Bókstafleg myndlist

Vigdís Rún Jónsdóttir kortleggur konkretljóðlist á Íslandi frá 1957 til dagsins í dag

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 25. mars 2017 11:00

Bókstafir á blaði (eða skjá). Með því að teikna upp nokkur tákn og raða saman á reglubundinn hátt miðlum við merkingu. Skrifarinn ákveður að miðla tilteknu innihaldi og skrifar: B-ó-k-s-t-a-f-i-r-BIL-á-BIL-b-l-a-ð-i-BIL-(-e-ð-a-BIL-s-k-j-á-), og ef lesandinn skilur tungumálið tekur hann við innihaldinu. En þessi merkingarþrungnu tákn eiga sér einnig ytra form og útlit sem er hægt að skoða og njóta óháð merkingunni sem þau geta miðlað.

Róttækar framúrstefnulisthreyfingar í upphafi 20. aldarinnar lögðu sig meðal annars fram við að brjóta niður tungumálið í frumeindir sínar, reyndu að nálgast orðin og bókstafina á algjörlega nýjan hátt, meðal annars í myndljóðum sem lögðu áherslu á myndræna framsetningu frekar en innihald. Eftir seinna stríð öðluðust slík ljóð svo nafnið konkretljóð og fóru að breiðast út um heiminn, meðal annars til Íslands.

Sýningin Bókstaflega sem verður opnuð í Hafnarborg á laugardag er hluti af tilraun Vigdísar Rúnar Jónsdóttur sýningarstjóra til að kortleggja konkretljóðlist á Íslandi frá 1957 og til dagsins í dag.

Út úr merkingunni

„Konkretljóðagerð er stefna í nútímaljóðlist sem hafnar hefðbundnum stíl og uppsetningu en leggur meira upp úr útliti ljóðsins. Í konkretljóðagerð er lögð áhersla á textann sem sjónrænt tungumál – oft eins konar myndrænn leikur að orðum. Það má segja að konkretljóðum sé í rauninni ekki ætlað að vera lesin, í það minnsta ekki eingöngu, heldur eigi að horfa á þau og hlusta, líkt og um myndlist eða tónlist væri að ræða. Konkretljóðið spratt upp úr því að menn vildu vinna gegn táknsæi tungumálsins og horfa þess í stað á orðin sem konkret efnivið,“ útskýrir Vigdís.

Þessi nálgun á orð og ljóðlist kom fyrst fram með framúrstefnuhreyfingum í upphafi 20. aldarinnar, dadaistum, ítölskum og rússneskum fútúristum og fleirum sem höfnuðu hefðbundnu formi skáldskapar og vildu finna nýjar leiðir til að skapa ljóðlist út frá leturgerð og umbroti. Vigdís segir að fyrstu tilraunirnar sem kalla mætti konkretljóð á Íslandi hafi verið gerðar í kringum 1925 en þá hafi meðal annars Halldór Laxness fiktað við formið innblásinn af ljóðabókinni Calligrammes eftir franska ljóðskáldið Guillaume Apollinaire, en eintak af þessu grundvallarriti konkretljóðlistar úr eigu Halldórs verður til sýnis í Hafnarborg.

Hugtakið konkretljóð kom ekki fram fyrr en á sjötta áratugnum þegar hópar listamanna og rithöfunda víða um heim, meðal annars í Svíþjóð, Brasilíu, Þýskalandi og Austurríki, voru farnir að þróa formið áfram hver í sínu horni. En það var einmitt í gegnum einn slíkan hóp sem konkretljóðin bárust til Íslands.

„Þrátt fyrir að finna megi tilraunir með konkretljóðaformið á Íslandi á fyrri hluta 20. aldarinnar náðu slíkar tilraunir ekki upp á yfirborðið að neinu ráði fyrr en 1957. Þá hafði svissneski listamaðurinn Dieter Roth gifst Sigríði Björnsdóttur og flust til landsins. Roth var einn af upphafsmönnum konkretljóða í heiminum eftir stríð. Hann stofnaði tímaritið Spirale árið 1951 ásamt Marcel Wyss og Eugen Gomringer, en sá síðastnefndi er oft álitinn upphafsmaður konkretljóðlistarinnar. Dieter Roth hafði því verið að gera tilraunir með konkretljóð í nokkur ár áður en hann kom til Íslands. Hér stofnaði hann svo bókaforlagið Forlag ed. ásamt Einari Braga Sigurðssyni skáldi og var það starfrækt í fjögur ár. Þeir lögðu sig fram við að gefa út framúrstefnuleg ljóð og bókverk, en fáir aðrir höfðu áhuga á því þá.“

Fyrst og fremst myndlistarform

Vigdís, sem vinnur að meistararitgerð í listfræði um efnið, hefur áður unnið að sýningunni Dadadieterdúr – samruni orðlistar og myndlistar um sama efni, en hún var sett upp í Þjóðarbókhlöðunni árið 2015.

En skiptir máli í hvaða samhengi konkretljóðin eru skoðuð og sýnd, hvort það er myndlistar- eða bókmenntamegin?

