fbpx

Spennusaga sem stendur undir nafni

Bókardómur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 15. nóvember 2017 20:30

Mistur er þriðja bókin sem ég les eftir spennusagnahöfundinn Ragnar Jónasson. Þessar þrjár hef ég lesið í tímaröð og þær eru hver annarri betri. Dómar gagnrýnenda benda jafnframt til þess að fyrstu sögur hans, sem ég hef ekki lesið, séu slakastar og að honum virðist fara fram með hverri bók. Mistur er besta bókin sem ég hef lesið eftir hann.

Flestir skáldsagnahöfundar hafa mismunandi styrkleika og veikleika þó að til séu snillingar eins og Laxness og Shakespeare sem geta allt. Styrkleikar og veikleikar Ragnars eru auðsýnilegir: annars vegar lætur honum mjög vel að flétta sögu, hins vegar er hann ekki burðugur stílisti. Hann er ekki næmur á smáatriði, hann er ekki myndrænn, því síður fyndinn eða hnyttinn, samtölin eru oft flatneskjuleg og honum hættir við stagli með því að persónur endurtaka hugsanir sínar of oft. Með hverri bók virðist Ragnar nýta styrkleika sína betur og lágmarka skaðann af helsta veikleika sínum. Sögur hans verða sífellt betur uppbyggðar, betur hugsaðar og dýpri. Jafnframt því gætir hann þess að færast aldrei of mikið í fang í lýsingum og orðfæri, hann heldur sig við mjög einfaldan og þurran frásagnarstíl, og það gengur upp, lesandinn gleymir sér í sögunni og saknar ekki frekari stílbragða.

Fyrri hluti Misturs er gífurlega spennandi og minnir mann um leið á hve það er orðið sjaldgæft í seinni tíð að spennusögur, jafnvel rómaðar spennusögur, séu virkilega spennandi. Þá er ég ekki að tala um spennu í formi eftirvæntingar eftir því hvað gerist næst, sem er vissulega eftirsóknarverð lestrarupplifun, heldur að lesandinn nái að verða smeykur, jafnvel skelfingu lostinn af og til. Þetta tekst hvað eftir annað í fyrri hluta bókarinnar, þar sem margir spennuþrungnir kaflar gerast á afskekktum sveitabæ í hríðarbyl. Þrjár til fjórar (fjöldinn er umdeilanlegur!) persónur eiga þar í samskiptum sem reyna á taugar lesandans. Fyrri hluti bókarinnar er klárlega ekki fyrir myrkfælna.

Fjölskylduharmleikur rannsóknarlögreglukonunnar Huldu er síðan mögnuð hliðarsaga sem fellur vel að drungalegu efni meginsögunnar.

Um miðbik bókarinnar, þegar hinir hræðilegu glæpir sögunnar hafa verið framdir, slaknar á taugaspennunni og við tekur forvitnilegur leiðangur Huldu rannsóknarlögreglukonu að lausn gátunnar. Gátan er afskaplega vel ofin og lesandinn situr sáttur eftir með málalokin.

Fyrir utan spennuna og haganlega fléttuna nær sagan þeirri dýpt að mörkin milli góðs og ills verða óljós í henni og hægt er að skilja þær hvatir sem lágu að baki glæpunum. Í Mistri eru engin illmenni og samt eru framin hræðileg illvirki í sögunni. Mannlegur harmleikur ræður þar för en ekki illska. Sagan vekur þá spurningu hvort allar manneskjur séu færar um að fremja morð við öfgafullar aðstæður.

Mistur er í heildina afskaplega vel heppnuð spennusaga og hefur flest það til að bera sem unnendur spennusagna sækjast eftir – og þá umfram allt spennuna sem er orðin svo fágæt í spennusögum seinni tíma. Ragnar hefur einnig þann kost að hafa flækjurnar í sögum sínum rétt hæfilega miklar, aldrei svo miklar að lesandinn tapi þræði. Það er hluti af ánægjunni við að lesa Mistur, bók sem á vafalaust eftir að færa mörgum lesendum gleðistundir í skammdeginu – þó að öðrum þræði sé ánægjan óneitanleg myrk og hrollvekjandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 7 klukkutímum

Frank Lampard: Ég er í sjokki

Frank Lampard: Ég er í sjokki
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Ferðamannafjöldinn stendur í stað – stöðvast þá hótel- og veitingahúsabólan?

Ferðamannafjöldinn stendur í stað – stöðvast þá hótel- og veitingahúsabólan?
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Tillaga Íslands um rafræna fylgiseðla með lyfjum samþykkt í Strasbourg

Tillaga Íslands um rafræna fylgiseðla með lyfjum samþykkt í Strasbourg
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Sefur þú nokkuð í nærfötum?

Sefur þú nokkuð í nærfötum?
433
Fyrir 9 klukkutímum

Svona hefur samband Mourinho og Pogba þróast

Svona hefur samband Mourinho og Pogba þróast
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Forsætisráðherra Bretlands segir að ekki verði kosið aftur um Brexit

Forsætisráðherra Bretlands segir að ekki verði kosið aftur um Brexit
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fann stóra bróður sinn látinn á klósetti skólans – „Hún heyrði í símanum hans hringja hinum megin við hurðina“

Fann stóra bróður sinn látinn á klósetti skólans – „Hún heyrði í símanum hans hringja hinum megin við hurðina“
433
Fyrir 10 klukkutímum

Alisson ekki í marki Liverpool á morgun

Alisson ekki í marki Liverpool á morgun