fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Kynning

9 mánuðir: Heilsumiðstöð fyrir alla fjölskylduna

Kynning
Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 22. maí 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrirtækið 9 mánuðir var upphaflega stofnað árið 2002 af ljósmóðurinni Guðlaugu Maríu Sigurðardóttur og er því orðið rótgróið fyrirtæki sem margir þekkja. Eins og nafnið bendir til má ætla að fyrirtækið bjóði einungis upp á þjónustu við barnshafandi konur en það er þó ekki svo.  „Við bjóðum alla velkomna,“ segja þær Elín Arna Gunnarsdóttir og Guðrún I. Gunnlaugsdóttir, ljósmæður og núverandi eigendur 9 mánaða.

„Þó svo að stærsti kúnnahópur okkar sé barnshafandi konur og þeirra makar þá bjóðum við fjölskylduna alla velkomna og hingað koma t.d. bæði konur og karlar í gott heilsunudd og/eða nálastungur þar sem við erum með 6 frábæra nuddara starfandi hér og 2 sérfræðinga í nálastungum.“

Eigendur 9 mánaða.

 Heilsunudd

Algengt er að fólk leiti til nuddara til slökunar eða vegna verkja í stoðkerfi. Nudd er samheiti margra meðhöndlunarforma sem öll eiga það sameiginlegt að vera byggð á snertingu.

Nuddið er alltaf ákveðið í samráði við nuddþegann og eftir hans óskum og álagssvæðum.

Nuddmeðferðin getur beinst að einhverjum ákveðnum líkamspörtum, gjarnan baki, öxlum og hnakka en einnig getur meðferðin beinst að öllum líkamanum. Í lok nudds ætti að hafa slaknað á vöðvum og verkjum, blóðflæði aukist og losnað um streitu á sál og líkama.

Meðgöngunudd

Meðgöngunudd er góður valkostur fyrir barnshafandi konur. Eitthvað það besta sem konan getur veitt sér á meðgöngunni er að fara reglulega í nudd. Konur geta komið í meðgöngunudd alla meðgönguna þó að algengasti tíminn sé eftir viku 20 þegar kúlan er byrjuð að stækka og litla krílið að þyngjast. Breyting á líkamsstöðu konunnar ásamt þyngdaraukningu gera það að verkum að barnshafandi kona beitir sér öðruvísi en ella og við það er mjög algengt að komi fram verkir frá stoðkerfi.

Meðgöngunudd er, eins og önnur nuddform, unnið á heildrænan hátt í samvinnu við konuna. Tekið er tillit til þarfa hverrar konu fyrir sig, en algengustu álagssvæði á meðgöngu eru axlir, brjóstbak, mjóbak, svæði mjaðmagrindar og kálfar. Nuddið er þétt og losandi og hjálpar sogæðakerfinu til að skila sínu hlutverki, en oft fá konur meðgöngutengdan bjúg þar sem aukið álag er á sogæðakerfið.

Boðið er upp á sérstaka meðgöngubekki hjá 9 mánuðum sem gerir barnshafandi konum kleift að liggja á maganum, með stuðning undir kúluna, sem hentar vel alla meðgönguna. Hver nuddtími miðast við klukkustund.

Nuddarar 9 mánaða eru þær Sigrún Þórólfsdóttir, Sigríður Ásta Hilmarsdóttir, Kristjana Kjartansdóttir, María Guðjónsdóttir, Björk Valdimarsdóttir og Hafdís Ósk Jónsdóttir. Þær hafa allar lokið fullgildu nuddnámi frá Nuddskóla Íslands og eru meðlimir í Félagi íslenskra heilsunuddara.

Nuddarar.

Nálastungur

Akúpunktur/Nálastungur eru eitt af elstu kerfum lækninga í heiminum og er aðferðin notuð til að ná jafnvægi líkamlegrar og andlegrar heilsu. Meðferðin felst í því að nota örþunnar, einnota, sótthreinsaðar nálar og er þeim stungið í sérvalda punkta um líkamann til að hafa áhrif á qi (orku líkamans) okkar.

Lífsstíll fólks nú til dags er oft og tíðum hraður og streituvaldandi. Þessi streita getur komið okkur úr náttúrulegu jafnvægi og skaðað orku- og blóðflæði líkamans sem getur leitt til líkamlegra og andlegra kvilla.

