fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024

Myndlistargagnrýni í krísu

Listfræðingar og fjölmiðlafólk ræða um stöðu myndlistargagnrýni á Íslandi í dag

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 2. apríl 2017 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Deilt var um stöðu myndlistargagnrýni á Íslandi í dag á málþingi í Listasafni Íslands á dögunum, en bæði listfræðingar og fjölmiðlafólk tók þátt í málþinginu sem haldið var í tengslum við sýningu á verkum Valtýs Péturssonar. Hann starfaði um árabil sem myndlistargagnrýnandi á Morgunblaðinu og var yfirskrift málþingsins vísun í orð hans: „Til að skrifa gagnrýni þarf visst hugrekki.“

Að gagnrýna er flóknara en áður

Jón B.K. Ransu, myndlistarmaður og fyrrverandi myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, flutti erindi um Valtý Pétursson sem myndlistargagnrýnanda.

Jón sagði að á þeim 36 árum sem Valtýr skrifaði í Morgunblaðið hafi íslensk myndlist tekið stakkaskiptum, farið í gegnum fjögur skeið þar sem forsendur listarinnar gjörbreyttust: landslagsmálverkið, abstraktmálverkið, hugmyndalistina og nýja málverkið. Þrátt fyrir að íslensk myndlist hafi þróast hafi Valtýr alltaf horft á hana og gagnrýnt með augum módernistans. Hann hreinlega viðurkenndi að skilja ekki hvað hugmyndalistin gekk út á og þegar hann gagnrýndi listamenn sem fengust við nýja málverkið gerði hann það á forsendum módernismans, gagnrýndi liti, form og efnistök – nálgun sem hentaði illa nýja málverkinu.

Jón velti fyrir sér hvort gagnrýnendur sem starfa lengi geti yfirhöfuð endurnýjað sig þegar allt aðrar forsendur eru komnar inn í listina. Hann segir forsendur listarinnar hafa breyst svo mikið á undanförnum áratugum að hefðbundin gagnrýni með smekksdómum eigi ekki endilega lengur við. Neikvæðir dómar um myndlist birtist enda varla nema í raunveruleikasjónvarpsþáttum í anda American Idol. Jón segir gagnrýnina geta haft fleiri hlutverk en að fella dóm um verkið út frá smekk gagnrýnanda. Gagnrýnandinn miðlar því sem hann telur skipta máli fyrir samfélagið og menninguna í listaverkinu eða reynir að „upplýsa lesendur um listir, kenna orðaforða og hugtök til að hjálpa þeim að ræða um listaverk,“ en þetta taldi Valtýr Pétursson vera hlutverk gagnrýnandans.

Jón sagði umfjöllun geta gegnt ákveðnu hlutverki á sístækkandi sviði menningarviðburða, það að álíta verk nógu áhugavert til að fjallað sé um það sé dómur í sjálfu sér. Jón sagði enn fremur að líkami listarinnar væri stöðugt að stækka, það er að svið þess leyfilega í myndlist breikkar sífellt, og gerir starf gagnrýnandans margþættara og erfiðara. Nú þurfi fyrst og fremst að takast á við efnistökin en ekki sé lengur hægt að nálgast myndlistina eins og leiklist eða klassíska tónlist þar sem hægt er að leggja mat á flutninginn, hvort hann heppnist eða ekki.

Listin líður áfram í átakalausri lognmollu

Í erindi sínu fjallaði Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur um reynslu sína sem myndlistargagnrýnandi. Hann sagði að þegar hann byrjaði að skrifa gagnrýni fyrir Dagblaðið Vísi sumarið 1974 hafi hann einsett sér að skrifa ekki myndlistarrýni eins og Valtýr Pétursson. Hann segist enn vera þeirrar skoðunar að umsagnir Valtýs rísi sjaldan yfir almennt og hversdagslegt rabb og álitsgjöf hans sé sjaldnast studd öðru en því sem honum sjálfum finnst. Dómar hans hafi verið uppfullir af setningum á borð við: „Myndir númer 7 og 11 þóttu mér sýnu bestar.“

Sjálfur sagðist Aðalsteinn álíta að gagnrýnandinn standi aðeins frammi fyrir tveimur spurningum þegar hann fjalli um myndlist. Annars vegar, hvernig kemst myndlistarmaðurinn að þeirri niðurstöðu sem blasir við í verkunum, og hins vegar, hversu marktæk er þessi niðurstaða? Hann segir mat á gæðum verksins spinnist út frá síðari spurningunni en þá nægi hins vegar ekki bara að segja að niðurstaðan sé „áhugaverð“ eins og Valtýr gerði oftar en ekki.

