fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Kynning

20 ókeypis hlutir til að gera um páskana

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 31. mars 2018 13:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páskarnir eru kærkomið tækifæri til að njóta samverustunda með fjölskyldunni eða einfaldlega gera sér dagamun. Þó að góðærið sé aftur komið á fullt er ástæðulaust að tæma veskið í hvert skipti sem eitthvað er aðhafst. DV tók saman nokkra hluti sem hægt er að gera um páskana og kosta ekki neitt.

1. Semdu páskalög. Það er til óteljandi fjöldi af jólalögum en skemmtileg lög um páskana eru af skornum skammti. Ef þú lendir í vandræðum þá er hægt að taka jólalag og breyta textanum, til dæmis með að skipta út jólasveinum einum og átta og Andrési sem stóð utan gátta fyrir páskaegg af stærðinni átta og Andrési sem fór að verkja.

2. Sjósund er vaxandi áhugamál á meðal Íslendinga. Það kostar ekkert að dýfa sér í sjóinn og það venst furðu hratt. Fátt er meira hressandi en gættu þín og farðu þér ekki að voða.

3, Strandblak á Klambratúni, á Siglufirði, á Flúðum, í Nauthólsvík og víðar um landið er frábær skemmtun þegar veður er stillt. Þú þarft ekki að kunna mikið til að geta leikið þér í strandblaki. Það er ókeypis.

4. Það getur verið gaman að semja sögur til að segja börnum fyrir svefninn eða yrkja vísur sem ríma. Byrjaðu á að finna orð sem ríma og reyndu svo að púsla saman lítilli sögu í bundnu máli. Það er krefjandi og gott fyrir heilann.

5. Það kostar ekkert að fara í heimsókn til vina og vandamanna, nema þú þurfir að keyra langar vegalengdir. Þú færð yfirleitt meira út úr heimsóknum en öllum heimsins sjónvarpskvöldum.

6. Páskaeggjaleit. Laugardagurinn fyrir páskadag er sérsniðinn fyrir foreldrið sem ætlar að fela páskaeggin fyrir börnunum. Það er hægt að gera mjög skemmtilegan leik úr slíkri leit. Ef börnin eru eldri má gera leikinn eilítið kvikindislegri og útbúa gátur í anda Hávamála.

7. Tiltekt er afþreying sem kostar ekkert. Segðu geymslunni stríð á hendur og taktu hana rækilega í gegn. Þér líður vel eftir verkið og ert líklegur til að finna alls kyns gamalt dót sem vekur minningar um liðna tíma. Þær verða ekki metnar til fjár.

8. AA-fundir eru ókeypis þótt tekið sé á móti frjálsum framlögum. Þeir eru ekki lokaðir yfir páskana, þar getur þú heyrt reynslusögur, hitt fólk, hjálpað fólki eða fengið hjálp sjálfur.

9. Fjöruferðir eru hressandi og skemmtilegar, sérstaklega ef börn eru með í för. Leiktu þér eins og barn og safnaðu skeljum, slípuðum steinum eða forvitnilegum fuglshræjum. Það er hressandi að anda að sér sjávarloftinu.

10. Grasagarðurinn í Laugardal er einstök perla á sumrin, sérstaklega í þeirri veðurblíðu sem ríkt hefur undanfarnar vikur. Þar geturðu kynnt þér fróðleik um alls kyns plöntur.

11. Skelltu þér á djammið. DJ París Austursins heldur uppi í brjáluðu stuði í Egilsbúð í Neskaupstað laugardaginn 31. mars. Það er frítt inn og húsið verður opnað klukkan 23.30.

12. Miðvikudaginn 28. mars milli klukkan 19.00 og 20.00 er snjóbrettasýning á Ísafirði þar sem heimamenn sýna listir sínar. Vefur Ísafjarðarbæjar lofar tónlist og fjöri.

13. Leikir með fjölskyldunni kosta ekkert. Farðu með börnunum í snú snú, á leikvöll, í fótbolta eða frisbí. Börnin elska það og það er nærri því öruggt að þú hefur jafn gaman af því og börnin.

14. Ferðamenn greiða tugþúsundir fyrir það eitt að komast til Íslands og sjá sólarupprásina. Það er ómetanlegt sjónarspil, sérstaklega á vorin. Sólarupprásin er núna rétt um klukkan sjö að morgni.

15. Það kostar ekkert að gefa Rauða krossinum fatnað sem þú notar ekki lengur. Farðu í gegnum fataskápinn þinn og settu allt í poka sem þú hefur ekki notað í heilt ár. Gefðu Rauða krossinum fatapokann og gerðu þannig öðrum kleift að nota það sem þú gast ekki notað.

16. Kræklingar vaxa víða í fjörum landsins og eru algjört hnossgæti sem kosta formúu á veitingastöðum. Tíndu eigin kræklinga og búðu til gómsæta rétti.

17. Stundaðu kynlíf. Það skiptir ekki máli hvort það er gott eða lélegt, það er ókeypis og skemmtilegt. Sumir láta til leiðast og greiða fyrir slíkt, en það er bæði bannað, rándýrt og er óþarfi ef þú leggur á þig smá rómantík.

18. Bíó þarf ekki alltaf kosta peninga. Kynntu þér málflutning allra sem eru í framboði í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Sláðu upp nöfnum frambjóðenda á Google og kíktu á hvað þeir hafa að segja. Það er algjört bíó. Þú gætir jafnvel fundið einhvern sem þú gætir hugsað þér að kjósa.

19. Hentu í naglasúpu. Losaðu þig við dósirnar sem þú notar aldrei úr eldhússkápnum, allar skrítnu krukkurnar úr ísskápnum og stóra Costco-kassann sem rennur ekki út fyrr en eftir aldarfjórðung. Ef það lyktar sæmilega þá fer það í súpuna. Ef súpan lyktar ekki nógu vel þá er hægt að taka til í kryddhillunni.

20. Taktu til í fataskápnum. Það er að vora og því tilvalinn tími til að koma þykku, dökku vetrarfötunum ofan í kassa til að það sé auðveldara að finna litríku sumarfötin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum