Hinn heillandi hversdagsleiki

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 19. desember 2017 20:30

Friðgeir Einarsson hefur komið sem fullmótaður höfundur inn í íslenska bókmenntaheiminn eftir störf við auglýsingar og leikhússkrif sem ég hef ekki kynnt mér. Smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita sem kom út í fyrra var framúrskarandi byrjandaverk án nokkurs byrjandabrags. Friðgeir er makalaust stílfimur og með einstakt auga fyrir smáatriðum. Markviss átakafælni gefur sögum hans sérstakan raunveruleikablæ þar sem sneitt er hjá hefðbundnum söguflækjum. Þessi aðferð eða ávani gaf smásagnasafni hans flottan blæ samstillingar og frumleika.

Ég er hins vegar ekki alveg eins sáttur við átakaleysið í nýrri skáldsögu Friðgeirs, Formaður húsfélagsins. Stundum er hins vegar erfitt að átta sig á hvort við höfund eða lesanda er að sakast þegar lesandi er ósáttur við hvaða leið höfundur velur að feta með efnivið sinn. Ég held þó að margir gætu tekið undir það að Formaður húsfélagsins sé saga sem í byrjun æpir á átök, bæði innri átök aðalpersónunnar og átök í samskiptum sögupersóna, en af þeim verður ekki. Hins vegar skal líka viðurkennt að fyrir átakaleysinu eru röklegar ástæður og sagan gengur fullkomlega upp.

Aðalpersónan er ungur maður sem flytur inn í íbúð systur sinn í stóru fjölbýlishúsi, en það tækifæri opnast er systir hans flytur til Noregs. Maðurinn er að jafna sig eftir sambandsslit. Hann stundar ekki vinnu en mætir reglulega til geðlæknis. Sagan minnir dálítið á verk sum verk Braga Ólafssonar og Gyrðis Elíassonar, til dæmis Hvíldardaga eftir Braga og Suðurgluggann eftir Gyrði, en jafnframt eru allir þrír höfundarnir með sterk sérkenni og hver öðrum ólíkir. Rétt eins og þessi saga lýsa þær báðar einmana mönnum sem eru utangátta í umhverfi sem öðrum er hversdagslegt en verður þeim framandi. Bæði Bragi og Gyrðir skrifa á skjön við hefðbundnar söguflækjur og átök en í sögum þeirra er samt spenna: Persónan í Hvíldardögum málar sig smám saman út í horn og aðstæðurnar verða honum óviðráðanlegar; það sama mætti segja um Gæludýrin eftir Braga; aðalpersónan í Suðurglugganum og fleiri einsemdarsögum Gyrðis er hins vegar stundum eins og draugur, maður veit ekki hvort hún er lífs eða liðin, og sögurnar eru hlaðnar mystík.

Textinn í Formaður húsfélagsins er afskaplega heillandi framan af. Hversdagslegt umhverfi er gert framandlegt og undarlegt í augum hins utangátta manns er hann kemur sér fyrir á nýja staðnum. Kostulegar lýsingar er að finna á hinum ýmsu vandamálum og uppákomum sem verða í samskiptum nábúa í stóru fjölbýlishúsi. Sú litla veröld smásmugulegra kvartana og hversdagslegrar ábyrgðarkenndar reynist vera aðalpersónunni afar heilandi umhverfi. Hvað er heilbrigðara en að skipta um sprungna peru í sameign eða hreinsa rusl eftir nágranna sína án þess að vænta eða fá nokkuð í staðinn? Hvað er heilbrigðara en góðverk sem enginn veit af?

Áður en maðurinn fær fasta atvinnu á auglýsingastofu eftir að hann kemur undir sig fótunum tekur hann að sér verkefni sem bakgrunnsleikari í kvikmyndum. Hann þykir standa sig frábærlega í því hlutverki og vera hinn fullkomni bakgrunnsleikari sem fellur inn í umhverfið án þess að láta á sér bera. Þarna er að finna snjalla líkingu við líf hans sjálfs því hann nær aftur tökum á því með því að falla eins og viskustykki inn í hversdagsleikann. Menning hins smámunasama húsfélags reynist vera afar uppbyggileg fyrir manninn sem eignast nýja sambýliskonu, stofnar fjölskyldu og tekur smám saman að lifa afar venjulegu og reglusömu lífi.

Þetta gengur upp röklega en miðað upphaf sögunnar er sérkennilegt að upplifa ekki átök í henni, innri átök mannsins framan af komast ekki einu sinni til skila því hann er svo dulur, jafnt gagnvart lesendum sem öðrum persónum bókarinnar. Þetta veldur því að áhrif textans taka að dofna eftir því sem líður á seinni hluta sögunnar og það rennur upp fyrir manni að afdrif persónunnar munu liggja eftir beinni og sléttri braut til söguloka. Maður kaupir þetta vissulega en nýtur þess ekki. Á meðan fyrri hluti sögunnar vekur manni hrifningu, eftirvæntingu og nokkurn ugg, er seinni hlutinn eins og róandi lyf sem maður þurfti ekki á að halda.

Hvað sem því líður er Formaður húsfélagsins afbragðsvel skrifuð saga sem bregður upp fjölmörgum spaugilegum og hnyttnum myndum úr hversdagsleikanum, ekki síst úr hversdagsleika húsfélaga í stórum fjölbýlishúsum.

Stjörnugjöf: Þrjár stjörnur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 1 klukkutíma

Sjáðu hvað Jordan Pickford var með skrifað á vatnsbrúsa sinn í gær

Sjáðu hvað Jordan Pickford var með skrifað á vatnsbrúsa sinn í gær
Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma

Fékk óþægileg skilaboð frá Pólverjum á Íslandi eftir frétt um Sjálfstæðisgönguna: „Stillir mér upp sem óvin pólsku þjóðarinnar“

Fékk óþægileg skilaboð frá Pólverjum á Íslandi eftir frétt um Sjálfstæðisgönguna: „Stillir mér upp sem óvin pólsku þjóðarinnar“
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Hagnaður Hallgrímskirkju dugar fyrir rekstri án ríkisstyrkja

Hagnaður Hallgrímskirkju dugar fyrir rekstri án ríkisstyrkja
Lífsstíll
Fyrir 2 klukkutímum

Axarkast veitir útrás og er góð skemmtun í hóp

Axarkast veitir útrás og er góð skemmtun í hóp
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Danskur ráðherra yfirheyrður vegna morðmáls – Reynt að saga líkið í sundur

Danskur ráðherra yfirheyrður vegna morðmáls – Reynt að saga líkið í sundur
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Elsti skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar Íslands er 97 ára – Geta líklega ekki aðstoðað alla sem þurfa aðstoð fyrir jólin

Elsti skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar Íslands er 97 ára – Geta líklega ekki aðstoðað alla sem þurfa aðstoð fyrir jólin