Aðalsteinn sagði frá því að þegar hann byrjaði að skrifa gagnrýni hafi skrifin verið ágætis búbót, tvær greinar á viku hafi skilað sér í hálfum mánaðarlaunum blaðamanns. En það sem hafi helst gert listgagnrýnanda erfitt fyrir á þessum tíma hafi annars vegar verið skortur á upplýsingum, sem gerði honum oft erfitt um vik að setja listamenn í samhengi og meta frumleika þeirra, og hins vegar kunningjasamfélagið sem reyndi á siðferðisþrek gagnrýnandans.

Hann sagði enn fremur erfitt að ræða um myndlistargagnrýni á Íslandi í dag, það er „upplýsta greiningu og mat þar til bærra og óháðra aðila á því sem á sér stað í sýningarsölum og -söfnum,“ enda fyrirfyndist hún ekki lengur á Íslandi. „Á Íslandi tíðkast ekki lengur að hafa skoðanir á myndlist, því líður hún áfram í átakalausri lognmollu,“ sagði Aðalsteinn og vildi meina að ástandið væri fordæmalaust. Fyrir 30 árum hafi birst reglulegar umsagnir um myndlist í fimm dagblöðum, en gagnrýnin umræða virtist nú vera að víkja fyrir einu allsherjar „like“-kerfi, enda væri mikið af almennri umfjöllun um myndlist í fjölmiðlum: kynningar, fréttatilkynningar, viðtöl, fréttir og frásagnir. Hann sagðist telja að leiklist, bókmenntir, sígild og popptónlist og jafnvel listdans byggju við betra ástand en myndlistin í dag. Hann segist raunar undrast langlundargeð myndlistarmanna, listfræðinga og safnanna við þessum ófremdarástandi.

Markaðurinn tekur yfir hlutverk gagnrýnandans

Magnús Gestsson listfræðingur sagði að frá tímum impressjónismans hafi samband galleristans og gagnrýnandans verið helsti valdaöxullinn í myndlistarheiminum og þeir unnið að því að koma listinni á framfæri. Gagnrýnin hafi hins vegar átt undir högg að sækja frá níunda áratugnum. Á valdatíma Margrétar Thatcher sem forsætisráðherra Bretlands hafi einkavæðing átt sér stað í breska listheiminum og vægi peningamanna þar með aukist á kostnað gagnrýnandans, hvers völd væru lítil nema þá helst ef hann gæfi virkilega neikvæða dóma – og vekti þar með áhuga fólks á listamanninum.

Magnús gaf örlitla innsýn í stöðu gagnrýninnar í dönsku myndlistarsamfélagi, og sagði einungis einn myndlistargagnrýnanda vera í fullu starfi á dönsku dagblaði. Í stað gagnrýni væru skrifaðar stuttar og þægilegar yfirborðskenndar greinar, stjörnuviðtöl við listamenn og annað slíkt í danska fjölmiðla.

Magnús Gestsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Magnús Guðmundsson, Helga Óskarsdóttir, Einar Falur Ingólfsson, Þröstur Helgason og Jón B.K. Ransu.
Staða myndlistargagnrýni til umræðu Magnús Gestsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Magnús Guðmundsson, Helga Óskarsdóttir, Einar Falur Ingólfsson, Þröstur Helgason og Jón B.K. Ransu.

Með gagnrýni eignumst við tungumál

Helga Óskarsdóttir, myndlistarkona og ritstjóri vefmiðlsins Artzine, segist hafa stofnað miðilinn til að bregðast við skorti á myndlistarumfjöllun. Hún sagði að þótt það væri fallegt hvað netið stæði öllum opið og hver sem hefð orkuna og áhugann gæti tekið þátt í umræðunni þá væri ennþá mikilvægt að rýnt væri í listina í hefðbundnum fjölmiðlum. „Ef myndlistin fær ekki rými í fjölmiðlum þá hættir hún að vera raunveruleg og mikilvægi hennar gagnvart samfélaginu verður ekki jafn áþreifanlegt. En á meðan fjölmiðlar sýna myndlistinni svo lítinn áhuga getum við unnið með hinn anarkíska miðil fólksins, netið,“ sagði hún.

Hún talaði um reynslu sína sem listamaður. Á þeim árum sem hún var að stíga sín fyrstu skref hafi verið fjallað um nánast hverja einustu myndlistarsýningu. Hún sagði það hafa haft mikið gildi fyrir hana að fá faglega gagnrýni um sína fyrstu einkasýningu, þar sem verk hennar voru sett í samhengi við listasöguna og eldri erlenda listamenn. Hún lagði einnig áherslu á að gagnrýni hafi átt þátt í því að almenningur og listamenn sjálfir eignuðust tungumál til að tala um listina.

Fjölmiðlar eru á hausnum

Einar Falur Ingólfsson, ljósmyndari og umsjónarmaður menningarefnis Morgunblaðsins, sagði myndina vissulega vera dökka en þó alls ekki jafn svarta og fyrri ræðumenn hefðu viljað vera láta. Í Morgunblaðinu þann daginn væri til dæmis heil opna um myndlist, með bæði gagnrýni og umfjöllun. Hann sagði að kvótinn af myndlistargagnrýni hefði haldist sá sami í blaðinu frá hruni, þrír til fjórir dómar í mánuði. Hann viðurkenndi að það væri ekki mikið ef miðað væri við fyrri tíma, til dæmis í kringum 1990, þegar skrifað var um allar sýningar, allar útgefnar bækur og alla klassíska tónleika. Hann benti á að í dag teldi menningardeild Morgunblaðsins aðeins fjóra fasta starfsmenn – á meðan þeir hafi verið níu fyrir hrun. Engu að síður prentaði blaðið 28 til 30 menningarsíður á viku.

Þrátt fyrir að hann áliti gagnrýnandann mikilvægan í þróun og gerjun frá grasrót og til hinna virtu og viðurkenndu, lagði Einar Falur áherslu á að gagnrýni í fjölmiðlum væri ekki fyrir listamennina sjálfa heldur fyrir hinn almenna fjölmiðlaneytanda. Hlutverk dagblaðagagnrýni væri að veita almennum lesendum upplýsingar, benda á það sem er áhugavert, veita upplýsingar og greina. En þeir sem skrifa í fagtímarit – það sem hann kallaði „fámiðla“ – gætu hins vegar leyft sér að fara dýpra í umfjöllun sinni sem væri hugsuð fyrir fagfólk í greininni. Þessi tveir heimar væru hins vegar mögulega að sigla lengra í burtu hvor frá öðrum í samtímanum.

Einar sagði að þegar allt kæmi til alls væri það slæm staða fjölmiðla sem væri ástæðan fyrir minni myndlistargagnrýni, allir fjölmiðlar væru á hausnum og það væri hreinlega ekki til peningur fyrir gagnrýni. Hann lagði áherslu á að gagnrýni kosti pening og ef við vildum viðhalda slíkri umræðu yrðum við að borga fyrir hana. Hann sagði ástandið vera álíka dökkt annars staðar í heiminum, til dæmis þekkti hann það hversu erfitt væri að fá umfjöllun um listasýningar á landsbyggðinni í Danmörku enda væru þarlendir fjölmiðlar hættir að borga ferðakostnað fyrir gagnrýnendur.

Að lokum sagðist hann undrast hvað það gengi illa að fá gagnrýnendur til starfa, þrátt fyrir að fjöldi ungs fólks væri útskrifaður úr listfræðilegum námsbrautum úr háskólum og listaháskólum á Íslandi.

Gjá milli myndlistar og almennings

Magnús Guðmundsson, menningarritstjóri Fréttablaðsins, gekkst við því að Fréttablaðið hafi ekki staðið sig sem skyldi í umfjöllun um myndlist á undanförnum árum en sagði að í vetur hafi í fyrsta skipti tekist að koma á myndlistargagnrýni í blaðinu. Hann sagði að hvatningin úr myndlistarheiminum hafi hins vegar ekki verið mikil, viðbrögðin við gagnrýninni hafi verið lítil sem engin.

Eins og Einar Falur lagði hann áherslu á að gagnrýni í fjölmiðlum væri hugsuð fyrir almenna lesendur þótt hún gæti vissulega komið fagfólkinu að einhverju gagni og ætti að geta kveikt umræður. Hann sagði reynslu sína af listrýni hins vegar sýna að það síðastnefnda væri sjaldnast raunin, jákvæðum dómum sé jú dreift á samfélagsmiðlum eða þeir notaðir í auglýsingum en án þess að þeir leiði til nokkurrar umræðu. Neikvæðir dómar skrifaðir af fagmennsku veki svo enn minni eftirtekt. Undantekning séu aðeins þeir dómar sem eru uppfullir af gífuryrðum og persónulegum árásum – slíkir dómar veki athygli og kveiki umræður.

Magnús varpaði fram þeirri hugmynd að vandamál myndlistarinnar fælist kannski í þróun hennar á síðustu áratugum. Öðrum listgreinum fremur hafi hún slitið af sér alla hlekki, þanist út fyrir mörk hins hefðbundna og gert allt að sínu, leyft allt og álitið allt eiga rétt á sér. Þótt hann væri sjálfur hrifinn af þessari þróun sagðist hann velta fyrir sér hvort myndlistin hafi þannig fjarlægst almenning, orðið óaðgengilegri og lokaðri innan afmarkaðrar senu, hvort það hafi myndast gjá milli myndlistar og almennings.

Þar sem skylda fjölmiðils væri fyrst og fremst við þennan sama almenning sagði Magnús ekki ljóst hvernig umfjöllun um myndlist ætti helst að vera háttað – eflaust þurfi að endurskoða forsendurnar fyrir myndlistargagnrýni áður en farið er aftur af stað. Hann sagði enn fremur að kannski þyrfti að fræða almenning frekar um forsendur nútímamyndlistar, enda sé fræðsla um myndlist nánast ekki til staðar í skólakerfinu. Verkefnið væri ekki að endurheimta fortíðina, heldur hugsa hvernig megi skapa aftur almenna umræðu um myndlist.

Virkilega djúp menningarumfjöllun þarf sérhæfðan vettvang

Þröstur Helgason sagði að þegar hann kom inn í starf sitt sem dagskrárstjóri Rásar 1 fyrir þremur árum hafi hann haft það að markmiði að endurlífga menningarblaðamennsku og menningarmiðlun á Íslandi. Hann sagði það hins vegar taka tíma í stofnun á borð við Ríkisútvarpið, en þess væru þó farin að sjást merki, til dæmis með menningarþættinum Lestin sem hefði bæst við dagskrá Rásar 1 í vetur.

Þröstur vitnaði í Birgi Andrésson myndlistarmann sem sagði eitt sinn að á Íslandi væri fjallað um myndlist í útvarpi og bókmenntir í sjónvarpi. Hann sagði þetta hins vegar ekki vera alslæmt, kostur útvarpsins væri að þar gæfist tími og því ekki slæmt í sjálfu sér að fjalla um myndlist í útvarpi. Hins vegar þyrfti einnig að fjalla um myndlist í sjónvarpi og benti á að nú væri að hefja göngu sína nýr sjónvarpsþáttur um myndlist á RÚV, þátturinn Opnun.

Hann tók undir með Einari Fal og Magnúsi og sagði hlutverk fjölmiðilsins vera að benda almennum notendum á það sem er að gerast í samfélaginu, útskýra og veita upplýsingar. Á sama tíma væri miðillinn einnig í samræðu við listamennina og galleríin. Hann lagði áherslu á að sú umræða gæti hins vegar aldrei orðið virkilega djúp í fjölmiðlum, hún þurfi á öðrum miðlum og vettvangi að halda. Vandamálið á Íslandi væri hins vegar að slíkur vettvangur væri varla til.

Að lokum boðaði Þröstur opnun nýs menningarvefjar RÚV þar sem öll menningarumfjöllun stofnunarinnar yrði aðgengileg, ritstjóri hafi verið ráðinn til að hafa umsjón með vefnum og stefnt væri á opnun á næstu dögum eða vikum.

Horfðu á upptöku af málþinginu hér fyrir neðan,

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Bayern byrjað að ræða við Rangnick um að taka við

Bayern byrjað að ræða við Rangnick um að taka við
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Slys við Dalveg: Bíl ekið inn í skrifstofu Útlendingastofnunnar

Slys við Dalveg: Bíl ekið inn í skrifstofu Útlendingastofnunnar
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Bjóða honum nýjan samning þó sá gamli gildi í sex ár til viðbótar

Bjóða honum nýjan samning þó sá gamli gildi í sex ár til viðbótar
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat