fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Bróðir hennar lést árið 1984: 15 árum síðar féllust þau í faðma

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 12. desember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Öll þekkjum við hinar erfiðu tilfinningar sem fylgja því að missa nákominn ættingja eða vin. Sársaukann sem fylgir. Hvað við gæfum ekki fyrir enn eitt tækifæri til að hitta manneskjuna sem við elskuðum einu sinni. Þetta fær í raun enginn að upplifa en það er þó ein undantekning. Carol Kaufman missti bróður sinn árið 1984. Árið 1999 síðar heyrði hún hrópað:

„Hei Carol! Ég er hérna.“

Fyrir framan hana stóð bróðir hennar. Hann spurði glaðlega hvort hana langaði ekki í mjólkurhristing. Bróðir hennar, Andy Kaufman, lést eins og áður segir árið 1984 og var einn óvenjulegasti grínisti sinnar kynslóðar. Nú faðmaði hann hana að sér öllum þessum árum síðar og tárin skutust fram í augnkrókana. Carol átti eftir að fá að vera í félagsskap bróður síns næstu mánuði. Hvernig reis bróðir hennar svo upp frá dauðum?

Heimildamynd – Bandaríkin94 mínúturNetflix

Jú, Jim Carrey lék Andy Kaufman í kvikmyndinni Man on the Moon. Í heimildamyndinni Jim & Andy: The Great Beyond sem kom nýverið út á Netflix er einblínt á Jim Carrey og hvernig hann tókst á við hlutverkið í Man on the Moon sem fjallaði um lífshlaup Andys Kaufman. Kaufman þessi var þekktur fyrir alls kyns furðulega gjörninga, undarleg en stórfengleg tónlistaratriði samhliða því sem hann lék fyndna útlendinginn Latka í sjónvarpsþáttunum Taxi. Ferill Kaufmans var stuttur, hann byrjaði að koma fram í sjónvarpi árið 1975 en ferlinum lauk árið 1984 þegar Kaufman lést úr krabbameini.

Jim & Andy byggir að mestu leyti á upptökum að tjaldabaki við gerð Man on the Moon. Á tökuvélinni halda besti vinur og samstarfsfélagi Kaufmans, Bob Zmuda, og Lynne Margulies, sem var kærasta Kaufmans. Einnig er í myndinni nýtt viðtal við Carrey þar sem hann opnar sig um líf sitt á einlægan átt. Carrey var þunglyndur á þessum tíma og hlutverk Kaufmans var flótti frá lífinu fyrir Carrey en á sama tíma gjöf fyrir aðstandendur Kaufmans.

Jim Carrey varð hreinlega Andy Kaufman í heilt ár og fór aldrei úr karakter þó að slökkt væri á myndavélunum. Carrey komst það vel inn í hugarheim Kaufmans og tileinkaði hann sér það mikið að úr varð einstaklega hjartnæm stund þegar faðir og systkini Kaufmans föðmuðu Carrey að sér eins og hann væri Andy risinn upp frá dauðum. Þá ræddi leikstjórinn Milos Forman aðeins við Carrey eins og hann væri Andy Kaufman.

Carrey hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir leik sinn í Man on the Moon en var ekki tilnefndur til Óskarsverðlauna. Það mætti vel krefjast þess að aðstandendur Óskarsins horfðu á þessa mynd og segðu af sér í kjölfarið. Sérstaklega í ljósi þess að það var Kevin Spacey, af öllum, sem fékk Óskarinn en ekki Carrey.

Jim & Andy: The Great Beyond er skylduáhorf fyrir aðdáendur Carreys, en einnig fyrir þá sem hafa aldrei þolað hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki