Mósaík af lífsreynslu fólks

Vertu ósýnilegur er ný unglingaskáldsaga eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur – Segir sögu flóttafólks

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 3. desember 2017 14:00

Vertu ósýnilegur er ný unglingaskáldsaga eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, byggð á viðtölum, fréttum og heimildum um borgarastyrjöldina í Sýrlandi. Ljósmyndir sem eru við kaflaskil í bókinni eru eftir Þóri Guðmundsson. Sagan segir frá hinum fjórtán ára Ishmael sem neyðist til að leggja á flótta. Á sama tíma er fjölskylda í Kópavogi að reyna að fóta sig í nýju landi.

Kristín Helga er spurð af hverju sögur fólks í þessum aðstæðum hefðu leitað svo mjög á hana að hún hefði fundið hjá sér þörf fyrir að setja þær í skáldsögu.

„Ég hef aldrei komið til Sýrlands en hef fylgst mjög vel með stríðinu þar, auk þess sem ég vann sem fréttamaður í erlendum fréttum í tíu ár og kynntist ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég vildi kanna hvernig leiðangur það er fyrir fólk að flýja heimili sitt annars staðar á hnettinum vegna stríðsógnar. Mig langaði líka til að vita hvaða lífsreynslu manneskjan sem er að vinna við hliðina á okkur úti í samfélaginu býr að eftir slíka för. Mig langaði til að fara í þetta ferðalag og rithöfundurinn og gamli blaðamaðurinn í mér ákváðu að skrifa saman bók.

Ég lagðist í rannsóknarvinnu, las og kannaði heimildir. Ég talaði við marga Sýrlendinga sem búa hér, eru ýmist nýkomnir eða hafa búið hér lengi. Og úr varð þessi saga.

Til að fá sem skýrasta mynd af því sem flóttafólk gengur í gegnum datt mér upphaflega í hug að best væri að fylgja sögu einnar fjölskyldu frá Sýrlandi og hingað heim. Ég áttaði mig svo á að það yrði bara saga einnar fjölskyldu en mig langaði til að segja stærri sögu, sögu margra.

Þetta er skáldsaga, heimildaskáldsaga. Efnið er þannig að ég vinn með veruleikann. Hann er of stór til að reyna að breyta honum og krefst þess að ég fylgi honum eftir. Allar persónur eru skáldaðar í aðstæðum sem byggja á heimildum.“

Glímt við stór sár

Þú hittir Sýrlendinga sem búa hér á landi, hvernig líður því fólki?

„Það er mjög misjafnt. Margir eru að glíma við mjög stór sár. Við Íslendingar búum í óskaplega vernduðu og mjúku umhverfi og okkur finnst eðlilegt að þeir einstaklingar sem hingað koma frá stríðshrjáðum löndum eigi að vera mjög þakklátir fyrir að fá skjól hér, og þeir eru það, en flesta langar aftur heim.

Ein ástæðan fyrir því að ég réðst í þetta verkefni er að eftir því sem heimurinn minnkar og við verðum fleiri og nær hvert öðru, þá þurfum við í auknum mæli að setja okkur hvert í annars spor og í umræðunni hefur það oft ekki verið gert. Mig langaði að standa í þessum sporum og reyna að finna hvernig þessu fólki líður.

Börnin eru yfirleitt mjög fljót að aðlagast og læra tungumálið eins og skot. Þau eiga sum leynimál og skipta yfir í íslensku þegar þau vilja ekki að mamma eða pabbi skilji það sem þau eru að segja, sem er örugglega erfitt fyrir foreldrana.

Ég tók eftir því að margir af eldri kynslóð voru að fylgja unga fólkinu sínu þannig að það gæti átt framtíð og lifað af, en hinir eldri eru sjálfir með hugann við Sýrland. Þeir einstaklingar munu aldrei fara andlega frá Sýrlandi. Hér eru konur sem fara ekki út úr húsi og horfa á Al Jazeera allan sólarhringinn til að missa ekki af neinu. Það er ekki bara að þessa einstaklinga langi heim, eins og okkur langar oftast öll þegar við erum lengi í burtu, heldur þjást þeir líka af samviskubiti yfir að vera komnir í öruggt skjól og þurfa að fylgjast með fólki sínu þjást.“

Fyrst og fremst að segja sögu

Er þetta ekki bók með boðskap? Í upphafi hvers kafla er vitnað í klausur úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Ef kærleikurinn er boðskapur þá er þetta bók með boðskap. Ég er samt fyrst og fremst að segja sögu, þetta er mósaík af lífsreynslu fólks.

Mannréttindasáttmálinn breiðir sig yfir allar síður til að minna á grunnreglur sem við ættum öll að vera meðvituð um. Til Íslands koma árlega tíu fylgdarlaus börn og það eru afskaplega takmörkuð úrræði fyrir þau. Núna eru rúmlega 300.000 fylgdarlaus flóttabörn að ráfa um stræti stórborga Evrópu.“

Þér finnst greinilega mjög mikilvægt að unglingar kynnist heimi þeirra sem þurfa að flýja heimaland sitt vegna ófriðar.

„Þessi bók teygir sig í allar áttir. Fullorðið fólk hefur lesið þessa bók og hafði ekki hugmynd um þessar aðstæður og þótti upplýsandi að fræðast um þær. Auðvitað er svo mjög mikilvægt að eiga þetta samtal við unga fólkið sem er að nálgast fullorðinsárin. Þeirra er framtíðin til að móta.

Mér finnst fjölmiðlaheimurinn að mörgu leyti hafa verið stærri þegar ég var að alast upp. Þá horfðum við öll á fréttir í sjónvarpinu, ekki mátti anda á meðan útvarpsfréttir voru og það var alltaf verið að ræða það sem var að gerast.

Dagblöðin töluðu öll saman, einhver skrifaði grein í Morgunblaðið og henni var svarað í Þjóðviljanum. Núna, á þessum rafrænu tímum, er fjölmiðlaheimur ungrar manneskju mjög þröngur. Hún er á sínum samfélagsmiðlum og á þar sína vini og hinn rafræni heimur reiknar mjög fljótlega út hvað henni líkar og dembir því yfir hana og heldur henni þannig í sínum heimi og skapar um leið ákveðna einangrun. Ég held því fram að það sé fjöldinn allur af ungu fólki sem fer á mis við hið stóra daglega samtal sem mín kynslóð tók þátt í sem börn og unglingar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 1 klukkutíma

Sjáðu hvað Jordan Pickford var með skrifað á vatnsbrúsa sinn í gær

Sjáðu hvað Jordan Pickford var með skrifað á vatnsbrúsa sinn í gær
Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma

Fékk óþægileg skilaboð frá Pólverjum á Íslandi eftir frétt um Sjálfstæðisgönguna: „Stillir mér upp sem óvin pólsku þjóðarinnar“

Fékk óþægileg skilaboð frá Pólverjum á Íslandi eftir frétt um Sjálfstæðisgönguna: „Stillir mér upp sem óvin pólsku þjóðarinnar“
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Hagnaður Hallgrímskirkju dugar fyrir rekstri án ríkisstyrkja

Hagnaður Hallgrímskirkju dugar fyrir rekstri án ríkisstyrkja
Lífsstíll
Fyrir 2 klukkutímum

Axarkast veitir útrás og er góð skemmtun í hóp

Axarkast veitir útrás og er góð skemmtun í hóp
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Danskur ráðherra yfirheyrður vegna morðmáls – Reynt að saga líkið í sundur

Danskur ráðherra yfirheyrður vegna morðmáls – Reynt að saga líkið í sundur
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Elsti skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar Íslands er 97 ára – Geta líklega ekki aðstoðað alla sem þurfa aðstoð fyrir jólin

Elsti skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar Íslands er 97 ára – Geta líklega ekki aðstoðað alla sem þurfa aðstoð fyrir jólin