fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Allt sem þú vildir vita um Feneyjatvíæringinn en þorðir ekki að spyrja um

Þekktasta myndlistarhátíð heims hefst í Feneyjum á laugardag

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 13. maí 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað er Feneyjatvíæringur?

La Biennale de Venezia, eða Feneyjatvíæringurinn, er ein elsta, stærsta og þekktasta nútímalistahátíð heims. Hún var haldin í fyrsta skipti árið 1895 með það fyrir augum að draga listunnendur til Feneyja og sýna þeim að borgin væri enn lifandi og blómleg listamiðstöð. Sýningin gekk vel og var því ákveðið að halda hana framvegis, eins og nafnið gefur til kynna, á tveggja ára fresti. Hátíðin í ár er sú fimmtugasta og sjöunda og stendur hún yfir frá 13. maí til 11. nóvember.
Í upphafi var aðeins haldin ein alþjóðleg sýning í kastalagarði borgarinnar, Giardini, en fljótlega var farið að bjóða einstaka þjóðum að senda fulltrúa sína til að taka þátt í hátíðinni. Á fyrsta áratug 20. aldarinnar hófu nokkrar þátttökuþjóðir að byggja sérstaka sýningarskála til að sýna list frá eigin landi við hlið aðalhátíðarinnar.

Í dag eru fjölmargir slíkir sýningarskálar merktir tilteknum þjóðríkjum á sýningarsvæði hátíðarinnar. Þjóðir sem eiga ekki slíka skála en vilja engu að síður taka þátt í hátíðinni finna sér sýningarhúsnæði víðs vegar um borgina. Í ár eru 87 þjóðir sem senda fulltrúa sína á hátíðina en nokkrir skálanna eru samstarfsverkefni fleiri en eins ríkis.
Í seinni tíð hefur fjöldi sýninga sem fer meðfram alþjóðlegu aðalsýningunni og þjóðarsýningunum aukist gríðarlega og nú verður ekki þverfótað fyrir fjölbreyttum listasýningum í borginni yfir sýningartímann. Þegar allt er talið saman fara fram hundruð sýninga í Feneyjum á og meðfram tvíæringnum, mörg hundruð listamenn sýna verk sín og hundruð þúsunda gesta heimsækja borgina gagngert til að virða listaverkin fyrir sér.


Af hverju er talað um hátíðina sem Ólympíuleika í listum?

Hátíðinni hefur oft verið líkt við Ólympíuleikana í myndlist enda er hún eina stóra myndlistarhátíðin þar sem þjóðir velja sér fulltrúa sem gerir list fyrir hönd landsins og einn þeirra fer með verðlaun heim með sér. Fimm manna dómnefnd sem valin er af sýningarstjóra hátíðarinnar veitir nokkrum listamönnum verðlaun strax á opnunarathöfninni. Gullljónið er veitt fyrir besta þjóðarskálann og besta listamanninn í alþjóðlegu aðalsýningunni. Silfurljónið er veitt einum listamanni undir fertugu sem tekur þátt í aðalsýningunni, auk þess sem einn listamaður hlýtur heiðursviðurkenningu hátíðarinnar, en í ár er það bandaríska listakonan Carolee Schneemann.


Hvað er aðalsýning Feneyjatvíæringsins í ár?

Mynd: Jacobo Salvi / La Biennale

Alþjóðlega sýningin í ár nefnist „Viva Arte Viva“ og fer fram á báðum aðalsýningarsvæðum hátíðarinnar, kastalagarðinum Giardini og gamla vopnabúrinu Arsenale. Sýningunni verður stýrt af Christine Macel, safnstjóra nútímalistadeildar Pompidou-safnsins í París.

Hún hefur sagt að sýningin muni fjalla um listina og hlutverk listamannsins í dag. Hún sé hönnuð með listamönnunum, fyrir listamennina og af listamönnunum. Sýningunni verður skipt upp í níu skála, eða „kafla“, og mun hver þeirra snúast um ákveðin þemu, þarna verður skáli gleði og ótta, skáli jarðarinnar, skáli tíma og eilífðar og svo framvegis.

Meðal þeirra 120 listamanna sem eiga verk á sýningunni er Ólafur Elíasson sem mun setja upp vinnustofu og skapa vettvang fyrir innflytjendur til að búa til hluti, meðal annars sérstaka lampa úr endurunnum efnum. Aðrir þekktir eða efnilegir listamenn sem munu eiga verk á sýningunni eru meðal annars Bas Jan Ader, Franz West, Rachel Rose, Dawn Kasper og Kader Attia, Philippe Parreno, Anri Sala, Edi Rama, Frances Stark, Alicja Kwade, Kiki Smith og kvikmyndagerðarmaðurinn John Waters.


Hvenær sendi Ísland fulltrúa í fyrsta skipti?

Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins 2015 var hin umdeilda innsetning Fyrsta moskan í Feneyjum eftir Christoph Büchel. Alla umfjöllun DV um listaverkið má finna á http://www.dv.is/frettamal/feneyjartviaeringurinn-2015
Íslendingar sendu út Mosku Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins 2015 var hin umdeilda innsetning Fyrsta moskan í Feneyjum eftir Christoph Büchel. Alla umfjöllun DV um listaverkið má finna á http://www.dv.is/frettamal/feneyjartviaeringurinn-2015

Ísland tók fyrst þátt árið 1960 en þá fóru Jóhannes Sveinsson Kjarval og Ásmundur Sveinsson og sýndu fyrir hönd Íslands. Það var ekki fyrr en tólf árum seinna sem Íslendingar sendu aftur fulltrúa þegar Svavar Guðnason og Þorvaldur Skúlason sýndu. Sigurður Guðmundsson sýndi á Feneyjatvíæringum áranna 1976 og 1978 en í hvorugt skipti sem opinber fulltrúi fyrir Íslands hönd. Síðan þá hafa eftirfarandi listamenn sýnt á hátíðinni sem opinberir fulltrúar Íslands: Magnús Pálsson (1980), Jón Gunnar Árnason, Kristján Guðmundsson (1982), Kristján Davíðsson (1984) Erró (1986) Gunnar Örn (1988), Helgi Þorgils Friðjónsson (1990), Birgir Andrésson (1995), Steina Vasulka (1997), Sigurður Árni Sigurðsson (1999), Finnbogi Pétursson (2001), Rúrí (2003), Gabríela Friðriksdóttir (2005), Steingrímur Eyfjörð (2007), Ragnar Kjartansson (2009), Libia Castro og Ólafur Ólafsson (2011), Katrín Sigurðardóttir (2013) og Christoph Büchel (2015).


Hver tekur þátt fyrir hönd Íslands í ár?

Listamaðurinn Egill Sæbjörnsson sýnir í þjóðarskála Íslands í ár. Hin þýska Stephanie Böttcher, sem er safnstjóri listasafnsins Kunsthalle Mainz, verður sýningarstjóri íslenska skálans.

Verkefni Egils var valið úr tuttugu og níu tillögum sem sendar voru til Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar í vor, en þrjár þeirra komust í aðra umferð þar sem þær voru unnar áfram. Að lokum var verkefni Egils og Stephanie valið til þátttöku.

Egill hefur reyndar lýst því yfir að það verði ekki hann sjálfur heldur tröllin Ūgh og Bõögâr sem muni skapa listaverk og sýna í íslenska skálanum.


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hver er Egill Sæbjörnsson?

Egill Sæbjörnsson er fæddur árið 1973 í Reykjavík, byrjaði að sýna list sína opinberlega á fyrri hluta tíunda áratugarins. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann og háskólann í París – St.Denis. Frá árinu 1998 hefur hann verið búsettur í Berlín en haldið einkasýningar og sýnt verk sín víða um heim.

Egill hefur fengist við myndlist, gjörningalist og gert myndbandsinnsetningar, auk þess að njóta töluverðra vinsælda fyrir tónlist sína, sem hefur toppað íslenska vinsældalista og fengið góða spilun erlendis. Það sem einkennir listaverk Egils er oftar en ekki mikill leikur og spaugsöm uppátektarsemi, þar sem hinum ólíkum miðlum er blandað saman til að búa til líf og skemmtun í annars líflausum hlutum.

Lestu meira um Egil Sæbjörnsson.


Hvað ætlar Egill Sæbjörnsson að sýna í Feneyjum?

Egill hefur lýst því yfir að það verði ekki hann sjálfur heldur tvær þrjátíu og sex metra háar tröllskessur, Ūgh og Bõögâr, sem muni skapa listaverk og sýna í íslenska skálanum sem verður staðsettur í Spazio Punch á eyjunni Giudecca, syðst í borginni. Sýningin nefnist Out of controll og gefur orðaleikurinn einmitt til kynna að það séu tröllin sem sitji nú við stjórnvölinn. Með þessu má segja að Egill haldi áfram með þá óformlegu hefð að fulltrúar Íslands fáist á einn eða annan hátt við íslenska þjóðarímynd, náttúru eða menningararf.

Skálinn verður ekki opnaður fyrr en á laugardag en samkvæmt nýlegri tilkynningu munu tröllin meðal annars gefa út 13 laga plötu, gera ilmvatn sem er unnið í samvinnu við ilmvatnsgerðarmanninn Geza Schön, hanna fatalínu í samstarfi við fatahönnuðinn Eygló, auk þess sem þau munu sýna hina ýmsu skúlptúra, bæði stóra og smáa og úr ýmsum efnum, í skálanum.

