Á bak við málverkið

Ólafur Lárusson (1951–2014) hefur verið nokkurs konar huldumaður í íslenskri nútímalistasögu – Einlægni, fífldirfska og fegurðarþrá

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 26. apríl 2017 19:00

„Það er í raun ótrúlegt hvað þessi verk Ólafs Lárussonar eiga enn vel við í dag, fjörtíu árum seinna. Konseptið er alltaf svo tært, einfalt og skýrt, það getur gefið manni hálfgert rothögg. Þarna skín í gegn ákveðin einlægni og jafnvel fífldirfska, þar sem hlutirnir eru ekki hugsaðir í þaula heldur er treyst á að þeir falli í rétta röð. Ég held að fólk tengi alltaf við þessa frelsiseiginleika og það skapi ákveðið tímaleysi í verkunum,“ segir Þorgerður Ólafsdóttir, annar sýningarstjóri sýningar á verkum Ólafs í Nýlistasafninu og ritstjóri veglegrar bókar sem kemur út samhliða sýningunni.

Nafn Ólafs hefur ekki orðið þekkt meðal íslensks almennings en verk hans og persóna hafa öðlast goðsagnakenndan blæ í myndlistarheiminum. Rolling Line sem nú stendur yfir í Nýlistasafninu er fyrsta sýningin á verkum Ólafs þar sem verk listamannsins eru tekin í minni yfirlitssýningu sem tekur til áranna 1973 til 1981.

Síðasti SÚMarinn

Ólafur Óskar Lárusson var fæddur árið 1951 á Selfossi og ólst upp að mestu í Austur-Meðalholti í Flóahreppi. Hann fór í Myndlistar- og handíðaskólann tvítugur að aldri og var þar í kraftmiklum og óstýrilátum árgangi með mörgum listamönnum sem enn eru starfandi í dag, til dæmis Rúrí, Þór Vigfússyni, Helga Þorgils Friðjónssyni, Rúnu Þorkelsdóttur og fleirum.

„Hann tilheyrir þessari kynslóð en var þó örlítið eldri en sumir samnemendur sínir. Þegar hann byrjaði í skólanum þótti hann mjög fullorðinn, var orðinn tvítugur og kominn með konu og barn. Hann var í MHÍ í þrjú ár, en á þeim tíma var ekki mikill skilningur á samtímalist í skólanum nema frá Herði Ágústssyni, þáverandi skólastjóra,“ segir Þorgerður og bendir á að Ólafur hafi kannski ekki orðið fyrir síðri áhrifum utan skólans.

„Óli ólst hálfpartinn upp utan í SÚM. Hann er unglingur þegar stólparnir í þeim hóp eru að gera sín helstu verk. Hann var einn af þeim síðustu sem voru teknir inn í SÚM og hann virðist hafa verið mjög hreykinn af því – eins og hann væri síðasti móhíkaninn.

Hann sagði sig úr Myndlistar- og handíðaskólanum 1974 ásamt bekkjarfélögum sínum Rúrí og Þór. Þeim fannst þau ekki vera að læra neitt og þetta væri bara tíma- og peningasóun. Þarna var hart tekist á og höfðu stjórnendur skólans meðal annars uppi hótanir um að reka Jón Gunnar Árnason og Ragnar Kjartansson úr kennaraliðinu því þeir voru sagðir hafa spillt þessum nemendum. Eftir að þau hættu fóru þau flest til Amsterdam í Hollandi en þar komst Óli inn í Atelier 63 í Haarlem. Hann er einn af örfáum nemendum sem eru teknir inn í þennan rosalega flotta skóla. Hann er þar í tvö ár og kynnist listamönnum á borð við Ger Van Elk og Jan Dibbets.“

Eftir að hann kom heim fékk hann kennslustarf við nýstofnaða Nýlistadeild Myndlistar- og handíðaskólans og hann tók þátt í stofnun Nýlistasafnsins árið 1978 en formlegur stofnfundur fór raunar fram í rúmgóðri vinnustofu hans í Mjölnisholti.

Þorgerður Ólafsdóttir og Becky Forsythe við eitt af verkum Ólafs á sýningunni Rolling Line í Nýlistasafninu.
Sýningarstjórarnir Þorgerður Ólafsdóttir og Becky Forsythe við eitt af verkum Ólafs á sýningunni Rolling Line í Nýlistasafninu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Expressjónískur kríuskítur

Verkin á sýningunni Rolling Line eru frá námsárum og fyrstu árunum á listamannsferli Ólafs, eða frá 1973 til 1981. Í langflestum verkanna vinnur Ólafur með ljósmyndamiðilinn og er listamaðurinn sjálfur oft í aðalhlutverki í svarthvítum myndunum.

„Sumir hafa haft orð á því að Óli hafi kannski verið að gera svolítið keimlíka hluti og Sigurður Guðmundsson og Hreinn Friðfinnsson, sem fengu hann einmitt oft til að taka ljósmyndir fyrir sig. En þegar maður hefur öll þessi verk frá áttunda áratugnum fyrir framan sig sér maður hins vegar að áhrifin hafa að öllum líkindum verið í báðar áttir.

