fbpx
Fókus

10 bestu norrænu kvikmyndirnar

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 29. október 2017 22:10

Norðurlandaþjóðirnar ná ekki þrjátíu milljónum íbúa samanlagt en hafa engu að síður verið stórveldi í kvikmyndasögunni frá upphafi, sérstaklega Svíar og Danir. Á tímum þöglu myndanna stigu leikstjórarnir Victor Sjöström og Carl Dreyer fram á sjónarsviðið og Greta Garbo var ein stærsta stjarna heims. Margir norrænir kvikmyndagerðarmenn og leikarar hafa haslað sér völl í Hollywood en það hefur ekki bitnað á starfinu heima fyrir. Má nefna að Ingmar Bergman, einn merkasti leikstjóri allra tíma, framleiddi sínar myndir í Svíþjóð. Norrænar kvikmyndir eru þekktar fyrir að vera nokkuð þungar og raunsæjar en þeirra helsti styrkur er einlægnin.

1. Fanny och Alexander (1982) – Svíþjóð

Fanny og Alexander er síðasta stórvirki leikstjórans Ingmars Bergman og talin hans aðgengilegasta mynd þrátt fyrir að vera þrír til fimm klukkutímar að lengd (hún var einnig gefin út sem þáttaröð). Myndin vann fern Óskarsverðlaun og hefur verið sett upp á leiksviði víða, til að mynda í Borgarleikhúsinu árið 2012. Þetta er fjölskyldusaga, séð með augum tveggja systkina, sem gerist í Uppsölum skömmu eftir aldamótin 1900. Þegar faðir þeirra fellur skyndilega frá giftist móðir þeirra fyrirlitlegum biskupi sem beitir börnin járnaga. Þrátt fyrir að vera þung og alvarleg hefur Fanny og Alexander öðlast sess sem jólamynd í Svíþjóð.

Stórvirki Ingmars Bergman.
Fanny og Alexander Stórvirki Ingmars Bergman.

2. Under sandet (2015) – Danmörk

Þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk var vesturströnd Jótlands þakin jarðsprengjum og yfirvöld í Danmörku neyddu þýska stríðsfanga til þess að hreinsa ströndina. Þetta var bæði hættulegt verk og flestir eftirlifandi hermennirnir voru unglingar. Undir sandinum er uppgjör Dana við þessa aðgerð og og sýnir hversu ómennsk hún var. Með aðalhlutverk myndarinnar fer Roland Möller sem verkstjóri eins hópsins og hann sýnir eina bestu frammistöðu sem sést hefur í norrænni kvikmyndagerð. Í upphafi er hann kaldlyndur og miskunnarlaus við drengina en síðan fer samúðin að síast inn. En myndin er ekki aðeins dramatísk heldur er hún svo taugatrekkjandi að allar neglur áhorfandans verða nagaðar inn að kviku.

Drengirnir voru látnir kemba ströndina.
Under sandet Drengirnir voru látnir kemba ströndina.

3. Oxen (1991) – Svíþjóð

Sven Nykvist var einn fremsti kvikmyndatökumaður sögunnar og fyrst og fremst þekktur fyrir samstarf sitt við Ingmar Bergman. Einstaka sinnum brá Nykvist sér í hlutverk leikstjóra og Uxinn var lokaverk hans á því sviði en hann skrifaði einnig handritið. Myndin gerist undir lok 19. aldar í sænskri sveit og fjallar um fátækan mann (Stellan Skarsgård) sem slátrar uxa nágranna síns sökum hungurs. Presturinn á staðnum (Max von Sydow) kemst að þessu og höfðar til samvisku mannsins en það reynist hafa örlagaríkar afleiðingar. Ýmsir aðrir samverkamenn Bergmans koma við sögu eins og leikararnir Liv Ullmann og Erland Josephson. Þetta er meistaralega leikin lítil harmsaga og falin perla í norrænni kvikmyndasögu.

Max von Sydow fer á kostum sem prestur.
Uxinn Max von Sydow fer á kostum sem prestur.

4. Ofelas (1987) – Noregur

Leiðsögumaðurinn er Íslendingum að góðu kunnur vegna þess að með eitt aðalhlutverkið fer Helgi Skúlason. Hann var tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir frammistöðuna án þess að segja orð í myndinni. Myndin er á samísku og fjallar um stríð milli Sama og Tjúða í Norður-Noregi í kringum árið 1000. Hún minnir því um margt á víkingamyndir Hrafns Gunnlaugssonar frá sama tíma. Ungur Sami lendir á flótta undan morðóðum Tjúðum og hann þarf að finna leið fella þá smám saman. Helgi leikur aðal illmennið, foringja Tjúðanna. Myndin er bæði hörkuspennandi og fallega framleidd miðað við stað og tíma.

Barátta Sama og Tjúða á miðöldum.
Leiðsögumaðurinn Barátta Sama og Tjúða á miðöldum.

5. Mies vailla menneisyytta (2002) – Finnland

Leikstjórinn Aki Kaurismaki er ekki aðeins þekktasti leikstjóri Finnlands heldur þykir hann grípa þá staðalmynd af finnsku þjóðinni sem flestir sjá fyrir sér. Í myndum hans er lítið tal og flestum virðist leiðast. Þær fjalla um efnaminna fólk og skarta aldrei glæsilegum stjörnum. Maður án fortíðar er meistaraverk Kaurismaki og fjallar um mann sem missir minnið eftir árás í almenningsgarði. Hann gengur inn í nýlendu heimilislauss fólks og kynntist þar konu sem vinnur hjá Hjálpræðishernum. Kati Outinen, sem leikur konuna hjálpsömu, fer með mikinn leiksigur og stelur í raun senunni. Myndin er lágstemmd en hjartnæm og maður þarf að vera í sérstöku skapi til að meðtaka hana.

Hjálpræðiskonan Irma stelur senunni.
Maður án fortíðar Hjálpræðiskonan Irma stelur senunni.

6. Emil i Lönneberga (1971) – Svíþjóð

Kvikmyndirnar um Emil í Kattholti eru þrjár, gerðar á árunum 1971 til 1973, og erfitt að gera upp á milli þeirra. Þær eru í raun ekki línuleg saga heldur safn vignetta rétt eins og bækurnar eftir Astrid Lindgren. Í fyrstu myndinni eru þó þekktustu atriðin og eins og þegar Ída fær að hanga í flaggstönginni og þegar Emil festir súpuskálina á höfðinu. Galdurinn við myndirnar er ekki einungis sögurnar sjálfar heldur einnig ódauðleg tónlist Georgs Riedel og frammistaða allra leikaranna. Má þá sérstaklega nefna leikkonuna Maud Hansson sem fer með hlutverk hinnar ástlausu vinnukonu Línu. Fjölmargar bækur Lindgren hafa verið kvikmyndaðar en aldrei hefur tekist eins vel til og með Emil.

Maud Hansson óborganleg sem Lína.
Emil í Kattholti Maud Hansson óborganleg sem Lína.

7. Lat den ratte komma in (2008) – Svíþjóð

Hryllingsmyndir hafa ekki verið sterkasta hlið norrænna kvikmyndagerðarmanna og því kom Hleyptu þeim rétta inn mjög á óvart. Þetta er drungaleg og subbuleg vampírusaga sem fylgir ekki þeirri hrollvekjuhefð sem við þekkjum frá Hollywood, engin bregðuatriði og lítið um blóðsúthellingar. Óhugnaðurinn lýsir sér frekar í depurð og einmanaleika og þar að auki er myndin nokkurs konar ástarsaga. Sagan fjallar um ungan dreng í Stokkhólmi árið 1981 sem er lagður í mikið einelti. Líf hans breytist þegar jafnaldra stúlka flytur inn í hverfið, en hún reynist vera vampíra. Myndin var endurgerð í Bandaríkjunum árið 2010 en mjög óeftirminnilega.

Vampíruástarsaga.
Hleyptu þeim rétta inn Vampíruástarsaga.

8. Festen (1998) – Danmörk

Árið 1995 kom Dogme-hreyfingin fram í Danmörku þar sem kvikmyndir voru framleiddar samkvæmt ákveðinni uppskrift. Áhersla var lögð á leik og sögu fremur en tæknilega vinnslu. Veislan stendur upp úr sem besta kvikmynd þessarar hreyfingar, harmsaga sem gerist í sextugsafmæli viðskiptajöfurs á stóru sveitasetri. Uppþot verður í veislunni þegar sonur jöfursins uppljóstrar því að hann hafi misnotað hann og látna tvíburasystur hans í æsku. Ýmis önnur fjölskylduleyndarmál koma þá upp á yfirborðið og veislan leysist upp í fíaskó. Leikstjóri myndarinnar, Michael Vinterberg, gerði hina þekktu kvikmynd Jagten (Veiðin) árið 2012 sem snertir á barnamisnotkun líkt og Veislan.