Meðferðin felst í því að nota örþunnar, einnota, sótthreinsaðar nálar og er þeim stungið í sérvalda punkta um líkamann til að hafa áhrif á qi (lífsorku) okkar.

Í kínverskum lækningum er litið á einstaklinginn og líkamann sem eina heild og með því að skoða ítarlega heilsu sjúklings og nota greiningarkerfi kínverskra læknisfræða er komið auga á rót vandans.

Með því að hafa áhrif á rót vandans virkjum við líkamann og minnum hann á hvernig hann getur tekist á við vandamálið sem er til staðar. Þannig náum við jafnvægi og náum betri líkamlegri og andlegri heilsu.

Hjá 9 mánuðum eru ýmsir meðferðarmöguleikar í boði. Dæmi um meðferðir eru t.d. vegna eftirfarandi:

  • Ógleði
  • Grindarverki og/eða lífbeinsverki
  • Svefnleysi
  • Bjúg
  • Kvíða og óróleika
  • Fótaóeirð
  • Karpal Tunnel (doða í höndum)

 

Á meðgöngu er í boði að koma í svokallaðar undirbúningsnálar þar sem stungið er á ákveðna punkta sem eru mild örvun og slökun. Þessi meðferð er í boði frá viku 36 og fram að fæðingu.

Helsti ávinningur af nálastungumeðferð á meðgöngu er slökunin sem konur finna eftir meðferð og minni einkenni þeirra kvilla sem verið er að meðhöndla.

Tveir nálastungusérfræðingar eru starfandi hjá 9 mánuðum.

Aldís S. Sigurðardóttir sérfræðingur í akupunktur/nálastungum
Aldís stundaði háskólanám í akupunktur/nálastungum hjá The College of Integrated Chinese Medicine í Bretlandi og Polly Ambermoon og er einnig sérfræðingur í nálastungum, menntuð frá Ástralíu, Kína og Bandaríkjunum.

Nálastungusérfræðingar.

Námskeið hjá 9 mánuðum

Ungbarnanuddnámskeið

Ungbarnanudd hefur verið mikilvægur þáttur í uppeldi barna í mörgum samfélögum, þar á meðal á Indlandi og víða í Afríku. Vesturlandabúar kynntust ungbarnanuddi fyrir rúmlega 30 árum og hefur það verið mjög vinsælt síðan.

Ungbarnanudd er góð leið til þess að sýna ást og umhyggju til barnsins í gegnum snertingu sem er mikilvæg fyrir vöxt og velferð barna.

Á þessu námskeiði læra foreldrar róandi nuddstrokur og snertingu sem hefur verið í þróun í mörg ár.

Nuddstofa.

Hafdís Ósk Jónsdóttir er leiðbeinandi á þessu námskeiði. Hafdís er sjálf menntaður nuddari frá Nuddskóla Íslands en ungbarnanuddið lærði hún í Bretlandi hja International Association of Infant Massage (IAIM) en það eru elstu alþjóðlegu samtökin ásamt því að vera þau stærstu sem sérhæfa sig eingöngu í ungbarnanuddi.

Námskeiðið fer þannig fram að foreldri/ar nudda barnið sitt á meðan leiðbeinandi sýnir nuddformið á dúkku. Barnið er ávallt beðið um leyfi­ áður en byrjað er að nudda það og fylgt er þeirra líðan. Þannig er byggt upp traust og barninu sýnd virðing sem er nauðsynlegt fyrir góð samskipti á milli foreldra og barns.

Tímarnir eru hugsaðir sem gæðastund og gefur foreldrum tækifæri til þess að ræða sín á milli. Nuddstrokur eru endurteknar hverja viku og æ­fingablað fylgir hverjum tíma til að nota heima við á milli námskeiðsdaga.

Öll börn eru velkomin. Námskeiðið er fyrir börn 1 árs og yngri. Foreldrar þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að barnið gráti í tímanum, næri sig eða jafnvel sofi­ af sér tímann.

Hvaða gagn hefur barnið af námskeiðinu?

