fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Hafa þurft að húka í mygluðu bráðabirgðahúsnæði í rúman áratug

Birta Guðjónsdóttir, myndlistarmaður og sýningarstjóri, gerir upp menningarárið 2017

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 1. janúar 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í menningarannál ársins 2017 sem birtist í áramótablaði DV verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándann munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2017 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


myndlistarmaður og sýningastjóri
Birta Guðjónsdóttir myndlistarmaður og sýningastjóri

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Birta Guðjónsdóttir

myndlistarmaður og sýningastjóri. Deildarstjóri sýningadeildar Listasafns Íslands.

Hvað var eftirminnilegasta listaverk eða menningarafurð ársins 2017?

Margt kemur upp í hugann, þó ekki eitthvað eitt öðru fremur, en ég hugsa helst til nokkurra myndlistartengdra atburða, sem mér þóttu áhrifaríkir og vel heppnaðir. Ég ætla að einskorða mig við listalífið á Íslandi og list Íslendinga erlendis, annað væri til að æra óstöðugan.

Fyrst hugsa ég til sýningar á verkum Ragnars Kjartanssonar í Listasafni Reykjavíkur-Hafnarhúsi, sem var vönduð, kærkomin og tímabær enda er hann einn af þekktustu listamönnum heims um þessar mundir, einn fremsti listamaður þjóðarinnar, og eru verk hans sýnd í helstu listasöfnum og myndlistarstórsýningum heims. Á svipuðum tíma árs opnuðum við í Listasafni Íslands einkasýningu Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter, sem jafnframt hefur vakið mikla athygli á alþjóðagrundu með sköpun sinni á mörkum myndlistar og hönnunar.

Sýning hennar vakti mikla og jákvæða athygli og er umfangsmesta sýning hennar á Íslandi hingað til.
Ég heillaðist af einkasýningu Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur í Hafnarborg, svo og fallegri sýningu og bók um list Ólafs Lárussonar í Nýlistasafninu og samsýningu Ragnheiðar Gestsdóttur, Theresu Himmer og Emily Weiner, í sýningarstjórn Malene Dam, í Gerðarsafni, þar sem verkum Gerðar Helgadóttur var fléttað inn í.

Frá sýningu á verkum Ólafs Lárussonar í Nýlistasafninu
Eitt það besta Frá sýningu á verkum Ólafs Lárussonar í Nýlistasafninu

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í Gerðarsafni var líka haldin myndlistar- og tónlistarhátíðin Cycle í þriðja sinn, nú undir yfirskriftinni Fullvalda Nýlenda, þar sem skapaðist áhrifaríkur, djarfur og hressandi vettvangur áleitinnar umræðu. Meðal áhugaverðra þátta hátíðarinnar var verk Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro; Stjórnarskrá er ferli, þar sem þau sýndu allar útgáfur stjórnarskrár Íslands og hluti verks þeirra var í formi performatífrar umræðu um stöðu, sögu og framtíð stjórnarskrárinnar, nokkrum dögum fyrir alþingiskosningar, m.a. með þátttöku pólitíkusa. Annar áhrifaríkur hluti Cycle hátíðarinnar var umfjöllun um alþjóðlegt verkefni er kallast Bandamenn listarinnar / New Patrons og hverfist um lýðræðisvæðingu listarinnar.

Mér hlýnaði um hjartarætur að sjá gullfallegt útilistaverk eins fremsta myndlistarmanns þjóðarinnar, Hreins Friðfinnssonar, á einni af þekktustu myndlistarsýningum heims; Münster Skulptur Projekte tíæringnum í Þýskalandi í sumar en Hreinn er fyrsti íslenski listamaðurinn sem valinn er á þessa virtu sýningu og það má teljast merkileg afrek fyrir íslenska listasenu.

Ég var djúpt snortin á tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar í Hörpu þar sem hann spilaði píanóverk Philips Glass, magnað spilerí sem gefið var út á vegum Deutsche Grammophon fyrr á árinu. Frægðarsól hins hógværa og lítilláta Víkings Heiðars rís æ hærra, sem er frábært að fylgjast með og njóta. Ég var líka snortin af leiksýningu Þorleifs Arnarssonar og félaga, Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu, sem mér finnst setja enn hærri standard fyrir sviðslistaheiminn hér á landi hvað varðar að taka sér leyfi til að tala með, fyrir, gegn, og beint við þjóðina.

Undir lok árs var svo frumsýnd heimildamynd Kristjáns Loðmfjörð um Birgi Andrésson myndlistarmann, sem ég var mjög hrifin af og óskaði þess um leið að fleiri slíkar verði gerðar um aðra stórkostlega listamenn þjóðarinnar, lífs og liðna.

Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu?

Opnun Marshallhússins á fyrri hluta ársins ber einna hæst á myndlistarsviðinu og reyndar í menningarflórunni almennt. Starfsemi Nýlistasafnsins, stúdíó Ólafs Elíassonar og Kling & Bang Gallerís í því húsi fór mjög vel af stað og lofar góðu. Það er kraftur í byggingunni og starfsemin er hinn eiginlegi hljómbotn mannlífsins á Grandasvæðinu.

Mér fannst opnun Veraldar; húss Vigdísar Finnbogadóttur, mikilvæg fyrir menningarþjóðina. Flott bygging utanum starfsemi sem byggir á merku, alþjóðlegu starfi Vigdísar að eflingu tungumála heimsins.
Markvert var líka samkomulag um sýningaraðstöðu fyrir Náttúruminjasafn Íslands, sem var loksins undirritað í sumar.