„Nei, en ég tel að þetta sé fyrst og fremst myndlistarform – þrátt fyrir að það sé yfirleitt skoðað sem hluti af bókmenntasögunni. Í fimm binda listasögu Íslands er til dæmis ekki minnst einu orði á konkretljóðin þrátt fyrir að það hafi aðallega verið myndlistarmenn sem hafa fengist við þetta hér á landi. Konkretljóð eru sprottin upp úr hugmyndafræði sem er að stofni myndlistarleg og þarfnast því bæði myndræns og bókmenntalegs lesturs til að geta talist merkingarbært listform. Þau byggja alltaf á samspili myndar og texta og því verður maður fyrst og fremst að beita myndrænum lestri,“ útskýrir hún.

„Hér á landi hafa það aðallega verið myndlistarmenn sem hafa unnið með konkretljóðaformið. Fyrst var það lítill hópur í kringum Dieter Roth, til dæmis Einar Bragi, Sigríður Björnsdóttir og Magnús Pálsson. Meðal annarra höfunda sem ég hef fundið í gegnum rannsóknir mínar á efninu má nefna Dag Sigurðarson, Atla Heimi Sveinsson, Jón frá Pálmholti og Karl Einarsson Dunganon,“ segir Vigdís um fyrstu kynslóð konkretskálda á Íslandi.

„Í upphafi áttunda áratugarins kom SÚM-kynslóðin svo fram og þar fóru menn að þróa formið áfram. Hjá þessari kynslóð listamanna verður tungumálið ekki lengur bara texti á blaði. Það er notað jafnt í ljósmyndum, fundnum hlutum og gjörningum. Þetta tengist kannski líka því að menn eru farnir að skilgreina hugtök upp á nýtt. Mér dettur til dæmis í hug eitt verk eftir Sigurð Guðmundsson sem er gamall húsgangur: „Þeir taka í nefið, þeir taka í nefið, og svo snúa þeir sér í hring,“ en þetta kallar hann skúlptúr. Á þessum tíma komu hljóðljóðin líka inn. Guðbergur Bergsson tók til dæmis upp umhverfishljóð og spilaði í lúppu í Gallerí SÚM í upphafi 8. áratugarins. Í upphafi 9. áratugarins fóru íslenskir rithöfundar svo loksins að leika sér með þetta form, skáld eins og Ísak Harðarson, Gyrðir og Sigurlaugur Elíassynir,“ segir Vigdís.

Þess má geta að á sýningunni verða sýnd konkretljóð úr forlagsútgáfu Dieters Roth og Einars Braga sem hafa ekki verið sýnd áður auk verka eftir bræðurna Kristján og Sigurð Guðmundssyni sem hafa ekki litið dagsins ljós frá því á útilistsýningu sem haldin var á Skólavörðuholtinu í upphafi 8. áratugarins.

Auk eldri verka – til dæmis konkretljóða úr forlagsútgáfu Dieters og Einars Braga, verka eftir Kristján og Sigurð Guðmundssyni sem ekki hafa verið sýnd í rúm 30 ár – verða ný verk á sýningunni, þar á meðal hljóðljóðainnsetning eftir Harald Jónsson, konkretvídjóljóð eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur og kvikljóð eftir Steingrím Eyfjörð. „Þessi sýning er tilraun til að endurvekja hugtakið „konkretljóð“ og skoða hvernig myndlistarmenn hafa þróað það inn í samtímann, með nýrri tækni og úrvinnslu úr eldri hefðum,“ segir Vigdís Rún.

Sýningin Bókstaflega – Konkretljóð á Íslandi frá 1957 til samtímans verður opnuð í aðalsal Hafnarborgar, laugardaginn 25. mars kl. 15. Á opnun sýningarinnar munu Haraldur Jónsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir flytja ljóðagjörning.

Kristján Guðjónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 13 klukkutímum

Lovren kallaði Spánverja aumingja – Stjórinn ætlar að ræða við hann

Lovren kallaði Spánverja aumingja – Stjórinn ætlar að ræða við hann
Fyrir 13 klukkutímum

Fangi í Fossvogi

Fangi í Fossvogi
433
Fyrir 14 klukkutímum

Tobias Thomsen aftur í KR?

Tobias Thomsen aftur í KR?
Eyjan
Fyrir 15 klukkutímum

Krafan um að erlenda vinnuaflið tali íslensku – er það innifalið í kaupinu?

Krafan um að erlenda vinnuaflið tali íslensku – er það innifalið í kaupinu?
433
Fyrir 15 klukkutímum

Sár því hann fær ekki að mæta Ronaldo í kvöld

Sár því hann fær ekki að mæta Ronaldo í kvöld
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum
Veiparar Íslands
Eyjan
Fyrir 15 klukkutímum

Sigurður Ingi segir að ríkisstjórnarsamstarfið byggi á samvinnu og trausti – Markmiðið að koma Íslandi í fremstu röð á sem flestum sviðum

Sigurður Ingi segir að ríkisstjórnarsamstarfið byggi á samvinnu og trausti – Markmiðið að koma Íslandi í fremstu röð á sem flestum sviðum
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Hversu lengi á maður að vera í sömu vinnunni?

Hversu lengi á maður að vera í sömu vinnunni?
Eyjan
Fyrir 17 klukkutímum

Sem örþjóð verðum að snúa bökum saman og takast á við þau erfiðu og alvarlegu vandamál sem blasa við

Sem örþjóð verðum að snúa bökum saman og takast á við þau erfiðu og alvarlegu vandamál sem blasa við
Matur
Fyrir 18 klukkutímum

Epískur nachos-réttur sem bjargar helginni

Epískur nachos-réttur sem bjargar helginni