Afmæli sem fer úr böndunum.
Veislan Afmæli sem fer úr böndunum.

9. Kon-Tiki (2012) – Noregur

Kon-Tiki segir frá goðsagnakenndri reisu mannfræðingsins Thors Heyerdahl á fleka yfir Kyrrahafið árið 1947. Hann hélt því fram að íbúar pólýnesísku eyjanna ættu ættir sínar að rekja til suðuramerískra frumbyggja og vildi sýna fram á að þeir hefðu getað komist yfir hafið. Því byggði hann fleka með því efni og þeirri tækni sem frumbyggjarnir höfðu og fékk fimm menn til að sigla með sér. Það eru hins vegar ekki aðeins hinar tröllauknu vegalengdir sem Heyerdahl og félagar þurftu að kljást við heldur óveður og skepnur hafsins einnig. Kon-Tiki er sannkallað stórvirki og styrkur hennar liggur að miklu leyti til í fegurð leikmyndarinnar og kvikmyndatökunnar. Hún er sannkölluð veisla fyrir augað.

Háskaför Thors Heyerdahl yfir Kyrrahafið.
Kon-Tiki Háskaför Thors Heyerdahl yfir Kyrrahafið.

10. Krigen (2015) – Danmörk

Stríðið segir söguna af liðsforingjanum Claus Pedersen (Pilou Asbæk) sem stýrir flokki danskra hermanna í suðurhluta Afganistan. Einn daginn lendir flokkur hans í erfiðum aðstæðum og hann kallar til aðstoð frá lofthernum. Ellefu saklausir borgarar deyja og Pedersen er í kjölfarið dreginn fyrir dómstóla. Myndin er þrískipt og flakkar fram og aftur í tíma. Einn hlutinn segir frá átökunum sjálfum, einn frá uppgjörinu í réttarsal og einn fjallar um áhrif stríðsins á fjölskyldu Pedersen. Lykilorð myndarinnar eru ákvarðanir og ábyrgð. Hvort hægt sé að draga fólk til ábyrgðar í slíkum kringumstæðum þar sem eitt feilspor getur haft geigvænlegar afleiðingar. Hér er tekin augljós afstaða með hermönnunum en þeim skilaboðum jafnframt komið til skila að þetta séu ekki aðstæður sem nokkur maður ætti að vera í.

Liðsforingi þarf að svara fyrir erfiða ákvörðun.
Stríðið Liðsforingi þarf að svara fyrir erfiða ákvörðun.
Kristinn H. Guðnason
Kristinn Haukur Guðnason er blaðamaður og sagnfræðingur sem starfað hefur hjá DV síðan 2017 en áður skrifaði hann fyrir Kjarnann.
Kristinn skrifar almennar fréttir, mannlífsviðtöl, um söguleg málefni og menningu.
Hann er ólæknanlegur nörd sem eyðir laugardagskvöldum í að spila við sjálfan sig og leggja höfuðborgir heimsins á minnið.

netfang: kristinn@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Gunni Helga og töfrahurðarhljómsveitin spila Jazz fyrir börn

Gunni Helga og töfrahurðarhljómsveitin spila Jazz fyrir börn
Fókus
Í gær

Fyrsta skiptið – Ein eða fimm stjarna best, ekki neitt þar á milli í boði

Fyrsta skiptið – Ein eða fimm stjarna best, ekki neitt þar á milli í boði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Meira að segja eiginkonan má ekki vita hvernig Game of Thrones endar

Meira að segja eiginkonan má ekki vita hvernig Game of Thrones endar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nú getur þú fest kaup á Bjarna Ben í nábrókinni

Nú getur þú fest kaup á Bjarna Ben í nábrókinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Petrína: „Það skiptir miklu máli fyrir þann veika að finna stuðning“

Petrína: „Það skiptir miklu máli fyrir þann veika að finna stuðning“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mál­þing um brjósta­krabba­mein – Doktor Google & Google Maps

Mál­þing um brjósta­krabba­mein – Doktor Google & Google Maps