Hann var ofboðslega sterk og kraftmikil rödd einmitt á þessum tíma þegar hugmyndalistin og gjörningurinn voru að vaxa og verða viðurkenndir miðlar innan listheimsins. Eitt sem einkennir þennan tíma er mikill núningur á milli miðla og það er eins og Óli hafi lagt kapp sitt við að „sigra miðilinn“. Þetta er frekar áberandi í mörgum verka hans. Hann var augljóslega mikill málari í eðli sínu og hafði mjög sterkar taugar til málverksins en reyndi stöðugt að sporna gegn því. Hann vildi alls ekki gangast við því á þessum tíma að vera að mála – það þótti ekki kúl. Á sýningunni sést hvað hann var mikið að pæla í málverkinu og var stöðugt að reyna að finna leiðir til að nota málninguna og önnur efni á nýjan expressjónískan og abstrakt hátt.“

Þetta sést til dæmis skýrt í verkinu sem er gjarnan kallað „Kríuskítur“ en í því strengir Ólafur léreftsdúk á jörðina á túnfleti í Flatey, og skilur eftir í einn og hálfan mánuð. Hann lætur náttúruna þannig mála ótruflaða á strigann. Kríuskíturinn sem lendir á striganum minnir allra helst á abstrakt expressjónískt málverk frá árunum eftir seinna stríð.
„Þarna lætur hann náttúruna bara mála eins og Jackson Pollock – en Óli var mjög hrifinn af honum, kúrekanum frá Wyoming.“

Ágengir gjörningar og performatíf málverk

Eins og hjá Pollock var það ekki síður sú athöfn að mála sem skipti máli en sjálf niðurstaðan, og frekar en að fela hann beitir Ólafur ýmsum brögðum til að draga athyglina að gjörningnum sem liggur að baki málverkinu. Í verkaröð sem nefnist Cul-de-sac blandar hann til að mynda saman skrásetningu á sjálfum gjörningnum – það er ljósmyndum af listamanninum að mála – og niðurstöðu gjörningsins í formi málverks. Þetta leggur hann ofan á hvert annað og skeytir saman í eitt tvívítt verk, bæði expressjónískt og konseptúal, verk sem er allt í senn málverk, ljósmynd og gjörningur.

Gjörningalistformið varð æ meira áberandi í íslenskum listheimi og á áttunda áratugnum var formið loks að öðlast viðurkenningu víðar í samfélaginu. Árið 1980 varð Ólafur fyrstur til að taka upp og sýna gjörning í Ríkisútvarpinu þegar hann vann útfærslu á gjörningnum Regnbogi I sem hann hafði fyrst framið í Gallerí SÚM tveimur árum áður, en myndband af upphaflega gjörningnum er á sýningunni í Nýló.

„Gjörninginn fór fram í Gallerí SÚM árið 1978 en þar hafði Ólafur málað gler í öllum regnbogans litum og braut síðan hvert á eftir öðru með höfðinu. Margir töluðu um hvað þeir væru smeykir um að hann myndi hreinlega skera sig á háls með þessu. Þetta varð því svolítið sögufrægur gjörningur sem stigmagnaðist í frásögnum manna í millum. Því miður er bara til svarthvít upptaka af þessum gjörningi.“

Gjörningar Ólafs voru oftar en ekki líkamlegir og óvægnir en þó uppfullir af rómantík og fölskvalausri fegurðarþrá. Þótt Ólafur hafi kannski ekki verið frumkvöðull á sviði gjörningalistarinnar segir Þorgerður að hann hafi eflaust haft umtalsverð áhrif á það hvernig íslenskir listamenn hugsuðu um skrásetningu á tímatengdum miðlum. „Hann var mjög tæknilega klár, bæði á myndavél og filmu. Hann tók mikið af ljósmyndum en hann var jafnvel fyrsti íslenski listamaðurinn til að nota myndbandsupptöku til að skrásetja verk og sýna.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Huldumaður í íslenskri nútímalistasögu

Þegar leið á níunda áratuginn fór Ólafur að mála í sífellt meira mæli og hætti nánast að taka ljósmyndir. Þorgerður segir að þá verði mikil vatnaskil í listsköpun hans.