  • Gefur barninu aukið öryggi
  • Minnkar grátur og tilfinningalegt uppnám
  • Eykur slökun
  • Eykur líkamsvitund
  • Dregur úr loftmyndun, magakrampa og hægðatregðu

Hvað gerir námskeiðið fyrir foreldra?

  • Myndar sterkari tengsl við barnið
  • Eykur skilning á þörfum barnsins
  • Gefur gæðastund í gegnum nærandi snertingu
Ungbarnanudd.

 

Fæðingarfræðslunámskeið

Fæðingarundirbúningur fyrir verðandi foreldra. Námskeiðið er í höndum ljósmæðranna Elínar Örnu Gunnarsdóttur,  Guðrúnar I. Gunnlaugsdóttur, Höllu Bjargar Lárusdóttur og Maríu Rebekku Þórisdóttur. Þær starfa allar einnig við fæðingar.

Á námskeiðunum leggjum við aðallega áherslu á fæðinguna sjálfa, hvað sé að gerast í líkamanum þegar fæðingin hefst og þau bjargráð sem konan getur nýtt sér. Það að vita hvað sé að gerast í líkamanum þegar fæðingin fer af stað, þ.e. hvað það þýðir þegar hríðaverkir byrja, hjálpar konunni að ráða við þá verki sem fylgja fæðingunni. „Það er nefnilega tilgangurinn með þessu öllu saman.“ Þetta er í flestum tilfellum eðlilegt ferli og við leggjum áherslu á að horfa á það þannig. Það er hvetjandi fyrir konuna þegar hún er meðvituð um það sem er að gerast í líkamanum og hver sé tilgangurinn með öllu þessu erfiði sem lagt er á okkur konur í fæðingu. Þeim mun betur sem konan þekkir líkama sinn og þeim mun betra jafnvægi sem hún er í, þá á hún auðveldara með að takast á við fæðingarverkina og að jafna sig að henni lokinni. Með góðan stuðning með sér, maka eða fæðingarfélaga, verður konan sterk. Við leggjum því áherslu á að verðandi móðir komi með maka með sér á námskeiðið en ef hann er ekki til staðar að vera þá með einhvern annan nákominn sem mun vera með henni í fæðingunni. Við ræðum um mikilvægi stuðningsaðilans og hvernig og hvað hann getur gert til að auðvelda konunni þetta ferli sem fæðingin er.

Lögð er áhersla á öndunartækni, nudd, slökun sem og aðrar verkjameðferðir.

Mikilvægt er að reyna að efla sjálfsöryggi og sjálfshjálp verðandi foreldra, hvað þau geta sjálf gert til að þeim líði sem best í fæðingunni. Við viljum að þau öðlist hagnýta þekkingu á ferlinu og geti valið á milli ýmissa valkosta sem þeim býðst í fæðingunni.

Á námskeiðinu förum við líka inn á umönnun nýburans fyrstu dagana í lífi þess og ræðum mikilvægi tengslamyndunar.

Við mælum með að koma eftir 32. viku meðgöngu. Námskeiðin eru vinsæl og því mikilvægt að skrá sig á þau með góðum fyrirvara. Aðeins eru 6–7 pör á hverju námskeiði. Við bjóðum upp á notalegt umhverfi, fámennan hóp og faglega og reynslumikla leiðbeinendur. Rannsóknir hafa sýnt að folk meðtekur frekar upplýsingar þegar meiri nálægð er við leiðbeinandann og umhverfið og fjöldinn á námskeiðinu er ekki mikill. Við reynum að hafa svona „stofustemmningu“ á námskeiðinu, þ.e. að við sitjum meira og spjöllum saman heldur en að vera með námskeiðið á fyrirlestrarformi.

Hvert námskeið er eitt skipti  í 3 klst. og hægt að velja á milli þess að koma eina kvöldstund á virkum degi kl. 18.00–21.00 eða á laugardegi kl. 11.00–14.00

Almennt hefur verið mikil ánægja með þennan fæðingarundirbúning og höfum við fengið mörg jákvæð ummæli frá þeim sem sótt hafa þessi námskeið. Verðandi feður hafa verið sérstaklega ánægðir með námskeiðin og finnst hlutverk þeirra verða skýrara og þeim finnst þeir vita meira hvað í vændum er. Einn hafði á orði við okkur að svona námskeið ætti í raun að vera skylda fyrir alla nýja verðandi feður. Eflaust margir sammála honum um það.

Fæðingarfræðsla.

Brjóstagjafanámskeið 9 mánaða

Brjóstagjöfin er ein sú besta gjöf sem okkur hefur verið gefin og er óviðjafnanleg aðferð til samskipta milli móður og barns. Mikilvægt er að leggja góðan grunn að brjóstagjöfinni og ætti því gott námskeið á meðgöngunni að veita verðandi foreldrum aukinn styrk til að takast á við það verkefni sem brjóstagjöfin er. Hún krefst þolinmæðis, sérstaklega á fyrstu vikunum eftir fæðingu. Þess vegna er nauðsynlegt að gefa sér þann tíma sem þarf til að brjóstagjöfin nái að fara vel af stað. Reynslan af fyrstu brjóstagjöf virðist vera sá grundvöllur sem konan byggir á með næstu börn sín.

Í hverjum mánuði er haldið námskeið í brjóstagjöf og leiðbeinandi á því námskeiði er Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi IBCLC.

Ingibjörg hefur langa reynslu sem ljósmóðir, hefur m.a. starfað á fæðingardeild LSH og í mæðravernd og ungbarnavernd við Heilsugæslu Grafarvogs. Hún starfar nú sem sérfræðingur í brjóstagjöf og tvíburarmeðgöngum á Meðgöngu-og sængurlegudeild Landspítala og í áhættumæðravernd.

Á brjóstagjafanámskeiðinu fer Ingibjörg í grunnatriði brjóstagjafar, lífeðlisfræðilegar breytingar sem verða á brjóstum kvenna á meðgöngunni og eftir fæðingu. Hún sýnir með myndböndum merki barnsins um það hvenær barnið er tilbúið að fara á brjóst eftir fæðinguna.

Handtök, álögn, stöður og stellingar. Sýnir með dúkkum hvernig á að leggja barnið á brjóst og í framhaldi fá verðandi foreldrar dúkkur í hendurnar til æfinga.

Á námskeiðinu er rætt um mikilvægi húð við húð-aðferðar og í hverju hún felst og af hverju hún er mikilvæg.

Ræðir handmjólkun og um aumar/sárar geirvörtur.

Fyrirburar og tvíburar á brjósti.

Stálmi o.fl.

Líðan nýfæddra barna, gula o.fl.

Maki eða stuðningsaðili er velkominn með á námskeiðið.

Námskeiðið er eitt skipti, í u.þ.b. 3 klst., og haldið síðdegis.

Sónarskoðun 9 mánaða

Yfirleitt fylgir mikil tilhlökkun því að vera barnshafandi og finnst flestum mjög spennandi að fylgjast með krílinu vaxa og dafna í móðurkviði. Hjá 9 mánuðum er boðið upp á tvívíddar- og þrívíddarsónar.

Mikilvægt er að fólk sem leitar eftir því að koma í sónarskoðun hjá 9 mánuðum vita að ekki er um fósturrannsóknir að ræða hjá fyrirtækinu. Ekki er gerð fósturgreining né mælingar, s.s. eins og stærð fósturs. Samkvæmt ábendingu Landlæknisembættis upplýsum við allar konur um þetta þegar þær óska eftir sónarskoðun. Fósturgreining fer fram á viku 18–20 á fósturgreiningardeild Landspítala og annars staðar þar sem fósturgreining fer fram eins og á sjúkrahúsum á landsbyggðinni.

Sónartæki 9 mánðaða er nýlegt og af gerðinni General Electric Voluson 70 PRO. sem er sónartæki í háum gæðaflokki og uppfyllir öll öryggisskilyrði sem slíkt tæki þarf að uppfylla. Voluson-tækin eru leiðandi í heiminum á sviði fósturskoðana og gefa einstaklega skýrar myndir af börnum í móðurkviði.

Þar sem ekki er um greiningarsónar að ræða þá höfum við leyft verðandi foreldrum að hafa með sér gesti sem oftast eru þeir sem standa þeim næst, eins og ömmur og afar. Það er gaman að fylgjast með viðbrögðum fólks  það sér væntanlegt barn/barnabarn sitt birtast á skjánum. Það eru miklar tilfinningar sem koma í ljós í skoðunarherberginu, tilhlökkun og jafnvel gleðitár sem renna niður kinnar. Þetta er ánægjustund fyrir fjölskylduna alla og eru fjölskyldumeðlimir oft með margar spurningar sem við svörum eftir bestu getu. Sumar konur hafa mikla þörf fyrir að tjá sig, þær tala um líðan sína, spyrja okkur spurninga og við sem ljósmæður þekkjum vel þarfir og væntingar kvenna og erum því vel til þess fallnar að svara spurningum þeirra. Við teljum okkur því geta sinnt þessari skoðun vel og gefum hverri konu góðan tíma.

Snemmsónar.  Ómskoðun sem gerð er fyrir 12. viku meðgöngu kallast snemmsónar / snemmómskoðun.

Tilgangur skoðunarinnar er meðal annars að athuga hvort fóstrið sé á réttum stað (inni í leginu), fjöldi fóstra er talinn, hjartsláttur fósturs metinn og meðgöngulengd áætluð*.

Hjá 9 mánuðum er boðið upp á þessa skoðun frá viku 7–12. Skoðað er í gegnum kviðvegginn (rétt fyrir ofan lífbein).

Ómskoðunin er framkvæmd af ljósmóður, með sérhæfingu í ómskoðunum á kvenlíffærum og á meðgöngu (ultrasound in gynaecology and obstetrics).

Tvívíddarsónar býður upp á hefðbundnar svart/hvítar tvívíddarmyndir líkt og í 12 og 20 vikna sónarskoðun. Nú með nýju sónartæki er hægt að bjóða upp á hreyfimyndir í tvívídd.

Í tvívíddarsónar er hægt að:

  • Sjá stellingu barnsins og hreyfingar
  • Sjá og heyra hjartslátt
  • Sjá kyn ef þess er óskað

3D /4D

Þrívíddin gefur dýpt í myndirnar og fjórvíddin þýðir að hreyfingunum er bætt við, það er að segja, hreyfingar barnsins sjást í þrívídd. Foreldrar fá myndir af barninu á pappír og einnig á USB-lykli.

Almennt er talað um að besti tíminn til að skoða í 3D sé frá viku 26 til viku 32. Þetta er þó einstaklingsbundið.

Við skoðum í 3vídd frá viku 22 til viku 36 og getum fengið mjög skýrar myndir alla meðgönguna ef allar aðstæður eru góðar og barnið í heppilegri stellingu.

Það eru nokkur atriði sem hafa ber í huga þegar er sónarskoðað. Lega barnsins hefur áhrif á hvernig myndir er hægt að fá, sem og myndgæðin. Barnið getur snúið andlitinu innávið eða haft hendurnar og/eða fæturna fyrir andlitinu. Ef barnið liggur þétt upp við legvegg móðurinnar eða fylgju getur verið vandkvæðum bundið að ná góðum myndum með þessari tækni. Einnig getur fitulag á kviðvegg móður og staðsetning fylgju haft áhrif á gæði og skýrleika mynda.

Ef börnin hreyfa sig föngum við þau augnablik. Sú tækni hefur verið kölluð fjórvídd eða rauntímamyndir.

Sumir hafa spurt hvort nauðsynlegt sé að vita kyn barnsins ef farið er í 3D en svo er ekki, ef foreldrar vita ekki og vilja ekki vita kyn barnsins þá skoðum við það svæði ekki.

Foreldrar fá u.þ.b. 4 myndir á sv/hv pappír og svo allar myndir og hreyfimyndaskeið á USB-lykli. Við reynum að miða við að foreldrar fái 20–40 myndir en það fer alltaf eftir litla krílinu hvað fást margar myndir og hvort við náum hreyfimyndum.

Að lokum vilja þær stöllur í 9 mánuðum þakka öllum þeim sem til þeirra hafa leitað og bjóða nýja viðskiptavini velkomna. Þær benda á heimasíðu fyrirtækisins www.9manudir.is en þar eru allar nánari upplýsingar að finna og auðveldlega hægt að ná í starfsfólkið þar með því að senda póst á info@9manudir.is  Hægt er að kaupa gjafabréf í allar meðferðir sem 9 mánuðir hafa upp á að bjóða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum