Fókus

Ég vil hafa lífið einfalt

Tobba Marinós sendir frá sér matreiðslubók – Önnur bók á leiðinni

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Þriðjudaginn 25 apríl 2017 21:00

Náttúrulega sætt er fyrsta matreiðslubók Tobbu Marinós og geymir uppskriftir að alls kyns gómsætum eftirréttum án viðbætts sykurs. Aðspurð segist Tobba ekki hafa neitt sérstaklega mikið á móti viðbættum sykri en hún hafi borðað of mikið af honum. „Sem unglingur slagaði ég á tímabili upp í 100 kíló þannig að þetta var stórt vandamál. Mér finnst gott að borða en núna gæti ég að því að það sé næring í matnum og ég hreyfi mig líka mikið.

Það er mjög viðkvæmt hvað er sykur og hvað er ekki sykur. Internetið fer á hliðina ef ég segi að eitthvað sé sykurlaust. „Það eru döðlur í þessu, manneskja,“ segir kannski einhver. Kommentakerfið logar, ég er úthrópuð sem lygari og amma hringir í mig miður sín. Þegar ég segi að eitthvað sé án sykurs þá á ég við að þar sé ekki viðbættur sykur. Mér finnst mikilvægt að það sé næring í því sæta sem maður borðar og sætt þarf ekki að vera dísætt. Það þarf ekki að vera oreo-kex og sykurpúðar, flórsykur og suðusúkkulaði – allt í sömu kökunni.

Ég trúi því að maður geti þróað matarsmekk barna á heilbrigðan hátt. Ég er búin að venja þriggja ára dóttur mína á það að eftirréttir séu ekki dísætir. Hún hefur aldrei farið á nammibarinn og tekur því ekki þátt í helgarslagnum þar. Hún fær dökkt súkkulaði. Einhvern tímann fékk hún rjómasúkkulaði í afmæli og skilaði því. Hún vill frekar hafrakökur en marenstertu.“

Áttu uppáhaldsrétti í bókinni?

„Múslíið er lífsbreytandi og grenjandi gott og sömuleiðis granatostakakan. Í bókinni eru ekki gríðarlega margar uppskriftir en þær bjóða upp á alls konar útfærslu. Ég vil hafa lífið einfalt til að eiga tíma á kvöldin til að drekka smá rauðvín og horfa á sjónvarpið.“

Bók um fæðingu á leiðinni

Það eru sjö ár síðan fyrsta bókin Tobbu kom út og Náttúrulega sætt er fimmta bók hennar á sjö árum. Áður hafa komið út skáldsögurnar Makalaus og Lýtalaus og bækurnar Dömusiðir og 20 tilefni til dagdrykkju.

Önnur bók kemur út í september, Gleðilega fæðingu – verkjastillandi valkostir og vellíðan í fæðingu. Tobba skrifar hana með yfirlæknunum Hildi Harðardóttur og Aðalbirni Þorsteinssyni.

„Það er hræðilega erfitt að fæða barn,“ segir hún. „Á meðgöngunni fór ég á jóganámskeið og var búin að vera í leikfimi allan tímann og í góðu formi og svo gat ég þetta ekki, þurfti mænurótardeyfingu. Fæðingin tók sólarhring og var mjög sársaukafull og ég upplifði mig svo misheppnaða. Ég sagði frá þessari upplifun í viðtali og eftir það hringdi Hildur í mig. Hún sagði að hana langaði til að skrifa bók sem gerist á fæðingarstofunni þar sem lýst væri því hvað þar fer fram. Hildur og Aðalbjörn fengu mig síðan til liðsinnis við sig til að skrifa bókina sem þau vildu að yrði ekki á of miklu fræðimáli. Í þessari bók er til dæmis útskýrt hvað mænurótardeyfing er, hverjir séu kostirnir og gallarnir, sagðar sögur kvenna sem hafa fengið mænurótardeyfingu og hinna sem fengu hana ekki.

Ég var hrædd ólétt kona sem hafði aldrei komið inn á skurðstofu eða fæðingarstofu. Þetta er bók sem segir konum í sömu stöðu og ég var nákvæmlega í hvað gerist og ekkert er dregið undan. Mér finnst þetta mikilvæg bók en mér fannst líka mikilvægt að henda í nokkra konfektmola fyrst með Náttúrulega sætt.“

Þú hefur skrifað tvær skáldsögur, er von á þeirri þriðju?

„Mitt helsta vandamál er að ég er alltaf að gera margt í einu. Einu sinni var ég mjög huguð og sótti um listamannalaun og ætlaði að skrifa þunga alvöruskáldsögu svo menningarelítunni myndi líka betur við mig. Sem betur fer fékk ég ekki þann styrk svo ég hélt áfram að grínast, sem mér finnst mikilvægt því það eru svo margir að gera hitt. Jú, ég á örugglega eftir að skrifa aðra skáldsögu.“

Dreymir um djöflatertubakstur Davíðs

Tobba vinnur á Morgunblaðinu þar sem hún stýrir sérstökum matarvef og sér auk þess um sérblað um mat sem kemur út á þriggja mánaða fresti. Á vinnustaðnum hefur verið byggt sérstakt eldhús þar sem teknir eru upp matreiðsluþættir og vefþættir. Spurð hvort hún hafi eldað þar fyrir Davíð Oddsson ritstjóra segir hún: „Ég hef boðið honum í djús- og samlokupartí en á eftir að elda fyrir hann. Mig dreymir um að fá Davíð til að baka fyrir mig djöflatertu á mörgum hæðum. Ég hef fulla trú á honum í það verkefni. Ég held að þegar hann ætli sér eitthvað þá takist honum það.“

Tobba er gift Karli Sigurðssyni, Baggalútsmanni og fyrrverandi borgarfulltrúa Besta flokksins, en hann er nú stjórnarmaður í Bjartri framtíð. Hún er spurð hvort stjórnmálaskoðanir þeirra hjóna fari saman. „Við erum með ólíkar stjórnmálaskoðanir. Hann er meiri umhverfissinni og verður miklu reiðari við fólk sem leggur ólöglega en ég, enda í umhverfis- og skipulagsráði. Ég var bundin Framsóknarflokknum sem unglingur sem voru mistök. Það er enginn einn flokkur sem hentar mér, ég vil sjá persónukjör. Ég myndi til dæmis aldrei kjósa Vinstri græn en vil sjá sem mest af Katrínu Jakobsdóttur.“

Rekin úr skátunum

Nú er maðurinn þinn tónlistarmaður, einn af Baggalútsmönnum. Ert þú músíkölsk?

„Við höfum bæði gaman af tónlist. Hann er eldri en ég og ólst upp við öðruvísi tónlist, en við mætumst á miðri leið. Regína, dóttir okkar, er mikil tónlistarkona og syngur mikið en ég er vita laglaus. Reyndar er ég svo laglaus að pabbi bað mig einu sinni um að syngja lægra þegar ég var að syngja minn eigin afmælissöng.

Ég var rekin úr tónlistarskóla og skar eiginlega af mér puttann til að þurfa ekki að mæta í blokkflaututíma. Ég var líka rekin úr skátunum vegna þess að ég var í slagsmálum. Það átti samt fyllilega rétt á sér því stelpan sem ég slóst við var að stela út Jóabúð og það gerir maður ekki!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fókus
í gær
Ég vil hafa lífið einfalt

Guðný léttist um 63 kíló: „Var alveg hætt að horfa framan í fólk því mér leið svo illa“

Fókus
í gær
„Það var aldrei valkostur að brotna saman“

Dóttir Sigrúnar fæddist andvana eftir fulla meðgöngu: ,,Það að ganga út af sjúkrahúsinu með tómt fangið var hræðilegt“

Fókus
í gær
Spurning vikunnar: Erum við ein í heiminum?

Hús og Mál: Gæðaþjónusta í viðhaldi, viðgerðum og frágangi

Fókus
í gær
Hús og Mál: Gæðaþjónusta í viðhaldi, viðgerðum og frágangi

Sparaði 200.000 krónur fyrir hádegi

Fókus
í gær
Sparaði 200.000 krónur fyrir hádegi

Pítsusnúðar að hætti Maríu Gomez

Fókus
í gær
Pítsusnúðar að hætti Maríu Gomez

Sólpallar, skjólveggir, hellulögn – og allt annað fyrir garðinn

Mest lesið

Ekki missa af