Fókus

Hún gerði 10 armbeygjur á dag í mánuð: Þetta eru breytingarnar sem hún fann fyrir

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 22. nóvember 2017 13:30

Því er stundum haldið fram að litlu hlutirnir geti gert gæfumuninn þegar heilsa er annars vegar. Hægt sé að taka stigann í staðinn fyrir lyftuna, fá sér vatnsglas í staðinn fyrir djúsglas og svo framvegis.

Kristen Domonell, pistlahöfundur Women‘s Health, ákvað að gera tilraun fyrir skemmstu og var markmið hennar að gera tíu armbeygjur á dag í heilan mánuð. Fyrir suma er það jafn auðvelt að gera tíu armbeygjur og skola einu vatnsglasi niður en fyrir aðra er það meira mál.

Kristen er í þokkalegu formi en stundar þó ekki ræktina af mjög miklum krafti. Hún fór þó tiltölulega létt með því að gera armbeygjurnar.

Hún hafði þann háttinn á að byrja hvern dag, eða því sem næst, á því að taka armbeygjur.

„Ég er vanalega mjög þreytt á morgnana en þá daga sem ég gerði armbeygjurnar að morgni fékk ég ákveðið orkuskot,“ segir hún og bætir við að þetta komi ekki á óvart. Líkamsrækt, hvort heldur sem um er að ræða æfingar undir miklu eða litlu álagi, hækki púlsinn og hraði efnaskiptum í líkamanum. Allt þetta stuðli að því að maður fái þá tilfinningu að maður hafi meiri orku og líði betur andlega og líkamlega. Þetta skili sér í meiri vellíðan þegar komið er í hið daglega amstur; skóla eða vinnu sem dæmi.

„Mig langar að segja að þessi tilraun hafi sannfært mig um að fara í ræktina eða æfa á morgnana,“ segir Kristen sem bætir þó við að hún sé enn að venja sig af því að ýta á „snooze“-takkann á morgnana.

Kristen segist ekki hafa tekið eftir neinum verulegum líkamlegum breytingum eftir að tilrauninni lauk, þá með tilliti til aukins vöðvamassa. Hún hafi þó fengið þá tilfinningu að vöðvarnir væru aðeins sýnilegri en áður. Hvað sem því líður sé engum blöðum um það að fletta að henni hafi liðið betur og verið orkumeiri þegar hún fór út í daginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Tour of Reykjavík 2018