Undanfarnar vikur hafa tröllin verið sérstaklega virk á internetinu og nýtt sér samfélagsmiðla til að skrásetja sköpun sína. Þau eru bæði með Facebook- og Instagram-reikninga, þau hafa birst í internetbók með teikningum Egils Sæbjörnssonar, í stuttum myndbrotum á Youtube, þar sem þau eru teiknuð inn á myndbönd frá Feneyjum, þau hafa gefið út lag á Soundcloud, birst á barmmerkjum og taupokum, og þá hafa þau stofnað Karolina fund-síðu til að safna fyrir ilmvatnsgerðinni.


Hvað annað er þess virði að sjá á Feneyjatvíæringnum í ár?

Phyllida Barlow sýnir innsetningar og listaverk í breska skálanum
Breski skálinn Phyllida Barlow sýnir innsetningar og listaverk í breska skálanum

Mynd: EPA

Það eru hundruð ólíkra sýninga sem fara fram í Feneyjum á sýningartímanum og mörg hundruð listamenn sem taka þátt. Það fer því allt eftir smekk hvers og eins. Góð leið til að finna það áhugaverða er að spyrja sérfræðingana.

Listafréttasíðan Artnet nefnir til dæmis breska skálann, þar sem hin 73 ára listakona Phyllida Barlow sýnir, þýska skálann þar sem hin rísandi stjarna Anne Imhof sýnir, japanska skálann þar sem Takahiro Iwasaki sýnir verkið „Turned upside down, It‘s a forest,“ svissenska skálann þar sem sýnd eru verk eftir Teresa Hubbard, Alexander Birchler, and Carol Bove, ítalska skálann sem er stýrt af sýningarstjóranum Cecilia Alemani, skála Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem er stýrt af Hammad Nasar og nígeríska skálann – en þetta er í fyrsta skipti sem landið tekur þátt í hátíðinni.

fyrir framan eitt verka sinni í bandaríska skálanum
Mark Bradford fyrir framan eitt verka sinni í bandaríska skálanum

Mynd: EPA

Í sinni úttekt nefnir The Art Newspaper meðal annars bandaríska skálann þar sem sýning Marks Bradford, „Tomorrow is another day“, fer fram, franska skálann þar sem Xavier Veilhan sýnir, íraska skálann þar sem nútímalistaverk verða sett við hlið ævafornra íraskra menningarminja, rúmenska skálann þar sem hin 91 árs gamla Geta Bratescu sýnir gömul og ný verk, taívanska skálann þar sem sýndar verða heimildir um gjörningaverk Teching Hsieh, tyrkneska skálann þar sem sýnd veða verk eftir Cevdet Erek og sýrlenska skálann þar sem áhersla er lögð á hina fornu borg Palmyra sem liðsmenn ISIS hafa lagt í rúst á undanförnum árum.

Hin sænska Nina Canell Bruskin sýnir þetta verk í norræna skálanum í Giardini.
Innsetning Hin sænska Nina Canell Bruskin sýnir þetta verk í norræna skálanum í Giardini.

Mynd: EPA

Sú hliðarsýning sem er strax orðin hvað umtöluðust er sýningin Treasure from the wreck Incredible, nýjasta sýning eins þekktasta listamanns heims, Bretans Damien Hirst. Í sýningunni, sem fer fram í Palazzo Grassi, er uppdiktaður ævintýraheimur og sýndar eru „fornar“ styttur og listaverk sem sögð eru hafa legið á hafsbotni í þúsundir ára. Meðal annars 18 metra há stytta af hauslausum demón. Sýningin fær ýmist fullt hús stiga eða er gjörsamlega slátrað af gagnrýnendum.

Að lokum má benda á að myndlistar- og gjörningalistamaðurinn Styrmir Örn Guðmundsson mun koma fram í litháska skálanum á föstudag, en það er þó listamaðurinn Žilvinas Landzbergas sem er fulltrúi Litháen. Styrmir kveðst ætla að standa fyrir rappgjörningnum „What Am I Doing With My Life?“ með aðstoð Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur, Indriða Arnar Ingólfssonar og Jokūbas Čižikas.

Einn þekktasti myndlistarmaður heims, Damien Hirst, opnaði sýninguna Treasure from the wreck Incredible í byrjun apríl.
Umtöluð hliðarsýning Einn þekktasti myndlistarmaður heims, Damien Hirst, opnaði sýninguna Treasure from the wreck Incredible í byrjun apríl.

Mynd: Andrea Merola / EPA

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni
Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?