Fókus

Léttitækni léttir störfin og eykur afköstin

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 17. nóvember 2017 12:00

„Betur vinnur vit en strit,“ er eitt af slagorðum fyrirtækisins Léttitækni enda sérhæfir fyrirtækið sig í léttitækjum og öðrum búnaði sem sparar sporin við dagleg störf. Innan þessa sviðs er starfsemin gífurlega fjölbreytt. Léttitækni smíðar framleiðsluvörur og sérsmíðar auk þess búnað fyrir hina ýmsu aðila til að mæta sérþörfum þeirra. Enn fremur flytur Léttitækni inn alls konar búnað sem léttir störfin, frá færustu framleiðendum í hverju fagi.

Framleiðsla og lager fyrirtækisins eru á Blönduósi en verslun er að Stórhöfða 27 og er opið þar virka daga frá klukkan 9 til 17. Alls eru átta stöðugildi hjá Léttitækni sem er sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Jakob Jóhann Jónsson stofnaði fyrirtækið árið 1995 og er hann enn framkvæmdastjóri þess. Synir hans tveir starfa hjá fyrirtækinu sem og dóttir hans, Péturína Laufey Jakobsdóttir, yfirleitt kölluð Peta, sem er skrifstofu- og starfsmannastjóri.

„Við leggjum mikla áherslu á persónulega þjónustu og ráðgjöf, við komum á staðinn, greinum þörfina og gerum föst verðtilboð,“ segir Peta í stuttu spjalli við DV. Margir þurfa á hjálpartækjum að halda til þess að létta sér dagleg störf, jafnt einstaklingar og fyrirtæki. Það er þægilegt að þurfa ekki að finna út hvernig búnað mann vantar heldur einfaldlega leggja sín mál á borðið hjá fagfólki, fá upplýsingar um hárréttan búnað og nákvæmlega hvað hann kostar.

„Helstu framleiðsluvörur okkar á Blönduósi eru borðvagnar, trillur og ýmis sérsmíði en einnig flytjum við inn hjól til að setja undir alls konar hluti sem þarf að ýta á undan sér,“ segir Peta og bætir við að fyrirtækið sé líklega stærsti hjólainnflytjandi landsins, hægt er að fá allt frá pínulitlum húsgagnahjólum upp í stór burðarhjól sem taka mörg tonn.

Viðskiptavinir Léttitækni eru gífurlega margir og af öllum stærðum en meðal annars sinnir fyrirtækið alls konar sérsmíði fyrir álverin í landinu, opinberar stofnanir og mörg önnur fyrirtæki. „Það er ansi algengt að maður reki augun í vagna, trillur eða önnur tæki frá Léttitækni þegar maður stígur inn í fyrirtæki,“ segir Peta hlæjandi.

Meðal annarra framleiðslu- og innflutningsvara Léttitækni eru alls konar hillukerfi, brettakerfi og skápar í öllum stærðum og gerðum sem nýtast vel á lagerum og geymslum.

„Við smíðum líka vinnukörfur fyrir lyftara og krana,“ segir Peta og minnir því næst á mikið úrval af innfluttum hágæða verkstæðisvörum, framleiddum í Danmörku, sem Léttitækni selur, allt frá hjólatjökkum fyrir fólksbíla upp í glussatjakka sem taka heilu trukkana.

Enn fremur er Léttitækni með vinnulyftur, brettatjakka, staflara, stiga og tröppur, kranavogir, létthjól og ótal margt fleira sem sparar sporin og léttir hin margvíslegustu störf.

Það segir sitt um fjölbreytt vöruúrval hjá Léttitækni að lager fyrirtækisins á Blönduósi er um 1.200 fermetrar að flatarmáli.

Það er ástæða til að hvetja fólk til að skoða úrvalið á vefsíðunni lettitaekni.is, koma í verslunina að Stórhöfða 27 eða kíkja á starfsemina á Blönduósi. Símanúmerin hjá Léttitækni eru 452-4442 og 567-6955.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af