eftir að við nafni vorum þarna sumarlangt. Nú var hægt að fá þar almennilegan bjór á krana, en hér forðum tíð var áfengislöggjöfin miklu strangari og svona staðir eins og Reykstofan buðu bara upp á næsta áfengislaust ölþvag líkt og gamla pilsnerinn íslenska, sem nóbelsskáldið kallaði einhverntíma sadistabjór. Sumrin sem ég dvaldi í Klakksvík kom ég þar oft eigi að síður; þá var vertinn á staðnum danskur og hét Egon. Í anda ljóðs eftir Einar Má þar sem segir nokkurnveginn á þessa leið: „Einhvernveginn finnst mér eins og allir skrifstofumenn hljóti að heita Snorri“ þá fannst mér allir danskir vertar heita Egon, og þessi á Reykstofunni í Klakksvík bar nafn með rentu. Fljótlega eftir að ég kom þar fyrst, sumarið ´76, spurði ég Egon hvar í bænum ég gæti fengið keypt bréfaumslög. Hann sagði mér að það fengi ég í versluninni „Alderboran“ neðar í götunni. Alderboran er nafn á fjarlægu stjörnukerfi; það kannaðist ég við úr Rolling Stones-laginu „Two Thousand Light Years from Home“. Mér fannst þetta heillandi nafngift á sjoppu í færeysku sjávarplássi – bera stórhug þeirrar þjóðar fagurt vitni. En svo fann ég búðina og hún reyndist bara heita Öldubáran. Sem er kannski skiljanlegt.

Færeyjar, Bretland, Frakkland

Ég varð furðu góður í að tala færeysku á þessum tveimur sumrum, þótt ég sé til allrar skammar að mestu búinn að týna henni aftur niður. Það dugði reyndar ekkert annað en að reyna að ná málinu þegar ég var háseti á færeyskum útilegubát, ef maður ætlaði ekki að vera gersamlega utanveltu í áhöfninni. Þegar við nafnar vorum að kveðja eyjarnar þarna í ágústmánuði 1978 biðum við í Þórshöfn eftir að ferjan Smyrill legði úr höfn áleiðis til Skotlands, en þangað var ferð okkar heitið fyrst um sinn. Ég var að kjafta við einhver færeysk ungmenni á veitingastað í „Havninni“ og þau höfðu orð á því að þótt ég talaði rétta færeysku þá væri hún samt lituð af hreim; spurðu hvaðan ég væri. Ég sagðist vera frá Klakksvík, við töluðum bara svona þarna á norðureyjunum. Tilfellið er að það er töluverður mállýskumunur á milli staðanna; ef Klakksvíkingar tala um beinustu leið – beina veginn – þá bera Klakksvíkingar það fram „bojna veginn“ en í Þórshöfn er sagt „bæna veginn“. Ekki held ég samt að ungmennin sem ég var að tala við hafi fyllilega keypt þessa skýringu mína.

En semsé, við Einar héldum af stað þarna um kvöldið siglandi til Skotlands, fórum þaðan á puttanum suður allar Bretlandseyjar og alla leið til Dover, þaðan sem við sigldum til Frakklands, og eftir þvæling um það land þvert og endilangt komum við loksins heim eftir tæplega hálfs árs úthald. Um ævintýri okkar má semsé lesa í bókinni minni Hvar frómur flækist og vilji menn vita hvað á daga Einars Más dreif sumarið eftir, þá má mæla með nýju bókinni hans, Passamyndir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 klukkutímum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Stjarnan hafði betur gegn Val – Bjarni Mark fékk heimskulegt rautt spjald

Stjarnan hafði betur gegn Val – Bjarni Mark fékk heimskulegt rautt spjald
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast