fbpx

Örninn og fálkinn: Leikið sér með örlög fólks

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 12. nóvember 2017 18:30

Örninn og fálkinn er söguleg skáldsaga eftir Val Gunnarsson sem hefur fengið mikla athygli í haust og ekki að ástæðulausu því hún fjallar um stærsta „hvað ef“ Íslandssögunnar. Hvað ef Þjóðverjar hefðu verið á undan Bretum að hernema Ísland?

Samstarf eða andspyrna

Bókinni er skipt niður í tvo meginkafla og svo stutt lokauppgjör. Fyrri hlutinn fjallar um upphaf hernámsins og sá seinni um íslensku andspyrnuhreyfinguna en hafa verður í huga að stöðugt er flakkað fram og aftur í tíma. Bókin hefst með landgöngu Þjóðverja í Reykjavíkurhöfn og fyrsta dauðsfallinu. Hér er strax sleginn tónninn fyrir það sem margir geta ímyndað sér að hefði gerst ef Þjóðverjar hefðu numið hér land. Í augum flestra var hernám Breta jákvæður viðburður þrátt fyrir mótmæli ríkisstjórnarinnar og öfundsýki einhleypra íslenskra karlmanna út í dátana. Bretarnir komu með peninga inn í landið, uppbyggingu mannvirkja og samgangna og síðast en ekki síst vernd fyrir hinum blóðþyrstu nasistum.

Bókin er séð frá augum ungs karlmanns sem vinnur við símasvörun í Landsímahúsinu. Hann er hvorki hetja né raggeit en rambar mitt inn í heimsstyrjöldina fyrir algera tilviljun. Hann er ástfanginn af ungri konu frá Austfjörðum sem er svo pólitísk að hann dregst með henni inn í hildarleikinn miðjan.

Í fyrri hlutanum er bókin sterkust því þar er aðallega fylgst með því hvernig íslenskt samfélag bregst við hernáminu. Margir vilja sjálfsagt trúa því að Íslendingar hefðu barist til hinsta manns eða að minnsta kosti beitt Þjóðverja borgaralegri óhlýðni. En sennilega er greining Vals rétt og Íslendingar hefðu flestir flotið með og gert það besta úr stöðunni. Áhugaverðast er hvernig Valur leyfir sér að spá fyrir um hvernig stjórnmálamenn þess tíma hefðu brugðist við komu Þjóðverja, hverjir hefðu orðið meðvirkir og hverjir hefðu veitt viðspyrnu.

Breytist í bíómynd

Í seinni hlutanum sjáum við þekkt stef úr sögu heimsstyrjaldarinnar á meginlandi Evrópu eins og grimmilegar fangabúðir, örvæntingarfulla andspyrnu og aftökur án dóms og laga. Þetta er martröðin sem hefði getað orðið.

Hér er hlutverk aðalsögupersónunnar orðið veigameira og hann verður gerandi en ekki áhorfandi. En fyrir vikið verður sagan ekki jafn áhugaverð og í fyrri hlutanum. Það sem áður var að miklu leyti samfélagsrýni og ádeila breytist snögglega í hreinræktaðan hasar og í lokin er bókin farin að minna á kvikmyndir um James Bond eða stríðsmyndir á borð við Where Eagles Dare og The Dirty Dozen.

Styrkleiki seinni hlutans er þó sá að höfundurinn leyfir sér enn þá að nota þekkt nöfn úr Íslandssögunni og ráðstafa lífi þeirra og limum að vild. Einhverra hluta vegna snertir þetta lesandann þó að hann viti að þessir einstaklingar hafi lifað allt annars konar lífi.

Niðurstaða

Innan háskólanna er lamið á fingur ungra sagnfræðinga sem leyfa sér að geta sér til um hvað hefði getað gerst. Önnur saga, eða Alt-History, er ekki vel séð en innan skáldskaparins er allt leyfilegt og þar geta sagnfræðingar sleppt fram af sér beislinu. Örninn og fálkinn er ágætis saga sem fer þó fram úr sér. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að hún hefði orðið betri ef aðalsöguhetjan hefði sleppt því að ganga í andspyrnuhreyfinguna og staðið frekar áfram á hliðarlínunni.

Bókin er vel skrifuð og af mikilli þekkingu um þennan tíma. Af og til finnst manni þó seilst langt til að koma öllum hinum sagnfræðilegum molum að og stundum fellur höfundur í þá freistni að vera sniðugur og minnast á hluti sem tengjast sögunni ekki neitt. En að fylgjast með meintum viðbrögðum bæði þekktra Íslendinga og almennings við hernámi nasista er nóg til að halda lesandanum við efnið og fá hann til að velta vöngum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Rúnar Alex fær mikið hrós í Frakklandi – Elskar að halda hreinu

Rúnar Alex fær mikið hrós í Frakklandi – Elskar að halda hreinu
Bleikt
Fyrir 11 klukkutímum

Svona hagar þú þér ekki á Tinder – Afsakanir sem íslenskir framhjáhaldarar

Svona hagar þú þér ekki á Tinder – Afsakanir sem íslenskir framhjáhaldarar
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Valgeir skildi eftir langt samband: „Ég hef aldrei upplifað annað eins niðurbrot á ævi minni“

Valgeir skildi eftir langt samband: „Ég hef aldrei upplifað annað eins niðurbrot á ævi minni“
Fyrir 14 klukkutímum

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Minningarsjóður Einars Darra gefur út forvarnarmyndband – „Þú ert grínlaust fljótari að panta þér poka af dópi en pizzu“

Minningarsjóður Einars Darra gefur út forvarnarmyndband – „Þú ert grínlaust fljótari að panta þér poka af dópi en pizzu“
433
Fyrir 14 klukkutímum

Einkunnir úr leik Arsenal og Everton – Cech frábær

Einkunnir úr leik Arsenal og Everton – Cech frábær
433
Fyrir 14 klukkutímum

Heimir vann deildina með HB – Magnaður árangur

Heimir vann deildina með HB – Magnaður árangur
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

„Við höfum ekki ennþá náð að verða neitt sérstaklega leiðir á hvor öðrum“

„Við höfum ekki ennþá náð að verða neitt sérstaklega leiðir á hvor öðrum“
Bleikt
Fyrir 15 klukkutímum

Svona lítur Ben úr Friends út í dag – Hversu gömul erum við orðin?

Svona lítur Ben úr Friends út í dag – Hversu gömul erum við orðin?