„Við sáum að það væri eiginlega ómögulegt að halda yfirlitssýningu með verkum frá öllum ferlinum því hann tekur hálfgerða U-beygju og fer alla leið inn í málverkið. Hann byrjaði að mála meira á ljósmyndir sem hann stækkaði upp. Hann fer að gera ýmsar tilraunir í myrkraherberginu, þar sem hann vinnur með sprey og annað. Þetta er fígúratífara og flippaðra en það sem hann gerði í upphafi ferilsins, meiri afskræming og makerí. Það kemur svolítið annar tónn í verkin, meiri agressjón. Ég heyrði því fleygt fram einhvers staðar að „nýja-málverkið“ eigi að hafa eyðilagt Ólaf, en maður sér samt að þessir tendensar voru strax til staðar og mjög sterkir í mörgum fyrri verka hans. Síðla 10. áratugarins vann hann mikið með innsetningar úr gaddavír og smjöri og svo bárujárni og torfi. Hann vildi greinilega vera í takt í samtímann og þetta virðast hafa verið hans lausnir á þeim listastefnum sem voru í gangi á þeim tíma.“

Ólafur hefur verið þekktur meðal myndlistaráhugamanna af hans eigin kynslóð en virðist hafa fallið í svolitla gleymsku, að minnsta kosti miðað við marga af samferðamönnum hans í listinni. Af hverju heldur þú að Ólafur hafi ekki orðið sérstaklega þekkt nafn meðal almennings á Íslandi?

„Ég held að það séu margar ástæður fyrir því að hann er ekki þekktari en raun ber vitni. Ein ástæðan er sú að verkin eru öll einstök, það eru ekkert upplag eða 50 eintök af einni ljósmynd eins og maður sér gjarnan, þetta eru allt „originalar.“ Þetta eru því ekki mörg verk og hefur varla verið neinn möguleiki fyrir safnara að eignast þau. Önnur ástæða er sú að í seinni tíð fór hann að gera erfið verk, ögrandi og oft óþægileg. Kannski hafa ákveðnir einstaklingar innan listheimsins líka viljað forðast hann og „erfiðu verkin.“ Annað er að hugmyndin um listamanninn sem bóhem var ennþá mjög ráðandi þegar Óli var að byrja og hann hefur kannski viljað halda þeirri hugmynd uppi – en svo varð hann hægari með árunum og gerði færri og færri verk. Síðasta áratuginn glímdi hann svo við erfið veikindi,“ segir Þorgerður.

„En hann hafði greinilega mikil áhrif á marga jafnaldra sína, ég hef heyrt marga tala um að Óli hafi kveikt áhuga á myndlist hjá þeim. Á opnun sýningarinnar heyrði maður til dæmis margar ástarjátningar frá fólki sem hafði fylgst með honum. Sögurnar af honum og gjörningum hafa svo lifað áfram. Til dæmis mætti Ragnar Kjartansson himinlifandi á sýninguna og sagðist loksins vera að sjá verkin eftir „Óla Legend“ sem hann hafði svo oft heyrt talað um þegar hann var í Listaháskólanum. Tíu árum seinna útskrifaðist minn árgangur úr LHÍ án þess að hafa heyrt Óla nefndan einu sinni á nafn. Sagan á það til að taka einsleita stefnu ef henni er ekki haldið við og það gleður okkur mikið að fleiri fái núna að kynnast Ólafi Lárussyni.“

Rolling Line stendur yfir í Nýlistasafninu á annarri hæð Marshall-húsins til 21. maí næstkomandi. Vegleg bók kemur út samhliða sýningunni en þar eru meðal annars textar eftir Halldór Björn Runólfsson, Becky Forsythe og Þorgerði Ólafsdóttur, brot úr viðtölum við Ólaf og marga vini hans og samstarfsmenn.

Kristján Guðjónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 13 klukkutímum

Lovren kallaði Spánverja aumingja – Stjórinn ætlar að ræða við hann

Lovren kallaði Spánverja aumingja – Stjórinn ætlar að ræða við hann
Fyrir 13 klukkutímum

Fangi í Fossvogi

Fangi í Fossvogi
433
Fyrir 14 klukkutímum

Tobias Thomsen aftur í KR?

Tobias Thomsen aftur í KR?
Eyjan
Fyrir 15 klukkutímum

Krafan um að erlenda vinnuaflið tali íslensku – er það innifalið í kaupinu?

Krafan um að erlenda vinnuaflið tali íslensku – er það innifalið í kaupinu?
433
Fyrir 15 klukkutímum

Sár því hann fær ekki að mæta Ronaldo í kvöld

Sár því hann fær ekki að mæta Ronaldo í kvöld
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum
Veiparar Íslands
Eyjan
Fyrir 15 klukkutímum

Sigurður Ingi segir að ríkisstjórnarsamstarfið byggi á samvinnu og trausti – Markmiðið að koma Íslandi í fremstu röð á sem flestum sviðum

Sigurður Ingi segir að ríkisstjórnarsamstarfið byggi á samvinnu og trausti – Markmiðið að koma Íslandi í fremstu röð á sem flestum sviðum
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Hversu lengi á maður að vera í sömu vinnunni?

Hversu lengi á maður að vera í sömu vinnunni?
Eyjan
Fyrir 17 klukkutímum

Sem örþjóð verðum að snúa bökum saman og takast á við þau erfiðu og alvarlegu vandamál sem blasa við

Sem örþjóð verðum að snúa bökum saman og takast á við þau erfiðu og alvarlegu vandamál sem blasa við
Matur
Fyrir 18 klukkutímum

Epískur nachos-réttur sem bjargar helginni

Epískur nachos-réttur sem bjargar helginni