Á myndlistarsviðinu mætti líka nefna velgengni myndlistargalleríanna i8 Gallery og Berg Contemporary. Berg Contemporary var opnað árið 2016 og hefur á örskömmum tíma náð að gerast þátttakandi í alþjóðlega myndlistarheiminum með þátttöku í nokkrum mikilvægum listamessum, sem er mjög vel af sér vikið, auk þess sem galleríið hefur skapað sér sterkan sess hér á landi.

Velgengni Egils Sæbjörnssonar með verk hans í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum stendur líka uppúr í íslensku myndlistarlífi. Sýning hans þar var valin ein af fimm eða tíu áhugaverðustu sýningum tvíæringsins af helstu listmiðlum heims. Hún dró að sér mikinn fjölda gesta og er enn einn siguráfanginn í ferli Egils, og eykur auk þess hróður annarra íslenskra myndlistarmanna.

Á árinu sýndu íslenskar myndlistarkonur; Gjörningaklúbburinn og Dodda Maggý, verk sín í mikilvægasta samtímalistasafni á Norðurlöndunum; Aros í Árósum, sem er sérlega flottur árangur hjá þeim og vonandi hvetjandi fyrir aðra íslenska myndlistarmenn.

Mig langar líka að nefna metnaðarfulla starfsemi íslenska myndlistarnettímaritsins Artzine, sem var stofnað árið 2016 og hefur sótt í sig veðrið enn frekar nú á árinu sem flottur vettvangur umfjöllunar um myndlistarlífið á Íslandi og myndlist Íslendinga erlendis.

Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2017?

Þegar ég lít yfir menningarárið 2017 þá fyllist ég stolti yfir öllum þessum frábæru listamönnum og menningarskipuleggjendum, sem gjörsamlega dæla út mögnuðum augnablikum í allar áttir. Frjósemi íslenskra listamanna átti sér engin takmörk á árinu 2017, listamenn og menningarframleiðendur á Íslandi eru í miklu stuði jafnvel þótt sorglegt fjársvelti listanna, af hálfu ríkisins, haldi áfram. Og, listamenn halda áfram að skapa sjálfum sér sýningatækifæri víða erlendis, sem fer þó gjarnan hljótt um í fjölmiðlum.

Það fór mikið fyrir umfjöllun um bága húsnæðisstöðu Listaháskólans á árinu og í kjölfarið fylgdu þingsályktunartillaga og yfirlýsingar um vilja til að færa skólann í sómasamlegt framtíðarhúsnæði. Yfirlýsingarnar lofa góðu fyrir listalífið á komandi árum en það er skammarlegt fyrir þjóðina að nemendur og starfsfólk skólans hafi þurft að húka í mygluðu bráðabirgðahúsnæði í rúman áratug áður en pólitíkusar tóku við sér.

Snemma á árinu voru kjör og staða listamanna rædd á þingi og þar rætt útfrá átaksverkefni Sambands íslenskra myndlistarmanna Við borgum myndlistarmönnum, sem vakti marga til umhugsunar um mat á og afstöðu til starfsframlags listamanna og stöðu þeirra neðst í lífkeðju listanna. Á árinu veitti svo Borgarráð Reykjavíkur Listasafni Reykjavíkur viðbótarframlag til að borga myndlistarmönnum fyrir vinnuframlag og þóknun vegna sýningahalds 2018.

Starfsemi listamanna sem reka eigin sýningarými hefur verið sérlega blómleg á árinu, mikil elja í fólki. Þar má nefna áhugaverða starfsemi sýningarýma svo sem Harbinger, Wind and Weather Window Gallery, 1.h.v. (Fyrsta hæð til vinstri), Port, Ekkisens og Skaftfell á Seyðisfirði. Slík starfsemi, sem gjarnan er rekin í sjálfboðaliðastarfi og með útgjöldum greiddum úr eigin vasa listamanna, kemur og fer og hefur ekki verið eins kröftug á síðastliðnum árum og hún er nú. Rekstur slíkra rýma er heilbrigðismerki á listasenunni; hér er þörf fyrir vettvang allskyns liststarfsemi, en hið sorglega við listumhverfið er að slík starfsemi hlýtur jafnan lítinn sem engan opinberan fjárstuðning.

Nú á síðustu mánuðum ársins er það svo opnun umræðunnar um kynbundið misrétti og misbeitingu valds innan sviðslistanna sem hefur einkennt umræðuna á listasviðinu, í kjölfar #metoo byltingarinnar. Viðkvæm staða þeirra sem eiga faglega velgengni sína undir einstaklingum sem fara misvel með völd sín, verður áfram rædd og listamenn munu áfram hafa hátt.

Menningarárið 2017 gert upp:

Alexander Roberts, sviðslistamaður
Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður og skáld
Birta Guðjónsdóttir, myndlistarmaður og sýningastjóri
Brynja Pétursdóttir, danskennari
Dýrfinna Benita (Countess Malaise), tónlistar- og myndlistarkona
Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA
Guðni Valberg, arkitekt
Jóhann Helgi Heiðdal, heimspekingur
Jóhannes Gunnar Þorsteinsson, tölvuleikjasmiður og tónlistarmaður
María Kristín Jónsdóttir, ritstjóri HA magasín
Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og leikhúsgagnrýnandi
Sjón, rithöfundur
Stefán Baldursson, leikstjóri
Yean Fee Quay, sýningastjóri

Menningarannáll DV 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona