fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Hætt við umdeilt minningarverk um fjöldamorðin í Útey

Sár minninganna eftir Jonas Dahlberg ýmis sagt vera mikilvægur hluti í heilunarferli þjóðarinnar eða nauðgun náttúrunnar

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 13. júlí 2017 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórn Noregs tók þá ákvörðun á dögunum að hætta við uppsetningu minningarverks um þá sem létust í fjöldamorðinu í Útey í kjölfar kæru frá nokkrum íbúum í nágrenni eyjarinnar. Nágrannarnir hafa fagnað ákvörðuninni enda hafa þeir sagt listaverkið „Sár minninganna“ eftir sænska listamanninn Jonas Dahlberg vera „nauðgun á náttúrunni“ en aðrir telja að með ákvörðun sinni hafi stjórnvöld afneitað mikilvægi listarinnar í því að halda áfram samræðu um átakanlega atburði.

Sárið í landinu

Í kjölfar voðaverkanna var ákveðið að efna til alþjóðlegrar samkeppni um listaverk sem myndi minnast voðaverkanna 22. júlí 2011, þegar kynþáttahatarinn Anders Behring Breivik myrti 8 manns í stjórnarráðshverfinu í Osló og 69 ungmenni sem stödd voru á sumarmóti ungmennahreyfingar norska Verkamannaflokksins.

Árið 2014 var tilkynnt að sænski listamaðurinn Jonas Dahlberg hefði borið sigur úr býtum með tvíþætt listaverk sem nefnist „Sár minninganna“. Þá var fyrri hluti verksins kynntur en hann fólst í því að skera átti þriggja og hálfs metra táknrænt sár í gegnum Sørbråten-skagann sem vísar út að Útey þar sem fjöldamorðin áttu sér stað. Gestir myndu ganga eftir viðarstíg yfir skógi vaxinn skagann og í gegnum göng að annarri hlið skurðarins sem átti að endurspegla þann óbætanlega missi sem fólk hefur upplifað í kjölfar árásanna. Á gagnstæðum vegg í sári afskorna skagans væru nöfn hinna látnu skorin í steininn – nálæg en ávallt úr seilingarfjarlægð. Ekki fyrr en eftir að samningnum við Dahlberg hafði verið rift kynnti hann það sem hefði átt að vera seinni hluti verksins, en hann fólst í því að steinninn sem hefði verið tekinn úr skaganum skyldi notaður til að búa til 2.000 steinflísar sem yrðu lagðar milli tveggja bygginga í stjórnarráðshverfinu í Osló þar sem bílsprengja Breiviks sprakk.

Tæplega 20 íbúar á svæðinu í kringum Útey, sem sumir hverjir höfðu tekið þátt í björgunaraðgerðum í júlí 2011, voru ósáttir við listaverkið á Sørbråten sem þeir sögðu vera forljóta túristagildru og lýstu sem „nauðgun á náttúrunni“. Þeir sögðu verkið vera of fyrirferðarmikið og það yrði erfitt að lifa með svo dramatískum sjónrænum minnisvarða um blóðbaðið sem þeir urðu vitni að. Stjórnvöld buðust til að breyta staðsetningu verksins en það fannst íbúunum ekki nóg og kærðu framkvæmdina á þeim forsendum að hún myndi skaða landslagið og samfélagið í kring.

Vilja lágstemmdari minnisvarða

Hinn 21. júní síðastliðinn tilkynnti Jan Tore Sanner, ráðherra málefna sveitarfélaga og nútímavæðingar, að hætt væri við að reisa listaverkið og samningum slitið bæði við listamanninn og Kunst i offentlige rom (KORO), stofnunina sem sér um listaverk í opinberum rýmum í Noregi og hafði umsjón með verkefninu. Nú mun nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins velja nýtt minnismerki sem verður reist við Utøykaia þar sem Úteyjarferjan leggur úr höfn. Ráðherrann tók sérstaklega fram að minnisvarðinn skyldi vera lágstemmdur og sýna tilhlýðilega virðingu. „Við vonumst til að þetta geti verið sómasamlegur endir á þessari deilu,“ sagði Sanner.

Ýmsir listamenn og menningarvitar hafa blandað sér í umræðuna og margir gagnrýnt ákvörðun stjórnvalda. Í álitsgrein í Aftenposten sagði myndlistarmaðurinn Håkon Bleken til dæmis að þrátt fyrir að hann hefði samúð með íbúunum á svæðinu hefði ríkisstjórnin gert mikil mistök. „Í stað þess að reyna að gera grimmdarverkin að einhverju sem er samrýmanlegt við eitthvað sem kalla mætti „lágstemmt“ og sýnir tilfinningum fólks tilhlýðilega virðingu þá gerir Dahlberg það eina rétta og viðeigandi í stöðunni. Í verkinu gefur hann hryllingnum form sem hjálpar okkur að koma þessum harmleik í hreinsandi ferli og það er eina leiðin til að taka almenning alvarlega,“ skrifar Bleken og nefnir til að mynda heilandi gildi listaverka á borð við Guernica eftir Pablo Picasso.

Sænski listamaðurinn hefur unnið að listaverkinu Sár minninganna undanfarin fjögur ár.
Jonas Dahlberg Sænski listamaðurinn hefur unnið að listaverkinu Sár minninganna undanfarin fjögur ár.

Listamaðurinn sjálfur, Jonas Dahlberg, sem hefur unnið að verkefninu undanfarin fjögur ár, harmar ákvörðunina og segir að með henni séu stjórnvöld að afneita hlutverki listar og menningar í að aðstoða samfélagið í sorgar- og heilunarferlinu sem þarf að eiga sér stað eftir áfall á borð við það sem norskt samfélag varð fyrir. „Það sem listaverk hafa fram að færa er að þau geta viðhaldið samræðunni um trámatíska atburði á mjög sérstakan hátt – þetta er mín sannfæring og hefur verið leiðarljós mitt í allri vinnunni,“ segir Dahlberg við norska dagblaðið Aftenposten. „Sjónrænar listir geta leikið mjög ákveðið hlutverk í tengslum við svona atburði, atburði sem er nánast ómögulegt að skilja og erfitt að koma í orð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum
Hartman í Val
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð