fbpx

Listræn rannsókn á vandalisma

Danski listamaðurinn Asger Jorn nálgaðist listasöguna á óhefðbundinn hátt – Ný sýning í Listasafni Íslands skoðar aðferðir Jorns

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 30. ágúst 2017 16:30

Vandalismi og veggjakrot á fornminjum fékk lengi vel ekki mikla jákvæða vigt í hinni hefðbundnu listasögu. Veggjakrot og önnur sjálfsprottin tjáning almennings – skapandi jafnt sem eyðileggjandi – getur þó gefið ýmsar vísbendingar um drifkrafta mannssálarinnar, undirliggjandi hugmyndaheim menningarsamfélaga og þróun fagurfræðilegra stíla.

Einn þeirra sem höfðu mikla trú á mikilvægi óheflaðrar tjáningar var danski myndlistarmaðurinn Asger Jorn en hann ferðaðist um Evrópu á sjötta og sjöunda áratugnum og ljósmyndaði bæði hefðbundnar kirkjuhöggmyndir frá miðöldum sem fornt veggjakrot í þeim tilgangi að greina formrænar tengingar og táknræna þræði þar á milli og setja fram sína eigin óhefðbundnu listasögu: „10 þúsund ár af norrænni alþýðulist.“

Þessar listrænar rannsóknir Jorns ögruðu hefðbundinni fræðilegri menningarsagnfræði með óvenjulegum kenningum sínum en umfram allt með óhefðbundinni listrænni aðferðafræði við rannsóknarstörfin. Nálgun Jorns, sem hann kallaði „samanburðar-vandalisma,“ er meginviðfangsefni nýrrar sýningar í Listasafni Íslands, en þar verða sýnd kontakt-prent mikils fjölda ljósmynda sem hann lét taka á sænsku eyjunni Gotlandi árið 1964.

„Þetta er ekki sýning á listaverkum heldur sýning á aðferð,“ segir sænski ljósmyndarinn og sýningarstjórinn Henrik Anderssen, en hann og Birta Guðjónsdóttir, deildarstjóri sýningadeildar Listasafnsins og sérstök áhugakona um Asger Jorn, spjölluðu við blaðamann DV um Jorn og hið risavaxna ókláraða verkefni hans.

Jöfnuður, frelsi og listsköpun

Daninn Asger Jorn fæddist árið 1914 og var einn allra þekktasti myndlistarmaður Norðurlanda á 20. öldinni. Hann er hvað þekktastur fyrir abstrakt expressjónísk málverk sín og þátttöku sína í evrópsku framúrstefnuhreyfingunni á eftirstríðsárunum. Hann var einn stofnenda COBRA-hreyfingarinnar – en meðal meðlimanna var Svavar Guðnason – en er ekki síður minnst í dag sem eins stofnenda alþjóðlegrar hreyfingar Situationista. Það var hreyfing pólitískra listamanna (eða listrænna byltingarsinna) sem hafði mikil áhrif á stúdentauppreisnina í París 1968, jafnt með hugmyndum sínum og nálgun á heiminn. Slagorð þeirra voru krotuð á veggi og prýddu kröfuspjöld margra mótmælenda. Alla tíð síðan hefur hreyfingin verið listamönnum jafnt sem aktívistum stöðugur innblástur.

Á ferli sínum prófaði Jorn sig áfram með hverja þá listmiðla sem hann rakst á, hvort sem það voru málverk, skúlptúrar, keramík, ljósmyndir, kvikmyndir, performansar, skrif eða hvað eina – en list hans var alltaf bundin pólitískum markmiðum hans órofa böndum, gagnrýni á það samfélag sjónarspils og leiðinda sem hafði þróast í borgaralegu samfélagi kapítalismans og von eftir betra samfélagi eftir hugsjónum jöfnuðar og frelsis, leiks og listsköpunar.

Eins og svo margir samferðamanna hans skrifaði Jorn einnig heimspekilega og fræðilega texta og fór að velta fyrir sér hvort það mætti einnig nota list- og menningarsöguna sem skapandi tæki á sama hátt og hina listmiðlana.

Birta Guðjónsdóttir og Henrik Andersson rýna í ljósmyndir sem Asger Jorn lét taka af hinum ýmsu minjum á sænsku eyjunni Gotlandi árið 1964. Myndirnar sem áttu að vera hluti af 32 binda verkinu „10 þúsund ár af norrænni alþýðulist“ eru uppistaðan í sýningu sem sett verður upp í Listasafni Íslands.
Brot úr listasögu norrænnar alþýðu Birta Guðjónsdóttir og Henrik Andersson rýna í ljósmyndir sem Asger Jorn lét taka af hinum ýmsu minjum á sænsku eyjunni Gotlandi árið 1964. Myndirnar sem áttu að vera hluti af 32 binda verkinu „10 þúsund ár af norrænni alþýðulist“ eru uppistaðan í sýningu sem sett verður upp í Listasafni Íslands.

Mynd: Sigurður Gunnarsson

Menningarsagnfræði sem listmiðill

„Ég held að Asger Jorn hafi alltaf verið að velta fyrir sér frelsi og takmörkunum listarinnar,“ útskýrir Henrik. „Hann fann það sem abstrakt expressjónískur málari að hann fékk frelsi innan ákveðins ramma – en það var hins vegar alltaf rammi og veggur sem einhver annar hafði ákveðið. Jorn var stöðugt að ýta í þess veggi, prófaði sig því áfram með aðra listmiðla og reyndi að finna veggi þeirra. En þegar hann prófaði að nota listsagnfræði sem miðil þá skall hann virkilega á vegg.“

Hið tröllaukna listasöguverkefni sitt nefndi Jorn „10.000 ár af norrænni alþýðulist“ og var hugmyndin að gefa út 32 binda alfræðirit uppfullt af ljósmyndum og fræðilegum textum. Hann ferðaðist um Evrópu með ljósmyndurum og myndaði hinar ýmsu minjar frá miðöldum, arkitektúr, tákn, hefðbundnar kirkjuhöggmyndir og óþekkt veggjakrot. Með því að rýna í þær 26 þúsund myndir sem teknar höfðu verið, raða þeim upp, stækka og skeyta saman kvaðst hann geta fundið tengingar sem öðrum hafði yfirsést – ómeðvitaðan fagur- og hugmyndafræðilegan skyldleika sem hann rakti til forn-norrænna menningarheima.

„Að minnsta kosti á einum tímapunkti hélt hann því fram að það væri eitthvað sérstaklega skandinavískt sem hann sæi í þessum miðaldalistaverkum – og það væri beinskeyttara og lýðræðislegra, eða innihéldi öllu heldur minna stigveldi en við eigum að þekkja í dag. Það verður þó að viðurkennast að eftir því sem kenningin sjálf verður nákvæmari því meira lítur hún út eins og áhugamannasagnfræði,“ segir Henrik.

Áhrif vandalanna

„Jorn var þekktur listamaður á þessum tíma og gat því sett mikla peninga í verkefnið. Hann var í nánu sambandi við fræðimenn og sérfræðinga og réð færan ljósmyndara til að fara út og taka myndir af ýmsum minjum frá miðöldum, kirkjum, legsteinum og svo framvegis. Hann vildi gera þetta vel – en alltaf á sinn eigin sérviskulega hátt. Fræðimennirnir skildu ekki alveg hvert hann var að fara með þessu,“ segir Henrik.

Kenningin um sérstakt mikilvægi fornrar norrænnar hálf-anarkískrar erkitýpu í myndheimi Evrópu var vissulega óhefðbundin og sanngildi hennar vafasamt en það var kannski fyrst og fremst aðferðin sjálf sem fór vitlaust ofan í samstarfsmenn hans úr fræðaheiminum – enda fræðileg nákvæmni eflaust ekki meginmarkmiðið.

„Þetta er umfram allt listræn rannsókn,“ útskýrir Henrik. „Hann notaðist mikið við myndræna samsetningu – montage – sem er aðferð sem kemur frá súrrealistunum. Þú lætur tvo hluti hlið við hlið og ferð að finna óvæntar tengingar, blandar saman algjörlega ótengdum hlutum og stingur þannig upp á tengingum þar á milli,“ segir Henrik og lýsir því hvernig Jorn lét stækka upp smáatriði af ljósmynd og skeyta henni saman við annað smáatriði af ljósmynd sem tekin var allt annars staðar í álfunni af allt annars konar hlut frá allt öðrum tíma.

„Með stækkuninni er hægt að finna tengingar milli ólíkra hluta. Þetta gat verið höggmynd af púka utan á kirkjubyggingu eða eitthvert krot á vegg inni í kirkjunni – það gat verið nýlegt, hundrað ára eða frá miðöldum, en í hans huga var það allt jafn áhugavert.“

Aðferðina nefndi Jorn samanburðar-vandalisma í höfuðið á hinum forna norræna þjóðflokki Vandölum sem fluttust búferlum suður með Evrópu á öldunum í kringum Krists burð. Kannski fluttu þeir með sér hugmyndalega strauma sem sjást í kirkjum og kroti, en þeir hafa hins vegar aðallega orðið alræmdir fyrir að ræna og rupla og skilja eftir sig slóð eyðileggingar. Einhverjir hafa haft orð á því síðar að kannski hafi hugmynd Jorns verið að stunda listsögulegan vandalisma – nota Vandalana til að krota á hefðbundinn listsögulegan skilning.

Listamaðurinn sem rannsakandi

Þessi listræna nálgun á hefðbundið fræðilegt svið mætti litlum skilningi á þessum tíma en virðist eiga mun betur upp á pallborðið í dag að sögn Henriks: „Nýlega hefur þetta verkefni farið að vekja athygli aftur. Þetta er eitthvað sem er við sjóndeildarhring okkar í dag og passar við hugmyndir okkar um hvað list getur verið – þessi hugmynd um að listamenn séu að rannsaka eða athuga eitthvert fyrirbæri er orðin mjög áberandi í dag. Á sama hátt og Jorn álíta margir listamenn sig þannig vera að sinna hálfgerðri rannsókn frekar en að þeir séu að reyna nálgast eitthvað ægifagurt í list sinni.“

Birta segir að í þessu hafi kannski helsti broddurinn í verkefninu falist á sínum tíma: „Mér finnst eins og hann hafi verið að gera athugasemd við hina fræðilegu aðferð til að nálgast heiminn. Þegar hann fór af stað að rannsaka var hann alltaf mjög opinn, ekki búinn að ákveða hvað hann ætlaði að skoða, hvernig hann ætlaði að nálgast það eða túlka. Hann byrjar ekki á hefðbundinn akademískan hátt með rannsóknarspurningu heldur leggur bara af stað í ferðalag, og allt sem verður á vegi hans verður hluti af rannsókninni,“ segir hún og þau Henrik taka undir þegar blaðamaður stingur upp á að þetta minni á sál-landafræði sitjúasjónistanna – en þeir voru þekktir fyrir að ráfa stefnulaust um stræti stórborga, leyfa innsæinu að leiða sig áfram í hinar ólíklegustu aðstæður og nota upplifun sína svo sem efnivið.

[[545960A838]]

Dramatískur endir

Sumrinu 1964 varði Jorn á Gotlandi, lítilli sænskri eyju í Eystrasaltinu, og tók þar fjölda mynda af kirkjum og fornmunum. Um eitt hundrað kontakt-prent frá þessari ferð eru uppistaðan í sýningunni í Listasafninu.

Ári síðar leið verkefnið undir lok. Eins og áður segir hafði hugmynd Jorns verið að gefa út 32 binda verk í samvinnu við nokkra fræðimenn og stofnanir. Fræðimennirnir voru hins vegar farnir að efast um gildi rannsóknanna og Jorn vildi alls ekki gefa eftir með hugsjónir sínar og leyfði þeim ekki að hafa mikil áhrif á verkefnið.

Í kjölfarið voru styrkir dregnir til baka og Jorn hætti við verkefnið á dramatískan hátt árið 1965. Hann lokaði stofnuninni sem átti að halda utan um myndirnar – stofnun með háfleygan og kersknislegan titil: „Hin skandinavíska stofnun um samanburðar-vandalisma.“

Jorn virðist þó hafa haldið áfram rannsóknum sínum þótt hætt hafi verið við verkefnið. Hann kom meðal annars til Íslands árið 1967 í þeim tilgangi.

Jorn á Íslandi

„Við höfum mjög litlar áreiðanlegar heimildir um hvað átti sér stað í þessari heimsókn Jorns, einungis munnmælasögur,“ segir Birta en rekur það hvernig þessi heimsfrægi myndlistarmaður bankaði eina nótt óvænt upp á hjá gömlum kunningja sínum frá Kaupmannahafnarárunum á 4. áratugnum, Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara. Þar gisti hann í þær tvær vikur sem hann dvaldi á Íslandi. „Hann hafði ekki undirbúið neitt fyrir þessa rannsóknarferð. Það þýðir þó ekki að hann vissi ekki hvað hann væri að gera, hann spann af fingrum fram, það var aðferðin hans,“ segir Birta.

Jorn hitti líka Halldór Laxness, sem hann myndskreytti bók fyrir, og dr. Selmu Jónsdóttur, þáverandi safnstjóra Listasafns Íslands. Asger ku hafa viljað tala við Selmu í tengslum við verkefnið enda fjallaði doktorsritgerð hennar um myndskurð á fjalarbútum frá Bjarnastaðahlíð, varðveittum í Þjóðminjasafni Íslands, Selma færði rök fyrir því að fjalirnar væru brot úr stórri býsanskri dómsdagsmynd sem nú er talið að hafi upprunalega verið í Hóladómkirkju.

„Það virðist vera að Selma hafi farið út með ónefndum ljósmyndara til að taka myndir fyrir Asger Jorn. En það eru ekki myndir frá Íslandi í skjalasafninu, enda hafði hann þá þegar lokað því árið 1965,“ segir Henrik og þau Birta velta fyrir sér hvernig þau geti fundið myndirnar – haft upp á ljósmyndaranum eða spurst fyrir hjá ættingjum Selmu í Borgarnesi.

Birta og Henrik segja það skemmtilegt að með þessu komi ný íslensk vídd inn í sýninguna og þannig lifi rannsóknin áfram þrátt fyrir að Jorn hafi fallið frá árið 1973, eða eins og Birta orðar það: „Það er ekki verið að setja fram neina niðurstöðu með þessari sýningu, þannig að þótt Jorn sé látinn þá heldur rannsóknin áfram. Og vonandi munu áhorfendur halda áfram með hana að einhverju leyti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 1 klukkutíma

Shoreditch í London er perla sem allir verða að heimsækja

Shoreditch í London er perla sem allir verða að heimsækja
Lífsstíll
Fyrir 1 klukkutíma

Flest sem lýtur að smíði og garðvinnu

Flest sem lýtur að smíði og garðvinnu
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Hálka á Reykjanesbraut í morgun

Hálka á Reykjanesbraut í morgun
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Rotaði einn og nefbraut líklega annan

Rotaði einn og nefbraut líklega annan
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Kennedy var veikur og kvalinn

Kennedy var veikur og kvalinn
Lífsstíll
Fyrir 4 klukkutímum

Vöruflutningar, búslóðaflutningar og aðstöðubílar fyrir kvikmyndabransann

Vöruflutningar, búslóðaflutningar og aðstöðubílar fyrir kvikmyndabransann
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

„Austur verður ekki opnaður aftur fyrr en að loknum fundi með eiganda, þar sem ég mun hafa hagsmuni starfsfólksins í fyrirrúmi“

„Austur verður ekki opnaður aftur fyrr en að loknum fundi með eiganda, þar sem ég mun hafa hagsmuni starfsfólksins í fyrirrúmi“
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Friends eru 24 ára í dag – Hver er uppáhalds þátturinn þinn?

Friends eru 24 ára í dag – Hver er uppáhalds þátturinn þinn?
433
Fyrir 16 klukkutímum

,,Við gátum ekki fengið meira fyrir Ronaldo“

,,Við gátum ekki fengið meira fyrir Ronaldo“
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

Valgeir átti þá ósk heitasta að eignast pabba – Þegar þeir hittust varð hann fyrir vonbrigðum – Síðan lágu leiðir þeirra aftur saman fyrir einskæra tilviljun

Valgeir átti þá ósk heitasta að eignast pabba – Þegar þeir hittust varð hann fyrir vonbrigðum – Síðan lágu leiðir þeirra aftur saman fyrir einskæra tilviljun