fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FókusKynning

Svona er matseðill afreksíþróttamanna

Usain Bolt kann vel að meta kjúklinganagga – Conor McGregor drekkur ekki orkudrykki

Einar Þór Sigurðsson
Sunnudaginn 2. apríl 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Algeng orkuþörf fullorðinna karlmanna sem vinna kyrrsetustörf er um 2.700 hitaeiningar á dag á meðan orkuþörf kvenna er öllu minni, eða 2.200 hitaeiningar. Afreksíþróttamenn þurfa að borða talsvert meira en að sama skapi gæta þess að fá öll nauðsynleg næringarefni. Hér að neðan má sjá stutta samantekt á því hvernig afreksíþróttamenn haga dæmigerðum degi.


Usain Bolt

Hitaeiningar: 5.500
Klukkustundir á dag við æfingar: 3,5

Það er ekki til fótfrárri einstaklingur í heiminum en Usain Bolt. Þessi Jamaíkumaður er frjálslyndari en margir þegar kemur að mataræði. Í umfjöllun Huffington Post ekki alls fyrir löngu kom fram að Bolt vilji helst af öllu borða kjúklinganagga og kjúklingavængi áður en hann fer að hlaupa. Í þessari sömu grein kom fram að Bolt hefði borðað um þúsund kjúklinganagga meðan á Ólympíuleikunum í Peking stóð árið 2012. Kjúklingur er prótínríkur og um 60 prósent af þeim hitaeiningum sem Bolt innbyrðir koma úr prótínum, 30 prósent úr kolvetnum og 10 prósent úr fitu. Bolt borðar einnig stundum saltfisk með sætum kartöflum og grilluðum banana í morgunmat. Í hádegismat borðar hann oft kjúklingapasta en í kvöldmat borðar hann jafnan svínakjöt með hrísgrjónum og baunum.


Mynd: Mynd: Getty

Andy Murray

Hitaeiningar: 5.500
Klukkustundir á dag við æfingar: 5,5 tímar

Tenniskappinn Andy Murray er í hópi þeirra allra bestu í heimi. Á dæmigerðum degi samanstendur morgunmatur þessa 29 ára Englendings af hafragraut eða múslí sem hann borðar svo með eggi, beikoni og baunum. Í hádegismat borðar Murray oftar en ekki þeyting með ávöxtum og prótínum. Og dæmigerður kvöldmatur samanstendur af súpu, sjávarmeti eða salati í forrétt en kjúklingi, kartöflum og grænmeti í aðalrétt. Auk þess að æfa mikið stundar Murray hugleiðslu.


Mynd: Reuters

Venus Williams

Hitaeiningar: 3.489
Klukkustundir á dag við æfingar: 4,5 tímar

Venus Williams er ein sigursælasta tenniskona sögunnar. Þessi 36 ára Bandaríkjamaður byrjar dæmigerðan dag á því að fá sér hreinan grænan safa, prótínþeyting, ávexti, eggjahvítuomelettu eða granóla. Í hádeginu leggur hún áherslu á að borða heilnæmt fæði, til dæmis á veitingastöðum sem selja vegan-fæði. Að öðrum kosti borðar hún hrísgrjón, baunir og grillaðar rækjur. Sem millimál borðar hún til dæmis hnetur eða döðlur. Kvöldverður samanstendur oftar en ekki af salati með kjúklingi. Auk þess að æfa tennis af kappi dansar Venus til að halda sér í formi.


Mynd: EPA

Jessica Ennis-Hill

Hitaeiningar: 1.749
Klukkustundir á dag við æfingar: 6 tímar

Frjálsíþróttakonan Jessica Ennis-Hill, ein öflugasta sjöþrautarkona sögunnar, tilkynnti í haust að hún væri hætt. Þegar hún var upp á sitt besta æfði hún allt að því tvöfalt meira en Usain Bolt á dag en borðaði talsvert minna. Dæmigerður morgunmatur samanstóð af ristuðu brauði, jógúrt með höfrum eða granóla og ávöxtum. Í hádegismat borðaði hún jafnan pasta, salat eða súpur og í kvöldmat lax, risotto eða lasagna svo dæmi séu tekin. Þá sagði Jessica eitt sinn í viðtali við Women‘s Health að hún fengi sér oft eins og eitt rauðvínsglas á kvöldin.


Mynd: Reuters

Conor McGregor

Hitaeiningar: 3.186
Klukkustundir á dag við æfingar: 8 tímar

Þótt það standi hér að framan að UFC-kappinn og góðvinur Gunnars Nelson æfi í átta tíma á dag, er ekki svo að skilja að hann sé á fullu þessa átta tíma. „Ég vakna, fæ mér vatn, teygi og liðka mig til og er á hreyfingu allan daginn. Ég fer svo í ræktina þegar mig langar, fer í taekwondo, jiu-jitsu eða jóga. Stundum boxa ég. Fjölbreytni hefur alltaf virkað best fyrir mig,“ sagði McGregor við Bodybuilding.com. Hann sagðist enn fremur borða hollan og fjölbreyttan mat. „Ég elska vatn og kókosvatn en drekk aldrei orkudrykki – aldrei. Ég borða góðan gæðamat og passa upp á að vökva mig.“


# Ronda Rousey

Hitaeiningar: 2.700
Klukkustundir á dag við æfingar: 6 tímar

Ronda Rousey er skærasta stjarnan í MMA-heimi kvenna. Rousey fylgir hinu svokallaða Dolce-mataræði en í stuttu máli felur það í sér neyslu á heilnæmum og næringarríkum mat sem borðaður er á 2–4 tíma fresti yfir daginn. Rousey segist sjálf ekki telja hitaeiningarnar sem hún innbyrðir. Í viðtali við Cosmopolitan sagðist Rousey þó einna helst borða skál af chia-graut á morgnana og drekka kaffi með, í hádegismat borðar hún eggjahræru á brauði og í kvöldmat borðar hún oftar en ekki kalkún í kvöldmat og gríska jógúrt í eftirrétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum